Þannig verður það bara

Það verður að segjast alveg hreint alveg eins og er að jólahátíðin hjá títtnefndri hefur verið einkar ljúf og góð. Öðruvísi en vanalega en samt hefur jólaandinn svifið yfir vötnum. 

Ég slapp af spítalanum á þorlák og var útskrifuð af Karólínska með kurt og pí enda fyrirmyndarsjúklingur og ég var umföðmuð þegar ég fór. Var ég þá búin að dvelja þar í tæpa tvo mánuði og geri aðrir betur.

Ég valdi nefnilega ekki auðveldustu leiðina í þessari meðferð minni heldur ákvað ég að fara fjallabak og við það sat. Ég átti mjög erfiða daga og ég átti betri daga sem ég man nú bara eftir í augnablikinu. Ég var við það að hrökkva upp af á tímabili en það gekk ekki eftir og núna eru allir dagar frábærir og ég er á leiðinni heim eftir örfáa daga. Haldið það sé ekki frábært.

Ég fór í blóðprufur á þriðjudag og á mánudaginn í næstu viku fæ ég að vita hvað kemur út úr þeim. Vírusarnir báðir eru á undanhaldi og þeir verða jarðsettir við heimkomu. Þar mun Guðmundur læknir taka við mér og Guðbjörg hjúkka og halda utan um áframhaldandi meðferð. Ætla má að það taki mig árið að jafna mig á þessum vesældóm öllum. Ég er þó að fá ótrúlegan kraft í þessum göngutúrum mínum og finn mun dag frá degi. Það er þetta með vestfirska stálið muniði, það gefur ekki svo glatt eftir.

Þessi meðferð og aðdragandi hennar er auðvitað það sem stendur upp úr þegar ég hugsa til baka á þessu guðs blessaða ári sem senn er liðið undir lok. Það gekk nú ekki þrautalaust að komast hingað út því ég fékk blóðtappa og annan ófögnuð sem seinkaði meðferðinni en það hafðist allt á endanum. 

Mamma sofnaði svo svefninum langa á árinu og ég gat séð um jarðaförina hennar sem var svo dásamlega falleg. Ég er henni svo þakklát fyrir að hafa kvatt þegar ég var heima því annars hefði ég orðið ómöguleg. 

Þar fyrir utan var gaman að lifa, títtnefnd átti stórafmæli á árinu og hélt veislu fyrir norðan fyrir fáa útvalda. Það var gott partý, skal ég segja ykkur. Ég verð nú eiginlega að lofa því að halda annað svona partý eftir 10 ár, annað er varla inn í myndinni.

Andri fékk starf hjá WOW-air á árinu og mun fljúga með ykkur kannski einhvern daginn, Elsa fór til Óslóar að klára sitt nám í lögfræði og á nú bara eftir Mastersritgerðina sína. Það verður gott að hafa lögfræðing í ættinni sem veit sínu viti. Lilja fékk greiningu á litla Magna sínum en hann er flogaveikur og hún á fullt í fangi með að sjá um hann enda full vinna. Þórunn tengdadóttir skellti sér í viðskiptafræðina og Kristþór litli unir sér vel á leikskólanum á meðan. Ekki má svo gleyma húsbóndanum, sem er mín hægri og stundum vinstri hönd líka. Til allrar hamingju gat hann verið með mér úti allan tímann og hugsað um kjellinguna sína. 

Svona rúllar nú lífið í skini og skúrum. Ég hef þó aðeins betri væntingar til næsta árs þó ég viti að eitt og annað geti svosem komið uppá. Ég þarf að byrja enn og aftur á því að fá ungbarnasprauturnar og það allt. Svo ætla ég bara að skemmta mér út í eitt þess á milli.

Þannig verður það bara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt ár. Gott gott að heyra af þér.

Elín Þóra (IP-tala skráð) 2.1.2016 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband