Hlátur lengir lífið

Guðmundur læknir svæfði títtnefnda áður en mergfrumusýnið var tekið sl. föstudag svo sársaukinn fór fyrir ofan garð og neðan, amk. var ég búin að steingleyma öllu þegar ég rankaði við mér aftur. Það var sérdeilis frábært því mér er frekar illa við að finna mikið til. Niðurstöður birtast á fimmtudaginn kemur og ég bíð bara pollróleg eftir þeim.

Eitthvað verður Vertinn að hafa sér til dundurs þangað til og húsbóndinn bauð á tónleika í Hörpu á föstudagskvöldið sem voru alveg hreint ágætir.

Laugardagurinn beið þó handan hornsins með glæsilega dagskrá en eðalkokkarnir á Aski elduðu sína fínustu rétti handa títtnefndri og hennar meðhangendum um kvöldið rétt áður en Hundur í óskilum var leitaður uppi í Borgarleikhúsinu í algjörlega sprenghlægilegu leik-tónverki, þvílíkir snillingar. Sagt er að hlátur lengi lífið svo það er vissara að hlægja nógu asskoti mikið svo maður lifi sem lengst. Sest var niður eitt augnablik í hinni alræmdu Kringlukrá á eftir en þar var meðalaldurinn svo hár að ég fílaði mig sem unglingsstelpu sem var ekkert síðra sko. Eftir að heim var komið skottaðist títtnefnd með húsbóndanum upp á efri hæðina og þar var vöku haldið fyrir húsráðendum langt fram á nótt. Þetta var semsagt alveg einstaklega skemmtilegur dagur.

Nú bíður göngutúrinn um Hafnarfjörðinn en ég hef sett mér það markmið að ganga daglega einhvern spöl. Það skiptir nefnilega meginmáli ef marka má heilbrigðisfulltrúann að vestan sem er nýkominn úr mergfrumuskiptum í Svíþjóð, að labba reglulega og fara í einu og öllu eftir því sem læknarnir segja því þá muni allt ganga vel. Ég verð því að temja mér skilyrðislausa hlýðni og láta alla óþekkt lönd og leið.

Það hlýtur að teljast nokkur sérstakt að í bæjarfélagi þar sem búa undir 900 manns núna skuli tveir vera að standa í svona stórri meðferð sama árið, það er amk. einkennileg tilviljun sem án efa er vert að skoða. 

Ég gladdist þó óumræðanlega mikið er ég las klausu í blaðinu Vestfirðir sem bókarinn minn ritstýrir um gífurlegar launahækkanir bæjarfulltrúa í Bolungarvík en laun þeirra hafa hækkað um 50-152% milli ára. Minnihlutinn hafði ekki manndóm í sér til að vera á móti þessum tillögum um ofurlaunahækkanir heldur tók þeim fagnandi. Trúlega hefur myndast eitthvað svigrúm til launahækkana fyrst svo margir eru fluttir í burtu. Góðærið er sumsé komið vestur, loksins.

Það er auðvitað skiljanlegt að hækka þurfi þessi laun langt umfram lækna því ekki er bara búið hækka alla matvöru í landinu um 4% með tilkomu hækkaðs virðisaukaskattsþreps heldur er líka búið að hækka hitunarkostnað í húsunum okkar fyrir vestan á köldu svæðunum af sömu ástæðu og þótti manni nú nóg um húshitunarkostnaðinn fyrir. En það er auðvitað allt í boði ríkisstjórnarinnar.

Ég, öryrkinn kvarta þó ekki enda bæturnar skítur á priki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 635377

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband