Afmælisboð

Nú skal blásið til stórveislu 1. maí því Vertinn á afmæli. Þrátt fyrir að heil 42 ár séu nú að baki ber Vertinn sig afskaplega vel enda nokkuð ern ef miðað er við aldur. Ég er stolt af hverju einasta ári enda hef ég lifað þeim að mestu leiti leiti í sátt við guð og menn. Maður á að gleðjast yfir hverju ári sem safnast í sarpinn og ég þakka fyrir að fá að vera ung í anda og létt í lund.

Mig langar að bjóða ykkur öllum til mín í Einarshúsið á málverkasýningu hjá Reyni Torfa kl. 15:00 - 19:00 og njóta þessa að hitta mig og dáðst að málverkunum hans. Blóm og kransar eru vinsamlega afþakkaðir en það myndi gleðja mig mikið ef þið létuð sjá ykkur og fögnuðuð þessum tímamótum með mér.

Annars leið dagurinn eins og örskot og mikið var að gera. Umsýsla í kring um svona rekstur er ótrúlega mikill. Tröppurnar á Einarshúsinu voru steyptar í dag svo húsið fer að fá sitt upprunanlega andlit. Allt kemur þetta í rólegheitunum því góðir hlutir gerast hægt og ekkert þýðir að vera með neinn asa. Það verður gríðarlegur munur þegar nýju útidyrnar sem eru smíðum verða komnar á sinn stað en þá fyrst mun húsið breyta um svip.

Forstjóri DAS mætti til að stappa í mig stálinu en ég er með umboð fyrir það happdrætti. Hann þáði dýrindis kaffi og var allur annar maður á eftir. Nú fer nýtt happdrættisár að byrja og brýnt að spíta í lófana því mikið liggur við að halda áfram byggingu dvalarheimila. Til stendur að stækka herbergin á Hrafnistu í Reykjavík því þau standast ekki lengur tímans tönn og brýnt að færa þau nær nútímanum. Ég bauð honum að flytja höfuðstöðvar happdrættisins hingað í Víkina en hann gaf ekkert út á það en ég held áfram að þjarma að honum því okkur vantar störfin hingað vestur og það strax. Það er langt þangað til ég fer á Hrafnistu enda bráðung og fjörið rétt að byrja og nægur tími til að huga að varanlegum dvalarstað í ellinni.

AmmaÞað er þó töluvert styttra þangað til amman á myndinni hér til hliðar fer á elliheimilið en hún er einnig 1. maí barn eins og ég bara mikið eldri. Við Halla Signý erum búnar að vera vinkonur síðan við vorum unglingar og sá vinskapur heldur enn. Ólöf María kom í heimsókn með ömmu sinni einn daginn og skemmti sér hið besta. Halla er bara hreint ágæt kerlingin og ég nota hér tækifæri og sendi henni afmæliskveðju.

Að öðru leiti þaut þessi dagur hjá með ógnarhraða eins og hver annar. Tíminn til að blogga af einhverju viti er af skornum skammti en það mun vonandi hægast um innan tíðar.

Læt þetta duga í bili og ég hlakka til að hitta ykkur í tilefni afmælisins. Sjáumst eldhress.

 

 


Hugleiðingar eftir helgi

Þá hefur enn ein helgin runnið sitt skeið á enda og ný vika er runnin upp. Hver dagur sem líður er gott innlegg í sjóð dýrmætra minninga. Helgin er búin að vera góð en annasöm  eins og flestar aðrar helgar hjá Vertinum í Einarshúsi. Ég stóð vaktina báðar næturnar með draumadísinni minni henni Gunnu Ásgeirs. Spilavistin gekk vel fyrir sig eins og við var að búast og töpuðu Doddi og Hrafnhildur með glans en Óli, hennar Þórunnar og Mæja Þórarins fóru með sigur af hólmi í æsilegri baráttu spilafíkla á spilavist. Kex, ostar og vínber voru í boði og allir kunnu að meta þær trakteringar og menn og konur voru í góðum gír. Fólk sat frameftir nóttu og naut þess að sitja að spjalli við mann og annan og létt var yfir mannskapnum.

Vertinn svaf eins og ungabarn á laugardag en vaknaði að endingu í yndislega fallegan dag þar sem sólin lék við börnin sín og heitur vindurinn tók þátt í leiknum. Ég og Elsa hoppuðum á trampolíninu þessum fallega degi til heiðurs og laðaði glaðværðin og hlátarsköllin Sísí með í leikinn en hún var í göngutúr. Lékum við okkur eins og krakkar um stund enda erum við óttalega börn og  það er gott að geta leikið sér áhyggjulaus þrátt fyrir að vera orðin rígfullorðin. Blessuð börnin í nágrenninu flissuðu og vissu ekki sitt rjúkandi ráð er við kerlingarnar svifum meðal fuglanna í hæstu hæðum og létum eins og fífl. Vonandi geta þau látið svona á okkar aldri.  

Vertinn í Kjallaranum þurfti að leita á náðir Vertsins á Langa Manga því allur bjór var nærri búinn og Gummi reddaði mér enda bóngóður líkt og aðrir góðir veitingamenn. Þá hafið frúin hans og forsprakki Óbeislaðrara fegurðar hún Matta, verið í útvarpsviðtali um morguninn og gerði hún feiknafjöri á þessum tveim eðalkrám hér fyrir vestan góð skil. Ég kann vel við slíka samvinnu sem er lýsandi dæmi um hve sterk við getum verið ef við vinnum saman. Gummi kemur innan tíðar að spila í Kjallaranum og komin tími til að hann spili fyrir okkur Víkarana.

Undirbúningur fyrir myndlistasýningu hjá Reyni frænda mínum er í algleymingi og kom hann og Gígja í dag með fullan bíl af málverkum sem príða munu veggi Einarshúss á 1. maí. Við drukkum kaffi og jógúrtköku úti á palli og nutum veðurblíðunnar ásamt mömmu og pabba. Ljómandi góður dagur.

Mikil hátíðarhöld hafa verið í Grikklandi undanfarna daga er fregnir bárust af því að Vertinn hyggur á landvinninga á eyjuna Rhodos í ágúst nk. Stefnt er að því að vera þar í hálfan mánuð og hitta aðra þjóðhöfðinga og fyrirmenn. Allur hópurinn minn kemur með auk Bryndísar bróðurdóttur minnar sem fær að fljóta með enda er kært á milli hennar og Lilju. Þetta verður hreint æðislegt og ég hlakka til að njóta seiðandi sólar á suðrænni strönd með krökkunum mínum.  Þvílíkur munaður að geta leift sér slíkt og mikið er ég lánsöm.

 

 


Bloggfærslur 30. apríl 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband