24.9.2008 | 01:31
Á döfinni
Hægt er að segja það með sanni að fjörið mun standa áfram enn um sinn og stóra sviðið í Kjallaranum verður ekki autt nema fram að næstu helgi því Biggi Olgeirs hefur verið vélaður til að mæta með gítarinn og troða upp á laugardagskvöldið. Það verður auðvitað bráðskemmtilegt eins og ætíð þegar strákurinn mætir og vænta má þess að allir hysji upp um sig sparibuxurnar og fjölmenni í Kjallarann til að hlýða á tóna þessa frábæra tónlistarmanns.
Vertinn verður þó fjarri góðu gamni um helgina því Reykjavík kallar og togar títtnefnda til sín. Það verður auðvitað að heiðra höfuðborgina með nærveru sinni annað slagið enda eiga borgarbúar það skilið að virtar mektarmeyjar úr sjávarþorpum á landbyggðinni dúkki upp annað slagið. Tilefnið er hálfgert ættarmót hjá niðjum Selkotssystra sem eru ættbálkur sem telur ættkvísl skyldmenna og kvenna af sömu fjölskyldunni. Þessi ætt hefur þó blandast nokkuð vel ef marka má þann kynstofn Vertsins í Víkinni sem giftist inn í þessa ætt kotbænda frá Selkoti þó sumum þykji eflaust að margnefnd, sem tilheyrir hinni margfrægu Arnadalsætt, hafi tekið töluvert niður fyrir sig að tengjast Selkotssystraættinni tryggðarböndum. Það mun þó hafa gert útslagið og komið í veg fyrir innri blöndun og úrkynjun fjölskyldunnar, enda telur ættin prímafólk upp til hópa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 23:21
Gengin upp að hnjám
Segja má með sanni að Vertinn í Víkinni sé gengin upp að hnjám eftir annasama daga. Það er eins og við manninn mælt að einhverra hluta vegna þurfa allir að koma í Einarshús á sama tíma til að vísitera margnefnda og hennar fólk. Það vill til að ólseigt er í kerlu og mjaðmaliðir og hnjáliðir virðast standast álagið sem fylgir því að hlaupa upp og niður stiga og bugta sig og beygja fyrir gestum og gangandi. Málpípa Vertsins virðist einnig vera óstöðvandi því saga hússins fylgir gjarnan í kaupbæti yfir rjúkandi trakteringum og allir heillast með. Það getur þó verið strembið að vippa sér úr hlutverki eldabusku í hlutverk sögumanns og svo aftur í gervi innkaupastjóra, framkvæmdastjóra, markaðsstjóra og bara allt þar á milli. Öll hlutverkin eru svosem jafnskemmtileg og heilla viðkomandi upp úr skónum og einungis til þess fallin að sveipa lífið ævintýraljóma.
Eitt er þó hægt að segja með vissu að Vertinum leiðist ekki agnarög eina einustu mínútu því hver stund er undirlögð. Heimilishaldið á Hólastíg er fjörugt og margbreytilegt enda nokkuð margir í heimili svona dags daglega dags. Hið hefðbundna vísitölufjölskylda býr ekki í húsakynnum títtnefndrar um þessar mundir því auk blessaðra barnanna búa tengdabörn og tilvonandi tengdabörn, fósturbörn auk þess er stjúphundur til heimilis í þokkabót svo vísitalan er fokin út í veður og vind. Vertinn ætlar svo sannarlega að njóta þess að hafa allt þetta stórskemmtilega fólk í kringum sig á meðan það varir. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá allar heimasæturnar í einum hnapp í Einarshúsi að aðstoða við kaffihlaðborð
Danstímar hjá Da líða hjá með ógnarhraða en dansað er í Einarshúsi einu sinni í viku. Þar hittast nokkrar skemmtilegar stelpur og dilla sér í æsilegum línudansi og öðrum hópdönsum hlátrasköll óma um húsið og tíminn líður á ljóshraða. Segja má með sanni að enginn klukkutími leið eins hratt í sl. viku og danstíminn með Da enda er frábærlega skemmtileg afþreying og þvílík og önnur eins skemmtun heillar Vertinn upp úr skónum. Það er þvílíkur lúxus að geta leyft sér að gera allt sem er svo skemmtilegt og heillandi.
Elías bæjarstjóri spurði fólk spjörunum úr á föstudagskvöldið í Kjallarakeppninni og var nokkuð góður spyrill enda er strákurinn bráðskarpur. Kjallarinn var kjaftfullur á keppninni og sjaldan hafa eins margir tekið þátt en bæjarstjórar virðast trekkja að á slíka viðburði enda hefur ætíð verið húsfyllir ef þeir mæta. Vertinn er víst orðin uppiskroppa með bæjarstjóra í augnablikinu svo kennarar þykja fýsilegur kostur til að vera í spyrlahlutverkinu í næstu keppni. Björgvin Bjarnason verður næsti spyrill og hægt er að lofa því að vissara er að vera vel með á nótunum þegar hann byrjar að reka garnirnar úr viðstöddum.
Skákmenn settu mikinn svip á helgina enda var Hraðskákmót Íslands haldið í Bolungarvík. Vertinn skákaði þó öllum og mátaði hægri vinstri enda snjöll í leikfléttum og brögðum af öllu tagi. Ceres sex réð úrslitum og sikileyjarvörnin brást ekki frekar en fyrri daginn og drottningin í Einarshúsi stóð af sér ógnir peða á taflborðinu. Riddarar stóðu svo keikir og biðu þess að fá að þóknast margnefndri og biskupinn hélt svo verndarhendi yfir samkomum helgarinnar og lét allt fara vel. Segjast verður þó alveg eins og er að söngrödd skáksnillinganna er ekkert í samræmi við skáksnilli þeirra því sjaldan hafa aðrir eins hræðisöngvar verið sungnir í karaoký og í Kjallaranum á laugardagskvöldið. Þetta var þó stórskemmtilegt kvöld í alla staði og allir skemmtu sér hið besta.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2008 | 23:44
Shark-barinn
Ómur gesta Kjallarans fyllir gamla lagerinn sem brúkaður var fyrir verslunina í Einarshúsi í eina tíð. Allrahanda fólk dvelur í góðu yfirlæti yfir spjalli og tilheyrandi og kvöldið er notalegt. Tíminn tifar taumlaust áfram og hringiða lífsins líður hjá. Eins og sést hefur andakt hertekið téðan Vert og hugurinn fyllist skáldaanda gamalla hagmæltra hugumstóra íslenskra ljóðskálda. Vertinn situr yfirveguð í gömlu kolageymslunni og nýtir tíma til að skella inn einni bloggfærslu til að gefa lesendum glögga mynd af lífinu í Bolungarvík á þessum tíma. Rólegheit ríkja að þessu sinni þrátt fyrir að ABBA leiki undir rabbi þeirra sem sitja að spjalli upp við barinn. Allrahanda tungumál blandast ylhýra móðurmálinu og fósturlandsins freyja fagnar erlendum gestum, erlendum bráðmyndarlegum gestum sem eiga oftar en ekki bros sem engin stenst.
Kjallarinn er oftar en ekki nefndum Shark-barinn hjá þeim sem vinna að jarðgangagerðinni og virðist þessi nafnagift vera þekkt í Sviss að sögn þeirra sem koma þaðan. Sögur segja að fyrstu Svisslendingarnir sem komu hér fyrir margt löngu síðan hafa komið þeim bráðnauðsynlegu upplýsingum á framfæri í heimalandinu að barinn í bænum héti þessu nafni og stæði undir því í hvívetna.
Hákarlabarinn er því kominn til að vera og engin ástæða til annars en að gleðjast stórum yfir því
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2008 | 08:38
Spilavist í Einarshúsi
Nú geta spilafíklar tekið gleði sína því spilavistin hefur göngu sína á ný í kvöld kl. 21:00. Nokkuð ljóst má telja að því fleiri sem mæta, því meira gaman verður að spila með og verðlaunin verða veglegri fyrir vikið. Segjast verður alveg eins og er að gestir úr nágrannabyggðalögum voru ívið duglegri að mæta á spilavistina sl. vetur en heimamennirnir sjálfir en vonandi sjá Bolvíkingar til þess að jafnvægi komist á þetta ójafnvægi svo allir sitji við sama borð og spili til sigurs.
Á myndinni situr Þóranna og bíður þess að fá góð spil
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2008 | 11:29
Pétur og Einar í kvöld
Saga frumkvöðla heldur áfram og sýning verður í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 20:00. Þeim tilmælum er beint til þeirra sem ekki hafa séð einleikinn ennþá að koma í kvöld ef þeir eiga einhver tök á því. Það er auðvitað ekki einleikið að allir skuli ekki þegar vera búnir að koma og berja þennan frábæra einleik augum sem slegið hefur í gegn.
Vertinn vill minna á að menningin er ekki bara hinu megin við lækinn...hún er líka hér...því grasið er hvergi grænna en einmitt í túninu heima.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2008 | 00:31
Dansdrottningar Einarshúss
Hluti tilvonandi dansdrottninga Einarshúss samankomnar eftir fyrsta danstímann.
Skemmst er frá því að segja að kvöldið var stórskemmtilegt og Vertinum er strax farið að hlakka til næsta tíma sem verður á miðvikudaginn kemur kl. 20:00.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2008 | 00:56
Úr öskustónni
Verkið að hefjast
Búið að skræla múrhúðina utan af og verið að lyfta húsinu upp til að koma fyrir nýjum fótstykkjum í stað þeirra gömlu sem voru fúin
Byrjað að klæða í kjól og hvítt
Séð fyrir endann á upperð eins glæsilegasta húss hér vestra
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 22:46
Hópdans með Laddawan á miðvikudagskvöld
Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni í Einarshúsi annan hvern miðvikudag (ef næg þátttaka fæst)að bjóða upp á hópdans með Laddawan. Þar telst upplagt að dansfimir einstaklingar mæti einir og sér eða sitt í hvoru lagi til að æfa línudansa og hipp hopp eða bara allra handa einstaklingsdansa sem hver og einn getur lært með auðveldum hætti. Konur geta mætt með körlum sínum eða skilið þá eftir heima og öfugt. Einstæðir, fráskyldir, harðgiftir, tvígiftir og ógiftir eru hvattir til að mæta og skiptir ekki máli hverra þjóðar viðkomandi dansarar eru því allir geta sameinast í dansinum. Samkvæmisdansar verða ekki í boði að svo stöddu enda ekki nægjanlegt pláss til að stíga skottís, vals eða ræl í salnum. Erótísku dansarnir verða heldur ekki dansaðir upp við súlurnar enda er slíkur dans illa séður og einungis til þess fallinn að fá flísar úr timbursúlunum sem bera húsið uppi hirst og her. Aðalatriðið er að hafa gaman af uppátækinu og hressa upp á kroppinn og liðka hann til í bland við skellihlátur. Á eftir er svo hægt að kaupa dýrindis Swiss-Mocca af Vertinum í Víkinni á spottprís.
Fyrsti danstíminn er á miðvikudagskvöldið 10 september kl. 20:00. Aðgangur er 500 krónur og lagt er til að ÞÚ lesandi góður mæti á svæðið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 19:38
Blanda af hinu góða
Gummi Hjalta mátaði sig við stóra sviðið í Kjallaranum á laugardagskvöldið og var fantagóður. Röddin ómaði líkt og englakór væri samankomin undir himnahörpu frelsarans. Þetta er auðvitað orðum aukið en Gummi stóð sig vel og var nokkuð sprækur og hress. Fyrir þá sem voru svo óheppnir að missa af honum geta glaðst yfir því að hann á eftir að koma aftur og aftur og troða upp í þessu húsi glaums og gleði.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 00:06
Þetta helst....
Að venju hefur verið nóg að gera í lifi margumræddrar. Fjórðungsþing Vestfirðinga nýafstaðið og þótti tilhlýðilegt að Vertinn í Víkinni sæti það ásamt öðrum fyrirmönnum þjóðarinnar. Það gekk hnökralaust fyrir sig og var bara einkar fróðlegt og skemmtilegt.
Fyrsta sprenging í Óshlíðargöngum var sprengd með hvelli á fimmtudaginn og bermálið ómaði um fjallanna hring. Titringurinn var töluverður og steinrunninn tröll tóku kipp af fögnuði er ljóst var að framkvæmdir væru hafnar við göngin. Ákvörðun um að ráðast í þessa framkvæmd var tekin í Kjallaranum í Einarshúsi er þingflokkur Sjálfstæðismanna kom í morgunkaffi á ferð sinni um fjórðunginn. Ekki það að Vertinn er svosem ekkert að eigna sér það sérstaklega enda alkunn af miklu lítillæti og óframfærni, aftur á móti má telja öruggt að það sem þar framfór hafi vakið ráðamenn þjóðarinnar til umhugsunar um nauðsyn þess að gera öruggan veg hér á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar. Það varð svo ofan á að þessi leið var farin og er það vel og mega þeir sem komu í morgunkaffið í Kjallarann hér um árið eiga heiðurinn af því og engir aðrir.
Vertinn sá um stórveislu vegna þessara atburða og þær Gunna og Guðlaug gerðu kraftaverk eins og svo oft áður. Snittur og aðrar trakteringar voru á borð bornar fyrir alla sem vildu þiggja og vinnuhjú Vertsins í Víkinni stóðu sig með prýði eins og ætíð. Telja má víst að ekki væri hægt að reka Einarshús með öllu því sem því fylgir nema að hafa úrvals starfslið við höndina og títtnefnd má teljast afar lánsöm með vinnuhjú. Allir sem máli skiptir hópuðust svo í hús gleðinnar eftir veisluna síðar um kvöldið og skemmtu sér konunglega enda tilefni til að gleðjast og fagna. Þar nutu veiga menn af fjölmörgum þjóðernum enda eru bormenn Bolungarvíkur eins og heima hjá sér í þessu sögufræga húsi og ætíð velkomnir eins og allir aðrir. Kjallarinn hefur hlotið viðurnefnið "Hákarlabarinn" hjá sumum erlendum fastagestum hússins og ætla má að ástæðan sé hið magnaða sjóara andrúmsloft sem þar ríkir.
Ástin blómstrar svo í húsinu sem aldrei fyrr en hún hefur blundað í húsinu undanfarin hundrað ár og ekki að búast við öðru en að það haldi áfram. Húsið bókstaflega geislar af gleði vegna þeirra fjölmörgu sem líta við til að sýna sig og sjá aðra og kossa, kelerí og kitl þykir sjálfsagt að viðhafa í skúmaskotum og á bersvæði einnig ef svo ber undir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm