Spilavist í Einarshúsi

Spilavistin heldur áfram í Einarshúsinu í kvöld klukkan 21:00. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegara kvöldsins og einnig fá þeir sem spilað hafa rassinn úr buxunum smáræði í sárabætur fyrir lélega spilamennsku eða fyrir sína óheppni í spilum.

Nú líkur þriggja kvölda keppni og þeir sem standa upp úr sem sigurvegarar eftir þessar þrjár keppnir geta farið heim með bros á vör því til mikils er að vinna og verðlaunin eftir því. Þess vegna er mikilvægt að mæta öll kvöldin og taka þátt.

Spilað var á átta borðum síðasta spilakvöld og vænta má mikillar þátttöku í kvöld.

Sjáumst hress og kát.

 


Í dagsins önn

Nú andar svoldið köldu að norðan og Kári kuldaboli í er í essinu sínu þennan daginn. Hann er trúlega að mótmæla því hversu hratt við stefnum inn í vorið. Ég bíð með óþreyju eftir því að ganga inn í vorið og sjá allt lifna og dafna í kringum mig. Það gleður hugann að sjá grasið grænka, trén laufgast og brosin breikka á andlitum okkar þegar birtir og ylur vorsins færist yfir. Allar árstíðir hafa þó sinn sjarma en vorið er í uppáhaldi hjá mér. Ég veit reyndar að vorkoman boðar mikla vinnu hjá Vertinum því ég stefni á að hafa opið alla daga í Einarhúsi í sumar og nú þegar er farið að panta mat og kaffi fyrir hópa.  

Ég er búin að vera á fullu í allan dag. Ég passa mig á því að láta mér ekki leiðast eina einustu mínútu. Fyrir utan þessi hefðbundnu daglegu verk eins og að vinna við hannyrðir, baka hnallþórur, skúra skrúbba og bóna, þurrka af og þvo þvotta þá hef ég gert ýmislegt skemmtilegt við daginn í dag.

Töluverður undirbúningur er fyrir Aðalfund sparisjóðsins og það er ótrúlegt hvað marga enda þarf að hnýta til allt gangi eins og í sögu. Dagurinn á morgun verður undirlagður vinnu við þann fund.

Búið er að kaupa vegleg verðlaun fyrir spilavistina og það fer einhver heim sæll og glaður.

Bæjarstjórnarfundurinn var fínn eins og svo oft áður og allt gekk eins og í sögu. Strax eftir fundinn hlustaði ég á Lilju spila á tónleikum í Félagsheimilinu og tókst henni mjög vel upp og ég var bara nokkuð ánægð með mína litlu kerlingu. Krakkarnir stóðu sig reyndar mjög vel upp til hópa og gleðilegt að sjá hvað við eigum efnilega tónlistarmenn hér í Víkinni. Eftir tónleikanna hófst ég handa við að endurraða öllum stólum og borðum upp í félagsheimilinu vegna fundarins.

Bekknum hennar Lilju vantaði texta við lag en þau eru reyklaus bekkur og eru að vinna sérstakt verkefni þessvegna. Það var auðsótt mál og gekk ég í það þegar ég kom heim og kláraði það. Þau eru á þrettánda ári og mér finnst það svo sjálfsagt að þau séu reyklaus en það er auðvita ekkert sjálfsagt á þessum síðustu og verstu tímum. Þau eru mjög heilbrigðir krakkar og vel af guði gerð.

Elsa fór til höfðuborgarinnar í dag í vetrarfríinu sínu. Hún getur þá vonandi eitthvað létt undir með ömmu sinni en hún elur manninn að mestu leiti á spítalanum hjá tengdapabba en veikindi hans hafa ekki þróast eins og vonir stóðu til. Hann er búinn að vera einn mánuð á spítalanum í dag og ekki eru líkur á að hann fari heim í bráð.

Per nágranni minn og góður vinur dvelur á sjúkrahúsinu á Ísafirði og heimsókn til hans er fyrirhugðuð á morgun. Hann er 87 ára gamall og er orðinn lúinn og þreyttur. Ég verð að fá að faðma hann að mér og smella á þennan aldna vin minn kossi.

Læt þetta duga í bili. Ég vona að okkur dreymi öllum ljúfa drauma um ljós og vor.


Bloggfærslur 2. mars 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband