Fullt hús stiga

Annasöm helgi að líða undir lok og ró og friður að færast yfir Vertinn í Víkinni. Það er endalaust líf í Einarshúsi og þykir það sífellt vinsælla að koma þar saman yfir mat og drykk og hafa gaman. Mikið var þó gott að koma heim um miðnættið og setjast niður og slaka á eitt augnablik. Láta líða úr sér þreytu undanfarinna daga og leita uppi sína innri ró. Fæturnir kvörtuðu reyndar sáran undan háhæluðu skónum sem Vertinn klæddist og þrammaði á upp og niður stigann  allt kvöldið, en hvað er ekki gert til að líta sem best út og tolla í tískunni. Skórnir voru órjúfanlegur þáttur í einni heild og allsherjar múnderingu, þar sem pilsið tónaði við skóna, sem aftur tónuðu við skyrtuna, sem gáfu útliti mínu og atgervi öllu þann þokka sem Vertar þurfa að hafa þegar þeir bjóða þjónustu sína.  Mikilvægt er að vera "smart "því það undirstrikar það tælandi augnaráð sem nauðsynlegt þykir að nota óspart til að lokka gesti og gangandi að barnum, því þá er eftirleikurinn auðveldur og Vertinn gleðst yfir hverju glasi guðaveiga sem selst okurverði.

SpilavistGúllassúpa var framborin á föstudagskvöld fyrir sársvanga Lionsmenn og ekki var annað að sjá en að þeir hefðu góða matarlist. Þeir gátu varla rennt niður síðustu bitunum þegar spilafíklar ruddust í salinn spenntir og taugatrekktir yfir því að fá að byrja að spila eftir langt hlé. Spilað var á sjö borðum sem telst mjög gott. Það er alltaf mikil og skemmtileg stemning á spilakvöldum sem þessum og reglulega gaman að fylgjast með úr fjarlægð. Sumum verður á að setja út kolrangt spil og þá skammast samherjar og tuða ofan í hálsmálið yfir gáfnafari þess sem setti út hjarta í stað spaða og setti með því stigafjöldann í uppnám. En þetta er auðvita bara skemmtilegt og til þess fallið að hafa gaman af því. Jón Bjarni var rifinn upp úr notalegheitunum við kamínuna í Kjallaranum og drifinn í spilavist því það vantaði mannskap til að fylla þessu sjö borð. Var hann svo ljónheppinn ásamt Önnu Helgu af fá skammarverðlaunin og fór því heim með Sigga Björns sem mun syngja hann í svefn með sinni rámu röddu gamla slagara í bland við nýja. Hjónakornin, María Ólafs og Gunnar Júl duttu svo í lukkupottinn um kvöldið og unnu vegleg baðhandklæði í bland við baðsölt í aðalverðlaun og munu þau án efa njóta þess að brúka slíkan munað við gott tækifæri.

Árshátíð eldri borgara var svo á laugardagskvöldið og ekki er annað að segja að þessi fríði hópur Jónatan með nikkunavalinkunnra heiðursborgara Bolungarvíkur hafi verið öldruðum til sóma enda var svo sem ekki við öðru að búast. Jónatan spilaði undir fjöldasöng þar sem sópran í bland við eðalfínar bassaraddir hljómuðu um salinn fína í Einarshúsi. Mikinn hita lagði frá þessum síungu unglingum enda heitt úti og logn og þessi stórskemmtilegi hópur fram úr hófi heitfengur. Þessi fríði flokkur ungmenna á besta aldri lét það þó ekki á sig fá og tók vel undir í söngnum og dillaði sér í takt við tónlistina þegar það átti við.  Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að komast á þennan aldur ef svona gott partý stendur til boða.  Á myndinni hér til hægri má sjá Jónatan munda nikkuna og spila undurþýðan óð til ljúfu Önnu sem ein getur læknað hans hjartasár. Tæplega 50 manns sat í sátt og samlyndi að snæðingi þetta kvöld og undrast ég alltaf Árshátíð eldri borgarajafn mikið hversu margir komast með góðu móti í salinn og tel ég fullvíst að húsið lagi sig að þeim fjölda sem þarf að koma sér þar fyrir og kippt sé í spotta á himneskum stöðum þegar aldagamlar undirstöður styrkjast og veggir gliðna til að auka það rými sem nauðsynlegt þarf í það og það skiptið. Ég er ansi hrædd um að þröngt verði á þingi þegar sá hinn sami og sagði okkur söguna af skipinu Synetu sem strandaði við Skrúðinn kemur í heimsókn í Kjallarann. Ég má taka 150 manns í húsið svo ég hef ekki stórar áhyggjur og veit að þetta blessast allt saman. Kvikmyndatökulið hans hefur óskað eftir því að stýrið úr Pourquoi Pas? verði komið á vegginn þegar upptökur fara fram og að sjálfsögðu verð ég við því, enda er sýningin um strand franska seglskipsins lokið í Englendingavík í Borgarnesi. Trúlega hljóma ennþá gömlu góðu lögin sem þessar hressu stelpur, á myndinni hér til hliðar, sungu á árshátíð eldri borgara í Einarshúsi í gærkvöldi, þegar kóngurinn kemur vestur. Það á án efa eftir að gleðja Bubba Morthens ef rammíslensk ættjarðarlög óma milli þilja í þessu merka húsi sem stendur svo hnarrreist við Lækjarbryggjuna í Bolungarvík.

 

 

 


Spilavistin byrjar í kvöld

Spilavistin hefst að nýju í kvöld, föstudagskvöld kl. 21:00, og hef ég haft spurnir af því að fjöldi manns bíði með óþreyju eftir því að fá að hittast og taka í spil. Spilað var á sjö til átta borðum að jafnaði sl. vetur og skemmtu spilafíklar sér afbragðsvel er þeir spiluðu nóló og grand við keppinauta sína. Verðlaun verða að sjálfsögðu veitt út og suður og geta þeir sem fá sem flesta slagina, slegið því nánast föstu að fá sigurlaunin en einnig fá þeir sem gjörsamlega geta ekki neitt og spila frá sér ráð og rænu, stundum glaðning í sárabætur. Geisladiskurinn með Villa Valla var vinsæl fyrir þá sem náðu ekki því takmarki sínu að sigra og mun jazzistinn hljóma víða á heimilum í Bolungarvík eftir að hafa fylgt fjölmörgum spilagestum heim af spilavistinni síðastliðinn vetur. Hagleikskonur sem starfa í Listasmiðjunni í Bolungarvík hafa gert glæsilega gripi sem verða aðalverðlaun eftir þriggjakvölda keppni og verða menn að vera duglegir að mæta, því til mikils er að vinna og vegleg verðlaun eru í boði. Sjáumst hress og kát í kvöld.

 


Þorrablótsnefndin 2008

Þorrablótsnefndin 2008Þorrablótsnefndin 2008 kom saman til skrafs og ráðagerða í kvöld í Einarshúsi. Þessar kjarnorkukvensur hafa fylgst með hverju ykkar fótmáli og ætla að gera sér mat úr öllum ykkar misgjörðum á þorrablótinu á næsta ári. Þessar kerlingar hafa vakað, undir yfir og allt um kring og vita allt um alla. Þær ætla að gera grín af þér og þínum en þó aðallega sjálfum sér, enda hafa valist einstaklega skemmtilegar stelpur í nefndina. Hafið varann á ykkur í nálægð þessara stútungskvenna og reynið að haga ykkur vel og verið umfram allt stillt og prúð þegar þessar skvísur eru í nánd og hafið hugfast, að þið eruð hvergi óhult.

Hús gleðinnar

Hús gleðinnar vaggaði sér taktfast við hljómfallið frá þeim félögum, Valda og Orra, í gærkvöldi og nótt og segja má með sanni að Einarshús hafi verið á iði eitt skiptið enn. Húsfyllir var þegar kapparnir þöndu raddböndin og plokkuðu gítarstrengina af mikilli fimi og segja má að þeir hafi slegið í gegn enda afar trylltir og töfrandi náungar. Mikið var dansað og brugðið á leik og kvöldið var skemmtilegt eins og yfirleitt áður. Undir restina var þó beðið um óskalög sem Vertinn spilaði með bros á vör í hljómtækjum staðarins. Ég vildi að alla daga væru jólin þótti eitt vinsælasta óskalagið og sérstaklega var óskað eftir því að það væri spilað aftur og aftur við misgóðar undirtektir þó, en það gladdi þó sérstaklega danspar eitt fimt og flott sem dillaði sér duglega við jólakvæðið kunna. Heims um ból skal þó geymt þar til nær dregur jólum en Jólahjól gæti þó lætt sér með á góðri stundu í Kjallaranum í Einarshúsi þegar líður að hátið ljóss og friðar.

Hittingur var hjá árgangi ´63 og allir sameinuðust í sjávarréttahlaðborði og tilheyrandi í Einarshúsi í gærkvöldi og ekki var annað að sjá en að þessir rígfullorðnu unglingar skemmtu sér hið besta yfir sögum frá gamalli tíð. Það má með sanni segja að tíminn sé fugl sem flýgur hratt því ein 30 ár eru liðin síðan þessi krakkar fermdust og voru þau að hittast í tilefni af þeim tímamótum. Gaman var að sjá gamalkunnug andlit sem ekki höfðu verið hér á sveimi til margra ára og merkilegt að sjá hversu aldurinn hefur farið vel með þessa krakka sem eitt sinn léku sér saman sem lítil börn í faðmi fagurra fjalla og undu sér við niðinn frá sænum sem lúrir við Víkina góðu. 

Teljast þessar tvær nýliðnu helgar góð upphitun fyrir komu Bubba Morthens sem væntanlegur er til Bolungarvíkur í október en þá mun hann eyða heilum degi í Einarshúsi ásamt 20 manna tökuliði við upptökur á þættinum sínum. Ég tel það næsta víst að eftir heimsókn Bubba kóngs, muni Einarshúsið ekki lengur teljast til best geymdu leyndarmála á Vestfjörðum, heldur verður það trúlega augasteinn allrar íslensku þjóðarinnar og á án efa eftir að freista enn fleiri að líta þar við í framtíðinni.

Aðeins tvö og hálft ár eru síðan rekstur hófst í þessu aldagamla húsi og oft hugsa ég til þess hvernig komið væri fyrir húsinu í dag ef við hefðum ekki sýnt þann kjark að taka það að okkur og gera það upp og gefa því líf að nýju. Þarna slær hjarta bæjarins hverja helgi og blóðið rennur um æðar hússins líkt um ungabarn væri að ræða. Þróttur og þor hefur líka vaxið með hverju handtaki sem unnið er við húsið vegna þess feikilega góða meðbyrs sem flestir bæjarbúar og aðrir hafa sýnt þessu verkefni okkar. Reyndar er þetta mikið langhlaup og sýna þarf mikla þrautseigu til að ná að klára þetta maraþon en það hefst með tíð og tíma og nauðsynlegt er að eiga næga þolinmæði og staðfestu í farteskinu svo hægt sé að klára verkið og halda áfram ótrauð. Ekki má svo gleyma því hversu atvinnuskapandi þetta verkefni er og á álagstímum er töluverður fjöldi fólks þar við störf sem gengur vasklega til verks enda eru bestu vinnukraftar bæjarins í vinnu hjá Vertinum í Víkinni. Ég segi oft að þessi störf sem hér um ræðir hafi verið búin til " úr engu" þ.e. úr rústum gamals húss með sögu og eljusemi hugsjónafólks sem hefur trú á því að hver bær þurfi á húsi að halda til að hýsa gleðina og glauminn sem fylgjir hverri manneskju sem lifir lífinu lifandi.

Að endingu geta spilafíklar farið að taka gleði sína á ný því spilavistin byrjar á föstudag og reikna má með því að einhverjir spili af sér og fari heim með öngulinn í rassinum. Ekki er svo úr vegi að geta þess að Guðmundur Jónsson sem er gítarleikari í Sálinni hans Jóns míns, kemur í heimsókn í Kjallarann í október og ber á borð fyrir okkur það nýjasta í tónlistinni sinni og það er vissulega tilhlökkunarefni að hitta hann. Ég kem til með að fjalla um þetta betur þegar nær dregur.

 

 

 

 

 

 


Kóngurinn kemur í Kjallarann

Bubbi Morthens mun innan skamms leggja land undir fót í leit sinni að látúnsbarka sem liðtækur þykir í bandið hans Bubba. Það var svo sem vitað mál að Bubbi myndi vilja finna slíkan fagurgala í Kjallaranum í Einarshúsi enda er Bubbi annálaður smekkmaður og veit hvert hann á að leita til að finna notalegt andrúmsloft og kósýheit. Mér er í raun orða vant yfir uppátæki átrúnaðargoðsins og upprifin yfir þessum gleðitíðindum.

The day after..

Sit við eldhúsborðið heima og hlusta á Eivöru og ét ábrystir af mikilli áfergju með miklum kanilsykri en húsfreyjan á Ósi hafði nýlega fært mömmu þá munaðarvöru og ég nýt góðs af því. Brátt verð ég búin að kíla vömbina svo út að trúlega verð ég andvaka fram á morgun sem er ekki gott því morgundagurinn ber krabbameinsskoðun í skauti sér og er það yfirleitt sérstakt tilhlökkunarefni hjá konum að fá að fara í slíkt eftirlit og betra að vera útsofin. Ég ber þá von í brjósti að þeir sem taka á móti mér í fyrramálið á sjúkrahúsinu á Ísafirði verði ekki gamlir,  loðnir og ljótir karlar heldur snoppufríðir kvenkyns kvensjúkdómalæknar. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að láta fylgjast með sér reglulega svo hægt sé að sjá frumubreytingar á frumstigi og koma í veg fyrir að illa geti farið. Eru krabbameinsskoðanir lífsnauðsynlegar hverri konu og venjast með aldrinum.

LayfeyAnnars var löngum tíma varið í Súðavík í dag hjá henni Laufey en hún hefur rekið Dekurhúsið um árabil. Skerpa þurfti háralitinn á Vertinum og upplagt þótti að setja strípur á víð og dreif um hrokkið og úfið hárið. Krullurnar voru hrekkjóttar að venju og veittu mikla mótspyrnu þegar hinar gullnu strípur voru makaðar í hringavitlausa slöngulokkana en allt hafðist þetta að lokum. Hárið á mér er alveg ótrúlega lifandi og virðist hafa nokkuð sjálfstæðan vilja og ég er að verða jafnhrokkin og þegar ég var lítil stelpa. Laufey segir hárið á mér kraftmikið eins og konuna sem ber það dags daglega og trúlega er það rétt. Laufey er að flytja suður og ég á eftir að sakna hennar því hún hefur verið stoð mín og stytta undanfarið.

Heyri að Eivör er sofnuð og hætt að syngja. Ætli ég láti ekki staðar numið í bili og gangi á vit draumaheima.

 

 

 


Gaui

gauiHann Guðjón Grétar bróðir minn á afmæli í dag. Varla telst aldurinn honum til tekna en árin hafa hlaðist utan á hann eitt af öðru og telja 51 í dag. Hann hefur búið í Víkinni fögru alla sína tíð og þar hefur hann unað sér vel. Gaui er mikill rólyndis maður og býr yfir miklu jafnaðargeði og fátt raskar hans ró. Þegar ég var stelpa þótti tilhlýðilegt að við systurnar tækjum til í herberginu hans vikulega og satt best að segja var það ekki alltaf gert með glöðu geði. Það var þó bót í máli að ég mátti eiga þá peninga sem til höfðu fallið á gólfið hjá honum frá sl. þrifadegi og oft bar þokkalega í veiði og stundum eignaðist ég dágott klink eftir þrifnaðaræðið. Á myndinni hér til hliðar má sjá lítinn fríðleikspilt sem bíður sinnar lífsins göngu með óþreyju og brosir framan í heiminn. Litlu systur hans þrífa herbergið hans ekki lengur en hugsa til hans með hlýju á afmælisdaginn.

 


Sjávarréttahlaðborð á laugardag

SjávarréttahlaðborðHið vinsæla og framúrskarandi sjávarréttahlaðborð í bland við grillað lambalæri og tilheyrandi verður í boði á laugardaginn kemur. Þess ber að geta að einungis örfá sæti eru laus í þennan dýrðarkvöldverð því stór árgangur er væntanlegur til snæða saman og hafa gaman og tekur þessi hópur upp stærstan hluta salarins. Samt verða laus pláss hér og þar fyrir þá sem hafa áhuga á að vera með. Herlegheitin byrja kl. 20:00 og standa fram eftir kvöldi en þá byrja dásemdarljósin Valdi og Orri að spila ásamt félögum.

Líf og fjör

Sungið af innlifunEkki er úr vegi að geta þess í tíma að enn og einu sinni verður líf og fjör í Kjallaranum í Einarshúsi, því á laugardagskvöldið 22. september nk. munu hinir ástsælu trylltu, taumlausu og töfrandi trúbadorar, skemmtikraftar og meiriháttar stuðboltar, Valdimar og Orri stíga á stokk. Þeir munu hafa sér til fulltingis hina og þessa tónlistarmenn héðan og þaðan og stórband mun án efa líta dagsins ljós fyrir helgi. Vertinn í Víkinni hefur mikla trú á þessum köppum og er þess fullviss að þeir munu leggja sitt af mörkum til að gera kvöldið eftirminnilegt og ógleymanlegt

Sælir eru þeir.........

Annasöm helgi er nú að renna sitt skeið á enda og hefur Vertinn í Víkinni staðið nótt sem nýtan dag ásamt sínu frábæra vinnufólki í Einarshúsi og hvergi hefur verið slegið af. Hægt er að segja að unnið hafi verið í akkorði síðan á föstudagsmorgun við að elda súpur og hantéra aðrar trakteringar ofan í gesti og gangandi.

Föstudagur

Magnús á tali við MagnúsFöstudagurinn var undirlagður fyrir súpufund Sjálfstæðismanna og einnig var tekið á móti góðum gestum frá Glitni sem þáðu eitt hið besta hlaðborð dýrindis smárétta í bland við krásir og aðrar guðaveigar. Biggi Olgeirs kom sá og sigraði það kvöld eins og svo oft áður og hann söng fyrir gestina mína nýjustu stuðlögin í bland við gömul og góð dægurlög eins og " ef ég væri ríkur" og " money, money, money" sem Abba gerði svo frægt á sínum tíma. Kvöldið var einstaklega skemmtilegt og fóru menn sáttir til síns heima eftir kvöldið og lögðust til hvílu fullvissir um ágæti þess að eiga viðskipti sín við Glitni og kunnu háttsettum embættismönnum þakkir fyrir hve pund þeirra fær góða ávöxtun hjá bankanum.

Laugardagur

Grjóthrun í HólshreppiSkáksnillingar mættu galvaskir á Hraðskákmót sem haldið var á laugardag. Trakteringar voru til reiðu í Einarshúsi og trúlega hafa svona miklir gáfumenn sjaldan verið samankomnir í húsinu á sama tíma. Vertinn tefldi fram dýrindismat í þrem eða fjórum réttum og telja má nokkuð öruggt að engum hafi orðið meint af þeim dýrðarkrásum sem bornar voru á borð fyrir stórmeistara skáklistarinnar á Íslandi. Þegar líða tók á kvöldið fóru hinir og þessir að týnast í Kjallarann. Það var vitað mál að troðfullt yrði í Einarshúsi þetta kvöld því búið var að auglýsa brjálað bílskúrsband um allar sveitir með dreifibréfi og Grjóthrunið stóð alveg fyrir sínu. Bassinn hjá bæjarstjóranum magnaði upp bumbusláttinn hjá gítarleikaranum og trommarinn lamdi húðir svo undirtók í þessu aldagamla húsi og undirstöðurnar titruðu og skulfu. Ég tel það næsta víst að titringsins hafi gætt í nærliggjandi húsum en vonandi hafa draumar nágranna Einarshúss þó ekki raskast svo neinu nemi þegar undirtók í Hólshreppi.

Biggi Olgeirs átti fullt í fangi þetta kvöld með að koma tónlist sinni á framfæri vegna afskiptasemi Margirölvaðra og athyglissjúkra karla og kerlinga sem ekkert erindi áttu upp á stóra sviðið í Kjallaranum en vildu syngja og spila með. Biggi var með söngkonu með sér á sviðinu og þurfti enga hjálp enda er þetta dúó alveg einstaklega gott. Á endanum hrökklaðist hinn ástsæli trúbador í burtu vegna ágangs aðdáenda og yfirgaf samkvæmið. Vertinum mislíkaði þetta ástand eitt augnablik og þurfti að byrsta sig við mann og annan og nú hafa þær ófrávíkjanlegu reglur verið settar að þegar lifandi tónlist er í boði í Einarshúsi verður þeim sem sjá sig knúna til að hafa afskipti af slíkum tónlistarflutningi með einum eða öðrum hætti vísað á dyr hið snarasta. Hægt verður þó án efa að semja um að taka eitt og eitt lag við sérstakar aðstæður en þá í fullu samráði við Vertinn og tónlistarmennina sem leika í það og það skiptið. Mælst er til þess að þeir sem vilja láta ljós sitt skína í söng, bíði með slíkt þar til karaókí verður næst í boði í Kjallaranum en þá er öllum frjálst að taka lagið og þá er tilvalið að spangóla að vild kvöldið út í gegn.

NáttúruhamfarirnarNú leitar Bubbi Morthens logandi ljósi að söngvara í bandið sitt og telur vel koma til greina að slíkur látúnsbarki finnist í Bolungarvík. Í tilefni af því, komu Náttúruhamfarirnar saman til æfinga í Einarshúsi og tóku nokkur vel valin lög. Á efnisskránni eru aðallega óskalög sjómanna í bland við rokkuð grafarljóð sem færð hafa verið í nýtísku búning. Góður rómur var gerður að tónlistarflutningi þessara Náttúruhamfara þrátt fyrir það að þeir fáu sem hlustuðu hafi skrúfað nánast alveg niður í heyrnartækjunum sínum, þá þóttust þeir fíla okkur í botn og lýstu yfir ánægju sinni með útlit og atgervi hljómsveitarmeðlima. Ég tel næsta víst að kóngurinn sjálfur komi til með að falast eftir því að fá þessa nýstofnuðu hljómsveit til liðs við sig þegar hann kemur vestur.

Flateyringurinn knái, Sigurður Hafberg, breytti sér í líki Meistara Megasar og fór á kostum. Til þess að gera gervið semLeikandi léttir í lund best úr garði og ná töktum Meistarans til fulls þurfti að losa örlítið um tanngarðinn og tilvalið þótti að bleyta hann upp í bjór og ekki er annað að sjá en að karlinn sé þokkalega tenntur svona dags daglega dags. Megas hefði án efa bliknað í samanburðinum og hefði fallið í skugga Sigurðar með það sama ef hann hefði hætt sér í Kjallarann rétt á meðan þessi tiltekni gjörningur stóð yfir. Þetta gefur lífinu lit og þarna á myndinni má sjá tvo fýra sem ekki kalla allt ömmu sína og framkvæma furðulegustu hugdettur sínar óhikað ef svo ber undir.

Sunnudagur

Ég sat ennþá í súpunni á sunnudaginn því golfarar á Syðridalsvelli þurftu súpu og brauð í hádeginu. Það gekk allt eins og í sögu og aspassúpan bragðaðist með ágætum. Þá er Vertinn og hennar fólk búið að matreiða ofan í rúmlega tvöhundruð manns um helgina og kalla má það gott að geta annað því. Ég segi það enn og aftur að ég gæti ekki staðið í þessu ef ég hefði ekki þau albestu vinnuhjú sem völ er á og ég er bara einn lítill partur af öllu því prógrammi.

Til að vinda ofan af helginni þótti við hæfi að fara í kirkju og Hólskirkja var heimsótt og gott var að hlusta á guðs orð. Ég á í fórum mínum lítið fermingarbarn sem las ritningarlestur í messunni en Lilja á að fermast á næsta ári. Sr. Agnes talaði um leiðtoga kvenna í ræðu sinni og nefndi m.a. systurnar Mörtu og Maríu en María þessi fékk að sitja við fætur meistarans og tala við hann eins og jafningja á meðan Marta þjónaði þeim með ólund. Innihaldið í þeirri frásögn sagði okkur það að María hafði val til að tala við frelsarann og segja má að hún hafi í raun verið ein af lærisveinum hans og Jesús bar virðingu fyrir henni líkt og öllum öðrum. Um leið og athöfnin byrjaði skein sólin svo glatt inn um gluggann og sveipaði ljóma um alla kirkju og mér var hugsað til ræðunnar sem ég hélt á aðventukvöldi fyrir tæpu ári síðan þegar ég sagði í einlægni minni frá þeim sporum sem ég gekk þegar ég leitaði mér hjálpar á sjúkrastöðinni Vogi, þá fannst mér kirkjan ljóma og flestir þeir sem hlýddu á orð mín þá, leiða mig enn og styrkja. Ég var þá eins og María, systir Mörtu í frásögninni hér fyrr, ég hafði val og nýtti mér það til fulls, enda lít ég óhikað á mig sem leiðtoga.


Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Sept. 2007
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 635879

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband