Heim

Búið var að moka heim að húsi þegar við Elsa komum akandi að sunnan fyrrakvöld. Eitthvað fannst mér ég kannast við handbragðið hennar Gunnu minnar Ásgeirs enda kom það á daginn að hún og hennar skyldulið höfðu mætt með skófluna og mokað frá húsinu rétt áður en ég mætti á staðinn, Gunna er engum lík. Færðin var reyndar orðin hálfslæm þegar við renndum í bæinn, Súðavíkurhlíð rétt ólokuð og skyggnið í inndjúpi það slæmt að ég varð að hafa mig alla við aksturinn og gat ekkert lagt mig við stýrið en mér er farið að hætta til að dotta þegar ég er að keyra svona út á land. Hef lent í því tvisvar að húsbóndinn hefur rifið í stýrið þegar ég hef verið á leið út í móa. Það er ekki með vilja gert að koma mér svoleiðis fyrir kattarnef enda stendur skaparinn sig ágætlega í því að hlaða á mig illkynja sjúkdómum, heldur get ég bara ekki haldið mér vakandi þegar ég er á langkeyrslum.

Mitt fyrsta verk var að heimsækja tannlækninn því geiflurnar þurfa að vera í lagi fyrir komandi átök. Einarshúsið var svo að sjálfsögðu heimsótt og fengum við okkur þessa líka dýrindis hamborgara þar um kvöldmatarleitið. Þar fengum við að heyra þá sorglegu staðreynd hvað lítið hefur verið að gera í jólamánuðinum og fáir lagt leið sína í þetta dásamlega hús þar sem þetta unga fólk ræður ríkjum. Ég legg því til að hver einasti kjaftur sem hefur fótavist á annað borð, fari í Einarshúsið í desember og kaupi sér annaðhvort kaffibolla, kakóbolla eða eitthvað gott að borða til að sýna hve mikilvægt það er að svona staður skuli vera til staðar. Auðvitað þurfa einhverjir að taka sér frí á feisbók rétt á meðan, þar sem þeir dásama heimabyggðina sínkt og heilagt og tala um nauðsyn þess að styðja þar allt og ekkert, og vera samkvæmir sjálfum sér amk. í jólamánuðinum. 

En það fer nú víst ekki alltaf saman hvað sagt er að feisbókinni og aðhafst í verunni.

Eftir matinn kom ég akandi og þá var búið að moka bílastæðið, þar er sko ekki að spyrja að þessum Víkurum. Leigjandinn á neðri hæðinni hafði þá mokað stæðið og séð til þess að Vertinn kæmi bílnum sínum á sinn stað. Það er lúxus að hafa svona fólk í kringum sig.

Viðtalið hjá lækninum gekk fínt eins og venjulega. Guðmundur Rúnarsson blóðmeinafræðingur hittir mig í janúar milli verkfalla og ætlar þá að taka mergfrumusýni og ákveða áframhaldandi meðferð. Taka mergfrumusýnis er á sársaukastuðlinum 12 af 10 mögulegum en það tekur fljótt af sem betur fer, aðeins nokkrar sekúndur svo ég lifi það alveg af. Þá verður farið að finna gjafa og á ég tvö systkini sem koma til greina. Þá hefst þriggja mánaða meðferð hér heima og undirbúningur fyrir herlegheitin úti og því fer ég í vor og fæ smjörþefinn af sænsku sumri sem er ekki verra. Dvölin í Svíþjóð tekur þrjá mánuði svo ég verð trúlega orðin blest á máli þegar ég kem heim.

Það er því ljóst að hvorki ég né húsbóndinn verðum að vinna í Einarshúsi í sumar að neinu marki. Ég bauð lækninum vinnu ef hann skyldi vera orðin atvinnulaus í sumar en læknar hóta uppsögnum ef ekki semst. Við ræddum ekki launin sérstaklega en ætli ég láti þau ekki vera árangurstengd, ef vel gengur í meðferðinni fær hann meira, ef illa gengur fær hann minna og ef ég tek nú upp á að hrökkva uppaf, fær hann ekki neitt. 

Ég fer svo á tónleika sem bera yfirskriftina Hátíð fer í hönd á Ísafirði á morgun í boði Höllu Signýjar vinkonu minnar svo þið sjáið að það er látið meðmig.

Restin af familíunni er svo væntanleg og vonandi halda veðurguðirnir sig til hlés rétt á meðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband