Ferðasaga

Einhverjir hafa kvartað sáran yfir bloggleysi Vertsins í Víkinni og þykir það viðkomandi til vansa hve sjaldan koma færslur á síðuna. Þetta nær auðvitað engri átt að koma svona fram við lesendur svona rétt yfir hábjargræðistímann og láta það spyrjast um margnefna að hún leggi ekki lífsgöngu sína jafnóðum á borð veraldarvefsins. En nú skal tekið sig á svona rétt til að sýnast og amstur hversdagsleikans sveipað ævintýraljóma fyrir ykkur til að njóta.

Fríið var afar kærkomið og löngu tímabært að skreppa frá eitt augnablik og líta upp úr hinu daglega lífi. Smiðurinn í Einarshúsi hefur ekki litið upp allt sumarfríið sitt og þótti því gott að komast aðeins í burtu áður en hin eiginlega vinna hæfist á ný. Vertinn var alveg búin að ganga fram af sér í vinnu og varð að komast í smá hvíldarinnlögn hér og þar og því þótti tilhlýðilegt að stinga af um hríð. 

Vertinn við kotbýliðÆvintýradalurinn var heimsóttur og þar var áð eina nóttina í prýðisgistingu á afskaplega fallegum stað og notalegu andrúmslofti. Morgunmaturinn vel fram borinn og téðum Vert leið eins og drottningu. Stefnan þaðan var tekin á Hólmavík þar sem galdrar sveima yfir byggðum bólum og sögum af göldróttum galdramönnum sem brenndir voru við minnsta tilefni er haldið á lofti sem víðast. Galdrasafnið er skemmtilegt og kotbýli kuklarans ekki síðra. Kotbændur til forna hafa ekki lifað við mikinn munað nema síður sé og mikil lifandis skelfing hlýtur aðbúnaðurinn að hafa verið skelfilegur. Vertinn stillti sér þó kæruleysilega upp við húsvegginn og lét sem hún ætti heiminn. Nokkuð ljóst má telja að téður Vert býr við alsnægtir nútímans og kann því vel enda afar lánsöm kona.

Eitt hrjáði þó fyrrnefnda í ferðinni því frunsu " klasi" hafið tekið sér bólfestu á varasvæðinu sem gerðiLaug Guðmundar góða það að verkum að andlitið varð útblásið á vel afmörkuðu svæði. Ástæða þess að frunsur eru farnar að skjóta upp kollinum þegar minnst varir er trúlega einhverju auknu álagi að kenna og lítið við því að gera nema þá helst að setjast í helgan stein. Vertinum þótti þó tilhlýðilegt að ná sér í vatn úr laug einni í Bjarnarfirði sem Guðmundur nokkur góði átti að hafa vígt á sínum tíma og bera á frunsusvæðið en ekki veit ég hvort það kom að einhverju gagni en frunsurnar virðast á undanhaldi. Viðkomandi ætlar þó að sæta lagi og mun sækja um styrk til Háskólans í Lundi til að rannsaka þetta frunsuklasaverkefni og tel ég nokkuð öruggt að mér takist að fá örfáar krónur þaðan. Klasa verkefni eru "inn" núna svo engin ástæða er að ætla annað en að það verði litið á umsóknina með jákvæðum huga.

Frá plokkfiskinum á Drangsnesi var haldið í Dæli í Víðidal eins og svo oft áður og ekki var viðkomandi annað en að áð yrði á þeim bænum um nóttina. Þar telst nauðsynlegt að fara eins oft og þurfa þykir. Þar er nú komið kaffihús sem ber heitið Kaffi Sveitó og er til fyrirmyndar. Til af forðast allt raup og raus og óþarfa samskipti við lögguna á þjóðveginum í kring var varðstjóranum í umdæmi lögreglustjórans í sýslunni boðið í mat á Blönduósi. Sluppum við því yfir þessa "hraðahindrun" með sóma og án teljandi vandræða enda var Höskuldur alsæll með að fá að snæða með Vertinum dýrindis málsverð.

Jón við mynnisvarðann um SnorraBúðardalur beið og fjárfest var í jólasveinum í handverkshúsinu á staðnum. Fellsströnd og Skarðströnd nutu þess að fá ferðalangana í heimsókn en þar var svo sem ekkert í boði nema fallegt landslag. Þar mætti vera eins og eitt kaffi sveitó sem bíður upp á kaffi og með því fyrir ferðamenn sem heimsækja svæðið. Hvammur í Dölum var einn þeirra staða sem urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að fá okkur í heimsókn. Snorri var ekki við í augnablikinu en hann var utan þjónustusvæðis en mynnisvarði hafði þó verið reistur honum til heiðurs fyrir margt löngu síðan. Ef Vertinn í Víkinni réði þar ríkjum væri sagan mikið aðgengilegri og henni gerð mun meiri skil en Snorri bjó í Hvammi fyrstu þrjú ár ævi sinnar. Kirkjan í Hvammi var harðlæst og því lítið hægt að skoða á þessum merka stað. Frá Hvammi og fyrstu heimkynnum Snorra, Sighvats og Þórðar var haldið í humátt að Breiðuvík en þangað hafði hugur Vertsins lengi legið að fara. Þar er það einmitt saga staðarins sem dregur fólk ma. að staðnum og heillar. Glöggt má því sjá að saga okkar er dýrmæt og nauðsynleg fyrir afkomendur okkar að kunna út í hörgul. Vertinum þætti súrt í broti ef engin segði sögu margnefndar eftir að þessari jarðvist líkur og héldi á lofti því sem títtnefnd hefur komið til leiðar ásamt öðru góðu fólki með þessu endalausa brölti. Kannski verðum téðum Vert þó alveg sama hvað sagt er eftir hennar dag er komið er í alsæluna upp í himnaríki. Þá kemur Snorri Sturluson kannski ríðandi í áttina til mín í öllu sínu veldi og bíður mér heim. Kannski verða kotbændur þá kóngar í ríki sínu og Guðmundur góði búinn að lækna frunsuófögnuðinn í eitt skipti fyrir öll. "Eigi skal höggva" hrópaði Snorri eitt sinni en það á að sjálfsögðu ekki við hér en læt flakka mynd af húsbændunum í Breiðuvík.

Breiðavík

140 manna veisla tók við er Vertinn kom heim. Hún gekk vel í alla staði og Kjallarinn var kjaftfullur fram á rauða nótt.

Hvar værum við stödd ef ekki væri Einarshús???

Ég bara spyr


Farin í frí

Vertinn í Víkinni ætlar í tveggja daga frí og skoða dásemd Vestfjarða og slappa af. Heydalur bíður og vonar að títtnefndur Vert  komi nú senn.                

Heyrumst !

 

Es: Munið samt Pétur og Einar í Einarshúsi á fimmtudagskvöldið kl. 20:00

 

 

 


Enn uppistandandi

Algjörlega hefur nánast klárast af rafhlöðum Vertsins í Víkinni eftir annasama tíma undanfarið. Allur gleðskapur sogaðist á eina hendi og það er búið að vera aldeilis og sérdeilis brjálað að gera. Það væri trúlega til að æra óstöðugan að ætla að fara ofan í saumana á öllu sem skeð hefur undanfarið hjá títtnefndum Vert og hennar skylduliði svo gripið verður rétt ofan í það helsta. Tveir og þrír viðburðir hafa verið á sólahring í Einarshúsi þar sem húsið hefur troðfyllst æ ofan í æ og atið hefur verið endalaust.

Sjóstangaveiðimenn settu sitt mót sitt á fimmtudagskvöldið og þá var húsfyllir eitt skiptið enn. Mikið kapp var í mönnum yfir því að fara á sjóinn og ná þeim stóra og tilhlökkunin sveimaði yfir vötnunum um kvöldið. Á föstudagskvöldið hittust þeir síðan eftir veiðiferðina um daginn og smökkuðu á þeirri albestu kjötsúpu sem nokkurn tíma hefur verið framborin í húsinu hin síðari ár.

Varla höfðu sjóstangaveiðimenn sporðrennt súpunni er kynstrin öll af kjarnakonum komu gangandi frá Tálknafirði og þáðu trakteringar af albestu sort. Þar í framhaldinu stigu Jómmi og Stjáni á stóra sviðið og slógu aldeilis í gegn eins og svo oft áður. Þar ómuðu gömlu góðu lögin um Kjallarann og það var frábært fjör og fólk dansaði og söng.

Markaðsdagurinn rann svo upp með rigningarsudda árla morguns og þungt var yfir byggðinni. Meðlimir Nýdanskrar biðu bljúgir á vellinum eftir Vertinum því þeir áttu að leika á hátíðarhöldunum um daginn og á balli um kvöldið. Títtnefnd þurfti að sjá um stórstjörnurnar á meðan á dvöl þeirra stæði og veita þeim húsaskjól og annað það sem manneskjunni er nauðsynlegt að fá sér til lífsviðurværis. Nýdanskir brunuðu beint í kjötsúpuna eftir að hafa tekið sér örlítinn lúr heima í íbúðinni sem leigð var þeim til handa. Þeir hefðu án efa ekki staðið sig eins vel og raun bar vitni ef þeir hefðu ekki fengið kjötsúpuna góðu og engu er logið þó sagt sé að einn aðalsjarmurinn í hópnum fékk sér fjórum sinnum á diskinn.

Er líða tók á morguninn fór sólin að skína svo glatt og Víkin var svo dásamlega falleg. Dagskráin á hátíðarsvæðinu tókst frábærlega og allt gekk eins og blómstrið eina og tíminn leið. Pétur og Einar var sýndur fyrir troðfullu húsi um daginn og Logi fór á kostum eins og ætíð. Hinn velþekkti og umdeildi gagnrýnandi Jón Viðar, sat sýninguna yfir kaffibolla og gulrótarköku og fylgdist með. Hann sagði síðar að sýningin hefði verið skítsæmileg og þótti Vertinum eðlilegt að spyrja hvort það væri gott eða vont og viðurkenndi karlinn að sýningin hefði verið stórskemmtileg. Það segir nokkuð um ágæti sýningarinnar að mati títtnefndarar og styður margnefnda í þeirri trú að hugmyndin um þennan einleik hafi verið mjög gáfuleg og vel til fundin.

Diddi Mummi með frænku sinniKvöldverður var síðan framreiddur í kvöldmatnum og þar sátu stjörnur af öllum toga að listakvöldverði. Þangað mætti móðurbróðir minn sem ég hef nýverið kynnst. Hann og mamma mín eru samfeðra en ólust ekki upp saman og því var samgangurinn enginn. Tekin var mynd af þessum skyldmennum eftir kvöldverðinn rétt í þann mund er Túpílakarnir fóru að spila og syngja í Kjallaranum og Vertinn varð að stilla sér upp við barinn í gömlu kolageymslunni í Kjallaranum. Þessa helgina hefði verið gott að þekkja Kára Stefánsson náið og véla hann til að klóna téðan Vert því hún hefði þurft að vera á mörgum stöðum í einu og stjórna herdeildum hér og þar en einhverra hluta gekk þetta einhvernvegin.

Skemmst er frá því að segja á Túpílakarnir voru alveg frábærir og fóru algjörlega á kostum enda stórskemmtileg og komu reglulega á óvart. Vertinn hefði svo gjarnan viljað Túpílakarnirheyra meira en skyldan kallaði á títtnefnda í íþróttahúsið til að reka endahnútinn á skipulagningu fyrir ballið. Þetta er ekkert smámál að standa fyrir dansleik í slíku húsi sem er í raun varla í stakk búið til að bjóða upp á slíkt. Íþróttahús víðsvegar á landsbyggðinni eru þó notuð til slíks brúks svo það er ekkert nýtt að halda ball í viðlíka húsakynnum.  Félagsheimilið á staðnum er í endurgerð og ekki nothæft sem stendur svo því varð að fara þessa leið að þessu sinni til að geta boðið upp á dansleik á Markaðshelgi. Vertinn hefur reyndar rúllað upp heilu þorrablóti með öllu sem því fylgir svo það var vitað mál að þetta gengi upp með góðra vina hjálp enda kom það á daginn. Það var brjálað stuð á ballinu en allt gekk þó eins og við var að búast. Um 300 manns dilluðu sér takfast við óma Nýdanskrar og allt gekk eins og í sögu. Heldur kýs Vertinn þó að hafa sínar uppákomur í Einarshúsi og heldur áfram að bjóða upp á slíkt í framtíðinni.

NýdönskÞað var kominn sunnudagsmorgunn er Vertinn fór með sínu skylduliði heim á leið eftir annasama kvöldvakt. Þá voru fæturnir búnir og orkan á enda. Þá var atinu lokið í bili og æðislegt að fá að komast heim eitt augnablik. Ekki leið þó á löngu áður en hljómsveitarmeðlimirnir vöknuðu og þurftu að komast í flug. Horfðu til himins, heyrðist hljóma í bílnum á leiðinni og Landslag skýanna skoðað. Ekki sást Sól né Stjörnuryk og engar Flugvélar voru sjáanlegar í Ljósaskiptum enda blindaþoka. Nýdönsk tók því bílaleigubíl og æddi suður á bóginn í átt að Blómarósahafi en Vertinn horfði til himins og hugurinn fór á flug og veröldin Ilmaði. Á myndina vantar tvo af köppunum úr þessu sérdeilis frábæra bílskúrsbandi sem kennir sig við nýdanska og fá hinir því að njóta sín því enn frekar á myndinni fyrir vikið.

Hjartsláttur Einarshúss var því hægur í gær, sunnudag enda ekkert startsfólk á lausu sem gat staðið vaktina enda búið  að ganga á þrek allra og því var sannkallaður hvíldardagur . Einarshús mun þó verða gestum og gangandi til reiðu aftur á dag og líka á morgun og einnig á hinn.

 

 

 


Túpílakarnir í Kjallaranum

Túpílakarnir munu halda tónleika í Kjallaranum á laugardagskvöldið en þeir eru að fylgja eftir nýútkomnum diski sínum og halda uppá 10 ára afmælið í þokkabót - þannig að þeir ætla að svetta svolítið úr klaufunum í sumar. Loksins koma þeir til Bolungarvíkur en það er búið að standa til lengi að þeirra sögn. Tupílakar spila sumsé allt frá poppsmellum til kórlaga og er lagið þeirra BRENNIÐ ÞIÐ HÁLFVITAR væntanlega eitt þekktasta framlag þeirra á tónlistarsviðinu um þessar mundir og töluvert spilað á Rás2. Textarnir þeirra eru skrítnir og skemmtilegir og fjalla um allt mögulegt, nema helst ekki ælovjújejeje. Allajafna er gleðin í fyrirrúmi þegar þeir spila og leika og bíða Túpílakar fullir tilhlökkunar að fá að koma til Bolungarvíkur og spila og syngja fyrir gesti.
Tónleikarnir byrja kl. 21:00 og þeim líkur kl. 23:00 og aðgangseyrir er þúsundkall.

« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Júlí 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband