Fótsporin í sandinum

Þið voruð afar nærgætin í morgun og tókuð tillit til óska minna um að þið hefðuð hljótt um ykkur svo ég gæti sofið. Húshjálpin mín er svo hljóðlát að ég vaknaði ekki fyrr en hún var farin og búin að fara um húsið eins og hvítur stormsveipur svo allt var orðið skínandi hreint og fínt. Nýlagað kaffi beið mín á eldhúsborðinu og skilaboð í símanum mínum frá henni um óskir um góðan dag. Er ég ekki heppin að eiga svona góða konu sem hugsar svona vel um mig. Hún hafi rekið augun í að þessar fáu plöntur sem prýða hýbíli mín höfðu ekki fengið deigan vatnsdropa um langt skeið og gaf þeim að drekka og verður það þeim trúlega til lífs. Á meðan sveif ég um meðal blómanna í fallegum draumi þar sem rósir skiptust á skoðunum við túlipana og sólin skein svo glatt á grösug tún og engi. Ljóðrænt finnst ykkur ekki? Alveg í mínum anda.

Ég fékk fregnir af því í dag að ég hefði verið notuð sem aðalstjarnan í fyrirlestri sem ung kona að nafni Bjarndís vann í Háskóla Íslands nýverið. Þar átti hún að hafa viðtal við einhvern í atvinnurekstri og tók hún mig sem dæmi og ég tel að það hafi verið mjög skynsamlega valið. Þessu var síðan öllu varpað upp á skjá og glærusjów mikið var látið rúlla þó nokkra stund með miklum tilþrifum þar sem myndum af Vertinum í bland við stórgott viðtal var borið á borð fyrir hina bráðskörpu nemendur Háskólans. Þetta fór auðvitað allt fram á greinargóðri Oxford ensku og þótti frábært í alla staði. Reyndar var aldrei rætt við mig vegna þessa heldur var þessu hnoðað saman við eldhúsborðið hjá Maddý mágkonu minni og mömmu fyrrnefndrar Bjarndísar og fórst það þeim svona líka vel úr hendi að hún fékk víst 11 í einkunn af 10 mögulegum. Þær rang feðruðu mig reyndar og sögðu mig Jónsdóttur sem er auðvita alrangt eins og þið vitið. Ég hef alla tíð verið sögð lík honum pabba mínum og ég veit ekki til að hann hafi nokkurn tíma þrætt fyrir mig enda hefur hann ekki haft ástæðu til þess. Ég fyrirgef þeim þó þessa yfirsjón. Bjarndís er mikil fyrirsæta og prýða myndir af henni hin ýmsu auglýsingaskilti víðs vegar um höfuðborgina og einnig er hún mjög oft valin til að sitja fyrir í margvíslegum auglýsingum sem birtast í blöðunum. Ég ætla að reyna að setja mynd af henni í fjölskyldu albúmið mitt.

Af deginum er þetta annars að frétta að ég fór í hesthúsin en það þykir ekki fréttnæmt því það geri ég á hverjum degi. Í þetta skiptið þurfti ég að narra bílinn út úr pabba því bíllinn minn var ekki viðlátinn. Ég festi mig í innkeyrslunni enda hefur fest töluverðan snjó hér í dag. Kom þá ekki Reimar eins og engill af himnum ofan um hæl og bjargaði mér út úr þessum klaufaskap. 

Ég er eitthvað að fá áhuga á ræktinni aftur og fór í dag og tók vel á og gerði mínar 50 magaæfingar í bland við annað púl en ég var að hugsa um að taka þátt í fegurðarsamkeppni um óbeislaða fegurð. Fitukeppirnir mínir eru reyndar allir horfnir út í veður og vind svo ekki get ég unnið á þá en það er ýmislegt annað sem ég hugsanlega gæti krækt í einhver atkvæði á. Ég er þess svo fullviss að ég myndi vinna slíka keppni með miklum yfirburðum og valda sorg og sút hjá meðkeppendum mínum svo ég ætla að láta það nægja að láta mína sjálfsánægju í ljós hér á blogginu og taka ekki þátt í keppninni.

Kjúklingur var hanteraður í kvöldmatinn og kom Anna Sigga í mat en hún er að undirbúa útförina hjá pabba sínum sem lést á dögunum og það er í nógu að snúast í kringum það og gott að þurfa ekki að vera að elda meðan á því stendur. Þau hjónin munu trúlega gista hjá mér yfir helgina.

Halla Signý verður spyrill í Kjallarakeppninni á föstudagskvöldið og þá er eins gott að vera vel með á nótunum því hún er nokkuð skörp stelpan. Hún fer til Ítalíu eftir helgina ásamt fríðu föruneyti innan lögreglunnar á Ísafirði og mun Gógó vera ein þeirra sem fær að fara með. Siggi stormur spáir víst úrkomu á Ítalíu fram í vikuna og ég reikna fastlega með að úrkoman verið í formi snjóstorms. Mér væri að sjálfsögðu alls ekki skemmt ef allt myndi fenna í kaf í Róm rétt á meðan þau stöldruðu þar við en trúlega myndi ég brosa út í annað.

Tónleikar The Pitchfork Rebellion verða á laugardagskvöldið og hefjast þeir klukkan 23:00.

Þannig að þið sjáið að verkefnin eru næg.

Enn kvartar fólk yfir því að geta ekki kvittað innlitið á síðuna. Ég botna nú ekkert í þessum klaufaskap minna lesenda og hvet ykkur til að gefast ekki upp.

Það er gaman að skilja eftir fótspor í sandinum á hverri strönd sem við heimsækjum til að geta sagt að þangað höfum við komið.

 

 

 


Bloggfærslur 6. mars 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband