21.5.2008 | 14:34
Búlúlala í Einarshúsi á laugardag
Kómedíuleikhúsið sýnir leikverkið Búlúlala Öldin hans Steins í Einarshúsi í Bolungarvík laugardaginn 24. maí kl.16.00. Búlúlala er nýtt leikverk fyrir leikara og tónlistarmann sem Kómedíuleikhúsið setur á svið til að minnast aldarafmælis Steins Steinars. Í leiknum eru flutt mörg af þekktustu ljóðum Steins í bland við minna þekkt kvæði. Leikurinn er sambland leikara og tónlistarmanns og er í raun framhald af samstarfi þeirra Elfars Loga Hannessonar, leikara, og Þrastar Jóhannessonar, tónlistarmanns, sem hófst í fyrra með ljóðaleiknum Ég bið að heilsa. Í þessum nýja ljóðaleik flytur Elfar Logi ljóð Steins í leik og tali en Þröstur flytur frumsamin lög við ljóð Steins Steinars. Til samstarfs hafa þeir fengið þriðja listamanninn sem er Marsibil G. Kristjánsdóttir sem hefur gert portretmynd af skáldinu sem gegnir hlutverki leikmyndar í sýningunni.
Einsog margir vita hefur Steinn verið vinsælt myndefni margra myndlistarmanna í gegnum árin og er gaman að fá nú á aldarafmæli Steins nýja mynd af skáldinu eftir vestfirskan listamann. Meðal ljóða sem koma við sögu í Búlúlala Öldin hans Steins má nefna Að frelsa heiminn, Barn, Miðvikudagur, Söngvarinn, Tindátarnir, Þjóðin og ég og að sjálfsögðu ljóðið Búlúlala sem leikurinn er nefndur eftir.
Steinn Steinarr er án efa eitt þekktasta og jafnframt umdeildasta ljóðskáld síðustu aldar. Hann hét réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson og fæddist 13. október árið 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap hér á landi um langa hríð og varð umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein og margir sögðu skáldskap hans vera vitleysu eina. Aðrir á hinn bóginn fögnuðu framlagi hans og sögðu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Ljóð Steins eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög sem hafa ekki síður notið vinsælda. Steinn Steinarr andaðist 25. maí árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2008 | 02:35
Hvert örstutt spor
"Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér" var sungið í fermingu títtnefndrar fyrir margt löngu síðan. Vertinn hefur engan áhuga á að muna hver árin eru orðin mörg frá því að hún var hrifsuð í fullorðinna manna tölu enda vart orðin fullorðinn enn og á trúlega langt í land með að geta talist fullvaxta. Fermingardagurinn var 20. maí og gengin hafa verið mörg auðnusporin síðan þá um lífsins veg sem oftast hefur verið beinn og breiður en bugðóttur þó á köflum eins og gengur. Trúlega má ætla, ef öllum árunum er haganlega haldið saman, að stórafmæli okkar fermingarsystkinanna sé á næsta ári og tilefni til að fagna.
Eins og glögglega má sjá á þessari fermingarmynd af téðum Vert þá hefur aldurinn farið nokkuð vel með þessa fermingarstúlku sem þarna brosir svo blítt framan í Leó ljósmyndara. Klæðnaðurinn ögn púkalegur og gleraugun kannski ekki í hámóð en yfirbragð allt og yndisþokki til fyrirmyndar. Rauða rósin í hnappagatinu varpar æskuljóma á blómarósina og hvíta rósin í hárinu sveipar yngismeyna sakleysi æskuáranna. Ég er gráti næst yfir þessari lýsingu á þessu fermingarbarni sem hér um ræðir en lýsingin á vel heima á síðu sem þessari þar sem sjálfshól er í hávegum haft í hvívetna. Fermingardragtin var úr ull sem stakk svo undan klæjaði og skyrtan var úr einhverri blöndu gæðaefna. Hnýttur var hnútur á bindið við miðja bringu og til að fullkomna verkið var gullnæla næld í skyrtukragann svo stirndi á. Sálmabókin innihélt svo sálmana sem sungnir voru við messuhaldið og lífið beið.
Það verður þó að segjast eins og er að eitthvað hefur teygst á skrokknum síðan þá og eitt og annað látið á sjá þó það sé nú varla á gerandi og telst varla tilhlýðilegt að nefna það hér. Spékopparnir hafa aðeins dýpkað eins og vera ber oftar þarf að skerpa á áherslum og uppherslur eru nauðsynlegar oftar en áður og kremdollur er brúkaðar í ríkara mæli til að fá húðina til að halda sér. Ullardragtir eru ekki lengur í tísku og Vertinn klæðist að jafnaði fatnaði sem ekki stingur né klæjar undan og lífið bíður enn.
Lífið bíður enn, alveg tilbúið til að leiða Vertinn í Víkinni áfram hvert örstutt spor inn í stundareilífð, eina sumarnótt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfærslur 21. maí 2008
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm