Stund milli stríða

Stund er notuð milli stríða til að tylla sér niður við skriftir og fá hugann til að fara á flug. Mikið er um að vera í Einarshúsi um þessar mundir og halda mætti að öll Íslenska þjóðin hafi staðið á öndinni þann tíma sem ég tók mér frí. Núna keppast allir stærstu bankar landsins um að bjóða útvöldum viðskiptavinum sínum í veitingar hjá Vertinum í Víkinni og virðast það samantekin ráð að stefna sem flestum í húsið á sama tíma. Herlegheitin byrja á fimmtudaginn með veislu og verður hver hópurinn á fætur öðrum í trakteringum og frí verður ekki í sjónmáli fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag. Ég sem er varla búin að dusta af mér mesta ferðarykið, verð að standa klár eins og alltaf og verður það mér trúlega til bjargar að Guðlaug, Gunna og Elsa verða mér til halds og trausts. Það vill til að ég hafði með mér svo mikið sólskin í farteskinu að utan að allt leikur í höndum mér þessa dagana og þetta á eftir að ganga með glans.

Hraðskákmót er einnig um helgina í Víkinni góðu og stórmenni skáklistarinnar sækja okkur heim. Heyrst hefur að þessir kappar kunni mannganginn utan að og nýti sér Sikileyjarvörn þegar allt annað þrýtur. Einhverjar trakteringar munu þeir þiggja í Einarshúsi á meðan þeir dvelja á staðnum og munu þeir væntanlega þurfa að þola skák og mát frá drottningunni sem öllu ræður á taflborðinu og teflir fram riddurum eftir þörfum á góðri stundu í Einarshúsi. Vertinn í Víkinni vílar ekki fyrir sér að tefla biskupi fram á Seres sex ef svo ber undir, enda er hún hrókur alls fagnaðar og peðin eru flest öll í hennar liði.

Nauðsynlegt þótti í tilefni þessara tímamóta að fá einn besta trúbador landsins til að troða upp í Kjallaranum og gleðilegt er að segja frá því að allt var lagt í sölurnar til að fá Bigga Olgeirs hingað vestur til að leika fyrir gesti á laugardagskvöldið. Strákurinn er frábær og hægt er að lofa miklu fjöri er hann stígur á stóra sviðið í Kjallaranum með gítarinn sinn og röddina fögru. Biggi Olgeirs er í boði vikari.is og Baldurs Smára, auk Vertsins í Víkinni.

Eftir minni bestu vitund munu náttúruhamfarir einnig stíga á stokk á laugardagskvöldið í Kjallaranum og reikna má með grjóthruni í Hólshreppi þessa nótt. Vonandi raskar það þó ekki ró heiðvirtra húsmæðra sem ekki mega vamm sitt vita og leiða hjá sér skriðuföll og grjóthrun eftir fremsta megni.  Það er mín bjargfasta trú að háa hamraborgin sem vakir hér yfir og býr í fjallasölum umhverfis Víkina góðu, hafi hljótt um sig þessa nótt og leyfi hinu eina sanna Grjóthruni í Hólshreppi að njóta sín.

Ég hvet ykkur til að mæta....................ég held að það gæti orðið gaman.

 

 


Stebbi og Eyfi

Kvöldinu var varið í Ísafjarðarkirkju og hlustað á ljúfa tóna frá Stebba og Eyfa en þeir voru að fylgja úr hlaði geisladisk sem þeir gáfu út fyrir nokkru. Það þarf ekki að sökum að spyrja að tónleikarnir voru hreint frábærir enda tónlistarmenn á heimsklassa á ferð. Ekki er úr vegi að geta þess að báðir þessir látúnsbarkar eru óttalegir sykursnúðar á sviði og syngja eins og englar í þokkabót. Piltarnir eru lagnir við að senda frá sér ljúfa tóna sem bræða hjörtu miðaldra kvenna og fá þau til að slá út af laginu í taktlausum hjartslætti. Vængjasláttur fugla himins sem prýða altaristöflu kirkjunnar á Ísafirði tónaði vel við lagaval félaganna sem þótti við hæfi á fallegri kvöldstund í fallegri kirkju.

Skemmst er frá því að segja að við áttum saman yndislegar stundir, við áttum saman sól og blóm og hvítan sand. Og skjól á köldum vetri er vindur napurt söng. Og von um gullin ský og fagurt land.

Góða ferð.....................

 

 


Komin heim

Kertaljósið á eldhúsborðinu flöktir makindalega um rökkrið og lætur velþóknun sína yfir heimkomu Vertsins í Víkinni berlega í ljós er það sendir frá sér skínandi birtu og yl. Kerti loga í hverju skúmaskoti hér heima ,og ánægjan yfir því að vera loksins komin heim liggur í loftinu og sendir seiðandi bylgjur um húsið. Það er alveg frábært að vera komin heim í heiðardalinn eftir nokkurra vikna fjarveru og kertaljósið veitir mér innblástur til að blogga.

Bíllinn í nýjar hendurDagurinn í gær var viðburðarríkur og engum líkur, því Vertinn hafði fjárfest í nýjum bíl af gerðinni Toyota Hilux. Slík gerð af bíl hefur verið í uppáhaldi hjá okkur hjónum til margra ára og nokkur slík eintök hafa verið í eigu okkar í gegnum tíðina og mikið traust hefur fylgt því að aka um á slíkri kerru. Þessi eðalvagn er allur hinn glæsilegasti og líður áfram eins og hugur manns og fer með mig eins og drottningu. Liturinn er blóðrauður og það stirnir á gersemina hvar sem litið er og erum við strax orðnir mestu mátar. Ótrúlegt en satt þá þóknast hann mér á alla lund og gerir nánast hvað sem ég bið hann um og segjast verður eins og er að þjónustulundin var einstök frá upphafi og mér var sýnd skilyrðislaus virðing frá þeirri stundu er ég settist upp í hann í fyrsta sinn. Sölumaður Toyota brosti út í bæði er hann afhenti Vertinum í Víkinni lykilinn að rósrauðu glæsikerrunni við húsakynni Toyota umboðsins í gær enda sá hann fyrir sér að hafa fengið dágóðan bónus fyrir viðskiptin við Vestfirðingana.  Vertinum í Víkinni þótti sölumaðurinn þó frekar ástleitinn í restina, því hann rétti fram fagurgylltan kassa sem var uppfullur af sykursætu hjartalaga súkkulaði með rómantískri nougat fyllingu. Tel ég næsta víst að hann hafi með þessu athæfi sínu vonast eftir að ég tæki hann með á rúntinn við tækifæri og gæfi honum leyfi til að "taka í trukkinn" og "kitla pinnann" en það er borin von að sú ósk hans rætist. Þeir eru afar fáir útvaldir sem fá að snerta þann rústrauða rósavönd.

KrossgöturLagt var af stað heim á nýja Rauð og ekið var eins og lög gera ráð fyrir beina leið heim. Myndin hér til hliðar er tekin á krossgötum en Andri og Þórunn fóru í rollu réttir norður í land og leiðir skildu í Borgarfirðinum. Andri valdi sér sveitastelpu fyrir kærustu og verður hann því að vera liðtækur í sveitastörfum af ýmsu tagi. Hann verður umfram allt að kunna að reka í réttir, hleypa til og mjólka svo ekki sé talað um að kemba hærur og elta gærur um víðan völl, en það er víst eitt af skyldustörfum bænda víða um sveitir. Greiðlega gekk að keyra þann rauða heim á leið. Niðadimm þoka hafði sest að á Þorskafjarðarheiðinni og lagðist þétt upp að bílnum í þeirri veiku von að fá far en það stóð ekki til boða. Vökul augu vestfirskra vætta fylgdust grannt með okkur á þessu ferðalagi og höfðu auga með því að allt gengi eins og í sögu og keyrt var í hlaðið á Víkinni góðu um miðnættið.

Gott er að koma heim í heiðardalinn og gott verður að takast á við hversdagsleikann á ný. Næg verkefni bíða sem spennandi verður að takast á við og ég hlakka til að bjóða ykkur góðan daginn í búðinni og kasta á ykkur kveðju þegar ég hitti ykkur næst. Núna bíður Kjallarinn í Einarhúsi eftir að ég opni svo mér er ekki til setunnar boðið og bíð því góða nótt.

 

 


Í heita pottinum

Ekki þarf að hafa mörg orð um ágæti grænmetissúpunnar sem borin var á borð fyrir Vertinn í gærkvöldi enda hafði húsfreyjan lagt allt í sölurnar til að hún gæti bragðast sem best og voru trakteringar allar til fyrirmyndar.  Þetta er í fyrsta sinn sem Gunna og Dóri eru sótt heim á nýja heimilið sitt og er húsið allt hið glæsilegasta sem og umhverfi allt um kring. Innihald þessarar gæðasúpu var grænmeti af öllu tagi í bland bacon og kartöflur og kraft sem bragðaðist vel enda er uppskriftin úr vinsælustu bókinni í Víkinni. Ég lét það auðvita ekki vitnast að ég hafði komið  við hjá henni Mæju vinkonu minni sem býr í Njarðvík ytri bak Bolungarvík og þar var boðið upp á kaffi og dýrindissúkkulaði svona rétt til að koma reglu á magann fyrir matinn. Forréttur var auðvita jafn nauðsynlegur og aðalrétturinn og eftirrétturinn sem ég fékk hjá Gunnu.

Pottormar með hallamálÞað sem gerði svo kvöldið alveg einstakt var heiti potturinn sem stendur svo traustur úti á sólpallinum hjá Gunnu og Dóra. Potturinn var fylltur af akkúrat mátulega heitu vatni sem veitti vellíðan. Það kom mér verulega á óvart að það skyldi vera bæði rennandi vatn og klósett í húsinu en ég taldi það vera útilokað að boðið væri upp á slíkan munað á þessu svæði. Ég er samt nokkuð viss um að vatnið í pottinum var mengað vínanda af einhverju tagi því við vorum varla sestar ofan í pottinn þegar yfir okkur sveif mikil þörf fyrir að láta eins og fífl og mátti heyra undrunarraddir nágranna yfir hlátrasköllum okkar er við brugðum á leik í náttmyrkrinu. Við lékum á alls oddi enda höfum við ekki fíflast saman um nokkurt skeið svo komin var tími til að gera smá skandal og ekki úr vegi að hleypa smá fjöri í þennan bæ sem stendur við út við ystu myrkur. Upplagt þótti að notast við verkfæri af ýmsu tagi til að gera stundina enn magnaðri og eins og sjá má á myndinni hér til hliðar kom hallarmál að góðum notum við myndatökurnar. Ekki er annað að sjá en að potturinn halli töluvert ef miðað er við hallamálið og legu okkar vinkvennanna á pottbarminum en hvað sem veldur þessum hliðarhalla, þá er myndin góð og sýnir góðar vinkonur í góðum gír.  

Nóttin hafði færst yfir afmikilli yfirvegun þegar Vertinn loksins hélt heimleiðis og lagði út á Pottormar biðjaReykjanesbrautina. Óhugur fór um mig að keyra þessa leið og kalla ég þó ekki allt ömmu mína. Vegaframkvæmdir eru víða á leiðinni sem  leiða ökumenn í bugður og beygjur þvers og kruss og erfitt er oft að greina veginn í myrkrinu enda er leiðin óupplýst og ekki greið fyrir náttblinda sem lítið þekkja til. Ég þakka mínum sæla fyrir að þurfa ekki að aka þennan veg dag hvern og tel brýnt að lögð verði áhersla á að klára að tvöfalda hann hið fyrsta og setja ljósastaura með reglulegu millibili til að lýsa leiðina. Það eru greinilega fleiri vegir en Óshlíðin sem þurfa skjótar endurbætur til að tryggja öryggi vegfarenda. Við báðum þann sem öllu ræður um gæfu og gengi á leiðinni heim eins og sjá má á myndinni til hliðar og án efa hefur það skipt sköpum á ferðalagi mínu í nótt á Reykjanesbrautinni.


Hefðarmey í höfuðborg

Þá hefur ástkæra ylhýra Ísland strokið mér um vangann í nokkra daga. Lognið hefur farið yfir á ógnarhraða og rigning slæðist með í för annað slagið til að toppa tilveruna. Það var svo gott að koma heim í hreina loftið, blíða blæinn og notalega loftslagið sem ég hef verið vön að tilheyra frá blautu barnsbeini. Þrátt fyrir að hafa notið þess að liggja léttklædd undir pálmatré í tvær vikur þá tilheyri ég þessu landi og kýs að vera hvergi annarsstaðar að jafnaði.  

Allir eru komnir til síns heima nema Vertinn sjálfur sem hefur verið í borginni um tíma til að útrétta eitt og annað. Búið er að endasendast út og suður í ýmsum erindagjörðum og ber þar helst tíðar heimsóknir í lindina hans Smára þar sem hægt er að teyga  af gnægtabrunni nýtísku fatnaðar en auk þess hafa kaffihús verið heimsótt í gríð og erg og hnallþórur innbyrgðar af miklum móð. Það fylgir auðvita slíkri höfuðborgarferð að fara í gott bíó og njóta góðrar myndar með popp og kók í sitthvorri hendinni en ekki er síður mikilvægt að mæta á góðan AA fund í Árbæjarkirkju til að ná jafnvægi og innri ró. Allt eru þetta mikilvægir hlekkir í lífskeðjunni minni.  

Í kjólnumVið systurnar áttum daginn í gær saman og fórum í hádeginu í hágæða heilsuveitingahús sem ber heitið “Maður lifandi” og þar var kroppurinn fylltur af heilsusamlegu góðgæti. Og maður lifandi, þetta var alveg ljómandi gott og fyllti mig þrótti í einni svipan. Það er venja þegar ég og Auður hittumst að taka góða myndasyrpu því hún er ljósmyndari góður og á glænýja vél sem hefur stórar aðdráttarlinsur sem geta dregið að sér fjöll og firnindi svo þau virka í næstu nálægð. Vertinn var klædd í kjól frá tímum Viktoríu Englandsdrottningar og farið var út í allsherjar myndtökur úti á torgum þar sem stellingar af ýmsu tagi voru prufaðar  og ekki þarf að spyrja að því að myndirnar urðu hver annarri betri enda ljósmyndarinn til fyrirmyndar og fyrirsætan einnig. Það var einstaklega gaman að upplifa sig sem hefðarmey í höfuðborg.  

Í kvöld er fyrirhugað að leggja leiðina á Suðurnes til að þiggja velgjörning í Bolungarvík bak Njarðvík hjá Gunnu vinkonu. Hún bíður spennt komu minnar og hefur verið í stöðugu símasambandi við mig til að tryggja komu mína í tíma. Jesús sjálfur þurfti að notast við gsm síma þegar hann kallaði Júdas til síðustu kvöldmáltíðarinnar samkvæmt nýjustu auglýsingu Símans svo þetta er ekkert nýtt.  Ef ég þekki kerlu rétt, stíg ég ekki svöng upp frá hennar borðum enda eins gott að eta á sig gat því þetta verður væntanlega síðasta kvöldmáltíðin okkar í bili. 

Heimferð er fyrirhuguð á föstudag enda kominn tími til að fara að sinna sínum málum heima í héraði. Víkari bíður mín með óþreyju og fleiri verkefni eru í farvatninu sem mig hlakkar til að takast á við. Gott verður að hitta Þuríði Sundafylli sem bíður mín eins og klettur í gættinni á Víkinni góðu og bíður mig velkomna heim aftur. Hún hefur gætt að ykkur hinum meðan ég var í burtu og ég get ekki annað séð en að íbúar Bolungarvíkur hafi verið í góðum höndum þrátt fyrir allt. Landnámskonan okkar hefur vakað, undir, yfir og allt um kring, enda er hún stoð okkar og stytta.     


Köttur út í mýri....

Köttur út í mýri.... 

Senn líkur þessu ævintýri okkar á eyjunni Rhodos í Grikklandi. Síðasti dagur ferðalagsins er runninn upp og ferðalangarnir sitja á hótelinu þegar þessi orð eru rituð og bíða þess að rútan komi sem ferjar þá inn á flugvöll. Það bíður flugvél á vegum Heimsferða sem ætlar að koma okkur á leiðarenda. Flugið er frekar langt og smá kvíði í hópnum yfir því að þurfa að sitja í þrengslunum ú vélinni í tæpar sex klukkustundir en það líður þó allt og fyrr en varir verðum við komin heim. Þessi tími er búinn að vera frábær og stóðst væntingar í alla staði. Hópurinn einstaklega samheldinn og góður enda allt skemmtilegasta fólkið sem ég þekki samankomið á einn og sama staðinn svo ekki var við öðru að búast en að allt gengi eins og í sögu. 

Setti upp á sig stýri......... 

Við leigðum bílaleigubíl í gær og keyrðum um eyjuna og skoðuðum það helsta sem þótti markvert. Brunað var á stórum Fiat um holt og hæðir og hélt ég um stund að útsendari frá Vegagerðinni á Vestfjörðum hefði verið sendur út af örkinni til að finna heppileg vegstæði fyrir vegina á þessari litlu eyju, sem stendur svo hnarrreist við Miðjarðarhafið, því vegirnir fóru í ótal bugður og beygur, upp hóla og hæðir. Ég hélt sem snöggvast að ég væri komin heim og væri að hlykkjast upp Hrafnseyrarheiðina á björtum sumardegi. Við stoppuðum í Lindos og fórum þar í sjóinn. Þar eru strendurnar þaktar gullnum skeljasandi og sjórinn kristaltær og smáfiskar synda allt um kring og gæla við kroppinn hér og þar og kitla sundgarpa notalega þegar marvaðinn er troðinn. Sjórinn  var sjóðheitur og golan glettilega heit þegar ferðalangarnir busluðu í dámsamlega fallegri vík milli klettasylla og kóralrifja og var þetta var ævintýri líkast.   

Úti er ævintýri........ 

Þessu ævintýri fer senn að ljúka og gott verður að koma heim eftir velheppnaða ferð. Það er alltaf gott að koma heim til að takast á við ný ævintýri sem bíða handan við hornið. Flestir fara beint vestur því vinna og skóli biður en Vertinn mun vera eitthvað áfram í höfuðborginni  til að erindast eitt og annað því hitta þarf mann og annan út af Einarshúsinu. Ná þarf samningum við hina og þessa er varða næsta sumar og minna þarf á mikilvægi þess að Einarshúsið nái að vaxa og dafna í framtíðinni. Vinnan bak við barinn er aðeins brot af því sem þarf að inna af hendi til að koma Einarshúsi á koppinn. Næg verkefni svo Vertinum í Víkinni er ekki til setunnar boðið og stefnir ótrauð á vit nýrra ævintýra.

 

« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Sept. 2007
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband