Svo bregðast krosstré..

Það má með sanni segja að svo bregðist krosstré sem önnur því nú hefur Vertinn í Víkinni rifið sig upp með rótum frá Bolungarvík og er nú flutt til Hafnarfjarðar í vetur. Húsbóndinn kominn með vinnu hér syðra og Einarshúsið var skilið eftir í höndum nýrra rekstraraðila sem eiga án efa eftir að standa sig mjög vel. Það er hverjum manni svosem hollt að breyta til annars slagið og upplifa eitthvað nýtt og trúlega gerir það bæjarfélaginu bara gott að hvíla sig á títtnefndri um skeið enda hollt hverju bæjarfélagi að það sé örlítið rót á íbúunum og nýtt blóð komi í bæinn í stað þess gamla annað veifið. Til stendur að taka við rekstrinum í Einarshúsi aftur 1. maí næstkomandi og ekkert er í spilunum núna sem segir að það verði ekki. 

Vertinn fór í langan göngutúr í fyrradag til að fá tilfinningu fyrir nýja bæjarfélaginu og rammvilltist svo að spyrja þurfti tvisvar til vegar til að rata aftur heim. Þetta er mjög framandi staður og gætu allteins verið útlönd ef því er að skipta því hér hef ég aldrei þekkt hól né þúfu. Eftir dúk og disk mætti ég svo "heim" þá búin að koma við hjá mágkonu minni og aðstoðarskólameistaranum í Flensborg til að sníkja kaffi, svo allt endaði þetta vel.

Skemmst er frá því að segja að fyrsta vinnuferð húsbóndans er vestur á firði í næstu viku og vænta má þess að Vertinn verði með í ferðinni og jafnvel láti sjá sig hér og þar með staldrað er við. Annars þá er þetta líf mjög frábrugðið því gamla, hér get ég ekki ráðskast með eitt eða neitt. Einarshúsið gengur bara á minnar afskiptasemi og allt hvað eina. Hér þarf ég að hafa fyrir því að finna mér verkefni og þarf án efa að vera mjög skipulögð til að rata ekki í einhvern vesaldóm. Því verður bloggið hluti af tilverunni sem og önnur skrif en nú ætla ég mér að halda áfram með endurminningar þær sem ég hafði í huga að setja niður á blað um afa minn og pabba og svo vonandi fellur eitthvað annað til. Ekki fer ég í neina merkilega vinnu sem reynir á því ég er óttalegur öryrki eftir veikindin hérna um árið, beinin öll holótt og styrkurinn lítill sem enginn.

Vertinn er því vel sett að búa á neðri hæðinni hjá læknunum tveim sem áður bjuggu fyrir vestan. Ekki það að ekkert hrjáir margnefnda nema þá helst leti en hún getur svosem farið á sinnið ámanni en hún nær að festa sig í sessi. Það er þá gott að vita af þeim þarna uppi ef eitthvað kemur upp á sem ekki er hægt að bregðast við hérna á neðri hæðinni.

En enn sem komið er líst mér vel á mig hérna og ekki undan neinu að kvarta. Ég tel því tímabært að hætta í bili því göngutúrinn bíður.

Ef ég blogga ekkert á morgun þá er ég örugglega týnd og tröllum Hafnarfjarðar gefin.

Þið kallið þá kannski út björgunarsveit. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 635346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband