27.4.2008 | 10:42
Síungur öldungur
Hann pabbi á afmæli í dag en hann fæddist 27. apríl árið 1923 og fagnar því 85 ára afmælisdeginum sínum. Hann er sonur Ragnars Jóhannssonar frá Garðsstöðum í Ísafjarðardjúpi og Ragnheiðar Margrét Jónsdóttur sem var vinnukona á heimili foreldra hans, þeirra Jóhanns Pálssonar og Sigríðar Gísladóttur ljósmóður.
Þegar upp komst að Ragnar hafði gert vinnukonunni barn gripu foreldrar hans inn í atburðarásina og sendu hana til Bolungarvíkur. Þar fæddi hún barnið í elsta húsinu í Bolungarvík, sem enn er upprunalegt og óbreytt frá fyrstu tíð, að Miðstræti 4 hér í bæ en það hús er byggt árið 1900. Barninu var komið í fóstur hjá Guðjóni Jónssyni og Kristbjörgu Margréti Halldórsdóttur og Ragnheiður eða " Ranka amma" flutti til Reykjavíkur.
Þegar ég fæddist átti ég að heita Guðbjörg Hjálma í höfuðið á langafa mínum og langömmu, Hjálmari Þorsteinssyni ( Hjalla tudda) og Guðbjörgu Sigurðardóttur, en þau bjuggu hér á Kambinum og ólu mömmu upp. Nóttina fyrir skírnina mína dreymir pabba að Ragnar faðir hans kæmi að vöggunni minni og segði að honum langaði að vera hjá okkur. Þá vildi pabbi að ég bæri nafnið hans og heiti ég þess vegna nafninu Ragna Jóhanna og kann bara nokkuð vel við að bera nöfn afa míns og langafa.
Pabbi hefur erft fríðleika föður síns og atgervi allt er hið glæsilegasta. Hann er topp eintak, ótrúlega hraustur, rólegur, fagur, og hefur alla tíð verið mikill dugnaðarforkur. Hann keyrir enn bílinn sinn og fer ásamt mömmu í bónus.
Ég er ótrúlega heppin að eiga hann pabba ennþá og vona að ég fái að hafa hann hjá mér sem lengst og ég sendi honum hér litla blogg afmæliskveðju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2008 | 01:39
Dollar
Nýr fjölskyldumeðlimur heimsótti nýja heimili sitt í fyrsta sinni í gær. Hundurinn ber heiti erlendrar myntar enda enskur að uppruna og kemur frá hundaræktunarstöð í Bretlandi. Labrador hundurinn "Dollar" er búinn að dvelja í lögbundinn tíma í einangrun í einangrunarstöð á Reykjanesi en þaðan fór hann til yfrhundaþjálfarara Ríkislögreglustjóra sem staðsettur er á Eskifirði. Undanfarna viku hefur Dollar verið í hundaþjálfun í Reykjavík og mun verða þar næstu þrjár vikur til viðbótar áður en hann kemur vestur á firði þrautþjálfaður sem lögregluhundur.
Vertinn í Víkinni hefur veitt nokkrum hundunum húsaskjól í gegnum árin og ber þá hæst hundurinn Nökkvi, sem var landsþekktur leitarhundur, vatnaleitarhundur, lögregluhundur og kvikmyndaleikari. Minningargrein birtist um hann í mörgum blöðum er hann féll frá sem segir nokkuð um hversu fjölhæfur hann var. Nökkvi bjó á heimilinu til margra ára og var einstakur ljúflingur. Það kom mér mjög á óvart hversu mikið ég hafði tengst honum þegar yfir lauk og ég sá mikið eftir honum eins og allir aðrir í fjölskyldunni. Pabbi saknaði hans mikið enda voru þeir miklir vinir alla tíð.
Það kom í minn hlut að tilkynna Elsu látið hans Nökkva og ég taldi mig vel til þess fallna vegna þess að þá hafði ég nýverið sótt námskeið í sálrænni skyndihjálp. Ég fór vandlega yfir allt sem ég hafði lært á námskeiðinu áður en ég settist niður með telpunni og byrjaði að ná augnsambandi við hana, sem var frumskilyrði þess að geta komið slíkum sorgarfregnum frá sér með sóma. Ég passaði mig einnig á því að sitja í sömu hæð og hún svo henni fyndist ég ekki yfirgnæfa hana er sjokkið yfir tíðindunum myndi ríða yfir. Þá hófst magnþrungin frásögn af aðdraganda þessa dauðsfalls innan fjölskyldunnar sem endaði með því að flóðgáttir opnuðust og óstöðvandi grátur fór að berast frá títtnefndum Vert. Það var alls ekki lagt upp með það á þessu námskeiði að útskrifuð sálræn skyndihjálparmanneskja færi að orga eins og stunginn grís er fréttir af þessu tagi væru boðaðar. Blessað barnið horfði með angistarsvip á móður sína í ekkasogum yfir því að hundurinn skildi gefa upp öndina og brá hún því á það ráð að kjökra móður sinni til samlætis og endaði þetta því í allsherjar grátkór með tilheyrandi ekkasogum og snýtingum. Ég hef trúlega ekki staðist prófið í sálrænni skyndihjálp og telst því trúlega fallin í þeim fræðum. Nökkvi var jarðaður í útskorinni furukistu umvafinn úrvals híalíni úr silki í trjálundi við sumarbústaðnum okkar í Dýrafirði.
Í millitíðinni hafa verið þrír schafer hundar verið á heimilinu en geðslag þeirra ekki að mínu skapi. Labrador hundar eru góðir heimilishundar og einkar geðgóðir og hefur Dollar brætt hjörtu okkar allra líkt og Nökkvi gerði hér fyrrum. Gaman var að sjá glampann í augunum hans pabba er hann gaf honum bita af harðfisk í dag er þeir hittust í fyrsta sinni. Þeir eiga án efa eftir að verða góðir vinir. Mér finnst notalegt að vera komin aftur með hund á heimilið og hlakka til að fá hann alkominn heim ásamt húsbóndanum en við mæðgurnar bíðum þess þó með æðruleysi að allir skili sér heim í vorinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggfærslur 27. apríl 2008
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm