Hnallþórur á 17. júní

Hnallþórur af bestu sort verða í boði í Einarshúsi á 17. júní. Það telst því tilvalið að koma og gæða sér á góðgætinu um miðjan daginn og njóta þess að láta stjana við sig. Kaffi er á boðstólnum og hugsanlega súkkulaði ef einhver vill. Fólk á öllum aldri er velkomið og þá sérstaklega blessuð börnin og  mælt er sérstakleg með því að þið leyfið börnunum að koma til mín, og bannið þeim það ekki. Þessi fleygu orð mæli Jesús Kr. á sínum tíma og hafði nokkuð til síns máls. Hann hafði einnig lag á að breyta vatni í vín og segja má að Vertinn í Víkinni láti þokkalega af því að afgreiða vínið líkt og Jesús gerði forðum. Reyndar hefur téður Vert ekki lag á að breyta bolvíska Gvendarbrunnsvatninu í brennivín enda væru flestir hífaðir í tíma og ótíma ef að það gengi eftir. Það má þó geta þess í framhjáhlaupi að vínið var reyndar gefið á dögum lærisveinanna en er selt frekar dýrum dómum á öldurhúsum nútímans enda hefur launavísitalan stigið ótrúlega síðan í þá dag og skýrir það mismuninn að flestu leiti. Það virðist þó takast með undraverðum hætti að láta matinn ávallt duga ofan í alla hjörðina sem kemur í hádeginu og ætla má að handayfirlagning Vertsins ráði það einhverju um enda átti Jesú að duga örfáir fiskar til að metta allan lýðinn og ætla má að það hafi erfst að einhverju leiti. Eitt er víst að það verður nóg fyrir alla á morgun, krakka með hár og kalla með skalla eða amk. á meðan byrgðir endast.

Lofgjörð til þín

Vertinn gaf sér tíma til að skjótast inn í Ísafjörð í gærkvöld. Erindið var að fara á tónleika Þorsteins Hauks í Ísafjarðarkirkju. Fuglarnir flugu hærra á altarinstöflunni við hvern tón sem ómaði um salinn og hjartað í mér sló örar við hljómfallið sem gerði það að verkum að ég kom heim endurnærð á sál og líkama.Tónleikarnir voru Þorsteini Hauki  og Gospelkór Vestfjarða til mikils sóma og mig langar að nota tækifærið og óska þeim til hamingju og færa þeim bestu þakkir fyrir að leifa mér að njóta með þeim stundarinnar í þessu fallega og hljómfagra húsi.


Kæruleysi

Ásdís, Helgi og ÞuraHelgin að líða undir lok. Vertinn búin að vera nokkuð kærulaus og látið vinnuhjúin standa vaktina. Það er aðeins að lærast að vera ekki alveg ómissandi og Einarshúsið virðist reka sig að mestu leiti þrátt fyrir að títtnefnd standi ekki nótt sem nýtan dag. Það verður þó að segjast alveg eins og er að oft reynist erfitt að slíta sig frá fjörinu ef margir eru samankomnir í Kjallaranum á góðu kvöldi og þrátt fyrir að eiga frí togar töfrandi tónlistin í margnefnda sem nýtur þess að valsa um svæðið við taktfastan hljóminn. Einn og einn dans fylgir oft í kaupbæti ef dansherrar eru á lausu og ekkert nema gott um það að segja. Það er afskaplega gaman að dansa og ef gömlu góðu íslensku lögin líða um Kjallarann þá er Vertinn yfirleitt til í tuskið. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar birtast kúrekar þegar minnst varir í Kjallarann og vænta má að þeir komi ríðandi til samkundunnar á skjóttum klárum til að geta farið fetið á heimleiðinni.

Einar Örn og VertinnTrúbadorinn stóð sig með stakri prýði og spilaði og söng af hjartans list út í bjarta sumarnóttina. Því hafði svo sem verið lofað og enginn kom því að tómum kofanum í Kjallaranum frekar en fyrri daginn. Einar Örn átti salinn og gestir dönsuðu af hjartans list allt frá súludansi til vangadansa. Salsa og ræl var einnig dansaður í hita leiksins og það var fjör á fróni. Danskortið hjá títtnefndri var drekkhlaðið en þrátt fyrir það læddist margnefnd út áður en dansinn væri stiginn að neinu marki því viðkomandi var víst í "fríi" og varð að komast heim fyrir myrkur. Fyrir myrkur!! Þessi mynd er tekin um miðja nótt í Kjallaratröppunum er Vertinn var á leið heim og nóttin er björt og hrein og ekki er síður bjart yfir þeim tveim sem stilltu sér svo brosmild fyrir framan myndavélina. Þau eiga það sammerkt þessi tvö að hafa farið á "snúruna" svokölluðu sem staðsett er á sjúkrastöðinni Vogi. Viðkomandi Vert fékk að hanga þar til þerris fyrir rúmum 19 mánuðum síðan og hefur hangið þurr síðan og það er vel. Einar Örn á styttri þurrkunartíma að baki en ber vonandi gæfu til þess að sneiða fram hjá allri óreglu í framtíðinni og ég óska honum góðs gengis.

Mynstur míns lífs hefur breyst til muna frá því að ég fór í afvötnun. Orkan virðist endalaus og tímanum er varið í allt annað núna en áður. Til að mynda hefur títtnefndur Vert varla kveikt á sjónvarpi eina einustu stund frá því að áfengið var lagt á hilluna og telja má á fingrum annarrar handar þær bíómyndir sem títtnefnd hefur horft á og útvarpið hefur hlotið sömu útreið. Einhverra hluta vegna verður alltaf að vera eitthvað móment í gangi og endalaust verður viðkomandi að hafa eitthvað fyrir stafni. Markmiðið virðist að hafa einhverju hlutverki að gegna og geta hlaupið í það í tíma og ótíma og helst þegar síst skildi. Það er semsagt allt í góðu ef téður Vert hefur eitthvað fyrir stafni er hún er á útstáelsi í Kjallaranum en ef hún bara situr og gerir ekki neitt verða varnirnar veikari og ókyrrð myndast hið innra. Þá er nú sérdeilis, aldeilis gott að geta tjúttað og trallað í góðra vina hópi og dansað við taktfasta óma trúbadoranna sem sækja Einarshúsið heim.

 

 


Bloggfærslur 16. júní 2008

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 635876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband