Freistingar leynast víða

Ekki var það í frásögu færandi að Vertinn í Víkinni lagði leið sína upp á Grundahólinn um miðjan dag á eðalfína jeppanum sínum og stefnan var sett á guðsþjónustu í Hólskirkju. Var þessi messa liður í fermingarundirbúningi Lilju sem fermist næsta vor en bráðnauðsynlegt þykir að fara reglulega til að hlusta á guðorð vegna þess. Alltaf er ljúft og gott að fara til kirkju og þar færist yfir mann ró og friður sem nauðsynlegt er að hafa innanborðs á lífsleiðinni. Verð ég þó að geta þess að kirkjunnar þjónar leggja sig fram um að freista mín með messuvíni í hvert skiptið sem ég legg leið mína uppeftir og virðist það vera keppikefli þeirra að koma alkahólblönduðu blóði Krists inn fyrir mínar varir í bland við líkama þess hins sama. Er ég kraup við altarið í dag fannst mér líkneskið af Jesú Kristi sem stendur með útréttan faðminn á altarinu, draga annað augað i pung og brosa út í annað þegar Vertinn afþakkaði drykkinn góða með kurt og pí og ekki var annað að sjá en að velþóknun frelsarans væri algjör er ég stóðst freistinguna eitt skiptið enn. Oblátan bragðaðist þó ekki eins vel fyrir vikið en rann hún þó niður vélindað með herkjum fyrir rest og án teljandi vandræða.  Án efa hefði það þótt til frásagnar ef fúlsað hefði verið við vökvanum þegar frelsarinn breytti vatni í vín á sínum tíma er hann mettaði sársvangan lýðinn en tímarnir breytast og mennirnir með. Í gamla daga var messuvín blandað úr áfengum drykkjum sem illa eða ekki seldust í ÁTVR en ekki kann ég skil á innihaldi þess sem bikarinn hefur að geyma um þessar mundir. Væri ekki ráð að hafa óáfengan drykk í stað þess sem nú er boðið upp á í hinum barmafulla bikar sem hefur geyma blóð frelsarans og söfnuðurinn fær að bragða á þegar þurfa þykir.

Hvíldardagurinn

Árshátíð starfsmanna Bolungarvíkurkaupstaðar var haldin í gærkvöldi og mikið var um dýrðir í félagsheimilinu af því tilefni. Rúmlega eitthundrað manns þáðu trakteringar og annan velgjörning sem Vertinn í Víkinni og hennar skyldulið reiddi fram með mikilli snilli. Mér er ljúft og skylt að geta þess að allt gekk eins og í sögu og kvöldið gekk eins vel og hægt var að hugsa sér. Þeir sem störfuðu á mínum vegum stóðu sig afskaplega vel enda ekki er við öðru að búast þegar saman eru komin albestu vinnuhjú hér vestra sem kunna vel til verka og vita alveg upp á hár hvernig hlutirnir skulu framkvæmdir.  Ég er mjög stolt af mínu starfsfólki og  tel mig lánsama að hafa þetta fólk í vinnu.

Skemmt er frá því að segja að veislustjórinn fór á kostum og kom Ylfa Mist mér nokkuð á óvart er hún stýrði veislunni styrkri hendi. Hún var bráðsmellinn og stórskemmtileg. Húsið á sléttunni stóð alveg fyrir sínu að vanda og dansað og tjúttað var fram á rauða nóttina. Segja verður þó alveg eins og er að það voru þreyttar mæðgur sem komu heim þegar líða tók á morguninn og í dag er úr okkur allur vindur og tökum við hlutunum því rólega og höldum því hvíldardaginn heilagan í dag. 


Bloggfærslur 18. nóvember 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband