23.7.2008 | 02:13
Um hánótt
Vertinn situr ein í næturhúminu og vesenast. Nóttin er yndisleg og veðrið er fallegt. Hægt er með góðu móti að fara út á kjólnum og vindurinn stendur kyrr og blæs ekki einu sinni ofan í hálsmálið á viðkomandi. Sumarnóttin er engu lík og húsið andar svo hljótt enda allir sofnaðir en hughrif nætursólar halda vöku fyrir téðum Vert.
Ljósmyndaáhuginn orðinn nokkuð yfirgengilegur vegna nýju myndavélarinnar sem keypt var ljósmyndaranum til handa. Allt skal gert með trompi enda er það einkenni óvirkra alka að gera allt með stæl. Vertinn er hoppandi og skoppandi um móa og mela leitandi að efni til að festa á filmu og stundum ratar augnablikið inn á minnið í nýju Lumix vélina. Hægt er að taka mynd af öllu mögulegu en misjafnt hve vel það sómir sér í mynd og stundum er vandi að setja hlutina í rétt samhengi til að það líti út fyrir að vera vitrænt. Ljósmyndasíðan mín fæddist í dag með aðstoð Auðar og hægt er með auðveldum hætti að finna hana hér til hliðar á síðunni og fylgjast með nýjustu myndunum sem koma vonandi jafnt og þétt í framtíðinni. Heimasíða Einarshússins fékk einnig sess á bloggsíðunni og tilvalið að fylgjast með því sem sett er á hana í tíma og ótíma.
Vertinn sinnti einnig fanggæslustörfum um hríð og aðstoðaði vermanninn í Ósvör eitt augnablik eða rétt á meðan mynd var smellt af stelpunni með vermanninum í skinnklæðunum. Það er sko ekki amalegt að fá að leika hlutverk af þessu tagi í tilverunni og ótrúlegt en satt þá virðist Vertinn í Víkinni leika öll aðalhlutverkin í skemmtilegasta leikriti lífsins.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2008 | 17:35
La det swinge
Sungið var um Sókrates á brjáluðu balli í Edinborg í nótt er Eurobandið skemmti dansgestum. Eitt lag enn hljómaði og Fly on the wings of love fékk Vertinn til að dilla sér sem aldrei fyrr. Take me to your heaven leiddi viðstadda upp í himinhæðir og fjörið var algjört. Öll gömlu góðu lögin fengu viðstadda í taumlaust tjútt og trall og við stelpurnar skemmtum okkur hið besta. Svona eiga böll að vera.
Ekkert sterkara en fanta hlaut þeirrar ánægju að fá að væta kverkarnar hjá Vertinum í Víkinni og það dugði til að halda dampi út nóttina. Eins og gefur að skilja þá fylgir enginn aukaorðaforði hverju fantaglasi enda þarf téður Vert ekki á aukaorðum að halda svo það kemur ekki að sök. Með tímanum verður einnig hægur vandi að sleppa af sér beislinu án aðstoðar Bakkusar konungs og augnablikið nýtist til fullnustu fyrir vikið. Gaman er þó að fylgjast með hegðun mannskepnunnar þegar líða tekur á kvöldið þegar korteríþrjúgæjarnir eru flestir búnir að missa glansinn og fara að stíga í vænginn við stelpurnar í restina. Þetta hegðunarmynstur er þó vel þekkt hjá dýrategundinni og lítil framþróun hefur verið á þessu atferli tegundarinnar í áratugi og ekkert kemur á óvart í þessum efnum.
Segjast verður þó alveg eins og er að Vertinn í Víkinni telur sig afar lánsama að hafa séð að sér í tíma og náð að losa sig undan hrammi Bakkusar. Það að geta haft stjórnina sjálf og ráða förinni að mestu leiti er algjört frelsi. Alkinn verður reyndar aldrei alveg frjáls því stríðið heldur áfram og átökin hið innra eru stundum strembin. Innri órói getur stundum verið meiri en góðu hófi gegnir en þá er heilinn að undirbúa jarðveginn til að ná sér í meira gleðiefni sem slær á alla innri ókyrrð um stund. Þá sest Vertinn gjarnan við tölvuna og bloggar og reynir að koma jákvæðum hugsunum á blað til að létta á spennu. Tuð og nöldur slæðist þó stundum með en birtist sem betur fer ekki á veraldarvefnum nema í algjörum undantekninga tilfellum enda er öllu neikvæðu " delítað" jafnóðum. Ruslafata hugans er þó misfull eftir dögum og hugarástandi hverju sinni en oftast ríkir nokkuð jafnvægi og heilalínuritið er nokkuð svipbrigðalaust.
Öllum neikvæðum minningum og hugsunum er safnað í sarp og hnoðað saman í poka sem hent er út á hafsauga. Stundum dagar pokinn með þessu jukki upp að ströndinni aftur og þá verður að leggja leiðina niður á sand til að nálgast hann og henda draslinu aftur eins langt og augað eygir út á haf. Þetta kallast þráhyggja og er algengt hjá aflóga fyrrum fyllibyttum eins og viðkomandi. Ekki það að Vertinn í Víkinni var ekki sú alversta í drykkju og djúsi en hver finnur sinn botn og það er mismunandi hvar hann leynist hjá hverjum fyrir sig.
Það er alltaf jafn erfitt að lenda á botninum hvar svo sem hann er og erfitt að viðurkenna vanmátt sinn. Taka þurfti til í skúmaskotum og "delíta" ýmsu og ýmsum sem höfðu slæm áhrif á lífið og tilveruna og juku á vanlíðan viðkomandi. Engin eftirsjá í slíku enda hafa umskiptin verið til góða frá upphafi edrútímans. Sérdeilis ófáir hafa laðast að téðum Vert frá upphafi og vinir í raun dúkkað upp allt í kring.
Set með mynd sem tekin var í morgun á kambinum kl. 04:30 þegar komið var heim af ballinu góða og krakkarnir sátu í garðinum og voru að grilla pinnamat. Myndin sýnir sólarupprásina í allri sinni dýrð, líka þeirri sólarupprás sem hófst fyrir tæpum tveimur árum í lífi Vertsins í Víkinni er ný stefna var tekin og skipt var um gír. Myndin sýnir kólguský í fjarska en það er einmitt kúnstin í lífi alkans að halda þeim í hæfilegri fjarlægð.
Dægurmál | Breytt 21.7.2008 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2008 | 02:26
Bolungarvík í dag
Séð í gegnum linsuna á nýju myndavélinni
Þórunn og Elsa fengu línuskautana í dag
Þessir dugnaðarforkar tilheyrðu málaragegninu sem hóf að mála tréverkið á húsinu. Þessari mynd var smellt af í pásunni í sólinni í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2008 | 02:12
Áskorun
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 11:11
Ævintýrið heldur áfram
Ævintýrasýningin um frumkvöðlana Pétur og Einar heldur áfram að slá í gegn og gengur framar vonum. Vertinn í Víkinni er aðsjálfsögðu frumkvöðull að því að láta slíka sögu á fjalirnar með einleik sem þessum þar sem sögusviðið er hús með mikla sögu. Nú vilja fleiri feta í fótspor fyrrnefndar og segja sögur hér og þar af merkismönnum í byggðarlögum hér vestra. Sagan mun því varðveitast um ókomna tíð.
Segjast verður alveg eins og er að téður Vert er nokkuð rígmontin af því að nýta eigi hugmyndina víðar um fjórðunginn og vonandi mun sagan skila sér eins vel og saga Péturs og Einars gerir í Einarshúsi.
Vertinn telur sig reyndar ómissandi á hverri sýningunni á fætur annari því hún hefur þann starfa að starta sýningunni með því að ýta á einn kraftaverkatakka á lyklaborðinu og stjórna klappinu og er það ærinn starfi út af fyrir sig. Viðkomandi hefur séð einleikinn ótal sinnum og það er varla einleikið hve gaman margnefnd hefur af sýningunni. Mest er þó gaman að sjá hvað allir hinir hafa gaman af henni og njóta þess sem fram er borið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 01:57
Lífið í mynd
Vertinn hefur fengið glænýja myndavél til festa andartök augnabliksins á filmu. Fréttaritari á margfrægum netmiðli sem www.vikari.is þarf að vera vel tækjum búinn og eiga góða myndavél til að geta talist starfi sínu vaxinn og brá ritstjórinn á það ráð að yngja upp í ljósmyndavélatækjakosti Vertsins og fréttastjórans. Var því deginum mikið til verið varið í að finna myndefni hér og þar um bæinn og leita að einhverju sérstöku sem hægt væri að fanga á filmuna í nýju myndavélinni. Vesæll fífill í túninu heima þótti vel til þess fallinn að vera slitinn upp til að nýtast sem módel í fyrsta kastinu og stillt var á sérstillingu fyrir blómamyndir og smellt var af. Það sér auðvitað hver maður að myndin er afbragðsgóð miðað við reynsluleysi ljósmyndarans á þessu sviði en trúlega fengi myndin ekki háa einkunn í virtum ljósmyndasamkeppnum.
Sérstakur hjartalaga takki er á myndavélinni sem Vertinn telur að eigi að brúkast ef taka á erótískarmyndir við hin og þessi tilefni. Sú stilling verður notuð síðar og myndirnar birtar jafnóðum ef þurfa þykir. Vertinn hefur reynt að stofna svokallaða flickr síðu á internetinu en klaufagangur hefur valdið því að það hefur ekki tekist skammlaust. Myndasmiðurinn í fjölskyldunni, sem einnig er systir mín, er á leiðinni vestur til að veita alla nauðsynlega aðstoð við uppsetningu myndaforrits sem gerir það að verkum að hægt er að gera allar myndir þannig úr garði að þær beri allar af. Allar erótískar myndar verða þó skyggðar á réttum stöðum og "bröllaðar" eftir því sem við á. Myndin hér til hliðar segir söguna um býfluguna og blómin sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér enda hygg ég að lesendur þekki þá sögu út í hörgul. Í myndinni er fólgin töluverð erótík þrátt fyrir að stillt hafi verið á blómastillinguna og tel ég því betra að nota ekki hjartalaga takkann fyrst um sinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2008 | 19:29
Dýrðarinnar krásir
Guðdómulegur matseðill hefur litið dagsins ljós í Einarhúsi. Þar gefur að líta unaðslega krásir af öllu tagi. Himnesk sjávarréttasúpa af fengsælum fiskimiðum í Djúpinu þykir lostæti og saltfiskréttur hússins með guðdómlegri sósu sæfarans er einnig vinsæl. Súkkulaðikaka Þjóðólfs og Eplakaka Völusteins renna einnig ljúft niður kverkar og Gulrótarkaka Þuríðar Sundafyllis þykir einnig sú albesta kaka sem um getur. Vöfflur vinnukonunnar þykja einnig ljúfar og góðar líkt og Jógúrtterta Vertsins í Víkinni. Með þessu er hægt að drekka uppáhaldssúkkulaði Einars útgerðarmanns eða pottþétt expressó Péturs. Betu kaffi er einnig sjóðheitt á könnunni auk gómsætra hamborgara Guðnýjar Péturskonu.
Ég myndi telja heppilegt að koma og kíka á herlegheitin sem bíða eftir að verða hantéruð ykkur til handa.
Matseðillinn liggur frammi í Einarshúsi
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2008 | 00:10
Ekkert lát á glaum og gleði
Ekkert lát virðist vera á glaum og gleði í Einarshúsi því nú ætlar Benni Sig að mæta í öllu sínu veldi á föstudagskvöldið. Það er hægt að lofa geysimiklu geymi þetta kvöld því Benni svíkur aldrei. Hann mun hafa með sér einvalalið tónlistarmanna og er það enginn annar en Magnús Már Jakobsson, sá margfrægi sundþjálfari af Suðurnesjunum, sem leikur á bongó trommur með Benna. Guðmundur Þórarins verður varla langt undan og ætlar hann án efa að syngja undir bláhimni þegar líða tekur á kvöldið. Hver veit nema Vertinn leiki á skeiðar og einhverjir aðrir útvaldir á sög. Banjó og mandólín verða þó trúlega langt undan og súludansmeyjarnar í órafjarlægð þetta kvöld. Tilboð mun þó verða á kolamolum úr gömlu kolageymslunni fram eftir kvöldi sem ylja innvortis og ætla Elsa og Þórunn að sjá til þess að engum skorti hvorki eitt né neitt um kvöldið.
Laugardagskvöldið er óráðið en annað hús en Einarshús kallar á Vertinn háróma. Edinborgarhúsið bíður upp á hörkuhljómsveit sem bíður upp á brjáluð og dillandi danslög og hugurinn er kominn hálfa leið út á dansgólf.
Ætli slagbrandurinn verði ekki bara settur fyrir Kjallaradyrnar á laugardagskvöldið??
Trúlega er þó best að bera það upp til atkvæða
Einhverjir á móti???
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2008 | 21:30
Pétur og Einar á miðvikudagskvöld
Smávægileg breyting hefur átt sér stað á sýningum á Pétri og Einari en fyrirhugað var að sýna á fimmtudagskvöldið. Sýnt verður á miðvikudagskvöldið kl. 20:00 að þessu sinni og tel ég það ekkert verra. Starfsmenn Samkaupa og Endurskoðunar Vestfjarða mættu á síðustu sýningu ásamt fjölda annarra gesta.
Skorað er á starfsmenn GÓK húsasmíði og Sýslumannsembættið í Bolungarvík að mæta á miðvikudagskvöldið og njóta sýningarinnar og fá sér kaffi og með því í leiðinni. Fleiri fyrirtæki munu fá viðlíka áskorun í framtíðinni.
Kveðja
Vertinn í Víkinni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2008 | 17:40
Til hamingju
Afmælisbörn gærdagsins sem ekki fengu kveðju frá Vertinum í Víkinn fá hana hér og nú.
Til hamingju Mæja, Kiddi, Jómmi og Siggi Gummi með daginn í gær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm