21.1.2007 | 22:23
Bæjarbragur.
Set að gamni inn bæjarbraginn. Braghættir eru ekkert endilega í hávegum hafðir í þessum erindum. Aðallega reynt að láta textann falla vel að laglínunni. Glöggvir lesendur reka væntanlega augun í það að eitt erindið fjallar um Vertinn sjálfan en ég vann braginn eftir punktum nefndarkvenna.
Lag: Hagavagninn
Nú ætlum hér að segja ykkur sögu
og syngja lítinn bæjarbrag.
Sem samansettur er í litla bögu
og fluttur skal nú hér í dag.
Nú knálega skal kveða hér um bæjarbúa,
og kynjakvistir skerf sinn fá.
Hér merkilegar, meiriháttar sögur fljúga
sem bæinn setja svip sinn á.
Það siður er á hverju byggðu bóli
að eiga eina mektarmær
Sem forseti á háum valdastóli
Sossa loksins sitja fær.
Að ná hér hreinum meirihluta staðföst keppti,
því ríkjum vildi ráða hér.
Og skólastjórastöðuna hún loksins hreppti,
þar stolt nú stýrir barnaher.
Hér bæjarstjóra varð þá strax að ráða
þá þóttu góð ráð vera dýr.
Þroskaþjálfa hvetja varð til dáða
því leitað var að fræknum fýr
Hann varð að vera skemmtilegur, snjall og sætur
það borgaði sig þúsundfalt.
Á bassann geta spilað daga jafnt sem nætur
tónelskur og til í allt.
Í Hólshreppi fór stórgrýtið að skríða
niður hlíðar allt um kring.
Svo hugljúft er á Grjóthrunið að hlýða
er bergmálar um fjallahring.
Af fingrum fram þeir léku hér í sjónvarpsþætti
um Óshlíðina napurt níð.
Skondinn smell sem eflaust margan manninn kætti
Lýður söng í erg og gríð.
Hér lífið oft er enginn hægðarleikur
ef læknishjónin eru á vakt.
Þá þýðir ekki neitt að vera veikur
ef hljómsveitin skal slá í takt.
Þau hafa engan tíma til að svara síma
og sjúklingurinn fer í bið.
Þeim verðum þá að gefa nokkuð góðan tíma
og treysta bara á almættið.
Í Einarshúsi gleði er og glaumur
og saman gleðst þar sérhver sál.
Og einatt liggur þangað stríður straumur
þótt sumir glingri létt við skál.
Nú efri hæð í Kjallaranum senn er búin
því Ragna á svo góðan smið.
Og upp í Péturskaffi fýrug fetar frúin
Nú leiðin liggur upp á við.
Hann Einar Kristinn skotveiði vill stunda,
úr augum veiðigleðin skín,
og skemmtilegast er að veiða lunda
en sagan hér er ekkert grín,
Því sjávarútvegsráðherrann þá stóð í ströngu
hann þóttist hafa hildi háð.
En veiðikortið hans var ónýtt fyrir löngu
samt skaut hann eina væna bráð.
Svo gerðist það á vetrardegi löngum
að Stúkuhúsið hvarf á braut.
Og ennþá bíða allir eftir göngum
nú leysa þarf þá vega þraut.
En nú við skulum skemmta okkur hérna saman
og gleyma dagsins amstri um sinn.
Með bros á vör á þorrablóti höfum gaman
og göngum inn í gleðskapinn.
Þorrablótið 2007
Höf: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2007 | 15:20
Frú formaður.
Þau tíðindi gerðust á Þorrablótinu í gærkvöldi að ég var kosinn formaður næstu skemmtinefndar. Þann titil ber ég í heilt ár og er ég mjög upp með mér yfir því trausti sem mér er sýnt. Með mér í nefnd eru tíu konur og ég hlakka til að vinna með þeim að næsta blóti. Ég held að þessi formennska eigi þó eftir að stíga mér til höfuðs því ég finn nú þegar að það rignir örlítið meira upp í nefið á mér í dag en í gær. Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að láta ávarpa mig með sérstökum hætti vegna þessa og liggur það beinast við að kalla mig'' frú formann'' en ætli ég láti nokkuð verða af því.
Skemmtiatriðin lukkuðust mjög vel og voru skondin og smellin. Þær sungu bæjarbrag eftir mig og gerðu það vel, voru skírmæltar og innihaldið komst vel til skila. Sú umræða sem verið hefur um siði og hefðir blótsins höfðu engin áhrif á skemmtunina og ég hef á tilfinninguna að fólk hafi frekar styrkst í þeirri trú að breyta engu. Ég vona að við berum gæfu til að skiptast á skoðunum um þorrablótið á götuhornum fyrir næsta blót en ekki í fjölmiðlum. Höldum frekar á lofti jákvæðum fréttum af byggðinni okkar, ekki veitir af.
Ég og Kjallarinn minn fengum skerf að níði og háði sem segir mér það að það virðist renna í mér blóðið og tekið er eftir því sem ég er að gera. Ég lít á það sem upphefð að ef gert sé grín af mér á þorrablótinu. Nokkuð gott fannst mér atriðið þegar Kjallarinn auglýsti tvo fyrir einn á fyrirlestri forvarnar og fræðslufulltrúa lögreglunnar á Vestfjörðum sem halda átti eitt föstudagskvöldið á kránni. Auðvita er þetta bara bráðfyndið. Samt var allt á Huldu varðandi Kötu kvæðið sem sungið var og passað var upp á að Halla ekki á neinn. Þarna er vísað í viss greinarskrif í BB.
Lífið heldur þó áfram eftir þorrablót og við þreyjum Þorrann að vanda af þolinmæði. Senn munum við sjá til sólar en hér felur sólin sig bak við fjöllin háu um dimmasta árstímann en fer að láta sjá sig um þessar mundir. Þá leika geislar hennar um þessa fallegu Vík og dansa tignarlega um fjallasali. Birgir á Miðdal sér þó ekki sólina alla fyrr en 8. febrúar inn í Syðridalnum og þá kemur hún upp við Kistufellið. Ég veit þó að hann Birgir sér ekki sólina fyrir henni Kæju sinni allan ársins hring, ég þekki það frá því ég var krakki og var að leika við hana Guðnýju yngstu dóttur þeirra hjóna. Við Guðný brölluðum mikið saman og þá var nú lífið ljúft.
Ég er búin að vinna morgunverkin og hrossin komin út í fallegan og bjartan daginn. Hver veit nema ég fari í útreiðatúr í dag. Annars er góður göngutúr á dagskránni á eftir en við hjónin örkum stundum góðan hring á góðvirðisdögum. Þá geng ég reyndar mishratt því ég er alltaf með MP-3 spilara í eyrunum því mér finnst svo gott að labba og hlusta á tónlist og takturinn í göngunni því misjafn eftir því hvaða lag ég er að hlusta á. Bóndinn reynir eftir fremsta megni að fylgja mér eftir en það gengur misjafnlega vel. Það er örugglega oft sjón að sjá þegar við erum á ferðinni í heilsubótargöngu.
Makalausar fréttir af Guðmundi Jónssyni fyrrum forstöðumanni Byrgisins. Alveg merkilegt hvað maðurinn er siðblindur og á erfitt með að greina rétt frá röngu. Það er ömurlegt til þess að hugsa að hann skuli í krafti stöðu sinnar misnota fólk sem á svona erfitt og leitar til hans í sínum erfiðleikum. Hann á vonandi eftir að þurfa að standa skil á sínum gjörðum á endanum.
Ég þekki lítlilega hvað fólk gengur í gegnum í meðferð. Fór sjálf á Vog í nóvember fékk innsýn í líf fíkla sem langt eru gengnir með sinn sjúkdóm. Mér fannst það einstök upplifun. Ég fór reyndar ekki í framhaldsmeðferð en á kost á því ef á þarf að halda. Það er gott að vera á Vogi og ég er einstaklega heppin af hafa fengið að dvelja þar um tíma til að ná áttum í mínu lífi. Ég á miklu betra líf núna og er þakklát fyri það. Ég á örugglega eftir að tala meira um minn fíkn sjúkdóm á blogginu mínu síðar.
Núna fussa eflaust einhverjir og sveia yfir því að ég skuli kalla áfengisfíkn sjúkdóm en ég leit ekki á mig sem sjúkling þegar ég gekk á fund Þórarins Tyrfingssonar yfirlæknis á sjúkrahúsinu Vogi. En núna veit ég betur. Heilinn í mér starfar öðruvísi en heilinn í þeim sem ekki misnota vímuefni en það gerir mig ekki að verri manneskju fyrir vikið, nema síður sé. Mér þykir gott að finna stuðninginn sem ég hef fengið eftir ég kom heim bæði frá vinum mínum og fjölskyldu sem og bæjarbúum og ég tjái mig óhikað um þessi mál í þeirri von að það geti komið einhverjum að gagni.
Nú hugsa eflaust einhverjir að nú sé ég orðin ga ga, vesæll og aumur fyrrverandi drykkjusjúklingur sem hefur það að markmiði að þurrka upp líðinn. Það er öðru nær, Vertinn í Víkinni væri þá í vondum málum og færi trúlega á hausinn. Tel best að hætta þessu þrugli í bili. Vonandi eigið þið góðan dag.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggfærslur 21. janúar 2007
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635895
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm