Landsfundurinn

FanneyLandsfundur sjálfstæðismanna var settur í dag við hátíðlega athöfn í Laugardalshöllinni. Múgur og margmenni var mætt á svæðið til að sýna sig og sjá aðra. Ég mætti aðeins of seint því ég var á Café Milano með Fanney að úða í mig súkkulaði köku af bestu sort. Fanney vinkona er mjög hrifin af súkkulaðikökum af ýmsu taki og sýnir okkur hér með stolti dýrindis köku sem hún borðaði með bestu list. Fundargestir voru orðnir frekar óþreyjufullir að bíða eftir Vertinum og þegar ég gekk í salinn litu sumir mig hornauga. Strax og ég settist var Diddú gefið orðið og hún söng ættjarðarsöngva í bland við aðra gleðisöngva og hafði hún sér til fulltingis Jóhann Friðgeir ásamt Léttsveit Reykjavíkur. Ég er orðin svo gömul að mér er farið að þykja gaman af klassískum söng og naut min í botn. Að endingu gengu allir frambjóðendur fram á sviðið og var þeim vel fagnað af viðstöddum enda prýðis fólk í forustusveit. Ég stóð upp við og við til að reyna að festa forsætisráðherra og aðra tigna fyrirmenn á filmu og héldu fundarmenn þá að þeir ættu að standa upp líka og var það eins og við manninn mælt að það nægði að ég stæði upp þá risu allir aðrir úr sætum en talið er að um 2000 þúsund gestir sitji þennan 37. landsfund Sjálfstæðismanna. Ég rabbaði smá stund við alla helstu ráðherra í ríkisstjórn Íslands og heyrði ég lítið barn spyrja mömmu sína hvaða karlar þetta væru við hliðina á Vertinum. Það er auðvita von að barnið spyrji.

Ég varð einum endajaxlinum fátækari í dag en hann var dreginn úr með miklum tilþrifum. Það varð víst að gera það og ekkert meira um það að segja. Mig er búið að verkja talsvert í dag en það er vonandi að líða hjá. Ég hitti tannlækninn í fyrramálið og þá verður nýja postulínsbrúin borin við andlitið á Vertinum og það er eins gott að hún passi og að hún lappi eitthvað upp á útlitið. Þegar þig sjáið mig næst getið þið átt von á svo hvítu og geislandi brosi að trúlega á það eftir að minna ykkur á nýþvegna klósettskál.

Ég er alltaf að dudda eitthvað í víkaranum og set inn fréttir við og við. Baldur lánaði mér tölvu svo ég gæti bloggað svo ég verða að reyna að vinna eitthvað í staðinn. Ég er að hringja í alla sem ég þekki eða sem mig langar að kynnast sem eiga peninga og væru til í að styðja og styrkja við bakið á okkur og það á eftir að ganga vel. Ég er nokkuð viss um það að þeir láta eitthvað af hendi rakna á endanum bara til að losna við kvabbið í mér. Ef þið viljið auglýsa á frábærum netmiðli og jafnvel veita styrki til að styðja við bakið á vikara.is þá sendið mér línu. Ég er þess fullviss að þessi litli netmiðill skipti miklu máli fyrir litla samfélagið okkar.

vertinn.jpgBúið er að biðja Vertinn um að vera gestapenni á síðu hjá einum vel þekktum manni í þjóðfélaginu. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að einhver skuli nenna að lesa þessa vitleysu sem ég buna út úr mér. Ég læt ykkur vita síðar hvar sá pistill kemur til með að birtast. En sá pistill á án efa eftir að vera stórskemmtilegur ef ég dett niður á að skrifa um eitthvað af viti. Set að gamni sjálfsmynd af mér sjálfri svona bara rétt til að lyfta egóinu upp á hærra plan en þarna sit ég sjálf á Óliver og ber svipurinn með sér að ég sé að segja eitthvað bráðsmellið við sessunauta mína.

Föstudagurinn 13 er á morgun. Vonandi ber hann eitthvað skemmtilegt í skauti sér. Ég sit að mestu leiti landsfundinn og get án efa sagt ykkur eitthvað krassandi þegar tækifæri gefst næst til að blogga.

 


Oliver

Ég rauk upp með andfælum um miðja nótt og náði vart andanum. Þá hafði brúin losnað og stóð föst í hálsinum á mér svo ég átti í miklum erfiðsmunum að draga næganlegt loft í lungun og var því hætt komin. Mér tókst með miklu snarræði að ná henni aftur svo andardrátturinn varð eðlilegur á ný og ég hef haft það eftir atvikum í dag. Það vildi til að blokkin sem ég bý í er ætluð þeim sem eru 50 ára og eldri svo allar nauðsynlegar skyndihjálpargræjur eru við hendina og það hefur án efa bjargað lífi mínu. Tannlæknirinn brást fljótt og vel við þessum hrikalegu aðstæðum og kallaði mig til sín í dag og reddaði málunum. Þá komst ég að því að hann er margfrægur körfuboltamaður og leikur með Stjörnunni í úrvalsliði og er á leið til Bandaríkanna eftir helgi. Þar ætlar hann að berja aðra handboltamenn augum og leika fótbolta og hafa gaman af. Hann hefur því greinilega margt til brunns að bera annað en að vera þokkalega góður tannlæknir. Hann virðist líka liðtækur í að handfjatla skopparabolta.

Áslaug, Beta, Ragna, Fanney og MæjaVið bekkjarsysturnar hittumst á Oliver og borðuðum saman dýrindiskvöldmáltíð þar sem bragðlaukarnir voru kitlaðir af gómsætum réttum. Þjónustan góð og maturinn til fyrirmyndar. Það var auðséð að stelpurnar höfðu eytt miklum og löngum tíma í að spartla í dýpstu hrukkurnar og mála síðan yfir öll herlegheitin. Magabeltin stóðu þeim inn að beini svo þær náðu varla andanum og ég tók út fyrir að horfa upp á þær blessaðar reyna að ná andanum með erfiðismunum. Þær voru þó með fullri fimm og nokkuð með á allt sem sagt var og það var til bóta. Það kom ekki að sök þótt ég hefði misst 20 kíló frá því er við hittumst síðast því þær höfðu bætt svo duglega á sig að meðalfallþunginn var svipaður og þegar við hittumst fyrir um ári síðan. Þetta er auðvita allt haugalygi því eins og sjá má á myndinni hér til hliðar þá fara hér þvílíkar fegurðardísir að það þótti tíðindum sæta að hafa svona gersemar allar inn á einum og sama staðnum. Við áttum þvílíkt skemmtilegt kvöld og mikið gátum við skemmt okkur yfir sögum sem við sögðum hver af annarri. Það er alltaf eins og við hefðum hist í gær og þannig er það með góðar vinkonur. Ég og Fanney ætlum að hittast aftur á morgun og jafnvel dífa tánni í Bláa Lónið ef vel viðrar.

Landsfundur Sjálfstæðismanna byrjar á morgun og þar er í fyrsta sinn sem ég sit þann fund. Það verður spennandi og gaman og ég hef heyrt að ráðherrar og aðrir þingmenn hlakki til að hitta Vertinn. Þið fáið kannski að fylgjast frekar með því síðar.

 

 


Bloggfærslur 12. apríl 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband