Ný tækifæri

Enn einn dagur vona og væntinga er runninn upp og hér sit ég og blogga og get ekki annað. Skattaskýrslan öskrar á mig og heimtar að ég sinni henni ekki seinna en strax því síðasti skiladagur er í dag. Alveg er það makalaust hve erfitt er að koma sér að því að klára að fylla hana út eins og þetta er lítið mál þegar verkið er hafið. Ég tek mér tak í dag þegar ég er búin að blogga, fara í göngutúr, gefa hestunum, versla, heimsækja mömmu............................Ætli ég fái ekki bara frest. Svona gengur þetta fyrir sig fyrir hver virðisaukaskattsskil. Einmitt þá finn ég mér allt til dundurs annað en að klára virðisaukann og ég er til í að gera nánast hvað sem er til að losna undan þessu. Mér tekst samt yfirleitt að skila vsk. í tíma eða svona sirka tvær mínútur í.

Annars hef ég hvorki haft tíma til að setja í uppþvottavélina, þvottavélina eða brauðristina undafarna daga vegna tíðra heimsókna á síðuna mína. Ég þakka ykkur komuna og gleðst yfir því að þið skuluð hafa gaman af þessu og undrast það í raun, þar sem ég hvorki úttala mig um pólitík eða perraskap sem virðist tröllríða bloggheimum þessa dagana og vikurnar. Ég ætlaði mér að vera á léttu nótunum og segja frá einhverju skemmtilegu í þessu spjalli mínu og það greinilega fellur í kramið.

Lífið er steinbíturLífið á höfninni gengur sinn vanagang og þar er oft handagangur í öskjunni. Þarna má sjá silfurhærðan sjómann velja sér vænan steinbít til að skella á pönnuna. Þessi er búin að vera viðloðandi sjómennsku frá unga aldri og þekkir ekkert annað.  Sjórinn lokkar og laðar og þeir sem einu sinni verða hugfangnir af Ægi vera það ætíð. Sumir eru ekki eins lánsamir og þessi sjómaður í viðureign sinni við brimfesta Báru. Nú er söfnun hafin ættingjum skipverjans á Björgu Hauks til handa en hún fórst 13. mars sl. og þar lutu tveir menn í lægra haldi fyrir ógnarmætti hafsins. Eiríkur Þórðarson var annar þeirra og fyrir þá sem vilja styðja við bakið á fjölskyldu hans, er reikningurinn í Glitni á Ísafirði og er númer 0556-26-603900. Kennitala: 060951-3499.

Fundur í hæstvirtu Menningarráði var í gær og aðeins 11 mál voru á dagskrá. Þar vorum við aðalega að fara yfir styrkumsóknir og veita styrki í menningarviðburði. Ákveðið var að auglýsa eftir umsjónaraðilum um að sjá um markaðsdag fyrstu helgina i júli sem haldinn er hátíðlegur ár hvert. Fundurinn var alltof langur og heilinn í mér löngu kominn á yfirsnúning. Það er ekki hægt að sitja á fundum í rúma þrjá tíma án þess að verða hálf ruglaður. Stuttir hnitmiðaðir fundir og eru bestir.

Undir brúnni er yfirskrift myndarinnar hér til hliðar. Lítil bolvísk snót situr Undir brúnnimeð rauða húfu og horfir dreymin inn í framtíðina. Vonandi getur hún séð framtíðina fyrir sér hér fyrir vestan. Við verðum að lifa í þeirri trú að Vestfirðir eigi bjarta framtíð fyrir sér því hér er svo gott að búa. Það er kominn tími til að við náum upp á traustbyggðu brúnna sem brúar boðaföllin hér vestra. Þá getum við með stolti litið yfir sviðið og séð rífandi uppgang með fjölgun atvinnutækifæra og fjölgun íbúa.

vikara.is hefur verði vandi á höndum frá því að ég tók upp á því að blogga. Ég hef haldið úti öflugri fréttasíðu hér á blogginu mínu eins og þið vitið og flutt afar áreiðanlegar fréttir héðan og þaðan en þó aðalega af sjálfri mér. Baldur Smári hefur litið mig hornauga af og til, hálf ráðvilltur yfir þessu öllu saman en skelfing er þetta útsmoginn og séður strákur. Nýverið spilaði hann út öllum sínum trompum og réð vertinn sem umsjónarmann vikara.is og drap þar með niður alla samkeppni. Hann var reyndar búin að setja hjartagosann út áður og krækti í kærustuna sína á hann svo hann var ekki í boði í þessu sambandi. Wink Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og ég veit að ég á eftir að hafa gaman af þessu. Þarna sjáið þið, það alltaf bíða ný tækifæri handan við hornið. Það er gaman að hlakka til einhvers sem er skemmtilegt og spennandi. Minn fyrsti starfsdagur er í dag.

Lukkan leiðir mig gegnum lífið það er víst ábyggilegt.

Njótið dagsins

 


Auður

 

AuðurAuður systir min á afmæli í dag. Hún er fjórum árum eldri en ég og er því rétt liðlega tvítug. Mér datt í hug að senda henni eftirfarandi ljóð sem er eftir Bjarneyju Jónsdóttur, systur hennar tengdamömmu og er einstaklega fallegt og hittir beint í hjartastað.  

Lékum saman litlar systur og lífið beið.

Og lífið kom með ljós og skugga á langri leið.

Þó saman tvinni þær Sorg og Gleði sinn slungna vef,

þá syngi þér leikandi lukkudísir sitt ljúfa stef.

 

 

Það er mikill auður að eiga þig fyrir systir, Auður.

Til hamingju með afmælið og njóttu dagsins.

 


Bloggfærslur 21. mars 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband