9.6.2007 | 21:30
Dánarfregnir og jarðafarir
Þegar aldurinn færist yfir virðast jarðafarir taka sífellt meiri tíma úr lífinu. Nú verður maður að eiga sérstakar jarðafarabuxur sem brúka verður í slíkum tilgangi og eru þær teknar út úr fataskápnum í æ ríkara mæli eftir því sem árin líða. Í dag fór ég með pabba í jarðaför því Gunnar Halldórsson góðvinur hans og félagi var til moldar borinn í Hólskirkju og þar með er enn einn mæti og merki Bolvíkingurinn fallinn frá. Hver og einn setur svo mikinn svip á svona lítið samfélag og það er eftirsjá í öllum sem hverfa héðan á braut.
Húmar að kveldi, hljóðnar dagsins ys,
hnígur að ægi gullið röðulblys.
Vanga minn strýkur blærinn blíðri hönd,
og báran kveður, vögguljóð við fjarðarströnd.
Annar höfðingi lést á dögunum eftir hjartauppskurð. Hjörtur Jónsson var lengi bakari á Flateyri og landeigandi í Dýrafirði og hefur leigt okkur land undir sumarbústaðinn okkar, Hólakot sem stendur í Núpsdal og er i landi Klukkulands. Við náðum að kasta á Hjört kveðju um daginn þegar við vorum í höfuðborginni en þá var verið að undirbúa hann undir uppskurðinn en hann lá þá á sama sjúkrahúsi og tengdapabbi. Sú minning geymist alla tíð og gott að hafa getað sagt bless við þennan prýðispilt.
Syngdu mig inn í svefninn ljúfi blær.
Sorgmæddu hjarta er hvíldin jafnan vær.
Draumgyðjan ljúfa, ljá mér vinarhönd,
og leið mig um þín töfraglæstu friðarlönd.
Svona fallega orti Jón frá Ljárskógum.
Þegar ég sat með honum pabba mínum í kirkjunni og hlustaði á séra Döllu flytja kveðjuorðin til tengdaföður síns, hugsaði ég um hversu mikil gæfumanneskja ég væri að eiga foreldra sem stjana við mig eins og nýútsprungna blómarós. Ekki öðlast þó allar blómarósir þeirrar lífsins ánægju eins og ég að fá að vera til og blómstra og dafna í rósabeðinu meðal þeirra sem þeim þykir vænt um. Blómarósin á næsta bæ við sumarhúsið mitt í Dýrafirði hefur fölnað og fellt sín rósrauðu blöð sem voru svo rétt nýútsprungin. Guðbjört Lóa fékk ekki lengur það ljós sem þurfti til að halda henni teinréttri meðal blómstrandi túlípana og nellika og hún skítur nú sterkum rótum sínum í aldingarðinum fjölskrúðunga á himnanna hæðum.
Lífið er oft svo óréttlátt en við fáum víst engu um það ráðið. Við eigum að taka fagnandi hverjum degi sem við getum verið með okkar nánustu því það er jú það sem mestu máli skiptir í lífinu.
Grillað var í kvöld á nýja grillið og smakkaðist maturinn með afbrigðum vel. Vertinn bar sig mannalega við grillið og reiddi fram kræsingar af öllum toga enda alvanur grillmeistari. Jón Bjarni átti að sjálfsögðu að standa við grillið i kvöld en vinna kallar eins og svo oft áður. Byssubardagi var háður í næsta firði í nótt og trúlega þarf að vinna eitthvað við það mál. Hákon Seljan nágranni minn var boðinn í mat en hann er nú í óða önn að pakka sig niður því hann hyggur á heimferð austur í Reyðarfjörð á morgun. Hann ætlar þó að koma aftur í haust og kenna hér við skólann.
Vertinn orðinn mjög kærulaus og ætlar að vera í fríi í kvöld líka. Þurfti á góðum nætursvefni að halda og svaf eins og prinsessan á bauninni í nótt sem leið svo hver veit nema ég hafi úthald til að kíkja á lífið í Kjallaranum á eftir. Vonandi mæta þangað sem flestir.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 21:10
Súpa og brauð í bland við annað
Nú rennur einn drottins dýrðardagurinn skeið sitt á enda. Sólin hefur umvafið okkur með birtu og il í allan dag og lífið er ljúft. Ég hef verið á fullu í Einarshúsinu alla vikuna og varla gefið mér tíma til að fara á salernið hvað þá gefið stund af mínum dýrmæta tíma til að blogga. Það er synd að þið skulið ekki fá að fylgjast nánar með því sem á daga mína drífur um þessar mundir því lífi hjá mér núna má líkja við æsispennandi fimm stjörnu hasarmynd þar sem Vertinn í Víkinni leikur að sjálfsögðu aðalhlutverkið og leikur þar fyrir utan nánast öll aukahlutverk sem bjóðast. Ég tel líklegt að Edduverðlaunin verði mín næst þegar þeim verður úthlutað.
Súpan og brauðið í hádeginu hefur fallið vel í kramið hjá bæjarbúum og ég er þegar komin með hóp fastakúnna enda súpan mikið lostæti og rennur ljúflega niður í hvert mál. Milli tíu og og tuttugu manns koma að jafnaði og það hlýtur að teljast nokkuð gott svona fyrst í stað. Guðlaug, nýja vinnukonan í Einarshúsi hantérar súpurnar af mikilli kostgæfni enda kann ég að velja mér frambærileg vinnuhjú sem kunna vel til verka og ég er ótrúlega heppin með mitt fólk.
Í dag keyrði svo um þverbak er fréttist af því að gúllassúpa með öllu tilheyrandi yrði á boðstólnum og rúmlega 30 manns mættu fylltu liði í Einarshúsið og nutu góðra veitinga. Við vinnukonurnar fengum að sjálfsögðu nett áfall yfir þeim ofsafjölda sem sá sig knúinn til að hitta okkur yfir sjóðheitri súpu og brauði og um tíma héldum við að það yrði ekki nægur matur handa öllum. Án efa hefur Einar heitinn Guðfinnsson haldið verndarhendi yfir pottunum og pönnunum því súpan dugði ofan í mannskapinn og ég heyrði ekki annað en að allir færu heim sáttir og sælir.
Einar Kristinn og Össur Skarphéðinsson ráðherrar í ríkisstjórn Íslands höfðu haft spurnir af þessum framúrskarandi veitingum og tóku á það ráð að koma fljúgandi hingað vestur til að fá sér að borða og njóta góðrar þjónustu. Þeir hittu í leiðinni bæjarráð og frammámenn ýmiskonar hér vestra og vona ég að þessi ferð skili einhverju jákvæðu fyrir okkur hér fyrir vestan. Össur er mikill matmaður og ég hvatti hann til að koma á föstudaginn kemur því þá verður boðið upp á kjöt og kjötsúpu að gömlum sið. Ég er ekki frá því að karlinn ætli að láta sjá sig og hver veit nema hann endi sem einn af fastakúnnunum í Einarshúsi. Hann gæti án efa fært mér einn og einn lax til að leggja á borð með sér, því hann er víst algjör sérfræðingur um ástarmál laxa sem ganga hér ráðvilltir upp í íslensku árnar og heyrst hefur að hann hafi sérstaklega gaman af því að velta sér upp úr kynlífi þeirra í sem smæstum atriðum. Við gætum ábyggilega skiptast á skoðunum um eitt og annað er varðar ýmiss dónamál hinna ýmsu fiskitegunda sem svamla stefnulaust í sjónum við Íslandsstrendur. Veri hann bara velkominn þegar honum hentar. Strákunum fannst auðvita vel við hæfi að tekin yrði mynd af þeim með Vertinum og á ég allteins von á því að myndin muni hanga í sölum alþingis út kjörtímabilið til að hleypa þrótti og þori í þingheima. Eins og þið sjáið tekur hin heilaga þrenning sig vel út á myndinni.
Dagfarsprúði Baldur, sem bæði tilheyrir bæjarráði og er jafnframt fréttastjórinn á víkara.is tók myndina af mér og strákunum og þótti honum myndavélin ekki hæfa frambærilegum fréttaritara eins og mér og pantaði nýja myndavél hið snarasta mér til handa. Hann lét mig hafa nýja tölvu í gær sem ég er að brúka núna og þykir honum ég vera orðin nokkuð dýr í rekstri en ég læt mig fátt um finnast og held áfram að heimta hitt og þetta. Ég bíð spennt eftir heita reitnum sem kemur innan skamms í Einarshúsið og þá mun ég vera í essinu mínu við tölvuna. Ef það verður ekki þeim mun meira að gera við að bera fram gómsætt bakkelsi þá munuð þig fá að fylgjast með hverju mínu skrefi í sumar. Ég hlakka til þegar fólk getur heimsótt mig og unnið við tölvuna sína yfir rjúkandi kaffibolla sem það getur keypt dýrum dómum því það er svo gaman að hafa líf í þessu húsi líkt og forðum. Á myndinni hér til hliðar má sjá tvær góðar í smók.
Þar sem kaffihúsið er núna var eitt sinn verslun þar sem allt var selt milli himins og jarðar. Allt frá hlandkoppum og handsápum upp í steinolíu og sykur var hægt að fá hjá kaupmönnunum í Einarshúsi. Oft var handagangur í öskjunni þegar vikta þurfti hveiti og sykur í poka þegar nýbúið var að selja steinolíu á olíulampann. Þá tíðkaðist ekki þessi stöðugi handþvottur sem er í dag. Þetta væri trúlega bannað með öllu nú á dögum. Ég þarf ógrynni leyfa sem kosta mikla peninga til að mega selja ykkur kolamola úr kolageymslunni endrum og eins og leyfa ykkur að njóta góðrar tónlistar í bland.
Í kvöld ætla ég að vera í fríi. Slaka aðeins á og njóta þess að vera heima. Keypt var útigrill af flottustu sort sem húsbóndinn er að leggja lokahönd á að setja saman. Það verður semsagt grillað í kvöld í tilefni sólar og sumars. Ekkert sérstakt er um að vera í Kjallaranum. Ég reyndi þó að bjóða í Vertinn á Langa Manga en hann sat makindalega í garðstól inn í Húsasmiðju í dag. Ég var til í að kaupa stólinn ef hann fylgdi með í kaupunum því mig vantar góðan trúbador. Langi Mangi var ekki til sölu og því verður enginn geðugur gítaristi á kránni um helgina nema einhver dúkki óvænt upp.
Dægurmál | Breytt 9.6.2007 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2007 | 23:44
Helgin afstaðin
Tel ég nú tíma kominn til að láta aðeins í mér heyra. Langt er síðan ég bloggaði síðast og verð ég aðkenna miklu annríki um það enda hefur verið nóg að gera hjá Vertinum. Ferðalangar eru farnir að skjóta upp kollinum eins og gorkúlur og heilu rúturnar heimta súpu, brauð og aðrar bragðgóðar bruður sem ljúflega renna niður kverkarnar. Ég fékk kór Átthagafélags Strandamanna í heimsókn í hádeginu í gær og það var virkilega skemmtilegur hópur. Þau sungu þvílíka gleðisöngva fyrir mig að undirtók í fjöllunum í kring og Ernirinn skók sig allan við hljómfallið og dillaði sér í takt við harmonikkuspilið hjá undirspilaranum. Veðrið undirstrikaði náttúrufegurðina hér í kring og allir voru svo sáttir og sælir þegar þeir fóru og boðuðu komu sína fljótt aftur. Nokkrir kíktu svo í kaffi um daginn en ég bauð upp á trakteringar í tilefni dagsins og það gekk þokkalega. Allir fengu nægju sína og fóru nokkuð sáttir út í sólríkan daginn. Á myndinni má sjá Palla "strandamann" en hann er giftur inn í kórinn. Við vorum góðir vinir í gamla daga. Einu sinni var bankað á gluggann minn um nótt að sumarlagi í denn og úti stóð Palli skælbrosandi og hélt á tréhjólbörum sem hann hafði stolið frá Tóta gamla Eyjólfs og bauð mér að koma með sér á rúntinn á hjólbörunum. Hann er víst hættur að stela hjólbörum frá gömlum mönnum núna enda orðinn rígfullorðinn og ráðsettur.
Kalli Hallgríms var frábær eins og alltaf og var í góðu stuði. Hann var hér á fermingarmóti ásamt gömlu bekkjarsystkinum sínum, því hann eldist eins og allir aðrir og árin sem bætast í sarpinn frá fermingardegi hans verða alltaf fleiri og fleiri. Það var dansað af miklum móð þetta kvöld og ég þorði ekki annað en að taka niður málverk sem Reynir lét hanga i Kjallaranum svo þau yrðu ekki fyrir hnjaski. Menn sungu hástöfum með Kalla og trommuðu hraustlega á traustum tréborðunum til að undirstrika taktinn. Svefnhöfgi tók þó yfir hjá sumum gesta þegar líða tók á kvöldið og sumir dottuðu á grjóthörðum bekkjunum sem eru álíka harðir og óþægilegustu kirkjubekkir og virtust dreyma ljúfa drauma. Vinnukonurnar í Einarshúsi unnu fram á morgunn við að undirbúa hádegisverð fyrir kórinn sem ég minntist á áðan og gengið var seint til hvílu.
Kaffihópur kom síðan um miðjan dag í dag í kaffi og meðlæti. Vertinn snaraði stórveislu fram úr annarri erminni í tilefni þess og tók brosandi á móti þessum síungu sjötugu bekkjarsystkinum sem voru að hittast og rifja upp gömlu góðu dagana. Í þeim hópi var Gísli bróðir mömmu og Sigga konan hans. Einnig Addý og Dengsi, en hann mætti síðastur enda nýbúið að heiðra þau hjón á sjómannadaginn og það virtist stíga honum eitthvað til höfðuðs því hann sá sig knúinn til að monta sig örlítið af heiðursmerkinu á leiðinni og lét því bíða eftir sér. Það kom þó ekki að sök og menn höfðu gaman af.
Sólin hefur skinið svo glatt á okkur undanfarna daga að það er með ólíkindum. Sagt er að sólin elskiallt og alla en það er nú öðru nær. Henni er í nöp við mig þessa dagana því geislar hennar láta mig fá þvílíkt sólarofnæmi að andlitið á mér er meira og minna allt afmyndað og þrútið. Augun eru sokkin inn í höfuðið á mér og bólguhnútar hafa tekið sér bólfestu á víð og dreif. Ég er komin á pillur og ber krem á mig af miklum móð en lít samt út eins og hertur þorskhaus. Reyndar eru þarna á ferðinni pínulitlar ýkjur en þetta er samt hroðalegt ástand sem enginn verður var við nema ég sjálf sem betur fer. Þið getið þó verið sólinni þakklát fyrir ofnæmið því ég læt ekki mynda mig rétt á meðan og er því ekki með stöðugar myndaseríur af sjálfri mér hér á síðunni. Hér á myndinni til hliðar má sjá vinnuhjúin í Einarshúsi þar sem vinnumaðurinn situr í sólinni á nýju tröppunum fyrir framan húsið milli tveggja elda.
Forvarnarfulltrúinn var á bakvakt í leynilögreglunni um helgina og upp kom mál á suðurfjörðunum sem bregðast þurfti við með hraði svo hann er rokin út í veður og vind. Lilja er þó komin heim svo við getum því notið samvistanna hver við aðra mæðgurnar. Lilja fór í menningarreisu til Reykjavíkur og var í góðu yfirlæti hjá bróðir sínum og mákonu í nokkra daga en er nú komin heim í heiðardalinn.
Kaffihúsið í Einarshúsi verðuð opið frá og með morgundeginum alla daga í allt sumar. Ég fer semsagt héðan af heimilinu í fyrramálið og kem aftur heim 17. ágúst sem er dagurinn áður en Grikkland verður sótt heim. Þannig að þið vitið hvert á að heimsækja mig í sumar. Ég vona að sólarofnæmið verði horfið þegar við förum út, því mig grunar að vesalings Grikkirnir hafi ekki það sterkar taugar að geta horft upp á andlitið á mér bólgið og útblásið í tvær vikur samfleytt.
Einarshúsið verður netkaffihús og hægt verður að koma með tölvuna sína til mín og tengjast eins og ekkert sé og næla sér í samband við allan heiminn í einni svipan og mun það gerist á næstu dögum. Ég get þá alltaf bloggað þegar lítið er að gera og skrifa eina og eina frétt á víkarann góða jafnóðum og eitthvað fréttnæmt gerist.
Ég ætla að bjóða upp á súpu og brauð í hádeginu og eitthvað gott með kaffinu um miðjan daginn. Réttur dagsins verður á boðstólnum í kvöldmatnum. Einn heimilislegur réttur fyrst í stað fyrir svanga maga. Eldhúsið bíður ekki upp á mjög flókna matargerð núna en það stendur til bóta. Við keyptum megnið af eldhúsinu sem var í Finnabæ og það verður sett upp í Einarshúsi í haust en við þurfum að gera töluverðar endurbætur fyrst. Útidyrahurðirnar eru í smíðum og koma eftir örfáa daga. Þá verður Magnús múrari vonandi búinn að múra allar tröppur utandyra og gera steinsteypta sökkulinn fínan og flottan. Járnið er svo farið að líta til okkar með óþreyju því það vill fara að komast utan á húsið og ég hlakka svo til þegar búið verður að klæða Einarshúsið í kjól og hvítt. Það verður glæsilegt járnklætt líkt og forðum. Það verður stolt okkar og skjöldur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635892
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm