18.12.2007 | 23:29
Föndrað fyrir jólin
Eitt af því sem bráð nauðsynlegt telst að gera fyrir jólin er að föndra og viðahafa annan myndarskap. Jólakort voru í miklu uppáhaldi listakvenna sem settust niður í erli dagsins í Einarshúsi og föndruðu lifandis býsn fyrir jólin. Glans og glimmer sáldraðist um allt hús eins og englaryk og englarnir flögruðu um með vængjaþyt og bros á vör. Jesúbarnið hjalaði í jötunni sinni á sumum glansmyndanna og vitringarnir þrír komu færandi hendi með gull, reykelsi og myrru og reykelsisangan lagði um Einarshúsið og glöggt mátti finna að hátíð ljóss og friðar var að ganga í garð. Bull, ergelsi og fyrra átti því ekki upp á pallborðið hjá þessum ungu konum á myndinni til hliðar en þær Þórunn, Elsa og Lilja voru niðursokknar í jólaföndur í dag.
Ólína Þorvarðar mun lesa upp úr Vestanvindum í hádeginu á fimmtudag yfir rjúkandi súpu og vonandi verða veðurguðirnir til friðs svo hún komist klakklaust Hlíðina. Gunnar Sigurðsson ætlar að grípa í jólabók í leiðinni og lesa fyrir okkur hin og þið eru hvött til að mæta.
Sr. Agnes og Jónas munu reka endahnútinn á upplestur úr jólabókum í hádeginu á föstudag og ég tel brýnt að mæta til að hlusta á prestinn og sýslumanninn hefja upp raust sína. Ekki veit ég hvort hægt verði að fá syndaaflausn í leiðinni hjá prestinum eða niðurfellingu sekta hjá sýslumanninum, annað eins hefur þó gerst í Einarshúsi gegnum árin og hvet ég sem flesta til að mæta í hádegissúpuna og hlusta á fyrrnefnda embættismenn svo hægt verði að taka á móti jólunum með hreint borð.
Klukkan þrjú á laugardag ætlar dæmalaust dúó sem skipað er engum öðrum en Ella Ketils og Hjöddu að mæta í Einarshús og syngja og spila jólalögin. Af því má engin maður missa en þetta telst góð upphitun fyrir Ella Ketils en hann er á leið til Kanarí í janúar og þar mun hann væntanlega troða upp á hverju kvöldi margar vikur í röð. Ætli Vertinn sjálf lesi ekki bráðskemmtilega jólasögu, af sinni einskæru hógværð og lítillæti, sem henni áskotnaðist nýverið. Eins og allir vita er títtnefndur Vert alls ekki fyrir það að koma fram eða láta bera á sér á einn eða annan hátt en mun þó gera þessa undantekningu í þetta sinn. Hver veit nema fleiri komi til með að láta ljós sitt skína á laugardaginn og þið fáið að vita að því jafnóðum.
Biggi Olgeirs ætlar svo að trylla lýðinn á laugardagskvöldið og allir mæta eins og ætíð þegar Biggi treður upp. Kannski verða tilboð í kolageymslunni, hver veit.
Dúndurfréttir herma að fjör verði í Íþróttahúsinu Torfnesi og fregnir herma að Vertinn í Víkinni verði á svæðinu ásamt sínu skylduliði. Munið að kaupa miðana í tíma því bráðnauðsynlegt er að hlýða á þessa langbestu eftirhermuhljómsveit allra tíma.
Malt og Appelsín er afskaplega góð blanda og mun hún vera í réttum hlutföllum í Kjallaranum á laugardagskvöldið 29. desember. Þar munu læknirinn og bæjarstjórinn, sundþjálfarinn og einhverjir fleiri útvaldir stíga á stokk. Vonandi verður ekki svo kjaftfullt í Kjallaranum að Vertinn þurfi að vísa fólki frá eins og gert var við Jósep og Maríu í gistihúsinu í Betlehem hér forðum. Vonandi verður rúm fyrir alla í gleðihúsinu í Bolungarvík þetta kvöld.
Auðvita verður opið á nýársnótt...auðvita tökum við á móti nýju ári í húsinu sem skiptir okkur öll svo miklu máli....auðvita hittumst við hress og kát og fögnum komandi ári í húsinu sem ber svo mikla sögu harma og hamingju, sorgar og gleði og vona og væntinga....auðvita hittumst við í Einarshúsi...hvar annarsstaðar?
Dægurmál | Breytt 19.12.2007 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 00:37
Taumlaust tjútt
Langt er um liðið frá síðustu færslu og mér finnst ég vera að svíkjast um en nóg er að sýsla þessa stundina. Segja má með sanni að tíminn sé fugl sem flýgur hratt og ég virðist stefna hraðbyri inn í framtíðina án þess að fá rönd við reist. Jólin verða komin áður en ég veit af og árið án efa gengið í aldanna skaut áður en ég get snúið mér við og nýtt ár með vonum og væntingum runnið upp og ég á eftir að gera ALLT
Grenjandi rigningin lemur gluggarúðurnar af áfergju þegar þessi orð eru rituð og vindurinn æðir áfram í æsilegum leik við organdi veðurham. Veðurguðirnir virðast í ham þessa dagana og geta ekki með neinu móti gert upp við sig hvernig veður á að vera í það og það skiptið. Þó lét Vertinn ekki tíðarfarið stoppa sig að fara inn á Ísafjörð á jólaskemmtun nema í þriðja bekk MÍ en það var fjáröflun vegna utanlandsferðar krakkana sem er fyrirhuguð næsta sumar. Það var reglulega skemmtilegt og þau sungu eins og englar, spiluðu eins og ljós og allt var eins og blómstrið eina. Glímukappar sýnu nýjustu glímutökin og gerðu það með miklum ágætum. Um tíma hélt ég að ég væri orðin þátttakandi í bardaga gamalla tíma og taldi um stund að verið væri að berjast um athygli Vertsins í Víkinni en áttaði mig þó fljótlega á því að svo var ekki, heldur var hugurinn farinn að reika full langt aftur í aldir og var hlaupinn um ævintýraheima fornra slóða. Trúlega ruglaði æðisgengin rigning og rjúkandi rokið mig því óhugur blundaði í mér vegna heimferðarinnar um Óshlíðina. Það kom reyndar á daginn að tvær aurskriður höfðu fallið á Eyrarhlíð og grjót og leðja lagði yfir veginn og út í sjó. Þráin eftir því að komast heim og þrjóskan var þó hræðslunni yfirsterkari og ókum við mæðgurnar yfir urð og grjót í grenjandi slagviðri og héldum í áttina heim. Keyrt var af festu veginn sem heldur litlu víkinni milli fjallanna í helgreypum. Óshólaviti hoppaði hæð sína af kæti þegar við gægðumst framhjá Sporhamri en þá vorum við úr allri hættu. Óróleikinn blundar þó enn innra með mér því húsbóndinn er veðurtepptur í höfuðstaðnum og sonurinn úti í veðurhamnum að aðstoða bæjarbúa í vonda veðrinu við eitt og annað. Hann verður þó vonandi ekki sendur á hlíðina í nótt og vonandi get ég sofið rótt.
Vertinn fór ásamt vinnuhjúum sínum á jólahlaðborð á hótelið á Ísafirði á laugardagskvöld og það var einstaklega gott að geta sest niður og látið aðra stjana við sig á alla lund. Vertinn klæddist einum glæsikjólnum enn sem keyptur var í Fríðu frænku og er aldagamall og keyptur úr dánarbúi glæsikonu. Eftir borðhaldið voru stuttu pilsin þó dregin fram og haldið var í Edinborgarhúsið og taumlaust var tjúttað fram á rauða nótt. Hljómsveit frá Flateyri spilaði fyrir dansi og þeir héldu virkilega góðum takti og það voru svo sannarlega þreyttir fætur og lúnir sem skriðu heim um miðja nóttina eftir stífa dagskrá kvöldsins en mikið lifandis skelfing getur verið gaman að dansa.
Jólabingóið hjá Sjálfsbjörg á sunnudaginn heppnaðist vel í alla staði og húsið var fullt af fólki. Panellinn á veggjunum gliðnaði til að allir gætu komist fyrir og uppistöður sveigðust til hliðanna svo allir hefðu nægt pláss. Setið var í hverju skúmaskoti og spenningurinn skein af hverju andliti.
Þær fréttir berast innan að með ofsarokinu að húsbóndinn komi til með að standa vaktina á Ísafirði í nótt og sonurinn hér í Bolungarvík. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum eru því í góðum höndum og get ég því áhyggjulaus farið að sofa.
Góða nótt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 18. desember 2007
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm