Fréttir af fólki

Það sprakk á bílnum í dag og kemur ekki á óvart. Húsbóndinn er farinn til Reykjavíkur og verður þar í rúma viku vegna vinnu sinnar og yfirleitt þegar hann bregður sér af bæ fer eitthvað úr lagi. Ef það springa ekki vatnsrör sem hafa í för með sér miklar hamfarir með tilheyrandi stórtjónum þá stíflast klósett, þvottavélin gefur upp öndina eða það springur á bílnum. Einmitt á slíkum stundum þarf maður á karlmanni að halda. Ég var svo heppin að Gylfi bróðir minn var staddur hjá mömmu og klæddi sig upp í vetrargallann og aðstoðaði mig við að skipta um dekkið og gengu umskiptin svo hratt fyrir sig að við myndum örugglega slá heimsmet ef keppt væri í slíkri grein. Ég tók ekki tímann en við vorum ábyggilega álíka snögg að skipta um dekkið og séra Sigurður Ægisson var að gifta Gaua bróðir minn á sínum tíma en þau brúðhjón voru lesin með ógnarhraða inn í hjónabandið. Þar var bara rétt stiklað á stóru í boðorðunum tíu og hlaupið var yfir trúarjátninginuna á handahlaupum  og varla gafst tími fyrir faðirvorið. Það telst þó prestinum til tekna að betra er að tala stutt og segja eitthvað af viti heldur en að halda langar ræður um ekki neitt. Séra Baldur í Vatnsfirði var ekki að lengja slíkar athafnir að óþörfu og sagan segir að honum hafi legið svo á í eitt skiptið að gifta að honum hafi ekki gefist tími til að klára faðirvorið og átti að hafa sagt í lok athafnarinnar  "Faðir vor, þú sem ert á himnum og svo framvegis" síðan átti að hafa sést undir yljarnar á klerki út kirkjugólfið. Ekki veit ég hvað er til í þessari sögu.

Gylfi er elstur minna systkina og er nítján árum eldri en ég. Hann var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil stelpa enda ofdekraði hann mig eins og hann gat. Svo týndist hann og var týndur okkur í fjölskyldunni í mörg ár en hefur nú fundið sjálfan sig og okkur og það er gott.  Við tökum honum fagnandi. Hann kemur í heimsókn til mömmu nær daglega og þau eru mestu mátar enda þurfa þau að vinna upp ansi mörg ár sem fóru til spillis.

Egill Ólafs og Lilja 2Tónleikar Sigga Björns sem áttu að vera fjórða apríl falla víst niður samkvæmt nýjustu fréttum og ég er hálf ráðvillt og ringluð yfir því. Það á víst að vera svo mikið um að vera annað í bænum, sem enginn vill kannast við, svo hann ákvað að hætta við að halda tónleikana. Ég er frekar vonsvikin yfir þessu öllu saman og er spennt að heyra hverju þetta sætir. Það verða margar góðar hljómsveitir á Aldrei fór ég suður um páskana og ég bíð hverju því bandi sem vill  fá Kjallarann að láni til skemmtanahalds að hafa samband við mig og hægt er að senda mér línu í netfangið ragna.joh@simnet.is  Kráin í kjallara Einarshúss er opin nánast öllum sem kæra sig um að koma og troða þar upp.

Ég fékk að heyra í dag af smá atvinnu sem mér kannski stendur til boða. Ég tókst öll á loft af spenningi og það birti yfir deginum. Ég held að þetta gæti hentað mér vel en ég bíð róleg og yfirveguð eftir nánari fregnum. 

Þannig að ég er sæl og glöð eftir daginn og full tilhlökkunar eftir morgundeginum. Bæjarráðsfundur er í fyrramálið og það verður gott að hitta bæjarráðsmenn eftir dálítið hlé. Grímur bæjarstjóri er í góðum gír þótt hann hafi farið flikk flakk heljarstökk á Steingrímfjarðarheiði ekki alls fyrir löngu en hann slapp sem betur fer með skrekkinn. Það heldur einhver öflugur yfir honum verndarhendi enda virðist ekki veita ekki af.

Heyrumst á morgun. Þá kem ég ný og fersk með nýjar fréttir.

 


Bölmóðinn á burt

Eitthvað fór bloggfærsla mín í gær fyrri brjóstið á hugsjúkum húsmæðrum héðan og þaðan. Þær sáu sig knúnar til að hafa samband og hafa allar símalínur sem tengjast þessu heimili logað í allan morgun og tilefnið er að peppa kerlinguna upp og hysja hana upp úr öldudalnum sem hún áði við í gær. Það gengur náttúrulega alls ekki að ég fara þannig offari í skrifum mínum að kerlingar vítt og breytt um landið fái taugaáfall út af mínum hugleiðingum. Það var ekki ætlunin. 

Skemmtilegum bæklingi er dreyft í húsin í dag frá Belís Heilsuvörum ehf og þar kennir ýmissa grasa. Þar er hægt að panta allt frá salernishreinsandi töflum upp í höggdeyfandi innlegg. Það er stórskemmtilegt að glugga í þennan pésa og margt forvitnilegt má sjá á síðum hans. Það sem heillar mig mest við fyrsta lestur er varakrem sem sem gerir varirnar ástríðufyllri og stærri en þetta krem hefur einnig áhrif á form varnanna og minnkar hrukkur í kringum munninn. Einnig má sjá fyrirferðalítinn sjóræningja kíkir sem er bara fyrir annað augað og hægt er að súmma inn ógreinilega hluti og gera þá skarpa. Þennan kíki er upplagt að nota í leikhúsinu, á íþróttakappleikjum eða úti í náttúrunni. Ég gæti hugsanlega fylgst svo grannt með Magga Hans með slíkum kíki að hann væri hvergi óhultur. Þetta er engu að síður eitthvað sem hver maður verður að eiga. Ég er áður búin að panta þokugleraugu upp úr þessum pöntunarlista en ég gaf húsbóndanum þau í afmælisgjöf og hann hefur verið nokkuð duglegur að nota þau við sérstakar aðstæður. Ég á eflaust eftir glugga frekar í þennan bækling síðar og leyfa ykkur að fylgjast með.

Það er frekar grámyglulegt um að litast í dag. Hús hafa verið rýmd efst í bænum út af snjóflóðahættu og það eru engar sérstakar gleðifréttir og óþægilegt fyrir það fólk sem það býr. Ég fór í hesthúsin í morgun og leit með rannsakandi augum upp í hlíðar og gil en hesthúsin eru á snjófljóðahættusvæði. Blesi, Brá, Tenór, Úði, Hugur og Vera tóku vel á móti mér er ég birtist og kjamsa nú á tuggunni sinni. Snjóflóð féll fyrir nokkrum árum síðan á hesthúsin sem mínir hestar hafa húsaskjól og fór hálft húsið undir snjó og sex hestar dóu.   

Læt þetta duga í bili.

kveðja

Ragna

 

 

 

 


Bloggfærslur 12. mars 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband