Óskin

Þá er meltingin orðinn nokkuð eðlileg og farin að fúnkera nokkuð rétt eftir óhemjuát reyktra kjötmáltíða hátíðanna. Títtnefnd fór ásamt skylduliði vestur til að halda jólin og var einstaklega gott að anda að sér ferska fjallaloftinu um stund. Títtnefnd fagnaði þó áramótunum í höfuðborginni og naut flugeldanna með fjölskyldunni hjá Hrefnu mágkonu sem bauð upp á þvílíkt og annað eins útsýni úr eldhúsglugganum sínum að ein helsta ósk títtnefndrar er að eignast viðlíka glugga hér á höfuðborgarsvæðinu með slíku útsýni yfir allt.

Áramótaóskin vafðist þó nokkuð fyrir mér þessi áramótin því óskirnar eru margar að vanda. Ég er svo ljónheppin að þurfa ekki að óska þess að hætta að drekka því edrú hef ég verið undanfarin átta ár eða rúmlega það. Ekki get ég hætt að reykja því rettuna lagði ég á hilluna fyrir margt löngu síðan. Ég get auðvitað haldið áfram að óska þess að kílóin hverfi í stað þeirra sem vaxa hér og þar á líkamanum og jafnframt heitið því að vera dugleg að ganga og hreyfa mig og liðka skrokkinn. Ég gæti óskað þess að ég ynni íbúð í happdrætti DAS með útsýnisglugga,en ég tók yfir miðann hans pabba heitins í happdrættinu og tvöfaldaði hann til öryggis ef sá gamli hefði ítök þegar kæmi að því að pikka út réttu vinningstölurnar. Ég óska þess líka að meðferðin úti heppnist vel og ég sleppi frá henni án vandkvæða. Trúlega er það óskin sem ég vonast einna helst til að rætist enda skiptir annað lítið málið í samhenginu.

En nú ætlum við Guðmundur læknir að fara að hysja upp um okkur, blóðprufa í vikunni og viðtal næstkomandi föstudag. Þá verður tekið mergfrumusýni til að kanna hvort krabbameinið hagi sér eins og það gerði síðast. Ef ekki þá þarf ég að fara í fleiri rannsóknir til að finna hvar þessi óværa hefur tekið sér bólfestu en ætla má að hún sé þá að hreiðra um sig einhversstaðar í beinunum. Ég veit ekki hvort ég á að óska þess að hún finnist í mergnum eða ekki, trúlega þarf að mynda beinin til að kanna hvort hún sé byrjuð að grassera þar hvort eðer svo ég veit ekki alveg hvað ætti að vera efst á óskalistanum.

Þegar títtnefnd veiktist síðast voru öll bein mynduð í bak og fyrir. Öll bein voru orðin holótt og meira að segja höfuðkúpan hafði látið á sjá. Það skal því engan undra þótt minnið í títtnefndri skuli vera orðið slappt en töluvert er um það að toppstykkið geymi gagnslausar upplýsingar en glati þeim sem máli skiptir út um glufurnar í höfuðkúpunni væntanlega. Það mætti svosem óska þess að minnið héldist betur á sínum stað en þegar óskirnar eru orðnar svona margar þá geta þær aldrei allar ræst og við það verður að una. 

Ég ætla samt að leyfa mér að óska þess.......

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 635427

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband