Hvíldardagur

Í dag er hvíldardagur hjá Vertinum í Víkinni og Einarshúsið því lokað. Það nær auðvitað engri átt en svo verður þó víst að vera enda fríið kærkomið eftir afar annasamt sumar. Ef lokun dagsins í dag vekur athygli og eftirtekt þeirra sem telja sig undir yfir og allt um kring í aðalyfirumsjón með ferðaþjónustu á Vestfjörðum, eru þeir hinir sömu beðnir að koma kvörtunum í athugasemdardálkinn hér neðar en ekki í greinarskrifum fyrir alþjóð.

Opnunartíminn fer að breytast þegar tekur að rökkva en rífandi gangur hefur verið allt fram á þennan dag og títtnefnd himinlifandi með gang sumarsins. Búið er að skipuleggja haustið að mestu og spýtt verður í lófana sem aldrei fyrr til að laða að fólk. Vertinn hefur á tilfinningunni að nú fari fólk að nýta sér græna grasið í heimabyggðinni og hefur því ákveðið að slá hvergi slöku við og sjá til þess að menningin lifi í plássinu og mannlífið blómstri.

Mannlífið blómstrar nefnilega í Bolungarvík sem aldrei fyrr, þrátt fyrir að einhverjir reyni að halda því fram í ræðum og riti að allt hafi koðnað hér niður og menn misst móðinn eftir að skipt var um skipper í bolvísku brúnni. Það verður nú oft þannig að þegar menn einblína um of á eigið ágæti, sjá þeir ekki tilveruna í kringum sig réttum augum og það sem annað fólk leggur af mörkum til samfélagsins.

Það er aðdáunarvert að líta út um glugga Einarshúss og fylgjast með lífinu við höfnina og þeim dugmiklum aðilum sem koma að uppbyggingu þar í grennd jafnt á láði sem legi og þá talar Vertinn einungis út frá þeim litla radíus sem telur einhverja hundruði metra frá húsinu og snýr norður, suður, austur og vestur. Þar iðar allt af lífi og þar hefur enginn misst móðinn heldur hafa menn haldið á af krafti. Er vert í þessu sambandi að nefna þá gríðarlegu fjárfestingu sem Einarshús hefur lagt í til uppbyggingar svæðisins til að fegra og bæta bæinn en óþarft er að nefna það starf sem fram fer í húsinu sem þeir einir þekkja sem sækja viðburði og annað menningarlíf.

Ylfa MistYlfa Mist fór á kostum í gærkvöldi eins og við var að búast en fleiri komust þó að en vildu. Súpan rann ljúflega niður enda sérlega bragðgóð og brauðið var æði en meistarakokkar Einarshúss sáu um trakteringarnar. Ylfa mun eiga kvöld í húsi sorgar og gleði einu sinni í mánuði í vetur og er það sérstakt tilhlökkunarefni. Næst mun hún stíga á stokk þann 10. október og þá með góða gesti. Denni steig svo á stóra sviðið síðar um kvöldið og söng fram á dimma nóttina og húsið var opið á meðan húsfrú leyfði. Það var svosem ekki að sökum að spyrja að það var kjaftfullt og má ætla að rúmlega 100 manns hafi með einum eða öðrum hætti stigi fæti í Einarshús í gærkvöld til að njóta kvöldsins. Var þetta kvöld m.a endaslúttið á Íslandsmeistaramótinu í skák en skákmenn hafa dvalið langdvölum í húsi sorgar og gleði undanfarinn hálfan mánuð og það verður eftirsjá í þeim.

Vertinn er kominn með tölvuna sína aftur en harði diskurinn gaf upp öndina. Þar fóru allar myndir og öll gögn undanfarinna tveggja ára í glatkistuna. Þó skulu sérfræðingar fá að meðhöndla diskinn frekar til að freista þess að ná þeim til baka. Lífið gengur þó sinn vanagang þrátt fyrir það og byrjað er bara upp á nýtt en það eru forréttindi að geta byrjað upp á nýtt og það eru ekki allir svo heppnir í lífinu. Því er því gott að geta gefið sér tíma til að vafra um netið og bloggað um hin ýmsu hugarefni með litlu tölvuna sem hentar svo vel til slíks. 

Hver veit nema Vertinn bregði sér í fréttaritarastarfið eitt augnablik og fari út með myndavélina síðar í dag og reyni að finna gott myndefni á vefinn. Ætli sé þó ekki best að leggja sig aðeins áður og ná úr sér hrollinum eftir nóttina sem náði langt fram á morgunn og safna ögn meira þreki fyrir komandi daga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband