10.2.2007 | 20:54
Mikið að gera
Loksins er farið að hægast um hjá mér og róast yfir. Dagurinn í gær og dag búnir að vera annasamir og taugatrekkjandi. Það er búið að reyna töluvert á þolrifinn í Vertinum en hann stóðst álagið með sóma. Einhverntíma hefði ég bara svolgrað í mig nokkra ískalda til að róa taugarnar en nú er það ekki í boði, samt vaknaði ég grauttimbruð í morgun og er búin að vera hálfslöpp í allan dag. Trúlega má kenna litlum svefni um að einhverju leiti og áhyggjum sem blandast með í kaupbæti, auk mikilla anna.
Súpufundur Sjálfstæðismanna var mjög góður. Einar Kristinn sjávarútvegsráðherra mætti í Einarhúsið með fríðu föruneyti og spjallaði við gesti um hin ýmsu mál. Það var létt hljóðið í fólki og súpan hennar Dóru var mjög góð enda ekki við öðru að búast. Vænta má fregna af jarðgöngum hér á milli innan skamms og sveitastjórnarmenn hafa verið boðaðir á blaðamannafund með samgönguráðherra á mánudaginn kemur. Það verður mjög spennandi að fara á þann fund.
Hópur frá Alta kom óvænt í súpu líka í hádeginu og þau sátu niðri og nuta veitinga, sæl og glöð yfir komu sinni hingað vestur.
Ég fékk ekki starfið sem ég sótti um hjá Skattstjóranum. Hún var búin að benda mér á að það samræmdist ekki alltaf að reka eigið fyrirtæki jafnframt störfum þar, svo ég gat átt von á þessu. Það eru reyndar alltaf viss vonbrigði þegar maður fær ekki það sem manni langar í, en þá opnast bara ný sóknar-og tækifæri sem verður að reyna að nýta sér á sem bestan hátt. Mér fannst ég reyndar merkja mikinn skilning hjá skattstjóra á ágæti mínu í starfsviðtalinu sem ég fór í og þóttist sjá skýr merki þess að henni fyndist enginn umsækjenda hafa tærnar þar sem ég hef hælana en eitthvað hefur mér brugðist bogalistin í þeim útreikningum.
Mér var boðið í teiti í gærkvöldi og ætlaði svo sannarlega að mæta og sýna mig og sjá aðra. Elín Jóns var að útskrifast sem einhver virðisaukaskatts útreikninga sérfræðingur með höfuðáherslu á bókhald og allskonar reikningsskil. Hún er sérfræðingur með tölur og getur reiknað allskonar talnarugl aftur á bak og áfram og fengið það til að STEMMA! Hún er endurskoðandinn minn, er ég ekki heppin. Hún er orðin kerfisfræðingur og lauk því námi með allsherjar partýi sem lukkaðist vel að sögn veislugesta. Það var viðtal við hana í tímaritinu Ský nú nýverið um þetta nám, svo þið verðið að vera dugleg að ferðast flugleiðis hér á milli og lesa um þessa námsfúsu námsmeyju.
Ég er búin að komast að því núna að þarna fer ég auðvita kolrangt með staðreyndir. Kerfisfræði hefur víst ekkert með bókhald að gera.
Partýið fór þó fyrir ofan garð og neðan því það sprakk rör í Einarshúinu svo ALLT fór á flot og ég fór næstum því á taugum. Halda mátti að Gullfoss sjálfur hefði tekið á sig sveig hingað vestur og sett stefnuna beint í Kjallarann, vatnsflaumurinn var þvílíkur. Það vantaði bara að Geysir fylgdi í kjölfarið til tilheyrandi gosi og skvettum. Það hefði kórónað þetta allt saman.
Ég kallaði mína góðu nágranna út með neyðarkalli og komu þau mæðgin Gunnu Ásgeirs og Baldur með það sama, Hafþór pípari kom á leifturhraða og einnig Víðir Ben sem sér um trygginarnar mínar og voru þessir aðilar langt fram á kvöld að veita vatninu út úr húsinu en rör hafði sprungið inn í starfsmannaaðstöðinni. Ég hélt satt best að segja að ég yrði ekki eldri. Jón Bjarni í Reykjavík og þið getið ímyndað ykkur hvernig honum leið að vera þar og geta ekkert gert með mig á barmi taugaáfalls að standa í þessum stórræðum hér heima. Kjallarakeppnin var haldin uppi svo það slapp fyrir horn og sýndu gestir mínir mikla þolinmæði og létu enga óánægju í ljós þótt þeir þyrftu að vaða elginn upp í klof á köflum. Kúnnarnir mínir eru nefnilega frábærir upp til hópa.
Hitinn fór reyndar af húsinu því einhver öryggisloki hafði gefið upp öndina um leið og rörið sprakk en Hafþór kom galvaskur í dag og reddaði því.
Gógó gleðipinni lét bíða eftir sér eins og allar stórstjörnur gera. Hún kom í vaðstígvélum til að undirstrika þetta mikla stórfljót sem rann um kjallaragólfið af krafti. Gógó sló í gegn eins og ætíð, spurði skemmilegra spurninga og hafði húmorinn meðferðist frá Flateyri. Ég fíla fólk með góðan húmor sem kemur til dyranna eins og það er klætt. Að endingu stóðu upp tvö lið með jafnmörg stig, svo farið var í bráðabana. Lið Gríms bæjarstjóra tapaði fyrir liði Höllu Signýar og fór hún heim með vegleg verðlaun í fljótandi formi.
Reytingur var á barnum fram eftir nóttu svo ég sofnaði seint og illa og var ekki nærri útsofinn þegar klukkan vakti mig til að fara á íbúaþingið. Það var reyndar mjög gaman á þinginu og 127 manns mættu sem telst mjög gott miðað við íbúafjölda hér. Fólk tók virkan þátt og það verður virkilega gaman að sjá útkomuna úr þessu öllu saman.
Tengdapabbi er frekar lasinn. Kominn með hita og var komin með súrefni í dag. Það tekur líkamann tíma að jafna sig eftir svo stóran skurð. Hann var þó eitthvað farinn að rölta um svo það er vonandi allt í áttina. Lilja er komin með hita en hún dvelst í Reykjavík eins og áður hefur komið fram og ber sig aumlega í símann þegar við tölum saman en þau feðginin koma heim á morgun.
Í Mogganum á fimmtudaginn var vitnað í bloggið mitt þar sem ég var að tjá mig um grein Hörpu Oddbjörnsdóttur. Svona læði ég mér í alla fjölmiðla með hægð og legg þá undir mig. Bíð bara eftir því að mín verði getið í biblíunni sem eins af spámönnunum.
Elsa er farin að halda upp á afmælið og ég er ein að rolast. Halla Signý er þó mjög frambærilegur gestgjafi svo ætli ég heimsæki hana ekki í kvöld en hún hringdi áðan og er væntanlega að undirbúa komu mína. Okkur gömlu konunum finnst gaman að rifja upp liðna tíma og hlægja saman að gömlum stelpupörum.
Verð að láta hér staðar numið.
Dægurmál | Breytt 11.2.2007 kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2007 | 19:18
Grein vegna Íbúaþings birtist í BB
Í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið.
Svona hljóðar upphafsstefið í Bolungarvíkurbrag eftir Gísla Ólafsson úr Skagafirði sem ortur var árið 1916. Bragurinn er í 17 erindum en oftast eru bara sungin fyrstu tvö erindin. Allir Bolvíkingar geta tekið höndum saman og sungið þennan brag sem einn maður og þá skyggir ekkert á samheldni bæjarbúa, allir halda lagi og dilla sér með í góðum takti. Segja má að þessi söngur sé okkar sameiningartákn og þegar við kyrjum hann saman á góðri stundu, fyllumst við stolti yfir því að vera Bolvíkingar. Það er rok, rok ég ræ ekki, hefur síðan smokrað sér inn í þennan taktfasta texta og er sungið sem eitt sérstakt erindi á Þorrablótinu hér í bæ. Krækja menn þá höndum saman og róa sér í sætunum líkt og stefnan væri tekin á gjöful fiskimið, er stefið er sungið.
Það er rok, rok ég ræ ekki...hvað geri ég þá? er einmitt yfirskriftin á Íbúaþingi sem halda á 10. febrúar nk. hér í Bolungarvík. Þessi yfirskrift vekur vissulega upp spurningar um hvert stefnir hér í byggðarlaginu en líka hvaða úrræði við sjáum fyrir okkur í framtíðinni til að eflast og styrkjast. Ekki ætlum við að leggja árar í bát heldur róa á mið sóknar og tækifæra, því mikill dugur er í Bolvíkingum og samstaða ríkir um velferð bæjarins.
Á þessum íbúaþingi verður leitast við að fá hugmyndir bæjarbúa um þeirra framtíðarsýn á byggðarlagið. Metnaðarfull dagskrá hefur verið unnin þar sem áhersla er lögð á atvinnumál, umhverfi, útivist og yfirbragð sem og ásýnd byggðarinnar svo fátt eitt sé nefnt.
Ég bind vonir við það að sem flestir mæti á þetta þing og móti sér skoðanir á samfélaginu sem við búum í og sköpum saman og komi með tillögur um hvernig best sé að feta veginn áfram í átt að enn björgulegra lífi í Bolungarvík.
Mættu á staðinn og taktu þátt, því þín skoðun skiptir máli.
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir. Bæjarfulltrúi og starfa í stýrihópi um íbúaþing.Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2007 | 09:55
Afmæli
Elsa mín á afmæli í dag, hún er átján ára gömul blessuð stelpan. Það er orðið hart þegar börnin eru að verða eldri en maður sjálfur. Það verður víst meiriháttar teiti í kvöld fyrir félagana og án efa mjög gaman. Til hamingju Elsa og stattu þig áfram jafn vel og þú hefur gert hingað til.
Annars er ég að verða of sein á íbúaþingið, svaf eiginlega yfir mig því ég þurfti að vaka svo lengi.
Heilmikið fjör í gær sem ég segi ykkur frá síðar í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggfærslur 10. febrúar 2007
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635895
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm