Hjörtur Trausta í Kjallaranum í kvöld

Bolvíkingurinn og trúbadorinn góðkunni, Hjörtur Traustason, ætlar að mæta með gítarinn sinn í Kjallarann í kvöld. Hann ætlar að feta í fótspor mömmu sinnar sem sló svo eftirminnilega í gegn á sjávarréttahlaðborðinu. Hjörtur er ekki síður músíkalskur en Hjödda og nú skal sungið og trallað fram í rauða nóttina.

Hólakot

Það eru margir sem hafa yndi af því að safna öllu mögulegu. Æði margir safna frímerkjum og svo eru aðrir sem safna allskyns óþarfa eins og niðursuðudósum og járnadrasli af ýmsu tagi. Enn aðrir hafa þann leiða ósið að safna peningum og verða því oft auðugir á endanum og sitja uppi með það að verða stórskrýtnir fyrir vikið. Þeir hinir sömu átta sig nefnilega ekki alltaf á því að það er allt önnur mynt sem er allsráðandi " fyrir handan" og því eru digrir sjóðir oftar en ekki til trafala fyrir þá sem eftir lifa og einungis til þess fallnir að gera ættingja, sem alla jafna eru prýðisfólk, snarvitlausa af peningagræðgi.

Ég ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að sjúklegri söfnunaráráttu því ég safna húsum af öllum stærðum og gerðum. Ég á þrjár húseignir hér fyrir vestan sem telja liðlega 600 fermetra allt í allt. Það er trúlega ekki sú besta fjárfesting sem völ er á og fjármálaspekingar hefðu trúlega ráðlagt mér að kaupa frekar verðbréf eða bara snotra íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Stundum læðist að mér sá grunur að það gæti hafa verið heppilegra en alltaf reyni ég að ýta þeim hugsunum frá mér og sjá ekki eftir neinu. Best er að sjá sem minnst eftir því sem við gerum, því þegar tekin er ákvörðun um eitthvað þá telur maður það vera hina réttu ákvörðun í það skiptið og því eigum við að reyna að una.

Ég á yndislegan sælureit í Dýrafirði sem ber heitið Hólakot. Það stendur á besta stað í Núpsdal og er Bryndís og Lilja í bátsferð í Hólkotií landi Klukkulands. Við byggðum upp rústir af gömlum bæ sem þar stóð og það eru ófáar stundirnar sem við höfum dvalið þar í góðu yfirlæti með mömmu og pabba og Gaua bróður og hans krökkum en við eigum þennan bússtað í sameiningu. Þegar litið er til baka er dvölin þarna með fjölskyldunni ævintýri líkast og krakkarnir okkar búa að þessum ferðum í sumarbústaðinn alla ævina. Þarna komum við okkur upp skógrækt og lagt var að heitum potti og þar hefur verið sullað mikið í gegnum tíðina. Heilmikill mekanismi var útbúinn í útihúsinu til að hægt væri að leiða heitt vatn að pottinum. Slöngur liggja frá hitakút og þær hringast þvers og kruss um landareignina til að vatnið verði mátulega heitt þegar það kemur í pottinn. Hlaupa þarf reglulega til að hella olíu í þar til gerðar upphitunargræjur sem brúkast efir hendinni þegar vatnið fer að kólna. Salíbunur er svo farnar reglulega á bátnum "Explorer"niður ána og oftar en ekki hef ég orðið þeirra gæfu aðnjótandi að fá far niður að stíflu. Þetta er auðvita ævintýri út í gegn og ótrúlega skemmtilegt og gríðarlega margar góðar minningar eru tengdar ferðum okkar þangað.

HólakotVið fórum í Hólakot í gærkvöldi og ég skildi reksturinn í Einarshúsi eftir í alls engu reiðileysi hjá vinnuhjúunum mínum. Við höfðum Elsu, unglinginn okkar, og Lilju, sem brátt verður táningur, meðferðis og fékk Bryndís bróðurdóttir mín að fljóta með. Við tókum spil, hlógum og nutum þess að líta upp úr amstri hversdagsleikans og vera saman í ró og næði. Við fórum í háttinn fljótlega eftir miðnættið og sváfum eins og ljós. Ég er þess fullviss að Ólafur nokkur, sem kenndur er við Loka og Brá og er stundum nefndur Óli Lokbrá, hefur svifið yfir Núpsdal í nótt og hann hefur án efa misst úr pokanum sínum allt svefnsilfrið sem hann varðveitir þar svo samviskulega og  megnið af því hefur lagst yfir Hólakot. Það gerði það að verkum að bæði fuglar, dýr og menn liðu hægt og notalega inn í draumaheima og ekki heyrðist neitt í dalnum nema rólegur andardráttur okkar. Áin sem venjulega liðast niður efir dalnum hafði hljótt um sig og passaði sig á því að styggja okkur ekki og sendi tignarlegu fjöllunum sem vaka yfir Núpsdal í Dýrafirði skipun þess efnis að hafa hljóð svo við gætum sofið. Vindurinn söng svo vögguljóð alla nóttina og hastaði ekki á okkur fyrr en klukkan eitt í dag en þá vorum við búin að sofa í heila tólf tíma. Batteríin eru því fullhlaðinn og ég er til í að standa vaktina dag og nótt þar til Grikkland kallar á elleftu stundu. Þá mun ég standa klár fyrir hinar gullnu strendur grísku eyjunnar Rhodos.


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ágúst 2007
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 635888

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband