Nýtt verkefni

Nú hefur Vertinum í Víkinni verið falið nýtt verkefni og vandasamt. Blóðsjúkdómur hefur tekið sér bólfestu í skrokknum sem ber heitið "Mergfrumuæxli" og hefur ráðist með látum á bakið og gert það að verkum að það virkar bara alls ekki og títtnefnd getur sig varla hrært nema uppfull af töflum af allskyns sortum hinna ýmsu pilla sem lina þjáningarnar. Einhver fruma hefur óforvendis stökkbreyst og margfaldað sig og farið að búa til prótein sem ég hef ekkert að gera við á kostnað annara efna í blóðinu.

Það byrjaði auðvitað þannig í sl. viku að sú er þetta ritar datt í gólfið heima og gat sig hvergi hreyft svo á endanum þurfti sjúkraflutningsmenn til að skafa títtnefnda upp af gólfinu líkt og hverja aðra tyggjóklessu og flytja á sjúkrahús. Þursabit var talið sökudólgurinn í fyrstu og við það sat þar til annað kom í ljós.

Brugðist var við í snarhasti eftir að blóðprufan sýndi óeðlilega hátt sökk og títtnefnd var send uppdópuð í flugvél til Reykjavíkur um hádegisbilið til eins besta læknis á landinu í blóðsjúkdómum og áttum við stefnumót í dag. Hann kom mjög vel fyrir og var hinn elskulegasti þar til hann fór að sjúga merginn upp í helvítis sprautuna. Þar fór hann eiginlega alveg með það en svo jafnaði það sig og ég fyrirgaf honum um hæl. Það var ekkert sérstaklega þægilegt en tók sem betur fer fljótt af og allt komst í eðlilegar óskorður á ný.

Strembin meðferð er fyrir höndum þar sem reynt verður að kvelja títtnefnda og pína eins og hægt er en þeim verður varla skotaskuld úr því. Reikna má með að lyfjagjöf verði fyrir valinu eða geislameðferð og jafnvel stofnfrumuskipti en þetta mun allt koma í ljós í fyrramálið því byrja að meðferð strax á morgun.

Lesendum til léttis skal það upplýst að sú er þetta ritar er ekki hið minnsta kvíðin og í raun hlakkar til að takast á við þetta verkefni og hafa betur og enginn efi er í mínum huga að það mun takast. Ég hef gefið þeim tíma til 1. maí næstkomandi til að klára meðferðina og gera mig góða fyrir átök sumarsins í Einarshúsi.

Allir eru boðnir og búnir til að aðstoða á alla lund og hefur Gunna Ásgeirs tekið við allri yfirumsjón í Einarshúsi og fjölmargir aðrir ætla að vera henni til aðstoðar. Nú veit maður hverjir eru vinir og það má segja með sanni að Vertinn virðist bara nokkuð vinamargur ef vel að að gáð.

Fjölskyldan verður öll samankomin hér syðra næstu vikurnar því húsbóndinn og Lilja eru væntanlega næstu daga. Við munum búa hjá tengdó og þar væsir ekki um mann. ( hún bitaði meira að segja ofan í mig matinn í kvöld:). Það munar öllu að hafa fólkið sitt hjá sér á svona stundum.

Ég vona að geta sagt eitthvað meira krassandi á morgun.

Kveðja til allra heima


Fjáröflun-Fjáröflun-Fjáröflun

Vertinn í Víkinni ætlar að standa fyrir fjáröflun í formi vöfflusölu og sölu á kaffi við Einarshús í dag milli klukkan 13:00 og eitt. Passað verður sérstaklega upp á að staðsetning verði fyrir utan yfirráðarétt hússins því þá þarf hvorki leyfi til sölunnar né þarf að greiða virðisaukaskatt til Steingríms skattmanns. Ríkisskattstjóri þarf því ekki að hanga yfir öxlina á títtnefndri og vakta að sinn hluti sölunnar renni óskiptur í ríkissjóð. 

Heilbrigðiseftirlitið þarf ekki að koma í reglubundið eftirlit rétt á meðan og rafmagnið til að kynda vöfflujárnin fæst vonandi úr húsnæði bæjarins sem er þar í nágrenninu.

Engin verður á launaskrá enda er þetta allt unnið í sjálboðavinnu svo 0 krónur renna í atvinnuleysistryggingasjóð af Tryggingagjaldi sem verður þess valdandi að einhverjir sem eru án atvinnu og vinna allt í sjálfboðavinnu fá minna en ella þegar til langs tíma er litið. Lífeyrissjóður, endurhæfingasjóður og verkalýðsfélagið fá heldur ekki neitt af vinnu við sjálfboðastörf svo þetta er allt eins og blómstrið eina.

Allur ágóði rennur óskiptur til að greiða eftirlitsgjöld til Heilbrigðiseftirlits svo halda megi rekstri Einarshúss áfram um sinn og ef það verður einhver afgangur sendir margnefnd börnin kannski í einhverja ferð.

Heilbrigðisfulltrúinn fær frítt, sem og Bæjarstjórinn og Sýslumaðurinn


Vöfflukaffi í dag

Hinar dásemdar dýrðar vöfflur Völusteins verða á boðstólnum í dag, sunnudag í Einarshúsi. Hvernig væri nú að skella sér og fá sér heitt súkkulaði og vöfflu??

Viðburðir á næstunni

Það er vel við hæfi að stikla á stóru í viðburðardagatali Einarshúss á haustmánuðum. Reynt verður að hafa opið alla daga eins og hægt er til áramóta og upplagt að kíkja við af og til.

Spilavistin fer nú að hefjast en hún hefur verið mjög vinsæl undanfarin ár. Vinningar hafa verið sérlega veglegir og í vetur verður engin breyting þar á. Spilað verður annan hvern föstudag og byrjað þann 23. september næstkomandi. Aðgangseyrir er 1000 krónur.

Prjónakvöldin eru nú þegar byrjuð en þau verða á þriðjudagskvöldum í vetur. Næsta prjónakvöld verður haldið 27. september næstkomandi og síðan hálfsmánaðarlega eins og fyrr segir.

Kjallarinn verður opinn af og til í vetur og reynt að hafa uppákomur amk einu sinni til tvisvar í mánuði og það auglýst sérstaklega. Laugardagskvöldið 24. september ætla Bláberjadrengirnir frá Súðavík þeir Eggert Nielsson og Þorstein Haukur að stíga á stóra sviðið á ný en þeir spiluðu nýlega í Einarshúsi og þóttu einstaklega skemmtilegir. Aðgangseyrir er 1000 krónur og fylgir kolamolinn með í kaupunum.

Töðugjöldin verða haldin 1. október og þá ætla Sveinn og Finnbogi, bræðurnir úr Þjóðólfstungu að heilgrilla íslenskt fjallalamb í bakgarðinum. Guðjón frá Dröngum gefur " Bústólpa Bolungarvíkur" sem sá fær sem segir bestu söguna úr sveitinni. Töðugjöldin hefjast kl. 20:00 og aðgangur er 3500 krónur. Nauðsynlegt er að panta borð í síðasta lagi miðvikudaginn 28. september. Lágmarksfjöldi verður að nást til að það borgi sig að grilla lambið og svo má ekki gleyma því að það dugar bara fyrir viss marga, svo brýnt er að panta borð í tíma og tryggja sér sæti.

Kertaljóskvöldverður verður haldinn laugardagskvöldið 29. október næstkomandi. Þá verður reynt eftir fremsta megni að skapa kósýstemningu og bjóða upp á afbragðs þriggja rétta máltíð. Eggert Nielson og Þorstein Haukur leika og syngja ljúfa og góða tónlist undir borðhaldi. Hvaða dýrindis réttir sem í boði verða verður auglýst sérstaklega síðar.

Vöfflukaffi verður alla sunnudaga og einn sunnudagur verður valinn sérstaklega til að bjóða fólki til að skoða sýninguna á efstu hæðinni. Af framansögðu má sjá að betra er að taka frá alla þessa daga og njóta þess sem í boði verður

 


Töðugjöld frestast

vegna lélegrar þátttöku

Kveðja

Geir ÓskarssonKópavogurinn var spegilsléttur  í gærkvöldi og glitrið varpaði birtu ljósanna frá byggðinni á hafflötinn er  tengdapabbi kvaddi á Rjóðrinu, líknardeild. Himnaríkið opnaðist í allri sinni dýrð og rauðgullinn bjarminn frá sólsetrinu teygði sig til jarðar til að vísa honum veginn inn í eilífðina. Hann var umvafinn ástvinum sínum er lífið fjaraði út og þegar síðast andardrátturinn þagnaði var höfði dropið í þakklæti fyrir að hafa fengið að ganga svo stóran hluta lífsleiðarinnar með þessum einstaka geðprúða manni. 

Fjórir mánuðir eru liðnir í dag síðan pabbi var lagður til hinstu hvílu. Pabbi dó í fullu fjöri og þegar hann kvaddi skall sorgin á af fullum þunga og lamaði allt í kring. Sorgin býr enn í hjartanu vegna fráfalls hans ekki síst vegna þess að mamma varð að yfirgefa heimili sitt og fara á sjúkrastofnum í kjölfarið því pabbi var orðinn líf hennar og heilsa í restina.  Æskuheimilið varð því autt og fasti punkturinn í tilverunni hvarf í framhaldinu þegar ekki var lengur hægt að koma við „heima“ og þiggja kaffi og spjall.

Í báðum þessu tilvikum var þó dauðinn fallegur og friðsæll. Nokkuð kærkominn í þetta skiptið því tengdapabbi varð krabbameini að bráð og erfitt var að horfa upp á þennan mann sem eitt  var svo stæðilegur tærast upp.  Í hans tilviki kom sorgin í skömmtum eftir því hve sjúkdómurinn náði meiri tökum á honum, en kveðjustundin er alltaf jafn erfið og þungbær.  Það er þó mikils virði að hann leið ekki kvalir svo neinu nemi, en óttinn við það var aðaláhyggjuefnið í fjölskyldunni þann tíma sem hann lág banaleguna sína.

Hann Geir og við öll, urðum þeirra gæfu aðnjótandi að komast að á Rjóðrinu líknardeild í Kópavogi en þar lág hann síðustu dagana sína. Umhverfið er svo fallegt, starfsfólkið svo einstakt og þjónustan yndisleg. Þar er dásamlegt að deyja, svo friðsælt og fínt. Þar áttum við síðustu stundirnar saman og það er dýrmætur fjársjóður í minningakistuna.


Töðugjöld í Einarshúsi

Töðugjöld verða haldin í Einarshúsi laugardagskvöldið 10. september næstkomandi. Þá ætla Finnbogi og Sveinn Þjóðólfstungubræður að heilgrilla íslenskt fjallalamb í bakgarðinum af sinni alkunnu snilld. Kristinn H. Gunnarsson mun segja sögur af bændum og búaliði og einnig verður keppni um hver segir bestu söguna úr sveitinni. Sá sem segir bestu" söguna úr sveitinni" verður gerður að Bústólpa Bolungarvíkur og fær að launum verk eftir hinn snjalla tréútskurðarmann Guðjón Kristinsson frá Dröngum.

Verð á töðugjöldin eru 3500 krónur og innifalið í verði er einn kaldur og svalandi kolamoli en auk þess verður frítt inn á Bláberjadrengina í Kjallaranum síðar um kvöldið. Þá ætla Þorsteinn Haukur og Eggert Nielson, sem léku svo stórt hlutverk á Bláberjadögum í Súðavík, að halda uppi taumlausri stemningu fram á rauða nótt. Aðgangseyrir á tónleikana er 1000 krónur og innifalið í verði er kolamoli beint úr kolageymslunni.

Allar nánari upplýsingar eru veittar í síma 864-7901 eða í Einarshúsi. Einnig er hægt að senda netpóst á ragna@einarshusid.is, senda bréfdúfu eða bara reykmerki. Það telst þó frekar brýnt að panta borð á töðugjöldin fyrr en seinna því fjöldi þeirra sem komast að er takmarkaður.

 


Huldukonur á húsvegg

Það væri synd að segja að það væri ekki nóg að gera á galeiðunni í Einarshúsi. Vertinn kom þó nokkuð vel undan helginni þó svo að rúmlega 150 manns hafi sótt húsið heim þessa tvo daga í mat og drykk og reytingur hafi mætt í Kjallarann á föstudagskvöldið. Ferðamannastraumurinn er því langt í frá búinn og hver veit nema títtnefnd haldi áfram að hafa opið eitthvað fram á veturinn. Það er þó allt háð eftirspurn eins og gefur að skilja.

Stór hópur kom í hádegið á laugardegi og fékk að hlýða í andakt á sögu hússins og hlaut í leiðinni þann heiður að skoða húsið hátt og lágt. Sýningin á efstu hæð hússins heillaði en hún er nú tilbúin og er einstök á sínu sviði og hvergi svo vitað sé hefur þessum aðferðum verið beitt í myndasýningu af þessu tagi. Lagt var upp með að sýningin skapaði hið rétta andrúmsloft og það má með sanni segja að það hafi tekist með afbrigðum vel. Huldukonur á húsveggSýningin sem prentuð er á plexigler og fellur nánast inn í panelinn á veggnum svo halda mætti að fólkið á myndunum væri hluti af innviðunum. Fólkið speglast af dulúð á veggnum eftir því hvernig lýsingin endurkastar birtunni, dáldið spúkí en skemmtilegt. Sýningin á efstu hæðinni er fyrsti hluti sýningarinnar sem verður í húsinu um aldur og æfi en þar eru vinnufólki gerð skil. Á miðhæð hússins verður heimilisfólkinu gerð skil og í kjallaranum verða myndir frá vinnu við sjóinn og höfnina. Vertinn hefur nú þegar safnað miklu magni af myndum og þær sem ekki komast á veggi hússins verða settar í myndabók í fyllingu tímans. Er Nina Ivanova hönnuður sýningarinnar og hún hefur skilað afar góðu verki.

Bæjarbúum verður boðið að koma og skoða efstu hæðina og sýninguna þegar líður á haustið og verður það auglýst síðar.

 


Laufey og léttadrengirnir

Laufey og léttadrengirnirHér gefur að líta hljómsveitina "Laufey og léttadrengirnir" sem ætlar að leika í fyrsta sinni opinberlega á Bláberjadögum í Súðavík í kvöld, föstudagskvöld, og síðan í Kjallaranum í Einarshúsi eftir miðnættið en þá mun hljómsveitin flytja nokkur vel valin lög úr prógramminu sínu. Hljómsveitina skipa bæði Jón og séra Jón, Bjarni nokkur Kristinn og Kristján Karl auk Laufeyjar lagvissu, en hún syngur í hæstu hæðum. Halda mætti að þetta væri kristilegt band ef marka mætti nöfn þeirra sem spila og tóntegund söngkonunnar en svo er ekkert sérstaklega. Jón Bjarni er auðvitað trommarinn, Þingeyringurinn Jón Sig spilar á bassann og Kristján Karl er á hljómborði. Bjarni Kristinn bróðursonur títtnefndrar leikur á gítar og síðast en ekki síst syngur Súðvíkingurinn Laufey . Því má sjá að fólk héðan og þaðan af svæðinu sameinar krafta sína í spilerýi og söng, hittist reglulega og hefur af því góða skemmtun. Títtnefnd telur það forvitnilegt að sjá og hlusta á þetta nýja band vestfirskrar hljómsveitaflóru.

Góður gangur í Einarshúsi

Stofan 1Ljómandi góður gangur hefur verið í Einarshúsi í sumar. Gestagangur hefur margfaldast milli ára og hefur hin glæsilega gisting á efri hæð hússins haft mikið að segja. Herbergin eru hvert öðru fallegra og í anda liðinna tíma í bland við nýtísku þægindi og notalegheit. Stofa hússins þykir hin glæsilegasta og þar stendur tíminn kjurr og gestir hverfa aftur um 100 ár eða svo þegar þangað kemur. Útsýnið er stórfenglegt og gott þykir að sitja á svölum hússins og virða fyrir sér það sem fyrir augu ber. Allt umhverfi hússins er orðin fallegt. Búið er að malbika götuna og rífa gamla húskofa, mála það sem þurfti að mála og girðingar settar til að stúka af lóðir hér í kring. Það er allt til fyrirmyndar enda hafa gestir haft það á orði í sumar hve umhverfið er að verða fallegt sem er alveg öfugt við það sem ferðamaðurinn hefur rekið augun í undanfarin ár. 

Nú má segja að húsið sé að verða eins og lagt var upp með í upphafi. Allar hæðirnar erStofanu nýttar á bestan hátt og eitt rekstrarformið vinnur með öðru. Hver eining verður þó að skila hagnaði og því verður að breyta áherslum eftir því hvernig vindar blása. Einarshúsið er einkarekstur eins og flestir vita en ekki opinber rekstur svo Vertinum er í sjálfs vald sett hvert stefnan er tekin og hefur engar skyldur aðrar en þær að gæta þess að skútan haldi sjó. Heppilegast er að hafa gistihúsið alltaf fullt af fólki því þar er hagkvæmasta rekstrareiningin og þá kemur það að sama skapi niður á opnunartíma Kjallarans því afar hljóðbært er í húsinu. Ekkert er við þessu að gera nema nýta sem best þá viðburði sem þar eru í boði í hvert og eitt skipti og gæta þess að mæta, í stað þess að sitja heima og nöldra yfir því hve lítið er um að vera í Kjallaranum þess á milli.

Núna á föstudaginn til að mynda, verða tónleikar þar sem tónlistarfólkið kemur alla leið frá Fljótsdalshéraði og eftir miðnættið stígur í fyrsta sinn í Bolungarvík á stokk hljómsveitin "Laufey og léttadrengirnir" en hana skipa stórgóðir tónlistarmenn héðan og þaðan af norðanverðum Vestfjörðum. Aðgangur á tónleikanna er 1000 krónur en frítt er inn á barinn eftir að þeim líkur fyrir þá sem vilja njóta þess að mæta á einn flottasta bar landsins í kjallaranum í Einarshúsi og hlusta á léttadrengina hennar Laufeyjar á stóra sviðinu.

Meira um þá vestfirsku hljómsveit síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband