Fyrsta hanagal

Verst er að tíminn skuli vera fugl sem flýgur svo hratt að vængjaþyturinn er vart merkjanlegur. Það væri trúlega til þess að æra óstöðugan að fara ofan í það sem á daga Vertsins í Víkinni hefur drifið undanfarið en nú skal stiklað á stóru í þeim efnum. Vænta má þess að fjöldinn allur af lesendum bloggsins bíði í ofvæni eftir tíðari fréttum af margnefndri og nú skal koma holskefla frétta sem engu máli skipta og hafa engan tilgang að neinu leiti nema kannski fyrir títtnefnda.

P1020270

Enn og einu sinni er komið að hinni margrómuðu Kjallarakeppni sem haldin verður á föstudagskvöldið. Þar mun bráðgáfaður maður stíga á stokk og spyrja mann og annan spjörunum úr. Vertinn telur vænlegast að kynna sér ma. alfræðirit og náttúruvísindi því enginn annar en Björgvin Bjarnason mun kanna gáfnafar þeirra sem taka þátt í þessari margrómuðu spurningakeppni. Það er auðvitað ekki nokkur spurning að tilboð verða í gömlu kolageymslunni eitthvað frameftir kvöldi og tilhlýðilegt telst að geta þess að tveir kaldir og freyðandi kolamolar verða á verði eins úr gömlu kolageymslunni. Trúlega væri þó betra fyrir reksturinn að hafa einn kolamola á verði tveggja til að rétta af lélegt gengi krónunnar um þessar mundir og koma til móts við gengisfellingar undanfarið. Það mun þó ekki verða gripið til þess ráðs að svo stöddu. Þeir sem vilja vera spyrlar í þessari frábæru keppni eru beðnir að hafa samband við húsfrúna sem öllu ræður í húsi gleðinnar á netfangið ragna@einarshusid.is eða hringja í þrjú stutt og þrjú löng, sem er beinn sími oftnefndrar.

P1020279

Skemmst er frá því að segja að nýr sögumaður leysti Vertinn af nýverið og sagði sögu þeirra frumkvöðla sem í húsinu bjuggu. Einar Kristinn kann söguna ekki síður en margnefnd og stiklaði á stóru í lífshlaupi afa síns, Einars Guðfinnssonar, sem bjó í húsinu um árabil. Það er nokkuð nýnæmi í því að hlusta eitt augnablik og njóta þess að heyra einhvern sannan segja sögu hússins sem fær aðra til að hrífast með. Saga hússins skipar æ stærri sess í rekstrinum og oftar en ekki er Vertinn kölluð til í snarheitum til að fræða ferðamenn um það sem gerðist í þessu húsi harma og hamingju. Alltaf verður auðveldara og auðveldara að bera söguna á borð á ensku en í fyrstunni taldi margnefnd nóg að tala íslenskuna, bara nógu hátt, en nú slysast eitt og eitt orð út úr margnefndir á hreinræktaðri útlensku ef því er að skipta.

Í algjöru framhjáhlaupi er vert að geta þess að síkáti símamaðurinn frá Ísafirði sem í daglegu tali svona dags daglega dags er nefndur Denni mun mæta með gítarinn á laugardagskvöldið og spila og syngja gleðisöngva út í rauða nóttina. Herlegheitin hefjast um miðnættið og vænta má þess að bráðhuggulegir gangamenn mæti á svæði og heilli dömurnar upp úr skónum eða öfugt. Mælt er því með því að stefnan verði sett á Kjallarann því þar bíða ævintýrin þessa stundina og þar gerast hlutirnir. Það mun þó verða ljóst hverjum manni að Vertinn ber ekki ábyrgð ein og sér á því sem fram kann að fara í framhaldi af ótímabæru bráðlæti enda er 18 ára aldurstakmark inn á staðinn svo hver ber ábyrgð á sjálfum sér í hvívetna. Engar áhyggjur er þó að hafa af einu né neinu og tímabær stefnumót fara án efa fram hér og þar og allstaðar, enda er það nauðsyn hverjum manni að leita hlýju og aldrei hefur smá kelerí verið til trafala þegar svo ber undir.

Gaman er að geta þess að trúbadorar spretta upp í lange baner og vilja troða upp í Kjallaranum. Eru allir þeir sem halda lagi og kunna á gítar beðnir um að setja sig í samband við títtnefnda því stefnt er að því að bjóða upp á lifandi tónlist á laugardagskvöldum. Það fer þó allt eftir aðsókninni og þeim fjölda fólks sem mætir oneftir. Netfangið er eins og fyrr segir ragna@einarshusid.is eða hnitið alfa, alfa rómeó á GPS staðsetningartækjum

Þeir sem ætla eingöngu að mæta og freistast til að ná dansi við Vertinn í Víkinni um helgina verða að leggja land undir fót og bruna á dansleik í Víðigerði í Húnavatnssýslunni. Þeir sem vilja komast á danskortið hjá títtnefndri geta haft samband á netfangið ragna@einarshusid.is eða sent reykmerki úr hánorðri er haninn galar hið fyrsta hanagal í garðinum hjá Dóru Línu.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

Frábærlega skrifud færsla hjá tér...Eins og alltaf.

velkomin í hóp minna bloggvina,hlakka til ad fylgjast med tér og tínum í tessu fallega húsi.

Eigdu gódann dag og kvedja frá Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 3.10.2008 kl. 07:43

2 Smámynd: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir það og sömuleiðis velkomin í minn bloggvinahóp. Gaman að vita af drottningum í Danmörku sem fylgjast með lífinu í Einarshúsi.

Kveðja úr snjókomunni í  Bolungarvík

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir , 3.10.2008 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband