Komin heim.

Aftur er ég komin heim í heiðardalinn eftir þessa stuttu dvöl í höfuðborginni. Ástæða fyrir þessu litla lífi á bloggsíðunni minni er ekki leti, heldur hef ég ekki haft neinn tíma til að dunda mér við þessi skrif mín vegna mikilla anna. Þetta er ekkert annað en athyglissýki í mér að þurfa að bera það fyrir alþjóð hvað ég er að hugsa og gera svona dag frá degi en ég nýt þess samt fram í fingurgóma og er þess fullviss að þið gerið það líka.

Undanfarnir dagar hafa verið mjög viðburðarríkir og skemmtilegir. Ég undrast það stundum hvað lífið getur verið skemmtilegt og spennandi. Ég virðist vera þeim eiginleikum gædd að lenda í ævintýrum nánast uppá hvern dag.

Ég stefndi á að koma vestur á fimmtudaginn var, en vindáttin hér vestra var óhagstæð og nokkuð snörp svo ekki gaf að fljúga. Þetta tók á taugaranar hjá Vertinum því kútmagakvöldið var á föstudagskvöld og það átti eftir að hnýta ansi marga lausa enda áður en það gæti orðið að veruleika. Þá þýddi ekkert annað en að fjarstýra liðinu símleiðis og var húsbóndinn ásamt Elsu og Gunnu Ásgeirs í fullu starfi við að standa og sitja eins og mér þóknaðist á meðan ég sat eins og fín frú á kaffihúsum borgarinnar. 

Ég fór þó ekki að ókyrrast að einhverju marki fyrr en á föstudaginn þegar allt stefndi í að flug lægi niðri þann dag líka.  Ég tók þá ákvörðun að keyra vestur í snatri um hádegisbilið en til tals hafði komið að ég kæmi akandi á bíl sem Bolungarvíkurkaupstaður var að kaupa fyrir áhaldahúsið. Ég brunaði því í sakleysi mínu í Brimborg og hugðist sækja litla skutlubílinn sem ég taldi að búið væri að kaupa. Þar hitti ég þennan stimamjúka sölumann og við gengum frá þeim nauðsynlegum pappírum sem átti eftir að undirrita áður en haldið yrði heim. Auðvitað var búið að panta bílinn eftir litmyndum þar sem tegund og gæði voru mjög ýtarlega yfirfarin af æðstu embættismönnum kaupstaðarins ásamt starfsmönnum áhaldahúss.  Allt var því klappað og klárt og ég sá loksins hilla undir það að ég kæmist heim fyrri kútmagann.  Mér brá heldur betur í brún þegar stimamjúki sölumaðurinn sýndi mér stóran og mikinn sendiferðabíl blóðrauðan að lit úti á bílaplani. Þessi dísleljálkur var eins og illa brotinn kassi í laginu, gluggalaus og skelfilegur í alla staði. Ekki mátti miklu muna að til þyrfti ökuskýrteini fyrir stórar vöruflutningabifreiðar til að uppfylla skilyrði til aksturs á þessu ferlíki. Ég lýg því ekki að það duttu af mér allar dauðar lýs í einum vetfangi og þær sem ekki voru dauðar urðu bráðkvaddar með það sama er þær sáu þennan rútubíl sem ég átti að fara að keyra alla leið vestur á firði. Stimamjúki sölumaðurinn fullvissaði mig um að þetta væri rétti bíllinn enda höfðu eins og fyrr segir æðstu embættismenn bæjarins hver af öðrum gefið fyrirskipanir um að þessi bíll yrði keyptur. Hann tjáði mér að hann væri mjög lipur í akstri og ég þyrfti ekki að kvíða því að fara á honum heim svo ég ákvað að slá til. Til allrar hamingju heyrði ég í skrifstofustjóra bæjarins áður en ég lagði upp í þessa langferð og þegar ég fór að lýsa ferlíkinu varð uppi fótur og fit á bæjarskrifstofunni og mönnum varð þar ljóst að eitthvað hefði farið úrskeiðs í pöntunarferlinu á nýja bílnum. ÞAU HÖFÐU PANTAР VITLAUSAN BÍL!!!!! Ég ætla ekki að segja mikið meira um þessar gloríur æðstu embættismanna Bolungarvíkurkaupstaðar en reikna þó með að greinarvísitala þessara gáfnaljósa hafi verið undir þolmörkum rétt á meðan þessi bíll var pantaður.

Bílaleigubíll var tekinn og höfðuborgin kvödd um sinn og haldið var á heimaslóðir Þuríðar Sundafyllis landnámskonu en hún kom frá Hálogalandi í Noregi og festi byggð í Bolungarvík.

Ég var ekki fyrr komin upp í Borgarnes en Flugfélagið tók upp á því að fara að fljúga vestur og það var stöðug loftbrú milli Reykjavíkur og Ísafjarðar alla leiðina og Fokkerinn hæddi mig og gerði að mér grín og ekki var frítt við það að ég heyrði hlátrasköllin í flugfarþegum þegar þau flugu yfir mig er ég keyrði heiðar og hálsa á leið minni heim. Ekki var búið að moka Hestakleif og ég hugsaði vegagerðinni þegjandi þörfina er ég brunaði fyrir Reykjanesið.

Mér tókst að ná tímanlega í Einarshúsið og ferðin gekk vel enda færðin nokkuð góð og greiðfær. Þá beið mín bara vinna og stóð ég vaktina til klukkan fjögur í nótt. Upp aftur klukkan tíu því ég átti vona á súpuhóp vegna fundar sjálfstæðismanna. Það er víst engin miskunn hjá Magnúsi. Ég skil ekki alveg hvaðan ég fæ þennan kraft sem ég keyri á þessa dagana.

Karlarnir tróðu út vömbina á kútmögum og fleira góðgæti. Logi Bergmann var veislustjóri og fórst honum það vel út hendi og mikil og góð stemning ríkti á borðhaldinu. Nokkrir dónabrandarar fuku milli manna og mikið var hlegið.

Vinir Valda slógu í gegn eins og við var að búast. Það var dansað fram á nótt og mikill glaumur ríkti og gleði. Alltaf gaman þegar nóg er að gera.

Myndir koma á síðuna af nýjustu uppákomum fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæl kæra vinkona. mikið er um hvað maðurinn býr, og gaman að fylgjast með uppgangi þínum, ástæða þess að ég rita þessar línur er að ég var rétt að lesa erfðaskrána þína, og mér hlýnaði um hjartarætur að þú munir eftir mér í henni, ekki spyr ég að þér gæskan, en ég verð að úttala mig um vanþakklæti þitt gagnvart honum Nonna litla frænda mínum, við af Selkotssystraættinni erum ekki par hrifnar af því að sjá, að einn af okkar vænstu sonum hefur hneppt  slíkt kvonfang, sem vanþakkar þvílíkar gjafir, þú ættir bara að reyna að halda andlitinu þegar það kemur baðvog úr jólapakkanum, eða  eldhúsvog, nei þá er nú matreiðslubók algjör draumur í dós.

kjær kveðja  Sigrún 

sigrún (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Júní 2025
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.6.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband