Tiltekt

Tiltekt hefur verið í fullum gangi á heimilinu við Hólastíg og Einarshúsið bíður átekta. Senn bætist við fjölskylduna því Vertinn á von á barni innan tíðar. Fórna þarf einu herberginu sem gegnt hefur hlutverki tölvuherbergis og skrifstofu undanfarin ár undir nýja fjölskyldumeðliminn. Útbúið hefur verið afdrep fyrir stóra tölvuhlunkinn og pappírsfarganið í bílskúrnum og það rúmast bara vel.

Í tiltekt sem slíkri kemur margt í ljós og fjölmargir pappírar sem Vertinn hefur viðað að sér í áranna rás rata beint í ruslatunnuna en gömlum ljóðum og ræðum sem viðkomandi hélt að væru týndar og tröllum gefnar litu dagsins ljós við mikinn fögnuð margnefndrar. Læt ég flakka að þessu sinni ljóð sem ég orti til vinkonu á fertugsafmæli hennar 1. maí árið 2004. Þá notaði ég tækifærið á leiðinni í Borgarfjörðinn til að hnoða þessum brag saman og mesta furða hve vel til tókst.

 

Í faðmi blárra fjalla inn í fagurgrænni sveit

lítið fljóð með ljósa lokka veröldina leit,

þá Halla var í heiminn þennan borin.

Við Ingjaldssand, sem skaparinn af sinni snilli skóp

á Brekku bættist Halla inn í stóran barnahóp

og gekk þar fyrstu ævi sinnar sporin.

 

Á árum áður lífsbaráttan þótti stundum hörð

hún barnaskóla sótti yfir fjall í næsta fjörð

á Núpi hlaut hún sína fyrstu menntun.

Í Víkina svo flutti, þar ég hitti þessa snót

þá léttstígar við leiddumst yfir urð og yfir grjót

í minningunni er það eintóm skemmtun.

 

Og fljótlega hún fann, hún eiginmann hún yrði að fá

hún fyrir Sigga Gumma sínar snörur lagði þá

og eftir það var ekki hægt að bakka.

Hvort annað hafa eflaust kysst og knúsað eitthvert kvöld,

kelað oft í rökkrinu á nýliðinni öld

því saman eiga fjóra myndarkrakka.

 

Það hefur ætíð verið ein af hennar innstu þrám

að drífa sig í háskóla í rekstrarfræðinám

á Bifröst frúin fullnema sig vildi.

Svo fyrir vestan kvaddi sérhvern dal og sérhvern hól

með ógnarhraða kvaddi höfuðbýlið Kirkjuból

í reiðileysi eftir allt þar skildi.

 

Ávallt hefur leiðin hennar legið bein og greið

og ætíð hefur sólin skinið skært á lífsins leið

nú sér að baki fjörutíu árum.

Þeim árum hefur Halla varið þokkalega vel

og vaxið vel og dafnað prýðilega að ég tel

þó fjölgi á höfði hennar gráum hárum.

 

Nú tel ég tíma kominn til að enda þennan brag

sem saminn var í tilefni af þessum mæta dag

þó efalaust ég mörgu hérna gleymi.

Að endingu þér, Halla, vildi óska allt í hag

með góðum vættum gakktu nótt sem fagurbjartan dag

og gæfudísir framtíð þína geymi.

 

Það má kannski segja að bragur sem þessi sé einungis til þess fallinn að brenna músum í gríð og erg enda er það algengt að afmælisvísur beri væmnikeim og jafnvel hafi jafnvel yfirbragð eftirmæla. Alkunna er að mæra afmælisbörn í hástert á merkisdögum og framliðna einnig.

Fyrst talið berst að framliðnum þá er vert að geta þess að fyrrum íbúum Einarshúss og þar áður Péturshúss virðist vera kappsmál að skilja eftir sig góða nærveru. Allir sem sækja húsið heim virðast finna þennan yl sem liggur í innviðum hússins með tilheyrandi straumum sem veita vellíðan. Fjölmargir hafa orð á því hve góður andi sé í húsinu sem geymir svo mikla sögu  en þær systur Sorg og Gleði eiga það sammerkt að hafa dvalið um hríð í þessu húsi harma og hamingju. Það virðist oft vera fjör og glens og gaman þó ekki sé hægt að henda reiður á mannfagnaðinn í það og það skiptið og ófáar hjálpsamar hendur koma að rekstrinum þó ekki sé hægt með nokkru móti að átta sig á hvaðan þær koma. Það er ekki amalegt að hafa slík við höndina ef á þarf að halda og telst það staðnum til tekna að öllu leiti.

 


Í húsinu þar sem hjartað slær

Er rennt var heim í hlað á aðfaranótt laugardagsins heyrðist glaumur og gleði óma frá Einarshúsi. Þegar ekið var hjá lýstu rauð ljós upp umhverfið og hjörtu slógu í gluggunum í takföstum rithma. Vinnuhjúin höfðu nýtt tímann til að skreyta allt hátt og lágt og húsið bókstaflega æpti af gleði enda var Kjallarinn kjaftfullur eins og svo oft áður. Einarshúsið naut sín eins og ætíð enda slær hjartað ört í húsinu alla daga allan ársins hring. Vertinn í Víkinni getur því slegið um sig allar vikur ársins og montað sig af sínu skylduliði og því sem gerist í húsi gleðinnar. Rauðu ljósin í gluggunum munu fá að lýsa upp umhverfið inn í haustið og veturinn og talið er fullvíst að ástir munu áfram kvikna á brennheitum augnablikum í húsinu sem geymir sögu sögu gleði og hamingju.

Allar slagæðar Bolungarvíkur bera ólgandi blóðið svo taktfast að hjarta bæjarins sem er Einarshús. Með reglulegu millibili eru æðisgengnar uppákomur í þessu húsi sem auka enn frekar á taktfastan hjartsláttinn sem gerir staðinn að griðastað allra sem Víkina sækja heim. Vertinn hefur þá trú að hjartsláttur Bolungarvíkur yrði heldur veikur ef slagbrandurinn yrði settur fyrir dyrnar í eitt skipti fyrir öll og margnefnd hefur þá trú að vel flestir bæjarbúar séu líka á þeirri skoðun. Margir hafa sagt að endurgerð hússins og sú starfssemi sem þar fer fram hafi verið eitt það besta sem komið hefur fyrir Bolungarvík enda bera tíðar heimsóknir bæjarbúa og gesta þess vitni. Því telur margnefnd að ekki sé þörf á neinni hjartaþræðingu í Bolungarvík á meðan rekstrinum er framhaldið með svipuðu sniði.

 

Enn var líf og fjör í nótt. Vertinn svaf þó að mestu á sínu græna eyra enda farinn að þreytast á næturvinnunni í bili. Dagskrá haustsins er í smíðum og allt á eftir að ganga eins og blómstrið eina líkt og í fyrra. Sjávarréttahlaðborð, Jólahlaðborð, Pétur og Einar, Spilavist, Kjallarakeppni, Sagnakvöld, og margt fleira verður í boði fram á jól. Árshátíðir fyrirtækja eru einnig boðnar velkomnar þá og þegar og mannfagnaðir af öllu tagi. Nokkuð ljóst má telja að opnunartíminn verður ekki skertur svo neinu nemi til jóla en það ræðst þó að sjálfsögðu af framboði og eftirspurn og lesendum bent á það að því oftar sem komið er við í húsi gleðinnar í Einarshúsi í Bolungarvík og bragðað á trakteringum hússins, því meiri líkur eru á því að hægt verði að halda opnu lengur út í veturinn. Einnig ber að geta þess að alla virka daga er boðið upp á hefðbundinn heimilismat í hádeginu en tryggara telst þó að panta borð ef hópar ætla að mæta.

 

 


Mamma mía

Vertinn heldur áfram viðstöðulaust í sumarfríi og gistir núna hjá piparsveininum í Njarðvík í góðu yfirlæti. Gunna vinkona og Dóri búa hérna rétt hinumegin við götu og reikna má með því að sú krafa verði gerð að potturinn verði hitaður í 40° til að laða dreifbýlingana að og viðbúnaður allur verði hinn mesti.

Fríið er annars búið að vera ágætt. Mikið er reyndar um útréttingar í höfuðborginni og fjallabíllinn orðinn fullur af vörum og dóti, sumt má án efa telja til munaðarvöru og annað til nauðsynja og allt jafn nauðsynlegt fyrir vikið. Bíóhús borgarinnar hafa verið sótt heim eins og tilhlýðilegt telst í slíkum ferðum og laugarnar notið þeirrar ánægju að fá margnefnda í heimsókn og allt þar frameftir götunum.

Kvikmyndin "Mamma mía" var sérdeilis aldeilis frábær bíómynd. Reyndar leit svo út fyrir að allur kvennalistinn í heild sinni væri samankominn í salnum og varpaði það einn meiri ljóma á sýninguna fyrir vikið. Myndin virðist greinilega höfða meira til kvenna en karla enda er hún sambland af ástarsögu, sem endar vel, skemmtilegum söngvum og dansi.      

Ítalía stóð undir væntingum eins og ætíð. Fjögur systkini af fimm áttu þar saman góða kvöldstund í gærkvöldi. Tekin var mynd af þessu sjaldséða mannfagnaði

               

Systkin

Líf og fjör

Góður gestur sendi Vertinum myndir úr Kjallaranum sem teknar voru um helgina svo viðkomandi gæti fylgst með fjörinu úr fjarlægð. Smelli einni mynd með þessari færslu og fleiri birtast væntanlega um síðir.

Stína í stuði

Myndina af þessu fjörugu fljóðum tók Bæring Gunnarsson


Frænkur

Frænkur

Fjórar frænkur

Þorbjörg, Stefanía, Lilja og Bryndís


Vertigo

"Góðkynja stöðusvimi" eða "benign paroxysmal positional vertigo" kallast fyrirbærið sem angrar jafnvægið hjá Vertinum um þessar mundir. Snarsvimi gerir vart við sig þá og þegar og ruglar það heiladinglinum og gerir viðkomandi ringlaða um stund. Allskyns æfingar eru nauðsynlegar til að koma jafnvægi á heilann því núllstilla þarf heilataugina til að allt fúnkeri eðlilega og myndarlegi læknirinn hefur verið heimsóttur í tíma og ótíma þar sem hann hefur farið yfir æfingarnar með margnefndri. Ekki lét téður Vert það slá sig útaf laginu því vikufríið beið handan hornsins og tilhlýðilegt taldist að halda sig við áður ákveðið plan enda á jafnvægisleysið að brá af á nokkrum dögum.

Ragna í grjóti

Haldið var því til höfuðborgarinnar með viðkomu Skötufirði þar sem myndin var tekin í steinhúsi en þaðan var haldið í Reykjanes og þar var ljúft að vera eins og ætíð. Frekar heitt var þó í herberginu eins og svo oft áður því stillilogn var úti og andvarinn gat því ekki leikið um herbergið. Sundlaugin í Reykjanes stóð þó fyrir sínu eins og alltaf og gott að díva tánni í heitt vatnið fyrir svefninn. Kollafjarðarheiði beið svo bljúg og góð í Ísafirðinum í gær og það var sérstaklega gaman að keyra hana en það er í fyrsta sinni sem Vertinn fær þeirrar ánægju aðnjótandi að sækja þessa fornu heiði heim.

Bjart var yfir Búðardal og glöggt mátti sjá hve þetta litla bændasamfélag var komið sterklega á kortið. Hlýtur að mega þakka það nýjum sveitastjóra þorpsins sem fékk þann heiður að fá að komast á kortið sjálfur með aðstoð Bolungarvíkur. Frá langömmu heillinni í Búðardal var haldið í humátt til Rutar frænku minnar í Gröf á Hvalfjarðarströnd en hún er dóttir Gríms á Ósi og eru hún og mamma systradætur. Á myndinni er hún með bónda sínum, Jóni. Þaðan var brunað í bæinn og rétt í þann mund er Gleðigöngunni var að ljúka í hjarta höfuðborgarinnar ókum við glaðbeitt inn í borgina er löðrandi leðurilmur sveif yfir vötnum. 

Rut og Jón

Dagurinn í Reykjavík í dag bíður svo upp á bolvíska bongóblíðu. Sólin mun því leika við margnefnda er hún færir sig á milli verslana í æðislegri leit að varningi sem bráðvantar. Ætlunin er að kaupa flísar og flikka upp á eitt og annað á heimilinu og því er nauðsynlegt að kaupa inn á stórútsölum borgarinnar sem nú standa sem hæst.

Það verður þó að segjast alveg eins og er að gott er að komast í burtu frá Bolungarvíkinni eins og hún er nú indæl alla jafna enda er það nauðsynlegt að taka sér frí endrum og eins. Bolungarvíkin mun trúlega bjóða upp á blóðrautt sólarlag á meðan viðkomandi er fjarverandi. Vonandi verður þó enginn baðaður upp úr blóði hennar í vikunni sem framundan er. "Elskið þá sem eru yður þóknanlegir og leggið fæð á hina" er varla eitt af boðorðum vikunnar enda ekki boðorð yfirleitt, enda er slíkt ekki boðlegt í litlum samfélögum og ekki til þess fallið að auka hróður út á við.

Vitnað er nú í "Víkina mína" sem Vertinn samdi fyrir þorrablótið en einhver bolvískur rembingur helltist yfir óforvendis:

 

Víkin mín fríða í fjallanna sölum

Víkin svo fögur við ólgandi haf

Víkin sem skartar svo fallegum dölum

Víkin sem drottinn af góðmennsku gaf

Víkin sem vonir í brjóstunum vekur

Víkin mun vandlega hlúa mér að

Víkin sem huga minn alfarið tekur

Víkin í hjarta mér ætíð á stað

 

Vertinn var ekkert smá upp með sér að þetta erindi skildi verða notað í minningargrein um mann sem jarðaður var nýverið og gladdi það margnefnda mikið.

Að endingu er birt mynd af ástföngnum pörum sem tekin var á Ísafirði fyrir skömmu. Þar blómstraði ástin og kærleikurinn. Þessi pör eru nú stödd norður í landi og þar mun ástin einnig blómstra og kærleikurinn og þá er tilgangi lífsins náð.

andri og þórunn

Bið að heilsa í bili

Verti-go

 

 

 

 


Húsin þrjú

Einarshús verður að sýna af sér sérstaka þolinmæði þessa dagana því smiðurinn getur lítið sinnt því um þessar mundir. Ástæðan er sú að téður Vert á aðra höll á staðnum sem dytta þarf að og mála og færa í nýjan búning og er það ærin vinna að halda því í horfinu. Það að eiga ein tvö glæsilegustu hús staðarins er auðvitað kostur útaf fyrir sig og mikið gleðiefni fyrir margnefnda. Húsið að Hólastíg er búið að veita fjölskyldunni örugg skjól undanfarin 15 ár og mun án efa gera það eitthvað áfram.

Hólastígur

Önnur sumarhöll hefur þurft að lúta í lægra haldi frá því að fjárfest var í Einarshúsi en það er Hólakot í Dýrafirði. Haldið verður þangað þegar um hægist og tími gefst til. Þaðan eigum við margar minningar og góðar.

Hólakot

Einarshús er svo stærsti demanturinn í hópnum og trónir á toppnum í þessu þríeyki húsa Vertsins í Víkinni og hennar skylduliðs.

Einarshúsið á sumarnótt

Jón Bjarni hefur unnið nokkuð mörg handtökin í þessum húsum þremur og á í raun heiður skilið fyrir ótrúlega eljusemi í gegnum árin við endur- og uppbyggingu húsanna þriggja

 

 

 

 


Rétt fyrir svefninn

Lítið að segja annað en bara ágætt. Dáleiðisdrullan á undanhaldi og verður án efa horfin á morgun. Legusár eru þó ekki farin að gera vart við sig enn svo brýnt telst að koma sér úr bælinu hið fyrsta. Falleg mynd af Bolungarvík má fljóta með svona rétt fyrir svefninn

Bolungarvík höfn

Eins og málverk sagði einhver


Jafnvægisleysi

Jafnvægisleysi hrjáir margnefnda í dag og Vertinn riðar til falls í áttunda hverju spori og veröldin hringsnýst og ógleðin bíður færis. Þessi vanlíðan varð þess valdandi að læknirinn á staðnum var sóttur heim og fengin til að taka heilsufarið út á viðkomandi Vert. Oftnefnd fer alla jafna ekki til læknis enda heilbrigðið uppmálað og fílhraust eins og öll ættin langt aftur í fornöld. Í þetta skipti þótti það tilhlýðilegt að fara í læknisheimsókn til að koma í veg fyrir frekari lasleika, því sumarfrí bíður handan hornsins og heilsan þarf að vera í fullkomnu lagi.

Um leið og litið var framan í þennan unga og fallega lækni sem sinnir nú læknisstörfum í bænum fór ýmislegt að skýrast sem áður hafði valdið heilabrotum. Hluti vinnuhjúanna í Einarshúsi hefur nefnilega verið einstaklega lagin við að slasa sig á alla lund og tíðar læknisferðir hafa verið daglegt brauð. Leiðin upp á heilsugæslustöðina hefur verið farinn í tíma og ótíma og hafa brunasár og stungusár í bland við allrahanda bráðaveikindi blossað upp á ögurstundum. Í upphafi mátti halda að tíðar slysfarir væri til þess fallnar að kría út smá frí endrum og eins en alltaf mæta þessar elskur í vinnuna hvernig sem stendur á og slasa sig oftar en ekki jafnóðum í framhaldinu. Sáraumbúðir á höndum og fótum hafa ekki komið að sök í vinnunni og aldrei hefur verið kvartað eða kveinað svo neinu nemi. Nú hefur ástæðan litið dagsins ljós, læknirinn er svo sætur að vinnukonur láta það ekki eftir sér að brenna sig og stinga til þess eins að láta hann líta á sig eitt augnablik.

Þessi bráðhuggulegi piltur tók blóðþrýstinginn af Vertinum og hlustaði eftir hjartslættinum. Hjartað virtist slá í eðlilegum taki og blóðið þrýstist um æðarnar akkúrat á fyrirfram ákveðnum hraða og allt virtist í normal farvegi. Ekki var mislyndi miðaldra húsfreyju kennt um né móðursýki eða athyglissýki, hvað þá hugsýki. Ekkert amaði að nema þá helst þessi hringlandi í höfðinu sem jafnar sig vonandi í dag en til stendur að taka daginn rólega og slappa af sem næst rúminu.

Vertinn hefði auðvitað þegið að hafa lækninn "standbæ" við rúmstokkin ef á þyrfti að halda, alls ekki vegna þess að hann ber með sér svo mikinn þokka, heldur vegna þess að blóðþrýstingurinn gæti falli þá og þegar og hjartað hreinlega hætt að slá. Ég fer kannski aftur til hans á morgun og trúlega aftur á hinn, ekki vegna þess að hann sé svo myndarlegur, heldur getur hugsýki tekið sig upp ásamt móðursýki sem leiðir af sér svima og ógleði sem gæti valdið athyglissýki á háu stigi.

Eitt ætla ég þó að gera fyrst.....ég ætla að lesa yfir vinnuhjúunum og sjá til þess að þær séu ekki að slasa sig að óþörfu til þess eins og fá athygli læknisins á staðnum.

Æ, mig auma...svakalega er ég orðin eitthvað slöpp...ætli sé ekki best að ég fari og hitti lækninn og fái hann til að kíkja á mig og lækna þetta jafnvægisleysi í leiðinni

 


Myndir úr garðinum

Glögglega má greina aukinn áhuga á skrifum margnefndrar frá því að nýja myndavélin komst í réttar hendur. Myndir af flugferðinni má sjá á hinum margfræga netmiðli www.vikari.is sem tröllríður húsum um allan heim og þykir einn af merkilegri netmiðlum hér og þar um veröldina. Margir eru Vertinum og fréttaritaranum þakklátir fyrir að fá að fljóta með í flugið og fá að njóta þess sem fyrir augu bar með því að skoða myndirnar og upplifa andartakið úr háloftunum. Myndavélin er við það að brenna yfir er mikið liggur við en auðvitað eru aðeins örfáar birtingarhæfar á endanum. Myndband af flugtaki Vertsins og sonarins festist ekki með nokkru móti á blogginu og vísa ég því til föðurhúsanna að stjórnborðið sé endanlega komið í lag eftir bilunina um daginn.

P1010223

Myndir verða þó birtar hér í belg og biðu frá afmælisdeginum hennar mömmu. Sólin baðaði alla sem vettlingi gátu valdið í garðpartýinu sem hún hélt fyrir fólkið sitt.

P1010243

Mæðgurnar mættu prúðbúnar í partýið og stilltu sér upp óafvitað alveg eins og glöggt má sjá á myndinni að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni

P1010260

Æskuheimilið stóð á sínum stað og haggaðist ekki frekar en fyrri daginn.

P1010251

Og Bína kelaði við Dollar eins og hún er vön.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2008
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband