Fari það í tófuskott.

Á bæjarráðsfundinum í morgun var rætt um greiðslu fyrir tófuskott '' hlaupandi dýra'' sem sagt, þeirra dýra sem hafa orðið svo óheppin að hlaupa fyrir bíla og látið lífið af þeim völdum.  Greiddar hafa verið sjöþúsund krónur fyrir skottið og það munar um minna. Andri minn hafði keyrt yfir tófu fyrir löngu og við höfðum geymt skottið í skúrnum. Ég hélt að einungis þeir sem hefðu til þess tilskilin leyfi gætu fengið greitt fyrir skottið og hafði því ekki fyrir því athuga það frekar. Ég þóttist hafa himinn höndum tekið við þessar fregnir og var hin ánægðasta og ætlaði mér svo sannarlega að gangast í þetta mál strax í dag. Andri er í námi í Borgarholtsskóla og er að klára einkaflugmanninn og veitir ekki af aurum. Ég hafði þessvegna fyrir því að fara inn í áhaldahús með fjárans skottið, fá  þartilgerða kvittun hjá Hreina og arkaði svo galvösk á bæjarskrifstofuna til að ná í peninginn.  Viti menn, þá var búið að setja reglur um greiðslur tófuskotta í salt og var það ákveðið í hádeginu!!! Ég fékk þar af leiðandi ekki krónu með gati fyrir alla þessa fyrirhöfn. Reyndar er bæjarfélaginu ekki skilt að borga fyrir þetta en hefur þó gert það hingað til.  Nú þarf hæstvirt landbúnaðarnefnd að funda til að setja reglur um hvernig haga beri greiðslum fyrir þennan ófögnuð eða hvort það eigi yfir höfuð að greiða fyrir þessi dýr.

Eins og þið heyrið þá er Vertinn pirraður yfir því að vera að eyða sínum dýrmæta tíma í svona kjaftæði en samt sæll í sinni yfir því að setja ekki bæjarsjóð meira á hliðina en orðið er. Ætli ég sækji skottið mitt ekki í áhaldahúsið aftur, því ekki get ég verið skottlaus í framtíðinni það er ljóst.

Svo er mál til komið að ég hætti þessu nöldri.


Léttir strengir.

Þá er bæjarráðsfundurinn afstaðinn.  Hann var lengri en ég reiknaði með en aðeins tvö mál voru á dagskrá fundarins í útsendri dagskrá, aðrir liðir tóku þá við. Ég vakti athygli á að moka þyrfti göngustíginn oftar sem liggur meðfram sandveginum en hann er mikið notaður af gönguhrólfum bæjarins.  Sjálfstæðismenn létu leggja þennan göngustíg á síðasta kjörtímabili og mega vera stoltir af.

Formaður bæjarráðs setti fundinn og fór yfir helstu fundasköp í morgunsárið og trúlega veitti ekki af því ég og Gunnar Halls eigum það til að gleyma okkur og slá á létta strengi og hlæja pínulítð og gera grín en það er auðvita ótækt á fundum svona merkilegs ráðs. Það þykir í lagi að brosa aðeins út í annað en ekki meir.

Ég ætti að sjálfsögðu núna að vera að taka til hér á heimilinu, hef ætlað að gera það í marga daga ef ekki vikur. Jólaskrautið er enn í reiðileysi á stofugólfinu og bíður eftir því að komast ofan í kassa. En ég vel að setjast frekar niður við tölvuna og blogga og skjóta húsverkunum á frest. Ég verð samt að klára þetta í dag því í fyrramálið kemur til mín húshjálp sem ætlar að þrífa fyrir mig. Ég ætti ekki að vera að auglýsa það fyrir alþjóð hversu mikil drusla ég er við heimilsverkin en ég er einhvernveginn orðin þannig að ég skammast mín bókstaflega ekki fyrir neitt. Og hana nú.

Af því minnst er á jólaskraut þá verð ég að minnast á það að húsið hjá nágranna mínum er svo vel skreytt ennþá að skinið frá ljósunum lýsir upp allt hverfið. Það dregur svo niður í rafmagninu hjá mér út af þessari gífurlegu orkunotkun nágrannans að ég get varla sett í brauðristina.  Jólasveinninn sem búin er að hanga utan á tröppunum síðan löngu fyrir jól, reynir ennþá eftir fremsta megni að klifra upp þær og er ábyggilega orðinn úrkula vonar um að hann eigi nokkurn tíma eftir að ná á leiðarenda. Aðventuljósin beina ljósi sínu inn allt djúp og eru án efa kærkomin lýsing fyrir skip og báta. Maggi Hans ætlar kannski að láta þessi ljós loga fram að næstu bæjarstjórnakosningum. Það skildi þó ekki vera.

Ég var reyndar vakin eldsnemma í morgun því Skúli hringdi í mig og lét mig vita af því að gluggi í Einarshúsinu væri opinn og slægist fram og aftur í hvassvirðinu. Svona vökum við nú yfir náunganum hér í Víkinni. Ég reif mig fram úr og fór niður eftir og festi gluggann aftur. Mér reyndar brá örlítið við hringinguna frá honum því ég hélt rétt sem snöggvast að eitthvað hefði hent hrossin mín því þau eru geymd í hesthúsinu hjá Skúla, en sem betur fer var þar allt með kyrrum kjörum. Skúli hringdi í mig í sumar og sagði að Blesi minn væri dauður, hann lægi steindauður í ánni sem liðast niður Tungudalinn. Við urðum frekar sorgmædd við þær fréttir en svo hýrnaði yfir mannskapnum á ný þegar Skúli hringdi aftur stuttu seinna og bar söguna til baka. Hann hafði þá tilkynnt andlát á röngum hesti. Skondið eftir á.

Tel núna best að taka mér smá hlé, hleypa í mig kjarki og ráðast til atlögu við jólaskrautið. Ég á örugglega eftir að láta meira í mér heyra í dag. 

 


Bloggfærslur 23. janúar 2007

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband