Jæja

Mikið lifandis skelfingar ósköp er rólegt yfir bloggsíðu Vertsins í Víkinni þessar stundirnar. Trúlega má kenna um annríki margnefndrar frekar en leti en stundum leitar hugurinn annað og tíminn flýgur og áður en varir er hann horfinn og fyrir bí. Höfuðborgin var heimsótt um helgina og það var svo margt að gerast þar að það hálfa væri heill hellingur og sögur af því koma kannski síðar. Enn meira fararsnið er víst á Vertinum því stefnan er tekin á Víðidalinn næstu helgi en þar eru stóðréttir. Þar mun einnig verða dansað við hljómfall hljómsveitarinnar Sixties sem leika mun fyrir dansi í Víðihlíð og þá verður sko fjör á fróni.

Hjartað mun þó slá í Einarshúsi eins og endranær enda sleppir það ekki úr takti þótt Vertinn bregði sér af bæ, vinnuhjúin sjá til þess. Kjallarakeppnin verður á sínum stað að vanda á föstudagskvöld og mun Björgvin Bjarnason spyrja fólk spjörunum úr. Leitað er logandi ljósi að trúbador til að skemmta á laugardagskvöldið og eru áhugasamir beðnir um að hafa samband hið fyrsta. Ný myndlistarsýning verður sett upp um helgina og þið fáið að heyra um hana síðar, svo glöggt má sjá  að allt er að gerast í húsinu.

Hádegisverðurinn hleðst upp á sig og enn bætist í hóp fastakúnna í föstu fæði sem er síður en svo fljótandi. Enn einn vinnustaður bæjarins mun nú fá snæðing í hádeginu sem gerir það að verkum að reksturinn dafnar enn frekar. Ljóst má telja að gengisvísitalan mun taka kipp í framhaldinu og gjaldeyrisviðskipti milli fyrirtækja og stofnana innanbæjar munu aukast til muna með tilkomu nýrra samninga um mat í hádeginu hvern virkan dag. Slakt gengi krónunnar setur auðvitað strik í reikninginn sérílagi ef gengið fer ekki að færast upp á við og krónan að styrkjast miðað er við japönsk jen. Þó verður að vonast til þess umfram allt að dollarinn nái í skottið á evrunni og komi til móts við íslensku krónuna til að koma jafnvægi á viðskipti milli landanna sem geyma sólina um jólaleitið. Vertinn stefnir á ferð til framandi landa á þeim tíma og leitar logandi ljósi að stað fyrir fjölskylduna þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð. Réttast væri auðvitað að fara til Betlehem og finna hinn eina og sanna frið og gista í fjárhúsinu en það er víst komið úr móð um þessar mundir svo friðurinn verður bara að búa hið innra í staðinn.

Vertinn er að jafnaði í þokkalegu jafnvægi og oftar en ekki nokkuð yfirveguð. Stekkur æ sjaldnar upp á nef sér og fær sjaldan ótímabær bræðiköst. Auðvitað er margnefnd með lífsmarki og lætur ekki troða sér um tær en hefur samt að geyma töluvert magn af innri ró sem er hverjum manni svo nauðsynleg að eiga. Það að skattyrðast út í fólk út af engu og elta ólar við mann og annan heyrir nánast sögunni til og sú einkennandi hegðun fyrir alkóhólista að kenna ætíð öðrum um misfarir sínar er á undanhaldi. Það eru reyndar margir sem kenna eilíflega öðrum um það sem aflaga fer í lífinu þó þeir séu ekki alkar og það er hægt að sjá og heyra víða.

Mér fannst það fráleitt þegar ég kom út af Vogi fyrir rétt tæpum tveimur árum síðan að það tæki mig tvö ár að verða aftur sú manneskja sem ég var áður en Bakkus náði yfirhöndinni. Mér fannst ég vera læknuð eftir veru mína á sjúkrastöðinni Vogi og ég ætlaði að fara að lifa mínu nýja lífi. Læknar og ráðgjafar á Vogi vita þó lengra en nef þeirra nær og það gerast kraftaverk á degi hverjum og ég er farin að hafa gaman af hlutum sem ég hafði ekki gert í mörg ár. Margt sem ég hafði áhuga á hafði einhvernvegin fjarað út og dáið hægt og bítandi án þess að ég tæki eftir því. Svona er Bakkus lævís og slóttugur. Það var því von að bros færðist um andlit heimilisfólksins míns er kanilsnúðar voru bakaðir á dögunum. Krakkarnir voru fullviss að ég hefði ekki bakað snúða í fimm ár og ég sem var alltaf að baka í eina tíð, en man þó greinilega hve ég tók út fyrir að þurfa að baka þá meðan ég var sem veikust. Ég man svo glöggt hve mörgum hlutum var erfitt að koma í framkvæmd á meðan sjúkdómurinn grasseraði sem mest og það var í raun óskýranlegt og vekur furðu mína hvernig þetta gat skeð án þess að ég yrði þess var. Senn eru liðin tvö ár og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei notið lífsins eins og núna.

Eftir þessa smá hugleiðingu og opinberun þykir Vertinum tilhlýðilegt að halla sér og bjóða góða nótt

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 635772

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband