Gengin upp að hnjám

Segja má með sanni að Vertinn í Víkinni sé gengin upp að hnjám eftir annasama daga. Það er eins og við manninn mælt að einhverra hluta vegna þurfa allir að koma í Einarshús á sama tíma til að vísitera margnefnda og hennar fólk. Það vill til að ólseigt er í kerlu og mjaðmaliðir og hnjáliðir virðast standast álagið sem fylgir því að hlaupa upp og niður stiga og bugta sig og beygja fyrir gestum og gangandi. Málpípa Vertsins virðist einnig vera óstöðvandi því saga hússins fylgir gjarnan í kaupbæti yfir rjúkandi trakteringum og allir heillast með. Það getur þó verið strembið að vippa sér úr hlutverki eldabusku í hlutverk sögumanns og svo aftur í gervi innkaupastjóra, framkvæmdastjóra, markaðsstjóra og bara allt þar á milli. Öll hlutverkin eru svosem jafnskemmtileg og heilla viðkomandi upp úr skónum og einungis til þess fallin að sveipa lífið ævintýraljóma.

Stelpurnar undirbúa hlaðborð

Eitt er þó hægt að segja með vissu að Vertinum leiðist ekki agnarög eina einustu mínútu því hver stund er undirlögð. Heimilishaldið á Hólastíg er fjörugt og margbreytilegt enda nokkuð margir í heimili svona dags daglega dags. Hið hefðbundna vísitölufjölskylda býr ekki í húsakynnum títtnefndrar um þessar mundir því auk blessaðra barnanna búa tengdabörn og tilvonandi tengdabörn, fósturbörn auk þess er stjúphundur til heimilis í þokkabót svo vísitalan er fokin út í veður og vind. Vertinn ætlar svo sannarlega að njóta þess að hafa allt þetta stórskemmtilega fólk í kringum sig á meðan það varir. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá allar heimasæturnar í einum hnapp í Einarshúsi að aðstoða við kaffihlaðborð

Danshópur DaDanstímar hjá Da líða hjá með ógnarhraða en dansað er í Einarshúsi einu sinni í viku. Þar hittast nokkrar skemmtilegar stelpur og dilla sér í æsilegum línudansi og öðrum hópdönsum hlátrasköll óma um húsið og tíminn líður á ljóshraða. Segja má með sanni að enginn klukkutími leið eins hratt í sl. viku og danstíminn með Da enda er frábærlega skemmtileg afþreying og þvílík og önnur eins skemmtun heillar Vertinn upp úr skónum. Það er þvílíkur lúxus að geta leyft sér að gera allt sem er svo skemmtilegt og heillandi.

Elías bæjarstjóri spurði fólk spjörunum úr á föstudagskvöldið í Kjallarakeppninni og var nokkuð góður spyrill enda er strákurinn bráðskarpur. Kjallarinn var kjaftfullur á keppninni og sjaldan hafa eins margir tekið þátt en bæjarstjórar virðast trekkja að á slíka viðburði enda hefur ætíð verið húsfyllir ef þeir mæta. Vertinn er víst orðin uppiskroppa með bæjarstjóra í augnablikinu svo kennarar þykja fýsilegur kostur til að vera í spyrlahlutverkinu í næstu keppni. Björgvin Bjarnason verður næsti spyrill og hægt er að lofa því að vissara er að vera vel með á nótunum þegar hann byrjar að reka garnirnar úr viðstöddum.

Elías spyrill

Skákmenn settu mikinn svip á helgina enda var Hraðskákmót Íslands haldið í Bolungarvík. Vertinn skákaði þó öllum og mátaði hægri vinstri enda snjöll í leikfléttum og brögðum af öllu tagi. Ceres sex réð úrslitum og sikileyjarvörnin brást ekki frekar en fyrri daginn og drottningin í Einarshúsi stóð af sér ógnir peða á taflborðinu. Riddarar stóðu svo keikir og biðu þess að fá að þóknast margnefndri og biskupinn hélt svo verndarhendi yfir samkomum helgarinnar og lét allt fara vel. Segjast verður þó alveg eins og er að söngrödd skáksnillinganna er ekkert í samræmi við skáksnilli þeirra því sjaldan hafa aðrir eins hræðisöngvar verið sungnir í karaoký og í Kjallaranum á laugardagskvöldið. Þetta var þó stórskemmtilegt kvöld í alla staði og allir skemmtu sér hið besta.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband