Einarshús á þjóðhátíðardaginn

Þjóðhátiðardagurinn er væntanlegur og mikið um að vera í bænum að vanda. Vertinn verður með dýrindis kaffihlaðborð og opnar í leiðinni sýningu á gömlum myndum Lárusar Benediktssonar sem mun verða varpað upp á skjáinn í Kjallaranum í sumar fyrir gesti og gangandi. Lárus hefur verið að safna gömlum myndum af húsum, bátum og ýmsu fleira efni tengdu Bolungarvík í tíu ár og á orðin stórt safn mynda sem einstklega skemmtilegt er að skoða.   

Kjötsúpan sló í gegn í hádeginu í dag og húsið fylltist enda var ég búin að lofa bragðgóðri súpu sem myndi kitla bragðlaukanna. Ég stend venjulega við það sem ég segi. Óveðursský skaut upp kollinum sem setti Vertinn út af laginu um stund. Bolungarvíkurkaupstaður auglýsir dagskrá þjóðhátíðardagsins í dreifibréfi sem sent er í hvert hús og notar tækifærið að auglýsa viðburði hjá samkeppnisaðila mínum í leiðinni. Það er súrt að þurfa að reka fyrirtæki í slíku umhverfi og mér féllust hendur eitt augnablik.  Litlu munaði að ég semdi við Finnboga Bernódusson í Mjöllni og fengi hann til að smíða fyrir mig svo stór hjól að þau gætu passað undir Einarshúsið svo ég gæti tryllað því í burtu ásamt öllu mínu hafurtaski en ég veit að það myndi ekkert þýða að biðja Finnboga slíkrar bónar því hann vill hafa mig hér í bænum. Hann hefur á mér miklar mætur og virðir mig og það sem ég er að gera enda ríkir gagnkvæm virðing okkar á milli. Sem betur fer eru svo margir í Víkinni fögru sem eru  traustir þegar á reynir og styðja við bakið á mér og leiða mig styrkri hendi þegar blæs á móti og það er ástæðan fyrir því að hér hef ég fest mínar rætur.  

En maður brosir í gegnum tárin og heldur áfram enda ekkert annað að gera. Ég reyni að hafa það hugfast að bros getur dimmu í dagsljós breytt.  Ég verð aftur komin með sól í sinni þegar ég blogga næst.


Klætt í kjól og hvítt

Klætt í kjól og hvíttVerið er að klæða Einarshúsið í sparifötin og áður en varir verður það ekki lengur ljótasta húsið í bænum heldur hin mesta bæjarprýði. Ég heyri greinlega hjartsláttinn bærast í brjósti hússins með hverju handtaki hagleikssmiða sem vinna nú hörðum höndum við að setja á það bárujárn og færa það í upprunanlegt horf. Brátt getur þetta glæsilega hús speglað sig með stolti í pollinum hér við smábátabryggjuna og séð hversu fallegt það er orðið og endurlifað gamla tíma þegar húsið var nýbyggt og eitt hið fallegasta á landinu. Án efa hefði húsið verið jafnað við jörðu með öllum þeim minningum sem það hefur að geyma og allri þeirri sögu sem liggur í hverri fjöl, hverjum krók og kima ef enginn hefði tekið það upp á sína arma og hlúð að því eins og við. Ég er þess fullviss að löngu horfnir íbúar Einarshúss fylgjast  með þessum stórframkvæmdum með vökulum augum og mikilli velþóknun. Við tilheyrum sögu hússins núna og það er ekki amalegt að sagan mín skuli vera umvafin sögu þessara stórmenna sem búið hafa í þessu merka húsi

Kjötsúpa að hætti hússins

Hverjum langar ekki að koma í alvöru kjöt og kjötsúpu í hádeginu og borða nægju sína. Mikil natni hefur verið lögð í þessa gæða súpu sem bragðast svo framúrskarandi vel að leitun er að öðru bragðbetra. Á föstudögum mun gúllassúpa í bland við kjötsúpu spila stórt hlutverk í hádeginu í allt sumar. Því ekki að mæta og taka lífið létt yfir rjúkandi súpu. Sjáumst hress.

Bloggfærslur 15. júní 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635892

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband