Kveðja

Lífið er ævintýri líkast þessa dagana og fjölbreytileiki þess hefur ákveðið að hreiðra um sig við hlið mér. Ég heillast upp úr skónum af nýja starfinu mínu hjá vikara og lifi mig alveg inn í að setja fréttir á vefinn. Ég er vakin og sofin yfir hugmyndum sem ég gæti nýtt til að lífga upp á vefinn og hugurinn starfar af fullum krafti. Ég nýt þess að eiga í samskiptum við skemmtilegt fólk en nóg framboð er á slíku hér í Víkinni. Ég vona að lesendur sjái jákvæðar og skemmtilegar breytingar á víkaranum í náinni framtíð.

Ég fór í Víkurbæ og fylgdist með undirbúningi árshátíðar grunnskólans í gær og spjallaði við nemendur og kennara, tók myndir og annað sem fréttaritara ber að gera. Krakkarnir hafa unnið metnaðarfulla dagskrá og gaman verður að fara og njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða.

Það sprakk rör í Einarshúsinu en það er engin ný saga. Þessi rör hafa þó þá skynsemi að fara ekki alltaf í sundur á sama stað til að auka fjölbreytileikann. Nú fór rör í loftinu á annari hæð og þegar ég slysaðist þangað inn af eintómri rælni um miðjan dag í gær, fossaði Dynjandi niður úr loftinu í eldhúsinu og allt var komið á flot á báðum hæðum. Ég fékk auðvitað áfall eins og venjulega þegar rörin í Einarshúsinu taka upp á þessum hrekkjum. Æðin sem liggur upp eftir enninu á mér og er venjulega frekar áberandi, tútnaði svo út að ég hélt að hún myndi springa með hvelli í andlitið á mér. Það hefði verið afar bagalegt því mig grunar að hún dæli öllu blóði frá hjartanu til heilans í taktföstum slögum og ég hefði trúlega misst vitið ef hún hefði látið undan þrýstingnum. Það sem gerði mig óvanalega taugabilaða var tilhugsunin um að nú væri allt ónýtt í húsinu og ég var ótryggð. Þegar ég hafði skrúfað fyrir inntakið á húsinu bakkaði ég út úr þessum hrikalegu aðstæðum og fór á kontorinn til Víðis og tryggði allt í botn. Þannig að nú má allt fara norður og niður án þess að ég þurfi að fara fá límingunum.

Þegar við komum í gærkvöldi sá nánast ekki á neinu og það var kraftaverki líkast hvernig allt hafði bjargast með undraverðum hætti. Það eru svo sannarlega góðir vættir sem fylgja þessu húsi og þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda og verja húsið með öllu því sem þar er. Ég upplifði svo sannarlega að Einarhúsið er hús gleði og góðra stunda. Mér fannst ég finna nálægð liðinna tíma og þeirra íbúa sem þarna hafa búið og tilfinningin var góð og ljúf.

Í gærkvöldi fékk ég svo fallega sendingu frá vini mínum að ég klökknaði nærri og brast í grát. Ég hef ekki oft verið svona djúpt snortin. Jónmundur Kjartansson eða Jómmi  var búin að semja svo yndislega fallegt lag við ljóðið sem ég samdi um hann Per og var mín "Kveðja" til hans. Hann sendi mér það útsett með öllum mögulegum hljóðfærum. Um tíma hélt ég að sinfónían öll væri komin til liðs við hann með Hávarð Tryggvason fyrsta bassa og vin okkar í fararbroddi. Síðan söng Jómmi texann með sinni ýðilfögru röddu og ég segi það alveg satt að þetta hélt ég að ég ætti aldrei eftir að upplifa og ég er svo þakklát. Ég hlusta á þetta aftur og aftur og vonandi fáið þið að heyra það einhvern daginn.

Við skulum vera þakklát því fólki sem gleður okkur, það eru hinir gæskuríku garðyrkjumenn sem fá sálir okkar til að blómstra.

 


Geiri á Kjallarakeppni

Sigurgeir Þórarinsson verður spyrill í fimmtu "Kjallarakeppni" ársins en svo Allt mögulegt nóvember 06 147nefnist spurningakeppni í léttum dúr sem fer fram á kránni Kjallaranum í Einarshúsi í Bolungarvík. Spurningakeppnin gengur almennt undir heitinu "Pub-Quiz" og fer þannig fram að gestir Kjallarans svara 30 spurningum og hlýtur sigurvegari kvöldsins að launum vegleg verðlaun í fljótandi formi. Tveir keppendur mynda hvert lið og er öllum heimil þátttaka. Keppnin er á föstudagskvöldið 23. mars og hefst stundvíslega kl. 22:30. Geiri þykir með eindæmum skarpur strákur og semur án efa snúnar spurningar svo það er eins gott að vera búin að lesa sér vel til um alla skapaða hluti. Ég greip hann glóðvolgan í sundlauginni á dögunum og fékk hann til að vera spyrill því Kristinn H. Gunnarsson heltist úr lestinni. Geiri var meira en til í tuskið enda bóngóður með afbrigðum.

Á myndinni eru tveir góðir í góðum gír á góðri stundu í Kjallaranum.

Trúlega verða góð tilboð í kolageymslunni. Það verða örugglega einhverjir afslættir og spottprísar á köldum kolamolum.

Mætið, njótið, drekkið og verið glaðir.

Sjáumst hress og kát


Bloggfærslur 23. mars 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband