Í sól og sumaryl

Grikkir eru einstaklega brosmildir og geðgóðir og glettnir í þokkabót og kunna að taka á móti ferðamönnum. Þeir eru kurteisir og kunna sig og maður finnur sig öruggan í návist þeirra. Í gærkvöldi var farið á indælan ítalskan veitingastað sem bauð upp á nýbakaðar dýrindis pizzur sem brögðuðust afar vel og runnu ljúflega niður. Vertinn drekkur bara vatn og kann því ágætlega.  Ég get ekki neitað því að í mér var örlítill kvíði fyrir því að þurfa að bragða út af þeim vana mínum að drekka ekki bjór í tíma og ótíma eins og ég hef gert í fyrri utanlandsferðum mínum. Ég held að kvíðinn hafi verið ástæðulaus því ég virðist geta haldið mig frá þessu með glans án þess að finna mikið fyrir því. Stundum bregður Bakkus sér þó upp að öxlinni á mér og reynir að freista min með ýmiskonar gylliboðum eins og ” sex on the beach” og reynir að fá mig í sukkið og svínaríið á ný, en ég læt ekki blekkjast af slíkum nautnadrykkjum og held mínu striki.  

 

Í næturhúminu í gær þegar kvölda tók og nóttin bankaði upp á, dansaði grikkinn Zorba grískan dans af miklum móð og óð hann eld og brennistein í trylltum og taumlausum dansinum. Ég reikna alveg eins með því að hann hafi ætlað að koma og bjóða mér upp en ekki lagt í það vegna eldsins sem logaði glatt á gólfinu rétt á meðan að hann túlkaði gríska goðafræði með eggjandi hreyfingum. Ég hefði án efa getað dansað við hann skottís og ræl án þess að blikna og hefði trúlega slegið í gegn á eyjunni Rhodos með þvílíkri uppákomu og hver veit nema ég eigi eftir að sína eyjarskeggjum í eitt skipið fyrir öll hvað í mér býr.

VertarHitastigið hefur verið ögn hærra hér á Grikklandi en það hefur verið í sumar á Beach-Bolungarvík. Vertinn í Víkinni er búin að finna sér uppáhaldsbar og uppáhaldsvert sem bíður upp á fría nettengingu og þar er búið að finna handa mér uppáhaldsstað þar sem ég get bloggað og sent fréttir heim.  Vertinn hér ytra reynir eftir fremsta megni að tala Íslensku með dönskum hreim, svo blandar hann ensku og grísku í þann grautarpott með undraverðum hætti og merkilegt nokk, þetta kemur ljómandi vel út. Ég lét taka mynd af mér og kollega mínum, honum Tasos, veitingamanni á Santé café, í fjarlægu landi og ekki er annað að sjá en að fyrirmyndarvertar leynist víða.

Ég tel mjög mikilvægt að taka frá tíma til að senda fréttir heim, því ég veit að margir eiga um sárt að binda eftir að ég fór og tel líklegt að Víkin sé í sárum vegna fjarveru minnar. En ég kem aftur, því lofa ég því Vertinn kemur alltaf aftur og aftur. Ég kem full af þrótti og tilbúin til að hafa ofan af fyrir ykkur í vetur.

 

Laumufarþegar

Tvær gellurTvær bráðlaglegar og huggulegar vestfirskar valkirkjur laumuðu sér með í ferðina með okkur og hafa verið nokkuð uppáþrengjandi allan tímann. Ekki veit ég hvað bjó að baki ákvörðun þessara tveggja hrokkinhærðu kerlinga þegar þær ákváðu að troða sér með, en trúlega hafa þær haft fátt annað sér til dundurs. Ljóskan virðist brosa sínu blíðasta framan í myndavélina og sú dökka virtist njóta sín vel í blíðunni á Rhodos. Glöggt má sjá hversu ánægðar þær eru með útlit sitt og atgerfi allt, enda bera þær af hvar sem þær koma og leika á allsoddi er þær slá um sig með frægðarsögum af lífinu heima á fróni.

Bloggfærslur 20. ágúst 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 635888

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband