Ekkert plat

Ég er hrifin af fyrsta apríl og vildi gjarnan að þessi dagur væri oftar enda er ég frekar stríðin og hef gaman af því að hagræða sannleikanum enda mikill lygalaupur inn við beinið.  Dagurinn í dag hefur einkennst af plati og lygasögum sem hafa sprottið úr kollinum á mér við hvert tilefni. Á Vertinn í Víkinni er ekkert að treysta í þessum efnum enda vita þeir sem þekkja mig að ég get verið mjög varasöm þegar kemur að áreiðanleika sannra lygasagna. Það væri auðvitað helber lygi að bera það á borð fyrir lesendur mína að ég geti ekki sagt sannleikann svona öðru hverju en ég kýs að sveipa hinn heilaga sannleika ljóma skröksagna svo enginn geti áttað sig á því hvað er satt og hvað er logið.

Hitt er svo annað má að vel getur hugsast að ég hafi verið látin hlaupa fyrst apríl trekk í trekk í dag án þess að verða þess var og þá er það altílagi og vonandi hefur það fullnægt þörfum annarra hrekkjusvína eins og mín.

Einhverjir virðast þó hafa haldið, að frásögn mín af sjávarréttahlaðborði í Einarshúsi á laugardagskvöldið væri plat og að ég hefði logið til um útlendingana sem ætla að spila hjá mér síðar um kvöldið. Ég færi aldrei að ljúga til um svoleiðis lagað og það er dagsönn frásögn og ekkert plat. Ég get svo svarið það og tíu fingur upp til guðs að ég er strangheiðarleg þegar ég kem hér fram eins og saklaust barn og ítreka mikilvægi þess að fara að PANTA borð. Ég verð að fá vissan fjölda til að þetta beri sig og miða ég við að amk. 20 manns hætti sér út úr húsum sínum og geri sér glaðan dag í trakteringum í Einarshúsi.

Kjallarakeppnin verður svo á sínum stað á föstudagskvöldið og ætlar Sveinbjörn Rögnvaldsson að spyrja fólk spjörunum úr. Hann er stórgáfaður strákurinn og mig grunar að spurningarnar verði erfiðar og aðeins fyrir heilasellur bráðgáfaðra einstaklinga. Ég legg svo um og mæli með að menn fari að setja sig í stellingar.

 

 


Beitt fyrir sig engilsaxnesku

SjávarréttahlaðborðVertinn í Víkinni ætlar að reyna með öllum mætti að halda sjávarréttahlaðborð á laugardaginn kemur en slíkur eðalkvöldverður hefur ekki verið í boði síðan sl. sumar. Á boðstólnum eru ótal kræsingar fínna rétta sem kitla bragðlaukana svo um munar og fá hvern mann til að sleikja út um. Laxapaté í bland við steinbítspaté og aðra unaðslega fiskirétti munu verma borðið í Einarshúsi ef næg þátttaka fæst og ríður nú á að hringja og panta tímanlega og hvet ég fólk til að hringja sem fyrst. Satt best að segja tel ég nauðsynlegt fyrir bæjarbúa að lyfta sér upp um þessar mundir og líta upp úr amstri hversdagsleikans og gera sér glaðan dag um helgina.

Ekki er úr vegi að geta þess að einhverjir útlendingar hafa sýnt áhuga á að troða upp og hringdu þeir í dag til að bjóða fram krafta sína í söng og spileríi. Vertinn varð að grípa til engilsaxnesku til að gera sig skiljanlega á þeirra tungumáli en annar mannanna er enskur en hinn kemur alla leið fá Skotlandi til að stíga á stóra sviðið í Kjallaranum. Oxford enskan rann upp úr téðum Vert sem gat talað af fingrum fram á þessu erlenda tungumáli og það var fastmælum bundið að þessir tveir eðalgítaristar og söngvarar kæmu að spila á laugardagskvöldið fyrir gesti mína. Þeir leika bæði frumsamin lög, auk þessa að bjóða upp á kántrý, Bob Dylan og Bítlana en allrahanda tónlist er þó að efnisskránni. Eru því hörku trúbadorar í boði eftir hlaðborð dýrindis sjávarrétta en bandið mun bera heitið" The bad bread and the rotten rolls" ef ég hef skilið kauða rétt og ég þykist vita að það verði stórskemmtilegt.

 


Bloggfærslur 1. apríl 2008

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband