Hópdans með Laddawan á miðvikudagskvöld

Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni í Einarshúsi annan hvern miðvikudag (ef næg þátttaka fæst)að bjóða upp á hópdans með Laddawan. Þar telst upplagt að dansfimir einstaklingar mæti einir og sér eða sitt í hvoru lagi til að æfa línudansa og hipp hopp eða bara allra handa einstaklingsdansa sem hver og einn getur lært með auðveldum hætti. Konur geta mætt með körlum sínum eða skilið þá eftir heima og öfugt. Einstæðir, fráskyldir, harðgiftir, tvígiftir og ógiftir eru hvattir til að mæta og skiptir ekki máli hverra þjóðar viðkomandi dansarar eru því allir geta sameinast í dansinum. Samkvæmisdansar verða ekki í boði að svo stöddu enda ekki nægjanlegt pláss til að stíga skottís, vals eða ræl í salnum. Erótísku dansarnir verða heldur ekki dansaðir upp við súlurnar enda er slíkur dans illa séður og einungis til þess fallinn að fá flísar úr timbursúlunum sem bera húsið uppi hirst og her. Aðalatriðið er að hafa gaman af uppátækinu og hressa upp á kroppinn og liðka hann til í bland við skellihlátur. Á eftir er svo hægt að kaupa dýrindis Swiss-Mocca af Vertinum í Víkinni á spottprís.

Fyrsti danstíminn er á miðvikudagskvöldið 10 september kl. 20:00. Aðgangur er 500 krónur og lagt er til að ÞÚ lesandi góður mæti á svæðið


Blanda af hinu góða

Gummi Hjalta mátaði sig við stóra sviðið í Kjallaranum á laugardagskvöldið og var fantagóður. Röddin ómaði líkt og englakór væri samankomin undir himnahörpu frelsarans. Þetta er auðvitað orðum aukið en Gummi stóð sig vel og var nokkuð sprækur og hress. Fyrir þá sem voru svo óheppnir að missa af honum geta glaðst yfir því að hann á eftir að koma aftur og aftur og troða upp í þessu húsi glaums og gleði.

Gummi Hjalta
Það er ólíkt meira gaman að hafa einhvern sem getur gripið í gítar og sungið á sviðinu í stað þess að leika tónlist úr hljómgræjum hússins ótt og títt. Þess vegna mun Vertinn í Víkinni bjóða upp á slíkt endrum og sinnum og oftar en lesendur hafa tilfinningu fyrir í framtíðinni. Helgi Björns hefur svo sem verið alveg ágætur hingað til en diskurinn með honum er nokkuð vinsæll. Það setur þó töluvert strik í reikninginn að karlinn er alltaf úti að ríða og erfitt að henda reiður á hvort hann ríði berbakt eður ei.
 

Þetta helst....

Að venju hefur verið nóg að gera í lifi margumræddrar. Fjórðungsþing Vestfirðinga nýafstaðið og þótti tilhlýðilegt að Vertinn í Víkinni sæti það ásamt öðrum fyrirmönnum þjóðarinnar. Það gekk hnökralaust fyrir sig og var bara einkar fróðlegt og skemmtilegt.

Fyrsta sprenging í Óshlíðargöngum var sprengd með hvelli á fimmtudaginn og bermálið ómaði um fjallanna hring. Titringurinn var töluverður og steinrunninn tröll tóku kipp af fögnuði er ljóst var að framkvæmdir væru hafnar við göngin. Ákvörðun um að ráðast í þessa framkvæmd var tekin í Kjallaranum í Einarshúsi er þingflokkur Sjálfstæðismanna kom í morgunkaffi á ferð sinni um fjórðunginn. Ekki það að Vertinn er svosem ekkert að eigna sér það sérstaklega enda alkunn af miklu lítillæti og óframfærni, aftur á móti má telja öruggt að það sem þar framfór hafi vakið ráðamenn þjóðarinnar til umhugsunar um nauðsyn þess að gera öruggan veg hér á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Það varð svo ofan á að þessi leið var farin og er það vel og mega þeir sem komu í morgunkaffið í Kjallarann hér um árið eiga heiðurinn af því og engir aðrir.

Guðlaug við snitturnarVertinn sá um stórveislu vegna þessara atburða og þær Gunna og Guðlaug gerðu kraftaverk eins og svo oft áður. Snittur og aðrar trakteringar voru á borð bornar fyrir alla sem vildu þiggja og vinnuhjú Vertsins í Víkinni stóðu sig með prýði eins og ætíð. Telja má víst að ekki væri hægt að reka Einarshús með öllu því sem því fylgir nema að hafa úrvals starfslið við höndina og títtnefnd má teljast afar lánsöm með vinnuhjú. Allir sem máli skiptir hópuðust svo í hús gleðinnar eftir veisluna síðar um kvöldið og skemmtu sér konunglega enda tilefni til að gleðjast og fagna. Þar nutu veiga menn af fjölmörgum þjóðernum enda eru bormenn Bolungarvíkur eins og heima hjá sér í þessu sögufræga húsi og ætíð velkomnir eins og allir aðrir. Kjallarinn hefur hlotið viðurnefnið "Hákarlabarinn" hjá sumum erlendum fastagestum hússins og ætla má að ástæðan sé hið magnaða sjóara andrúmsloft sem þar ríkir.

Ástin blómstrar svo í húsinu sem aldrei fyrr en hún hefur blundað í húsinu undanfarin hundrað ár og ekki að búast við öðru en að það haldi áfram. Húsið bókstaflega geislar af gleði vegna þeirra fjölmörgu sem líta við til að sýna sig og sjá aðra og kossa, kelerí og kitl þykir sjálfsagt að viðhafa í skúmaskotum og á bersvæði einnig ef svo ber undir.

 

 

 

 


Bloggfærslur 8. september 2008

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband