Einstök

Nína og SmáriMá til með að nefna það svona rétt sí svona óforvendis að Vertinn í Víkinni er afskaplega ánægð með heimssíðuna www.einarshusid.is og telur sig lukkunnar pamfíl að hafa fengið hana Nínu til að aðstoða sig við að hanna hana og útfæra. Ómar Smári hefur án efa komið að vinnunni á einhverjum tímapunkti og útkoman er einstök. Þetta er frábær síða sem í senn er afar persónuleg og í stíl við húsið og á síðan án efa engan sinn líkan. Listamennirnir hafa lagað sig að öllum þeim kröfum sem gerðar hafa verið til þeirra og gott betur og gert það með brosi á vör og boðið kaffi, osta og aðrar trakteringar í leiðinni í fína húsinu þeirra á Ísafirði.

 

Skemmst er frá því að segja að nýverið bættist gestabók inn á síðuna svo nú geta allir skrifað nöfn sín þar og dásamað heimasíðuna í leiðinni. Kort af Bolungarvík sem vísar gestum og gangandi leiðina að húsinu birtist nýverið á heimasíðunni og er til fyrirmyndar. Þar opnast í öllu sínu veldi ævintýraheimur Bolungarvíkur með Einarshúsið í aðalhlutverki. 

kort-stort

Hægt er að sjá kortið í stærri hlutföllum á heimsíðunni

 


erótík

Fyrsti dagurinn í dag sem Vertinn getur aðeins um frjálst höfuð strokið í langan tíma. Vinnuhjúin öll komin til starfa og því hægt um vik fyrir téðan Vert að taka það rólega í tíma og ótíma. Nauðsynlegt þótti því að fara til höfuðstaðarins og hitta mann og annan og spóka sig í sólinni sem skein skært á réttláta sem rangláta í leiðinni. Spurt var hver gengi þarna niður Aðalstrætið á Ísafirði í ótrúlega flottum kjól en það var að sjálfsögðu Vertinn í Víkinni að sýna sig og sjá aðra með þá félaga " Pétur og Einar" í farteskinu. Auglýsa þarf einleikinn sem víðast og er það ekki einleikið hve mikil vinna fer í kynningu og markaðssetningu á viðlíka viðburði. Vertinum þykir það svosem ekki leiðinlegt að hitta fólk og tala um það sem henni er hugleikið í það og það sinnið og láta móðan mása um allt og ekki neitt og ekki er annað að heyra en að flestir viðmælendur mínir hafi unun af því að hlýða á þá skynsemisþvælu sem rennur í belg og biðu út um gáttir viðkomandi Verts.

Forleikur var sýndur í kvöld og skemmst er frá því að segja að hann var bráðskemmtilegur. Fleiri hefðu þó mátt njóta og vafalaust hafa margir alls ekki áttað sig á því hve lánsamir þeir eru að fá að hafa langflottasta pöpp landsins í  bænum sínum sem jafnframt bíður upp á leikhús þegar minnst varir. Stefnt er þó að því að halda eina miðnætursýningu áður en yfir líkur svo þeir sem ætluðu svo sannarlega að mæta á Forleikinn í kvöld geta komið á þá sýningu og notið herlegheitanna. Endirinn var á verulega erótískum nótum og heillaði kvenþjóðina upp úr skónum enda varð Vertinn þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að klæða einn leikarann úr öðru kúrekastígvélinu og ýmiss annar klæðnaður fékk svo að fjúka í framhaldinu. Ég mæli með því að stelpurnar mæti á miðnætursýninguna þegar hún verður haldin og veit að hún á eftir að falla í kramið bæði hjá þeim og öllum hinum.

Annars þá bíður kvennahlaupið eftir téðum Vert í fyrramálið svo trúlega er best að fara að halla sér.

Kveðja í bili

 


Síungur

Vertinn í Víkinni telur það næsta víst að sólarhringurinn verði styttri með hverju árinu sem líður. Það virðist alveg sama hvaða verkefni liggja fyrir dag frá degi það virðist aldrei tími til að klára þau öll og enn fleiri bíða til morguns en þau sem biðu þegar títtnefnd vaknaði. Ég bókstaflega skil þetta ekki og botna hvorki upp né niður í þessu. Það er kannski vegna þeirrar ofvirkni sem hefur hrjáð mig frá því ég hætti að drekka sem fær tímann til að líða svo hratt og allt að þjóta hjá með þessum ógnarhraða. Þó er ekki í boði að slappa af eitt augnablik enda tíminn naumur og dagurinn nánast búinn áður hægt er að snúa sér við. 

Glöggt mátti þó sjá á þeim fermingarárgöngum sem nutu veiga í Einarshúsi um helgina að aldurinn hafði farið nokkuð vel að þeim og einstaklega gaman var að fá þau í heimsókn. Ótrúlega mörg ár höfðu safnast í sarpinn frá því að þessi krakkar fermdust og einhver tími síðan þau klæddust hvítu kirtlunum í kirkjunni upp á Hólnum og auðvitað var einn og einn farinn að láta á sjá. Sumir voru örlítið farnir að grána í vöngum og einhver orðinn óttalegt skar. Sumhver hafði bætt á sig kílóum hér og þar og marghver alveg við það að missa hárið og einn eða enginn orðinn óttalegt skar. Samt sem áður leit út fyrir að þetta væru allt sömu unglingarnir og eitt sinn er þeir staðfestu skírnarheitið svo saklausir við altarið í Hólskirkju. Messuvíni var ekki útdeilt í þetta sinnið heldur voru aðrir göróttir drykkir á barnum sem iljuðu kroppinn og hresstu upp á málbeinið og minnið í leiðinni. Gömul prakkarastrik voru rifjuð upp til að létta lundina og það var hlegið, dansað og drukkið. Einarshúsið var kjaftfullt af rígfullorðnum unglingum sem héldu sig vera síunga og það var fjör á fróni og heimaslóðirnar hamingjusamar yfir því að börnin væru loksins komin heim í Víkina fögru í heimsókn.


Pétur og Einar á sjávarréttahlaðborði

SjávarréttahlaðborðHið annálaða og margfræga sjávarréttahlaðborð verður haldið á laugardagskvöldið 7. júní og hefst klukkan 19:00. Þar verður í boði hlaðið borð dýrindis rétta úr djúpi hafsins. Steinbítspaté og laxapaté, síld og rúgbrauð, reyktur og grafinn lax auk fisks í hlaupi og fisrétta ýmiskonar. Sjávarréttasúpa, pasta og sallad má m.a sjá á matseðli kvöldsins. Síðar um kvöldið eða kl. 21:00 mun Elfar Logi túlka Pétur og Einar fyrir gesti. Betra er að panta borð í tíma en aðgangur er kr. 4.500,- og síminn í Einarshúsi er 456-7901 og 864-7901

Myndir

Ljósmyndir af frumsýningu Kómedíu á einleiknum Pétur og Einar eftir og í leikstjórn Soffíu Vagnsdóttur, eru komnar inná vef Skutuls. Myndirnar tók Ágúst G. Atlason.

Elfar, Vertinn og Soffía

 

 


Pétur og Einar

Gleðilegar eru fréttir þær að Vertinn í Víkinni er enn rólfær eftir mjög svo annasama helgi. Reyndar má segja það án þessa að blikna að títtnefnd er bókstaflega gengin upp að hnjám og kannski gott betur og ekki er laust við það að fæturnir séu útkeyrðir eftir eilíf hlaup upp og niður stigana í Einarshúsi. Halda mætti að mjaðmagrindin hafi gengið örlítið úr sér við þessi ofsastökk milli hæða og strengir liggja á víð og dreif niður líkamann sem gera það að verkum að þreyta yfirbugar téðan Vert þegar síst skyldi, þó skal ekki látið á neinu bera enda má það ekki spyrjast um hin byggðu ból að Vertinn þoli ekki hvað sem er, enda er ekki í boði að bregðast á ögurstundu og ekkert annað í stöðunni en að standa sína plikt í hvívetna.

Sólarhringurinn var helst til stuttur fyrir svona djöflagang og lögboðinn hvíldartími ekki virtur að neinu leiti. Samtök veitingamanna gætu hugsanlega gert athugasemdir við vinnulagið ef þeir hreinlega þyrðu því, en hægt er þó að fullyrða það án nokkra ábyrgðar að matar og kaffitímar voru ekki virtir að neinu leiti og lagt var blátt bann við salernisferðum starfsfólks á annatíma. Atið var stöðugt enda fjölmargir sem sóttu viðburði helgarinnar heim og allir þurftu sína þjónustu án tafar og fyrirvaralaust.

Eitthvað virðist Vertinn vera komin á yfirsnúning akkúrat í augnablikinu því illa gengur á ná sér niður og ekki virðist í boði að festa svefninn þó svo að verulega hafi verið gengið á svefnþörfina en það hlýtur að vera nægur tíma til að sofa þegar um hægist.

Saga frumkvöðlaEinleikurinn "Pétur og Einar" stendur trúlega uppúr viðburðum helgarinnar en frumsýning var á laugardag. Skemmst er frá því að segja að þetta er framúrskarandi verk sem fær hæstu einkunn sem hugsast getur frá margnefnum Vert enda stóð verkið undir öllum væntingum og gott betur. Nokkuð öruggt má telja að þessi einleikur, sem einungis verður sýndur í Einarshúsi, á eftir að slá í gegn í framtíðinni og hrífa marga með sér sem fá að upplifa söguna í þessu kaffileikhúsi en gestir taka virkan þátt í sýningunni og hún kemur verulega á óvart. Einhverjar sýningar verða í sumar og tvær hafa þegar verið ákveðnar og er önnur þeirra á næsta laugardagskvöld en þá er sjávarréttahlaðborð og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta. Það er þó rétt að upplýsa það að einnig er hægt að panta sýninguna fyrir hópa. Reyndar má bæta við að þessi bolti, sem hefur að geyma magnaða sögu hússins, hleður ætíð meiru og meiru utan á sig. Í farvatninu er jafnvel eitthvað stórt og mikið en það verður ekki upplýst hér og nú og mun það vera leyndarmál um stund. Vertinum er ekki vel við að upplýsa eitthvað sem ekki er hægt að standa við og betra er að fara sér hægt og standa svo klár þegar á hólminn er komið.

Þrátt fyrir að viðburðir helgarinnar standi mér ljóslifandi fyrir hugskotsjónum, verð ég að hætta núna enda þreytan að keyra mig niður í koddann.

Þið fáið meira að heyra síðar

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Júní 2008
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 635876

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband