22.6.2008 | 23:26
Pétur og Einar
Sýning á fimmtudaginn 26. júní kl. 20:00
Sjáumst
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2008 | 00:22
Þar sem hjartað slær
Vertinn í Vikinni dvelur flestum stundum í húsinu þar sem hjartað slær og blóðið svo ólgandi um æðar rennur. Yfirleitt yfirdrifið nóg að gera enda ferðamaðurinn farinn að líta við í auknum mæli. Þjóðverjar eru í meirihluta enn sem komið er og oftar en ekki væri gaman að vera fluga á vegg er téður Vert reynir að koma sögunni frá sér á framandi tungumáli. Ef viðmælendur gapa af undrun og ákalla guð sinn og skapara er talið að sagan hafi skilað sér þokkalega og allir virðast glaðir.
Reyndar má segja að viðkomandi Vert sé orðinn nokkuð blest á máli eftir miklar samningaviðræður við meðlimi hljómsveitarinnar Ný danskrar sem væntanleg er til Bolungarvíkur um markaðshelgi. Ein og ein dönskusletta gæti því slæðst með í textann þessvegna. Ef ég hafði það ekki fyrir helbera lygi mætti halda að innfæddur Dani væri að tala reiprennandi Íslensku með vestfirskum hreim er Vertinn hefur upp rausn sína. Kapparnir munu leika á dansleik í íþróttahúsinu og þeir ætla einnig leika nokkur lög á hátíðarsvæðinu fyrr um daginn og væntanlega þyggja einhverjar veitingar í húsi harma og hamingju, Einarshúsi.
Markaðsdagur ber upp á 5. júli og menn eru hvattir til að heimsækja Bolungarvík og hafa gaman. Margt verður hægt að gera sér til skemmtunar þessa helgi og án efa verður líf og fjör í bænum. Jómmi og Stjáni munu mæta galvaskir í Kjallarann á föstudagskvöldið 4. júlí líkt og undanfarin ár og hita upp fyrir herlegheitin og einleikurinn Pétur og Einar mun einnig verða í boði á laugardaginn 5. júlí og byrjar kaffileikhúsið kl. 17:00. Túpílakarnir halda svo tónleika í Kjallaranum kl. 21:00 á laugardagskvöldið og hita upp fyrir Ný dönsk, auk þess sem í boði verður þriggja rétta kvöldverður í Einarshúsi á laugardagskvöldið.
Ansi er ég hrædd um að lífið væri mikið fábrotnara í Bolungarvík ef Einarshúsið iðaði ekki af lífi. Sumir hafa þá skoðun að Bolungarvík blæði, en innan veggja Einarshúss slær hjartað í taktföstum slögum hverja stund og ólgandi blóðið rennur svo heilbrigt um panelklæddar æðar hússins sem geymir svo mikla sögu og lífsklukkan gengur í takt við taumlausa gleði gestanna.
Sagan heldur áfram að óma og einleikurinn Pétur og Einar heldur áfram að slá í gegn. Sýning var á fimmtudagskvöldið síðasta og hún heppnaðist fullkomlega. Leikarinn fór á kostum og allt gekk eins og í sögu. Mikil ánægja er með þetta framtak okkar og nú setjum við allt á fullt við frekari vinnu við að koma einleiknum og sögunni frekar á framfæri. Vonir standa til að hægt verði að sýna einleikinn einu sinni í viku í allt sumar en þá þarf að trygga einhverja aðsókn á hverja sýningu fyrir sig og mun vinna hefjast við að selja sýninguna hópum, félagasamtökum, vinnustöðum og bara hverjum þeim sem áhuga hafa á sögu þeirra manna sem stóðu að uppbyggingu staðarins. Einnig tel ég upplagt fyrir forsvarsmenn ættarmóta að hafa samband og panta eina sýningu og jafnvel sjávarréttasúpu eða annan unaðslegan rétt í leiðinni.
Ljóst er nú orðið að stór samtök á landinu hafa ákveðið að veita frekari styrk til þess að gera meira úr sögu hússins og það er vel. Formlega afhending verður á næstu helgi og þá verður þetta gert opinbert og þá verður enn einn gleðidagurinn hjá Vertinum í Víkinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2008 | 16:23
Biskup vísiterar Einarshús
Biskupinn yfir Íslandi, herra Karl Sigurbjörnsson, vísiteraði Einarshús í hádeginu ásamt fríðu föruneyti. Kveðja hans í gestabók hússins er svohljóðandi:
Þökkum yndislegar móttökur. Guð blessi þetta hús og alla sem hér eru, hingað koma og héðan fara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2008 | 09:47
Pétur og Einar í kvöld kl. 20:00

Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 23:55
Hnallþórur á 17. júní
Dægurmál | Breytt 17.6.2008 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 23:50
Lofgjörð til þín
Vertinn gaf sér tíma til að skjótast inn í Ísafjörð í gærkvöld. Erindið var að fara á tónleika Þorsteins Hauks í Ísafjarðarkirkju. Fuglarnir flugu hærra á altarinstöflunni við hvern tón sem ómaði um salinn og hjartað í mér sló örar við hljómfallið sem gerði það að verkum að ég kom heim endurnærð á sál og líkama.Tónleikarnir voru Þorsteini Hauki og Gospelkór Vestfjarða til mikils sóma og mig langar að nota tækifærið og óska þeim til hamingju og færa þeim bestu þakkir fyrir að leifa mér að njóta með þeim stundarinnar í þessu fallega og hljómfagra húsi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 00:28
Kæruleysi
Helgin að líða undir lok. Vertinn búin að vera nokkuð kærulaus og látið vinnuhjúin standa vaktina. Það er aðeins að lærast að vera ekki alveg ómissandi og Einarshúsið virðist reka sig að mestu leiti þrátt fyrir að títtnefnd standi ekki nótt sem nýtan dag. Það verður þó að segjast alveg eins og er að oft reynist erfitt að slíta sig frá fjörinu ef margir eru samankomnir í Kjallaranum á góðu kvöldi og þrátt fyrir að eiga frí togar töfrandi tónlistin í margnefnda sem nýtur þess að valsa um svæðið við taktfastan hljóminn. Einn og einn dans fylgir oft í kaupbæti ef dansherrar eru á lausu og ekkert nema gott um það að segja. Það er afskaplega gaman að dansa og ef gömlu góðu íslensku lögin líða um Kjallarann þá er Vertinn yfirleitt til í tuskið. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar birtast kúrekar þegar minnst varir í Kjallarann og vænta má að þeir komi ríðandi til samkundunnar á skjóttum klárum til að geta farið fetið á heimleiðinni.
Trúbadorinn stóð sig með stakri prýði og spilaði og söng af hjartans list út í bjarta sumarnóttina. Því hafði svo sem verið lofað og enginn kom því að tómum kofanum í Kjallaranum frekar en fyrri daginn. Einar Örn átti salinn og gestir dönsuðu af hjartans list allt frá súludansi til vangadansa. Salsa og ræl var einnig dansaður í hita leiksins og það var fjör á fróni. Danskortið hjá títtnefndri var drekkhlaðið en þrátt fyrir það læddist margnefnd út áður en dansinn væri stiginn að neinu marki því viðkomandi var víst í "fríi" og varð að komast heim fyrir myrkur. Fyrir myrkur!! Þessi mynd er tekin um miðja nótt í Kjallaratröppunum er Vertinn var á leið heim og nóttin er björt og hrein og ekki er síður bjart yfir þeim tveim sem stilltu sér svo brosmild fyrir framan myndavélina. Þau eiga það sammerkt þessi tvö að hafa farið á "snúruna" svokölluðu sem staðsett er á sjúkrastöðinni Vogi. Viðkomandi Vert fékk að hanga þar til þerris fyrir rúmum 19 mánuðum síðan og hefur hangið þurr síðan og það er vel. Einar Örn á styttri þurrkunartíma að baki en ber vonandi gæfu til þess að sneiða fram hjá allri óreglu í framtíðinni og ég óska honum góðs gengis.
Mynstur míns lífs hefur breyst til muna frá því að ég fór í afvötnun. Orkan virðist endalaus og tímanum er varið í allt annað núna en áður. Til að mynda hefur títtnefndur Vert varla kveikt á sjónvarpi eina einustu stund frá því að áfengið var lagt á hilluna og telja má á fingrum annarrar handar þær bíómyndir sem títtnefnd hefur horft á og útvarpið hefur hlotið sömu útreið. Einhverra hluta vegna verður alltaf að vera eitthvað móment í gangi og endalaust verður viðkomandi að hafa eitthvað fyrir stafni. Markmiðið virðist að hafa einhverju hlutverki að gegna og geta hlaupið í það í tíma og ótíma og helst þegar síst skildi. Það er semsagt allt í góðu ef téður Vert hefur eitthvað fyrir stafni er hún er á útstáelsi í Kjallaranum en ef hún bara situr og gerir ekki neitt verða varnirnar veikari og ókyrrð myndast hið innra. Þá er nú sérdeilis, aldeilis gott að geta tjúttað og trallað í góðra vina hópi og dansað við taktfasta óma trúbadoranna sem sækja Einarshúsið heim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2008 | 01:36
Góð vísa
Hið annálað viðtal við Verinn í Víkinni vegna Péturs og Einars er birt hér í öllu sínu veldi. Rétt er auðvitað að geta þess að Vertinn fékk Elfar Loga og Kómedíuleikhús hans til að setja verkið á fjalirnar og er þetta því samstarfsverkefni Einarshússins og Kómedíuleikhússins.
Mælt er með því að lesendur setji á sig heyrnatækin og stilli í botn og tryggara telst að hafa gervitennurnar geirnegldar við góminn ef á þyrfti að halda. Trúlega er best að tilla sér á góðan stað í stofunni og hafa púða til að styðja við mjóbakið til varnar hryggskekkju og brjósklosi. Útvarpið skal svo stillt hæfilega hátt svo ómurinn berist mátulega skýr hlustendum til eyrna. Án efa væri gott að hafa eitthvað gott að narta í við hendina eins og popp og kók eða jafnvel sætindi og sitthvað.
Reyndar má búast við að einhverjir hafi heyrt söguna áður en hafið það þá hugfast að "góð vísa er aldrei of oft kveðin".
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2008 | 09:42
Einar Örn í Kjallaranum
Dægurmál | Breytt 14.6.2008 kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2008 | 02:01
Bull
Gerfitungl hefur verið endurræst út í geimi til að endurkasta enn einu viðtalinu við Vertinn til alheimsins. Sá yfirþyrmandi áhugi gömlu góðu gufunnar á títtnefndum Vert í Víkinni er algjör og nær út yfir allt. Sagt er að í þetta skiptið verði reynt að varpa hljóðbylgjum út yfir gröf og dauða svo hinir framliðnu nái útsendingunni enda munu frumkvöðlarnir Pétur og Einar bíða spenntir eftir að heyra hvað er að gerast í húsinu þeirra sem geymir bæði sorg og gleði.
Stórum útvarpssendi mun því verða komið fyrir í gamla kirkjugarðinum upp á hólnum sem varpar stuttbylgjum til radarstöðvarinnar uppi á Bolafjalli sem síðan dreyfir langbylgjum til gerfitungls á suðaustur horninu sem ber síðan hljóðbylgjurnar til himna. Mun björgunarsveitin Erki-Englarnirfrá syðra Vatnshorni vakta svæðið enda má búast við því að loftið verði ansi rafmagnað og reikna má með því að ekki nokkrum lifandi manni verði vært á hólnum. Ekki er þó talið tryggt að þessi tilraun heppnist í fyrstu adrennu en fullyrt er að verkfræðingar á borgarkrifstofunni ætli sér að ná því takmarki að láta hljómþýða rödd Vertsins óma um himnasali enda eru þar innanborðs þaulvanir tæknimenn sem senda hreppsnefndarfundi til hlustenda gegnum tölvu af kontórnum og kunna því vel til verka. Himnaríki mun því auðveldlega verða tengt við veraldarvefinn í stutta stund og tilhlýðilegt verður því að hlýða á svæðisútvarpið á tilskyldum tíma eða rétt á meðan viðtalinu verður varpað um himinhvolfin.
Heyrst hefur eftir mjög áreiðanlegum lygasögum að Lykla Pétur hafi verið sendur á tölvunámskeið í fræðslumiðstöðina dulbúinn sem fávís dyravörður og frekar erfiðlega hafi gengið að kenna honum undirstöðuatriðin í tölvuvinnslu þess vegna. Eftir langa yfirlegu tókst þó loks að kenna viðkomandi að sjá um þessa alheimsútsendingu í gegnum tölvuna sem styrkt verður af hewlett pakkart og vódafóne en einnig ætlar verslunar Veigar að bjóða ókeypis pyslur og kók við innganginn og Efemía mun vera með tilboð á biblíum í bókabúðinni. Jóhannes skírari ætlar síðan að taka skírn eftir þáttinn og mun hún fara fram í húsi andanna við Kirkjustræti. Joð almáttugur og Ká guð verða skírnarvottar ef á þarf að halda
Mótorhjólagengi miðaldra karlmanna á Holtunum, Bökkunum og á Mölunum mun sjá um fólksflutninga milli staða en ekki er hægt að vita með vissu hvort þeir eru að elta gráa fiðringinn eða hvor sá grái engill sé að elta þá, svo ekki er hægt að segja fyrir víst hvort hraðatakmarkanir innanbæjar verðir virtar af þeim sökum. Menn eru þó beðnir að vera með allan öryggisbúnað á hjólunum ef í nauðirnar rekur fyrirvaralaust og setja öryggið á oddinn í hvívetna.
Ekki skal hér upplýst hvenær viðtalinu verður útvarpað og er talið afar ólíklegt að nokkur nenni að hlusta því það getur víst verið of mikið af hinu góða svo ekki sé meira sagt. Miklar vonir eru þó bundnar við það að það sem flæði frá téðum Vert í þessu útvarpsviðtali verði innihaldsríkara en það sem hér hefur verið ritað.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 635876
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm