Síungur

Vertinn í Víkinni telur það næsta víst að sólarhringurinn verði styttri með hverju árinu sem líður. Það virðist alveg sama hvaða verkefni liggja fyrir dag frá degi það virðist aldrei tími til að klára þau öll og enn fleiri bíða til morguns en þau sem biðu þegar títtnefnd vaknaði. Ég bókstaflega skil þetta ekki og botna hvorki upp né niður í þessu. Það er kannski vegna þeirrar ofvirkni sem hefur hrjáð mig frá því ég hætti að drekka sem fær tímann til að líða svo hratt og allt að þjóta hjá með þessum ógnarhraða. Þó er ekki í boði að slappa af eitt augnablik enda tíminn naumur og dagurinn nánast búinn áður hægt er að snúa sér við. 

Glöggt mátti þó sjá á þeim fermingarárgöngum sem nutu veiga í Einarshúsi um helgina að aldurinn hafði farið nokkuð vel að þeim og einstaklega gaman var að fá þau í heimsókn. Ótrúlega mörg ár höfðu safnast í sarpinn frá því að þessi krakkar fermdust og einhver tími síðan þau klæddust hvítu kirtlunum í kirkjunni upp á Hólnum og auðvitað var einn og einn farinn að láta á sjá. Sumir voru örlítið farnir að grána í vöngum og einhver orðinn óttalegt skar. Sumhver hafði bætt á sig kílóum hér og þar og marghver alveg við það að missa hárið og einn eða enginn orðinn óttalegt skar. Samt sem áður leit út fyrir að þetta væru allt sömu unglingarnir og eitt sinn er þeir staðfestu skírnarheitið svo saklausir við altarið í Hólskirkju. Messuvíni var ekki útdeilt í þetta sinnið heldur voru aðrir göróttir drykkir á barnum sem iljuðu kroppinn og hresstu upp á málbeinið og minnið í leiðinni. Gömul prakkarastrik voru rifjuð upp til að létta lundina og það var hlegið, dansað og drukkið. Einarshúsið var kjaftfullt af rígfullorðnum unglingum sem héldu sig vera síunga og það var fjör á fróni og heimaslóðirnar hamingjusamar yfir því að börnin væru loksins komin heim í Víkina fögru í heimsókn.


Bloggfærslur 5. júní 2008

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 635876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband