Með sól í hjarta.

Sólin sást í fyrsta skipti í dag á þessu ári. Ég var stödd í sparisjóðnum um hádegisbilið þegar hún sendi fyrstu geisla sína til  okkar hér í Víkinni. Hún sést í skarðinu milli Heiðnafjalls og Kistufells yfir Reiðhjöllum. Það færðist bros yfir alla sem staddir voru í sparisjóðnum og það birti svo sannarlega yfir mannskapnum. Ef sparisjóðsstjórinn hefði verið þar á vappi,  hefði ég örugglega hent mér í fangið á honum og rekið á hann rembingskoss í tilefni sólaruppkomu. Sólin hefur mikið að segja um líðan fólks og hún getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt. Það er hefð fyrir því að borðaðar séu sólarpönnukökur með rjóma í tilefni slíkrar stundar og mamma brá ekki út af vananum og bar þær á borð fyrir gesti í dag.

Ég er svo sannarlega búin að vera með sól í hjarta í dag. Það er búið að panta eitt ef ekki tvö eintök af sögunni hans pabba þó ég sé ekki byrjuð á henni enn. Ef þetta er ekki til þess að stappa í mig stálinu þá veit ég ekki hvað. Ég er sem sagt byrjuð að taka á móti pöntunum. Gott þætti mér ef þið gætuð greitt bókina fyrirfram þar sem ég er ekki enn komin á launaskrá hjá Rithöfundarsambandinu og fæ því ekki nein listamannalaun. Reikningurinn er vel varðveittur í fjárhirslum sparisjóðs Hólshrepps í útibúi sjóðsins á Mölunum og er númer eitt. Bókin kostar fimmþúsund krónur og rennur allur ágóði af sölu hennar beint í minn vasa.

Þetta er auðvita eintómt bull og kjaftæði sem varasamt að taka mark á.

Hef heyrt því fleygt að stóra refa-og tófu skotts málið sé eitthvað farið að vinda upp á sig. Greinilega einhverjir pirraðir aðrir en Vertinn. Þetta eru svo sem bara sögusagnir en oft er sagt að sjaldan ljúgi almannarómur. Ég vek þó enn athygli á því að ég er ekki ófrísk og Gaui ( glæpur) er ekki þjófur, þannig að þar brást almannarómi bogalistin.

Fór á Ísafjörð í dag með Lilju í sjónmælingu, henni þótti sjónin vera farin að daprast blessaðri kerlingunni minni. Sem betur fer er þó allt í lagi ennþá. Reyndar fór Örn mjög ýtarlega yfir útreikninga á mjög vandasamri sjónmælingu og talaði af mikilli sérfræðikunnáttu um málið. Ég fór yfir þetta í huganum eftir ég kom frá honum og ég botna hvorki upp né niður í því sem hann sagði enda ekki sérfræðingur á sviði augn-og sjónmælinga.

Sá auglýsta útsölu í verslun einni á Ísafirði en slíkar auglýsingar virka eins og segull á mig.  Ég keypti úlpu á prinsessuna mína og bauð henni síðan upp á safa og kleinuhring í Gamla bakaríinu.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort ég brosi ekki sólskinsbrosi eftir slíkan dag.

 


Meira um flokkaflakk.

Það vita auðvita allir að sagan af Kristni H. Gunnarssyni er óopinber en ég tel mig best færa til að raða þingsætum niður fyrir komandi kosningar og þótti Kristni fara best fyrsta sætið hjá Frjálslyndum í Norðvestur kjördæmi. Ég reynist nú oft sannspá og ef þetta kemur á daginn, ætla ég að kaupa mér rústrautt leðurvesti í stíl við leðurbuxurnarSmile

Flokkaflakk.

Kristinn H. Gunnarson heldur áfram þeim sið að flakka milli flokka.  Ef þessi annars ágæti maður er sáttur við það sjálfur þá er það gott. Kjósendur hljóta að segja sína skoðun á þvi í kjörklefanum í vor. Ekki veit ég hversu vel hann aðlagast í Frjálslynda flokknum og verður tíminn að leiða það í ljós en þetta er vissulega sérstakt.

Margir halda eflaust að ég sé alveg að tapa mér í þessum bloggfærslum.  Ég sit við löngum stundum og skrifa og mig grunar að þetta geti ekki endað með öðru en geðveiki eða dauða.  Ég hef bara svo einstaklega gaman af þessu og þarf eitthvað á því að halda núna. Ég gær litu eitthundrað manns inn á síðuna og ég er mjög upp með mér, það segir mér það að þetta bull í mér vekur athygli.  

Mig hefur langað lengi að skrá söguna hans pabba en hann er alveg einstaklega fróður um líf og störf manna hér í Bolungarvík og segir skemmtilega frá. Nú ætla ég að fara í það verkefni að fá mér diktafón og taka karlinn upp á band. Versta er að hann er hann er svo óþekkur að núna þykist hann ekki hafa frá neinu að segja og setur á sig snúð ef ég minnist á þetta en ég á eftir að losa um málbeinið á karli. Sagan hans pabba skildi þó ekki verða næsta metsölubók fyrir næstu jól. Þarna sjáið þið, ég er alveg að verða vitlaus.

Gömlu hjónin eru annars mjög upptekin yfir litlum hefðarhundi sem heitir Bína.  Það er full vinna að stjana við hana daginn út og daginn inn.  Ég vildi að að hefði verið látið svona með mig þegar ég var krakki. Annars hef ég ekki yfir neinu að kvarta frá mínum uppvaxtarárum, þetta er svona meira sagt í gamni.

Nú á ég von á húshjálpinni fljótlega. Jólaskrautið allt komið ofan í kassa svo jólin eru endanlega fyrir bí í bili. Ég hlakka til að finna hreingerningarilminn í loftinu. Ætli ég fari ekki á skrifstofuna á meðan hún þrífur og vinni örlítið í bókhaldinu.  Þar heyri ég kannski eitthvað skemmtilegt sem ég get sagt ykkur frá síðar.

Eins og ég sagði ég gær þá er Andri að klára einkaflugmanninn.  Fer í prófið um helgina. Þá getur hann farið að fljúga vestur og sækja mömmu sína. Ég sé það alveg fyrir mér að geta skroppið þá og þegar á útsölu hér og þar í borg allra hinna stóru tískuverslana. Annars keypti ég mér leðurbuxur á útsölu í Jóni og Gunnu nýverið. Ég hef alltaf verið veik fyrir leðurbuxum og alltaf á einar eða tvennar í handraðanum. Andri hlær sig alltaf máttlausan yfir þessum leðubuxnakaupum mínum, honum finnst ég trúlega orðin of gömul fyrir leður. Ég hefði trúlega gert mig munaðarlausa ef mamma hefði gengið i leðri þegar hún var komin á fimmtugsaldur, en nú eru víst breyttir tímar. Andri sagði eitt sinn að ég væri veik á bak við ennið að láta svona. Reikna með því að það merki að mér sé illt í höfðinu. En hann ætti ekki að segja mikið því hann er bara ekkert ólíkur mömmu sinni í mörgu, svo okkur hlítur að vera illt á sama stað.

Það sprakk á heimilisbílnum hjá Elsu í gær inn á Eyrarhlíð. Eftir því sem hún sagði sjálf þá tókst henni að mestu leiti að skipta um dekk sjálf. Annars erum við svo merkilega heppin að ef bíllinn festist eða eitthvað annað kemur upp á með bílinn þá virðist hann Tóti alltaf vera til staðar okkur til aðstoðar. Þetta er í þriðja sinn sem hann birtist  eins og verndarengill og hjálpar okkur út úr vandræðum. Það er munur að hafa svona góðan aðstoðarmann sem passar upp á okkur á bílnum.

Svo ekki sé á neitt af börnunum hallað þá er Lilja í góðum gír. Fór í gítartíma í gær til Mariolu og lék fyrir mig sinfóníur og sónötur af miklum móð eftir hún kom heim. Gítarinn er hljómfagurt hljóðfæri. Ég hef gert tvær tilraunir til að læra á gítar í tónlistarskólanum, fyrst hjá Siggu Nóu og seinna hjá Haraldi nokkrum sem var kennari hér um tíma. Skemmst er frá því að segja að ég gat ekkert lært. Ég sem get allt sem ég vil. Það hefur trúlega vantað eitthvað upp á áhugann. Það væri lúxus að kunna á gítar og geta sungið í Kjallaranum svona kvöld og kvöld en það verður ekki á allt kosið.

 


Tíminn taumlaust áfram æðir.

 

Bjarndís Jónsdóttir tengdamamma mín á afmæli í dag. Hún er fædd í Selkoti í Þingvallasveit 24. janúar árið 1934. Hún er dóttir hjónanna Guðrúnar Einarsdóttur og Jóns Bjarnasonar snikkara en hann var sonur Bjarna Jónssonar sem einnig var snikkari en hann byggði Bjarnaborgina svokölluðu í Reykjavík. Glæsilegt hús. Badda er ein sex systra en tvær eru eftirlifandi fyrir utan Böddu, Kristrún eða Dúna og Bjarney sem kölluð er Eyja. Mig langar að senda afmælisbarninu smá vísukorn.

 

Tíminn taumlaust áfram æðir

klukkan tifar fram á veg.

Skálda söngur frá mér flæðir

senda kveðju vildi ég.

Með okkur liggja þéttir þræðir

þakklát vagninn með þér dreg.

Sagan hljómar hátt um hæðir

hve tengdamamma er æðisleg.

 

Hafðu það svo gott í dag og bestu kveðjur.


Bloggfærslur 24. janúar 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband