Holóttir vegir

Hristingur á holóttum vegum er mér í fersku minni eftir daginn í dag og holóttir og blautir malarslóðar vekja hjá mér hroll eftir aksturinn til höfuðborgarinnar. Vegirnir víða litu út eins og þvottabretti og áveituskurðir lágu víða yfir þessa malarslóða sem minntu einn helst á hestvagnastíga og vatnsflaumur var allsráðandi á köflum.  Vegavinna var víða í Djúpinu og Vertinn hugsaði með tilhlökkun til þess tíma þegar Djúpið verður orðið malbikað inn alla firðri og brýr komnar yfir helstu stórfljót og leiðin greiðfær alla leið. Vertinn tók þó sérstakan vara á öxulþungatakmörkunum sem víðast hvar voru á veginum og sneiddi með festu fram hjá stærstu holunum sem komið höfðu sér fyrir á þessum endemis rollustigum og gætti umfram allt að virða þau lög og reglur sem gilda um hámarkshraða á slóðum sem liggja að þessum smábæjum á landsbyggðinni. Það vildi til að Óshólavitinn lýsti leiðina inn allt Ísafjarðadjúpið og dönsuðu geislar hans í baksýnisspeglinum fyrri hluta leiðarinnar sem gerði það að verkum að leiðin sóttist ekkert sérstaklega seint. Óshólavitinn hefur staðið sína plikt í Óshólunum um aldur og ævi og verið stoð og stytta fyrir sjófarendur og leiddi mig áfram styrkri hendi í dag.

Hávær tónlist ómaði um rauða djásnið sem bar okkur á milli landshluta og engir árekstrar urðu meðal okkar mæðgnanna um lagavalið sem hljóma átti í það og það sinnið því við erum báðar gefnar fyrir háværa tónlist. Boney M fékk að rúlla í bland við önnur tónverk og "Brown girl in the rain" höfðaði sérstaklega til Vertsins í Víkinni er rúðuþurrkurnar höfðu varla undan slagveðrinu. Vegurinn var lokaður í Borgarfirðinum og fara þurfti hjáleið fram hjá bæjum og bólum og nikkuðu gróðurhúsin á Kleppsárreykjum döpur kolli er þau litu til mín með gluggana alla í méli og bílhræ á víð og dreif. Komst ég þó á leiðarenda að lokum og allt gekk eins og í sögu og höfuðborgin heilsaði seinnipartinn í dag með iðandi stórhríð. Vertinn lagði á brattann fyrir vestan í heitum vorsins blæ svo viðbrigðin voru nokkur. Þó hafði einn þröstur fyrir því að fylgja mér eftir og flaug upp í tré við heimili tengdaforeldra minna er dauðþreyttar mæðgur að vestan renndu i hlað.

Mikið verður að gera þessa daga sem ég kem til með að stoppa. Veislur og boð auk verslunarferða og kaffihúsaferða verða allsráðandi í þessari opinberu heimsókn. Vænti ég þess að Vertinum í Víkinni verði tekið með tilhlýðilegri virðingu og henni verði sýndur sómi í hvívetna.

 


Bloggfærslur 19. febrúar 2008

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 635876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband