Tilboð í kolageymslunni

Brjálað tilboð verður í gömlu kolageymslunni í kvöld milli 23 og 24. Kolamolinn verður á spottprýs fyrir þá sem mæta tímanlega og lagt er til að bændur og búalið, verkamenn og vinnuhjú mæti ef þeir sjái sér fært. Bifreiðastjórar og bankamenn eru einnig velkomnir sem og gítaristar og götusóparar.

Út og suður

Segjast verður alveg eins og er að yfirbragð allt og útlit Vertsins í Víkinni er snöggtum skárra eftir upphalningu dagsins, þó nauðsynlegt teljist þó að geta þess að útlitið skammaði ekkert upp á yfirbragðið þrátt fyrir allt. Í tilefni af því að dekurrófan í Súðavík opnar Dekurhúsið að nýju þótti upplagt að Vertinn færi fyrst af öllum til að fríska upp á annars úfið hárið og léti laga til í brjálæðislegu yfirþyrmandi krullunum sem leggjast í allar áttir án þess að viðkomandi fái rönd við reist. Nú leggjast lokkarnir í unaðslegum dökkbrúnum liðum með gylltum slöngulokkum á víð og dreif og þökk sé henni Laufey. Eitt sinn þótti téðum Vert það alls ekki fínt að vera krullinhærð, en þakkar núna skapara himins og jarðar fyrir þau forréttindi að fá að hafa liðað hárið þó það standi út og suður og jafnvel norður og niður við hátíðleg tækifæri.

 


Gúllassúpa í hádeginu á föstudag

Hin annálaða gúllassúpa mun verða framborin í hádeginu á morgun, föstudag, og þá er nú virkilega lag að mæta og njóta þeirra veiga sem í boði verða. Legg ég því á og mæli um að menn bjóði starfsmönnum sínum með öllu tilheyrandi í súpu og brauð en einnig mega allir hinir mæta líka meðan húsrúm leyfir og birgðir endast.

Hlakka til að sjá ykkur

 


Ákall til þorrablótskvenna 2008

Þá fer að koma að því að slíta naflastreng þorrablótskvenna sem voru saman í nefndinni árið 2008 endanlega. Til stendur að hittast heima hjá Vertinum í öllu sínu veldi nk. föstudagskvöld og horfa á spóluna sem tekin var á blótinu og dásama hversu frábærar við vorum í alla staði.

Borkonur Bolungarvíkur koma því saman einu sinni enn til skrafs og ráðagerða en ekki er ætlast til þess neitt sérstaklega að þær hafi meðferðis nein tæki og tól, einungis eitthvað góðgæti til að gæða sér á um kvöldið.

Sólrún, Sísí, Jóhanna, Halldóra, Dóra María, Sigga, Alda Karen, Magga, Dísa og Peta...... gerið ykkur klárar fyrir næsta föstudagskvöld því það stefnir allt í feikifjör.

Ef þú, lesandi góður, hittir þessar kerlur á förnum vegi, láttu þær þá vita að þær séu á leið í partý.


Haustdagskráin

Haustdagskráin í Einarshúsi hefur verið í smíðum undanfarið. Hugmyndaflugið hefur algjörlega  hlaupið með margnefnda í gönur og það mun bókstaflega verða boðið upp á ótrúlegustu viðburði á komandi hausti. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum munu verða vel upplýstir þegar þar að kemur en dreyfimiðar verða sendir í flest hús á þessu kalda svæði á hjara veraldar til upplýsinga fyrir bændur og búalið. Krummaskuð vítt og breytt munu ekki fara varhluta af uppákomum í húsi sorgar og gleði og bæir í uppsveitum, innsveitum og vatnsveitum munu fá bréf í fyllingu tímans um það sem verður í boði í framhaldinu. Landpóstar munu hafa nóg fyrir stafni er auglýsingapési Einarshúss fer í dreyfingu á næstu dögum og eins gott að gæta þess að hann lendi ekki í ruslatunnunni eða fari forgörðum með einhverjum hætti. Lesblindir geta fengið bleðilinn borinn á borð líkt og hinir fluglæsu og vonandi fá blindir sýn til að geta lesið sér til um herlegheitin. Hægt verður án efa að lesa auglýsingasnepilinn aftur á bak ef fólki sýnist svo en einnig geta þeir sem eru ekki með fulle femm lesið um atburðina á hvolfi. Þeir sem ekki kunna að lesa yfir höfuð geta hringt í viðkomandi og fengið upplýsingar en útlendingar héðan og þaðan eru hvattir til að læra íslensku svo þeir geti með auðveldum hætti skilið mælt mál á prenti. Eins og þið glögglega getið lesið hér í þessari bloggfærslu er haustdagskráin háleynileg ennþá og ekki birtingarhæf að svo stöddu og því er til mikils að hlakka enda verður allt kapp lagt á að hafa fjölbreytni í boði svo allir finni eitthvað við sitt hæfi.

 

 

 


Fjölgun

Gaman er að geta þess hve Vertinn bólgnar út dag frá degi en fjölskyldan virðist stækka óðfluga. Sú fregn sem birt var hér á blogginu, með vilja, um að margnefnd ætti von á barni hefur valdið taugatitringi í bæjarfélaginu. Líklega finnst mörgum óhugsandi að nægur tími finnist í sólarhring Vertsins í Víkinni til að huga að einu barninu enn og eflaust þykir öðrum að viðkomandi ætti að eyða tímanum í annað og vitlegra en að búa til börn í gríð og erg. Gróa á Leiti gladdist þó óskaplega yfir fréttunum og másaði og blásaði um þessa fregn við eldhúsborðið hjá málglöðum meyjum hér í byggðarlaginu sem hristu hreinlega hausinn yfir þessu framferði viðkomandi Verts og vitleysisgangi að vera að fara að fjölga mannkyninu kominn á þennan aldur. 

Hægt er nú að geta þess að "barnið" birtist í dag en Ida kom örlítið fyrir tímann því  þessi norski skiptinemi, sem ætlar að dvelja hjá okkur í vetur, átti að koma með kvöldvélinni en lenti á Ísafjarðarflugvelli í morgun. Til allrar hamingju voru aðrir "nýbakaðir" foreldrar á vellinum að taka á móti hinum skiptinemanum sem mun dvelja hér vestra og tóku þau Idu með sér heim og þangað var hún sótt um hádegisbilið. Skemmst er frá því að segja að þessi nýi fjölskyldumeðlimur er einstaklega geðug stúlka  og virðist falla vel í hópinn við fyrstu kynni og eru allir einhuga um að láta samveruna ganga vel.

Upplagt þykir að setja myndir af öllum hópnum sem dvelur að staðaldri á heimili Vertsins og einnig þeim sem dvelja svona endrum og eins og jafnvel oftar en það. Eins og glöggt má sjá þá er þetta afar fríður hópur enda samankomnir einir frábærustu krakkar sem ég þekki.

Elsa, Einar, Lilja og Ida

Hér má sjá Elsu, Einar, Lilju og Idu og á myndinni fyrir neðan eru Þórunn og Andri

Þórunn og Andri

 

 


Til hamingju Ísland

Vertinn er aldeilis forundrandi yfir árangri Íslensku strákanna í handboltanum. Þessi dásemdarljós skutu Spánverjum ref fyrir rass er þeir sigruðu með glæsibrag með sex marka mun nú rétt í þessu. Koma strákarnir okkar því til með að spila um gullið á Ólimpíuleikunum. Téður Vert er uppfull af rembingi og rígmonti yfir því að eiga þvílíkt og annað eins stóð af krúttum og kjútípeyjum sem kunna betur en flestir aðrir að spila handbolta. Taugaspennan er þó í rénun eftir leikinn en geðshræringin og þjóðarrembingurinn er enn allráðandi. Ef einhvertímann hefur rignt upp í nefið á margnefndri þá er það í dag, það eitt er víst. Ég leyfi mér að gera orð ekki ómerkari manneskju en Silvíu nótt að mínum og segi " Til hamingju Ísland" með að skara framúr eitt skiptið enn.

Í tilefni af þessum frábæra árangri verður fagnað í Einarshúsi í kvöld þar sem tveir kolamolar verða á verði eins frá kl. 22:00 til kl. 24:00 og eru menn hvattir til að láta fagnaðarerindið berast milli fullorðinna og ráðsettra einstaklinga í bænum og í nágrannabyggðarlögum einnig. Euróvisionlög munu óma í græjunum í bland við allrahanda tónlist og stóra sviðið er á lausu fyrir tónelska hljómlistarmenn sem vilja troða upp og láta ljós sitt skína.

 

 


Haustið við súluna

Haustið nálgast og brýnt er að setja niður dagskrá vetrarins í Einarshúsi. Hugur Vertsins í Víkinni og vinnuhjúanna er uppfullur af skemmtilegum hugmyndum sem reyna á að láta verða að veruleika í vetur til að létta fólki lundina og bæta geðið í skammdeginu. Súludans verður þó ekki í boði fyrst um sinn enda súlurnar í Kjallaranum ekki til þess fallnar að rugga sér mikið í lendunum eða nudda sér fast upp við þær vegna ótta við að fá tréflísar í kroppinn. Margir hafa þó reynt að láta líkamann leika við trésúlurnar í Kjallaranum og nýtt sér stöðugleika þeirra til að halda jafnvægi í dansinum en það hefur aldrei farið úr böndum svo neinu nemi. Súlurnar munu því eingöngu gegna því veigamikla hlutverki að halda húsinu stöðugu og sjá til þess að það falli ekki um sjálft sig og detti framfyrir sig þegar síst skyldi

 


Útskriftarbragur

Þrátt fyrir að öll viska Vertsins í Víkinni sé ásköpuð eða meðfædd hefur viðkomandi þó gengið menntaveginn af og til. Einhver framhaldskólamenntun hefur fylgt téðum Vert gegnum árin og hin og þessi námskeið prýða ferilskránna. Til að mynda er margnefnd útlærð í listeríu-gerlafræðum og fengið orðu þess vegna fyrir þriftæknistörf í þágu hreingerninga í Bakkavík. Einnig hefur oftnefnd sótt ræðunámskeið, verið í málfreyjunum og setið námskeið í Menntasmiðju kvenna svo fátt eitt sé nefnt. Oftsinnis reynt að læra á gítar en ekki tekist og þar spillir án efa lélegt tóneyra fyrir framförum á því sviði. Það viðurkennist hér og nú að margnefnd er frekar ólagviss og getur með glans vaðið úr Atti katti Nóa yfir í Einsa kalda úr Eyjunum án þess að verða þess var að laglínan riðlist svo neinu nemi.

Eins og fram kom í fyrri færslu fundust pappírar í drasli í tiltekt gærdagsins. Þar leyndist bragur sem fluttur var á Bifröst er sótt var námskeið fyrr á árum. Tilvalið telst að setja braginn á bloggið til frekari varðveislu en hann var saminn í tilefni af útskrift í Mætti kvenna á Bifröst 9. maí 2004. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og téður Vert skolar ekki líkjörum í lítravís niður lengur enda hefur lífsins skóli leitt það í ljós að þess þarf ekki. Bragurinn var fluttur af Mæðuveikikór máttugra meyja í lokahófi á Hótel Borgarnesi. Þess ber að geta að bragurinn er örlítið klúr á kafla og er því varla fyrir sakleysinga sem eru sérstaklega varaðir við neðanmittisdjóki. Þrátt fyrir það var hann fluttur fyrir ráðherra og rektora án þess að nokkur fengi rönd við reist. Lagið er Flagarabragur

Útskriftarbragur

Viðlag:

Hér við skemmtum okkur saman

staðráðnar í því að hafa af því gagn og gaman.

Vafalaust nú viskan mun um æðar okkar renna

því virkjað höfum ógnarkraft, sem býr í Mætti kvenna.

 

Í Fræðslumiðstöð funduðum við verkefnin að klára

á fyrirlestra hlustuðum með athygli hjá Smára.

Í upplýsingatækni þurftum eilítið að hugsa

hjá Önnu Rún ei þýddi neitt, að skrópa eða slugsa.

 

Er gerðum við í markaðsmálum uppgötvanir merkar

með guðaveigum þurftum þá að væta okkar kverkar

og líkjörum í lítravís við skoluðum þá niður

og lærdómsmeyjum þótti það, skrambi góður siður.

 

Viðlag:

 

Af kraftinum við konur unnum áætlunargerðir

því kunnáttan í slíku efni huga okkar herðir.

Þótt Eygló lærði yfir sig, þá gegnum tárin brosti´

og síðan hefur dvalið í, léttu taugalosti.

 

Í fjármálum hann kenndi okkur prósentur og mengi

og lagði sig í líma við að tala nógu lengi.

Þó var það ei að síður alveg guðdómlegur lestur

hann hljómaði úr tölvunni, sem biskup eða prestur

(man reyndar ekki við hvern er átt)

 

Viðlag:

 

Í heilsubænum Petrína þarf allmörgu að sinna

að stuðla að heilsueflingu er heljarmikil vinna.

Á meðan situr Ragna oft á bæjarstjórnarfundum

en þess á milli lærðu þær, nánast öllum stundum.

 

Til Pálínu við fórum eitt sinn amstrinu að gleyma

með von. um það að meðhjálparinn hennar væri heima

En allt það kvöld við urðum bara bókfærslu að læra

því Herkúles sá frómi fýr, lét ekkert á sér kræla.

 

Viðlag:

 

Og karla okkar kvörtuðu í sífellu í hljóði

er viskan fyllti okkar vit svo næstum út úr flóði.

Því námið hér í Mætti kvenna settum við á oddinn

og aldrei gafst neinn tími til, að fá sér einn á broddinn.

 

En sterkari nú flestar okkar sameinaðar stöndum

og sumar hafa bundist góðum vináttunnar böndum.

Nú komið er að leiðarlokum, máttug kona, meyja

og teljum við því tímarbært, að hætta hér og þegja.

 

Viðlag:

 

Þetta er auðvitað bara eins og hver önnur vitleysa sem enginn skilur nema kannski þeir sem skilja akkúrat ekki neitt enda er bragurinn óttalegur leirburður sem trúlega fáir skilja eða hafa gaman af. Það er komið að leiðarlokum hjá flestum okkar sem sóttu þetta námskeið og tel ég því tímabært að hætta hér og þegja

 


Vopnaðir kúrekar og villtar meyjar

Vertinn getur ekki verið þekkt fyrir annað en að birta myndir af kúrekum sem komu í Kjallarann nýverið. Glöggt má sjá á myndinni að þessir kúasmalar úr Villta Vestrinu eru vel vopnum búnir og trúlega stórhættulegir fyrir vikið.

Kúrekar í Kjallaranum

Það vildi þó til happs að bráðhuggulegar yngismeyjar mættu líka í Kjallarann þetta kvöld og bar skvísan á myndinni með sér sérstakan yndisþokka.

Halli

Verst að Vertinn skildi missa af þessu öllu saman


Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2008
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 635878

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband