30.5.2007 | 13:32
Kalli Hallgríms í Kjallaranum
Karl Hallgrímsson mætir með gítarinn sinn og góða skapið í Kjallarann á föstudagskvöldið og setur því sjómannadagshelgina með stæl hér í Bolungarvík. Hann er algjörlega frábær trúbador og ég hef enga ástæðu til að ætla að það verði ekki troðfullt í Einarshúsi þetta kvöld. Kalli hefur svo afskaplega góða nærveru og það gefur manni þrótt og þor að umgangast slíkt fólk. Hann mun syngja sjómannalög í bland við allt á milli himins og jarðar enda heldur strákurinn vel lagi og hefur góðan smekk á góðri tónlist. Ég tel það vera lífsspursmál að fara að brýna raddböndin og mýkja þau eins og kostur er fyrir kvöldið því það verður alveg örugglega hægt að syngja með.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2007 | 12:00
Fermingarósk
Fermingar eru í Hólskirkju í Bolungarvík í dag. Í dag taka þessi börn postullegri kveðju og staðfesta skírnina sína og teljast til fullorðinna. Þrátt fyrir að vera óttaleg börn núna fullorðnast þau með ógnarhraða og verða orðin ráðsett og rígfullorðin áður en varir. Hartnær 30 ár eru síðan ég fermdist sem er í raun nánast óhugsandi ef marka má aldur minn og fyrri störf. Það dregur æ meira saman með mér og fermingarbörnum nútímans. Séra Gunnar Björnsson fermdi mig og bekkjarsystkini mín í Hólskirkju 20. maí árið 1979. Það var mjög eftirminnilegt eins og allir aðrir stórviðburðir á lífsleiðinni minni. Ég fékk armbandsúr frá afa mínum, segulbandstæki frá mömmu og pabba og ritvél frá systkinum mínum því ég ætlaði að verða vélritunar hraðritari þegar ég yrði stór enda með takkaæði. Fjöldi annarra góðra gjafa voru bornar á fermingarborðið mitt þennan dag og þetta var mikill gleðidagur.
Mig langar að senda þessum fermingarbörnum sem femast í dag fermingarósk í tilefni dagsins. Vonandi ná geislar sólarinnar sem skín svo glatt hér í Reykjavík í dag alla leið vestur í Víkina góðu. Þessa Fermingarósk samdi vinur minn sem nýlega lést á afmælisdaginn minn, en hann hét Valdimar Lárusson og var mikið skáld auk þess að vera leikari og lögreglumaður.
Merki Krists þú kosið hefur
kæri, ungi vinur minn.
Hans sem allt hið góða gefur,
gæt þess merkis hvert eitt sinn.
Lát hans sterku líknarhönd
leiða þig um jarðlífsströnd.
Vertu glaður góður drengur.
Gæska Krists er mikill fengur.
Aldrei skaltu honum hafna,
heims þótt glysið bjóðist valt
andlegum því auði safna
allar stundir reyna skalt.
Þótt þig hæði heimurinn,
Herra prísa skaltu þinn.
Honum ávallt treysta og trúa,
til hans öllum vanda snúa.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2007 | 23:46
Dæli
Ferðin norður í land gekk glimrandi vel og færðin var góð. Ég var komin í sveitasæluna í Dæli í Víðidal á skikkanlegum tíma en Sigrún og Villi höfðu beðið mín með mikilli óþreyju og tilhlökkunin yfir því að hitta Vertinn var yfirþyrmandi. Það er alltaf gott að fá að henda sér í bæli í Dæli þegar maður er á ferðinni. Tíminn var notaður á heimleiðinni að koma við í Enniskoti hjá henni Heddý mömmu hennar Þórunnar hans Andra og auðvita var myndavélin ekki langt undan og tekin var mynd af sveitastelpunum með skvettunni í lopapeysunni og leðurbuxunum. Sigrún vinkona mín í Dæli er á milli mín og Heddýar.
Þegar ég kom til Höfuðborgarinnar var farið beint á flugvöllinn til að sækja Jón Bjarna sem rétt henti sér upp í flugvél í þrjú korter og brosti sínu blíðasta til mín og Lilju með smá stríðnisglampa í augum því við mæðgurnar höfðum verið á leiðinni suður síðan í gær. Þeir peningar sem ég hefði annars eytt í flugferðir fyrir okkur mæðgurnar fram og til baka verða nýtir til að kaupa rándýra merkjavöru í tískuhúsum hér syðra svo þessi langa bílferð á eftir að borga sig vel þegar upp verður staðið.
Lögreglan vinnur leiðindavaktir um helgina svo ég kem til með að sjá hann í mýflugumynd. Við keyrðum hann í vinnuna í dag og fylgdum honum upp að dyrum í sólinni sem skein bæði á réttláta og rangláta á höfuðborgina í dag. Það var meira segja svo að hún varpaði geislum sínum á Hafnfirðinga líka en myndin er tekin fyrir utan lögreglustöðina í Hafnarfirði um miðjan dag í dag. Borgarstarfsmenn voru í óða önn að" slá" græn hverfi á víð og dreif um borgina og satt best að segja fann ég til dálitlar öfundsýki yfir gróandanum í borginni og ljúfur þótti mér ilmurinn af heyinu sem var nýslegið. Þegar þessi ilmur gróðurs blandaðist svo menguninni frá bílaflotanum sem bókstaflega yfir fyllti allar götur fann ég fyrir smá heimþrá og kostirnir við að búa út á landi urðu ofan á og gallarnir tróðust undir.
Elsa og Gunna standa vaktina um helgina í Einarshúsi. Spilavistin er á sínum stað eins og annan hvern föstudag. Mér láðist reyndar að auglýsa hana á blogginu og víkaranum en vonandi hafa menn munað eftir að mæta.
Kíkt var í heimsókn á spítalans til tengdapabba míns og það verður að segjast alveg eins og er að ástandið er ekki næganlega gott. Hann er búin að vera á sjúkrahúsi meira og minna í fjóra mánuði og þetta er að verða þreytandi ástand, sérstaklega fyrir hana tengdamömmu sem er vakin og sofin yfir honum alla daga. Alltaf verður maður þó að vera bjartsýnn og vona allt það besta. Hann verður vonandi hressari á morgun.
Læt ykkur heyra meira síðar.
Dægurmál | Breytt 26.5.2007 kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2007 | 12:02
Burt með nagladekkin
Þar sem Vertinn er á leiðinni til höfuðborgarinnar þótti ekki annað verjandi en að bregða sér á sumardekkin í tilefni sumarkomu. Stefnt er að brottför upp úr miðjum degi en þá skal haldið yfir hin stórbrotnu vestfirsku fjöll sem gnæfa svo staðföst yfir okkur hér fyrir vestan. Læðist þó að mér sá grunur að bíllinn hafi það jafnvel ekki af upp í mót á sumarhjólbörðunum, því snjóað hefur í fjöllin okkar og æði vetrarlegt um að litast. Ég get þó huggað mig við það, ef ég sit þá ekki föst á sumardekkjunum í snjóskafli yfir alla hvítasunnuna þá munu laganna verðir ekki sekta mig er ég kem keyrandi á bílnum niður Ártúnsbrekkuna eftir að hafa ekið yfir hinar háu heiðar, því ég er komin á sumardekkin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2007 | 01:06
Vorið kemur og grasið grær
Loksins hefur Vertinn sig í blogga eftir langt hlé. Ég get ekki að því gert að ég sit hér hálfskömmustuleg við tölvuna og skammast mín í aðra röndina fyrir slóðaskapinn en það getur líka verið gott að taka sér örlítið frí annað slagið.
Búið er að mynda nýja ríkisstjórn og ekki er annað að sjá en að valið á ráðherraliðinu hafi verið til fyrirmyndar. Það má eiginlega segja að við Bolvíkingar eigum tvo ráðherra núna, því nýi samgönguráðherrann, Kristján Möller telst til tengdasona okkar Bolvíkinga og er því einn af strákunum okkar. Hann var kennarinn minn um tíma í grunnskóla og mér líkaði hann ágætlega ef ég man rétt. Þegar hann giftist henni Oddný þá gaf mamma mér blóm úr garðinum sínum sem ég færði þeim á brúðkaupsdaginn. Það er blómunum hennar mömmu án efa að þakka hversu hjónabandið hefur verið heilladrjúgt hjá þeim hjónum enda bar garðurinn hennar mömmu ætíð af hvað fjölbreytileika varðar og blómahafið var framúrskarandi fallegt. Ég hefði þó viljað sjá Guðfinnu Bjarnadóttur sem ráðherra og er ögn vonsvikin yfir því að hún er ekki með. En maður getur víst ekki fengið allt sem maður vill.
Það merkilega gerðist í gærkvöldi að ég fór á AA fund til Súðavíkur og það var löngu orðið tímabært enda var þetta frábær kvöldstund. Ég verð að taka mér tak og fara einu sinni í viku og hitta fólk sem er í sömu stöðu og ég. Það skal alltaf koma mér jafnmikið á óvart að við skulum öll vera að ganga í gegnum sama ferlið og sömu erfiðleikarnir koma upp hjá okkur öllum og okkur líður öllum svo svipað. Það verður alltaf einhver óútskýranleg tenging milli fólks á svona fundum og það var svo notalegt að sitja og spjalla við kertaljós og kyrrð og friður ríkti og mér tókst að losa um smá spennu, ekki veitti af því ég er að verða alveg spólsjóðandi vitlaus af ofvirkni. Ég á erfitt með að slappa af þessa stundina en það á eftir að lagast ef ég passa mig. Því fylgir mikil farsæld að finna sína innri ró. Þetta er endalaust puð að vera alki og halda sig frá áfengi en samt er ennþá strembnara að halda áfram að drekka þegar maður ræður ekki við það. Það toppaði svo kvöldið að Ómar frændi minn og Laufey buðu mér í kvöldmat og það var æðislegt alveg. Okkur fellur mjög vel og skemmtilegt að tala við þau hjón.
Suðurferð er fyrirhuguð á morgun því nú þarf Vertinn að þræða heilsölur og annað viðlíka vegna rekstursins í Einarshúsi í sumar. Opið verður alla daga í sumar frá og með sjómannadegi og að mörgu að hyggja í því sambandi. Ég er búin að ráða til mín bestu vinnukonur í plássinu enda hefur það fylgt húsinu alla tíð að bestu kvenkostir bæjarins hafi verið vinnukonur í Einarshúsi. Gunna Ásgeirs verður yfir, undir og allt um kring og mín hægri hönd. Elsa mun einnig taka á móti ferðamönnum og færa þeim kaffi með sínu glaðværa brosi og Guðlaug Bern sem kemur frá Þjóðólfstungu mun vinna hjá mér við margvísleg störf sem til falla. Við verðum semsagt fjórar í vinnu í sumar og munum taka vel á móti þér og öllum hinum sem vilja líta inn.
Ég fer keyrandi með Lilju um miðjan dag og ætla kannski að gista á leiðinni mér til gamans. Við stelpurnar eigum án efa eftir að eiga skemmtilegt ferðalag. Jón Bjarni kemur síðan fljúgandi á föstudag.
Ástandið á tengdapabba er ekki nógu gott. Hann virðist ekki losna við þessa sjúkrahúsveiru og nú er hann kominn í einangrun og heilsufarið ekki eins og best verður á kosið. Það verður afskaplega gott að hitta hann og tengdamömmu fyrir sunnan.
Ég hlakka einnig mjög til að hitta strákinn minn sem ég hitti alltof sjaldan og kærustuna hans. Þau lifa reyndar eins og blóm í eggi þarna í höfuðborginni og hafa það gott. Hann er einbeittur laganna vörður og hefur verið í mesta sollinum í miðbænum undanfarið og hefur þurft að takast á við ýmislegt. Hann er öflugur strákurinn, rammur að afli og rólegur að eðlisfari og er því eftirsóttur til vinnu í lögreglunni. Hann stefnir hátt því hann ætlar í atvinnuflugmanninn í Englandi um leið og hann líkur stúdentsprófi, gagngert til þess að geta flogið með mömmu sína til sólarlanda þegar hentar. Á myndinni brosa kærustuparið út í eitt í Kjallaranum er þau komu í heimsókn um páskana.
Ekki get ég svo látið hjá líða að birta mynd af stelpunni minni og vini hennar svona bara til að gæta jafnræðis í fjölskyldunni. Ég er líka svo montin af mínu fólki að það hálfa er nóg enda er þetta með eindæmum mikið fríðleiksfólk og vel gefið. Hann býr handan við fjallið og heitir Heiðar Ingi. Kappinn er 1.98 á hæð svo hann gnæfir yfir okkur öll og er næstur Guði af okkur á heimilinu svo það má eiginlega segja að ég sé komin í beint samband við þann sem öllu ræður og get því farið að hnika málum í gegn sem áður þóttu óyfirstíganleg. Ekki amalegt það.
Læt fylgja smá gullkorn úr Zen orðskviðum í tilefni snjókomunnar sem hefur heimsótt okkur annað veifið í dag " Sittu rólegur, gerðu ekkert, vorið kemur og grasið grær af sjálfu sér"
Dægurmál | Breytt 29.5.2007 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2007 | 16:09
Grátt í fjöll
Það má með sanni segja að það hausti snemma þetta vorið því nú er hvítt ofan í miðjar hlíðar hér fyrir vestan. Móðir náttúra vefur fjöllin okkar hvítri slæðu og ekki er annað að sjá en hún sé hálf döpur á svip yfir þeim fréttum sem berast frá Flateyri um uppsagnir fjölda fólks hjá fiskverkuninni Kambi. Enn einu sinni verðum við að gefa í og berjast af enn meiri krafti en áður, enn einu sinni verðum við að vera bjartsýn og horfa fram á veginn í þeirri von að við náum landi úr þessum stormi og ólgandi stórsjó, enn einu sinni gefumst við ekki upp. Við verðum að stappa stálinu hvert í annað og gefa hvergi eftir í viðleitni okkar til að byggja upp og halda á.
Ómar Már var spyrill í Kjallarakeppninni í gær og fórst honum það vel úr hendi. Halla Signý og Siggi Gummi báru sigur úr býtum eftir æsispennandi keppni. Þar sem þetta er síðasta keppnin í bili voru veitt verðlaun þvers og kruss. Villi Valli blessaður karlinn fór heim með æði mörgum í nótt en geisladiskurinn með honum er ennþá vinsæll sem verðlaun í Einarshúsi við hin og þessi tækifæri. Á myndinni má sjá sigurvegara kvöldsins með verðlaunin sín glöð í bragði.
Á uppstigningadag var fjölskyldudagur hjá hestamönnum við hesthúsabyggðina í Syðridalnum. Þar gekk Vertinn hring eftir hring með æskulýðinn í Bolungarvík og var orðin hálfringluð af öllu þessu labbi með hrossið sem var ennþá ringlaðra en ég og skildi ekkert í öllum þessum börnum sem skríktu af ánægju á baki hans. Hringurinn var látlaust genginn rangsælis á móti sólu sem lét þó ekkert sjá sig þennan daginn enda upptekin við að skína á einhverja aðra. Ég varð þó glögglega vör við það að sá sem upp til himna steig á þessum degi og situr við hægri hönd guðs föðurs almáttugs horfði með velþóknun niður til okkar og nikkaði til mín höfði með brosi. Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki sagði hann eitt sinn og gleðibros barnanna sem þáðu far á hestunum okkar hefur án efa glatt þennan mæta mann sem við leitum hugganar hjá þegar við eigum í vanda og vantar styrk. Það er nauðsynlegt að geta trúað á eitthvað gott. Dagurinn heppnaðist vel í alla staði og allir voru ánægðir.
Andri minn er komin í lögregluna í Reykjavík og ætlar sér að vinna þar í sumar. Hann fær alveg örugglega að vinna fyrir kaupinu sínu í látunum þar. Þau laun sem þessum vesalings mönnum er boðið upp á í lögguni eru ekki til að hrópa húrra fyrir og það hlítur að vera komin tími til að endurskoða þau í harnandi heimi. Ég á kannski eftir að fjalla um það nánar síðar. Þórunn kærastan hans vinnur hjá póstinum í sumar svo þau eru í þokkalega góðum málum.
Elsa verður að vinna í Einarshúsinu hjá mér í sumar ásamt fleiri kjarnakonum. Við verðum væntanlega fjórar fastar og ég er senn búin að ráða þær sem ég treysti best til þeirra starfa.
Lilja litla er atvinnulaus sem stendur en væri til í smá barnapössun ef einhverjum vantar góða pössunarpíu.
Stend nú í stórvöfflubakstri því ég bauð fjölskyldunni minni í kaffi og vöfflur. Bið að heilsa og hafið það gott í dag.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2007 | 00:59
Kjallarakeppnin

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 22:16
Af litlum neista..
Sagt er að af litlum neista kvikni oft mikið bál, því það virðist sem sagan af uppbyggingu Einarshúss sé heldur betur farin að vinda upp á sig því nú þykir enginn maður með mönnum nema fjalla um húsið og þá sögu sem það hefur að geyma með einum eða öðrum hætti. Þetta leyndarmál sem eitt sinn var svo vel geymt inn á milli fallegra fjalla, umvafið svo fallegri vík er ekki lengur litla leyndarmálið mitt, heldur hafið þið fengið að eignast það einnig. Þið eruð heppin og eftir því sem fleiri fá að vita af því, koma fleiri í heimsókn til mín og Vertinn gleðst í fyllilegu samræmi við það og Bolvíkingar einnig. Ég bjóst þó aldrei við þessum mikla áhuga á því sem við erum að gera og hjarta mitt er fullt af gleði, stolti og þakklæti.
Hlynur Þór Magnússon gerði sögu hússins afskaplega góð skil á bloggsíðu sinni þar sem hann skrifaði svolítið ítarefni um litla leyndarmálið fyrir vestan. Snilldarpistill hjá honum enda ekki við öðru að búast hjá svona snilldarpistlahöfundi. Ég vona bara að hann kíki við fljótlega og þiggi veitingar hjá Vertinum í Víkinni. Mikið yrði ég glöð að fá hann í heimsókn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2007 | 12:43
Viðtalið við Vertinn í Víkinni
Viðtalið við Vertinn var sent út í sömu andrá og Eiríkur Hauksson flutti lagið sitt á RÚV og því sáu fáir Ísland í dag á stöð 2 þar sem ég fór óaaðfinnanlega yfir sögu hússins og veitingarstaðarins og stiklaði á stóru í ofsafenginni frásögn af best geymda leyndarmáli Vestfjarða.
Fyrir þá sem ekki sáu þetta óumdeilda tímamótaviðtal geta séð það hér
Dægurmál | Breytt 17.5.2007 kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2007 | 12:59
Vel af sér vikið
Mikið er bjart yfir deginum í dag. Mínir menn stóðu sig vel í kosningunum í gær og bættu við sig þremur mönnum á landsvísu og ég tel það vera vel af sér vikið. Þetta sýnir að fólk kann að meta hvernig haldið hefur verið á spöðunum undanfarin ár. Við höldum inni öllum vestfirsku þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Bolvíkingar eiga áfram tvo menn á þingi þá Einar Kristinn og Kristinn H. og megum því vel við una. Það er þó mikill léttir að kosningarnar skuli vera búnar því þessu fylgir nokkuð stress en þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Ég þurfti að hugsa fyrir svo mörgu að ég gleymdi að panta ýmislegt inn á barinn og sumt kláraðist sumum til pínulítillar gremju en mér verður fyrirgefin sauðshátturinn með tíð og tíma.
Skemmtilegt að segja frá því að Frjálslyndi flokkurinn hélt kosningakaffi í Einarshúsi í gær og fáni flokksins var hendur utan á húsið. Það er örugglega í fyrsta skiptið sem annar fáni en hinn heilagi fáni fagurbláa fálkans blaktir í nálægð þessa húss. Það sýnir að þetta er hús fólksins og allir hafa greiðan aðgang að því og öllum er frjálst að fá það að láni og borga fyrir það okurleigu.
Nóg var að gera i Kjallaranum í gærkvöldi. Menn fjölmenntu til að fylgjast með kosningasjónvarpinu og voru menn í góðum gír. Denni færði sig upp og spilaði þar fyrir gesti og gangandi og fórst það afskaplega vel úr hendi. Fólk sat þar í makindum sínum og naut góðrar tónlistar og dáðist að málverkunum hans Reynis og ég er ekki frá því að nokkrir heitir kaupendur séu nú að spá og spekúlera. Honum hefur gengið vel að selja. Niðri var allt kjaftfullt eins og svo oft áður en það er bara meira gaman ef þröngt er á þingi. Það eykur möguleikana á fjölbreytileika þegar hægt er að nýta húsið betur og hafa fjör á báðum hæðum.
Þegar ég ætlaði að fara að sýna eurovision í gærkvöldi bilaði símalínan og allt fór í steik. Það er ekki í fyrsta skipti sem allt fer i steik í Einarshúsi á ögurstundu. Ef vatnslagnirnar springa ekki með hvelli þá fer símalínan í verkfall. Það vildi svo ljónheppilega til að enginn var mættur til að hlusta á keppnina enda ekkert fútt í henni lengur fyrst að Eiki rauði var dottinn úr keppninni, þeim hefði trúlega verið nær að senda Vertinn til Helsinki með pólskt klapplið í farteskinu.
Eftir mikil heilabrot og vandræðagang þá var Bjarni rafvirki kallaður út og og hann reddaði málum og bjargaði kvöldinu fyrir vikið svo það var hægt að sýna kosningasjónvarpið. Það virðast allir boðnir og búnir að koma og hjálpa mér ef eitthvað bjátar á og það er svo sannarlega stór kostur við að búa í svona litlu samfélagi hvað allir eru hjálpsamir og liðlegar við að aðstoða náungann. Hafþór pípari bíður í startholunum ef rörin verða með uppsteyt og aðrir iðnaðarmenn einnig
Bardömurnar í Einarshúsi voru fram á morgun að ganga frá eftir velheppnað kvöld svo ætli Vertinn takið það ekki bara rólega í dag. Ég þakka ykkur bara komuna, það er alltaf gaman að fá ykkur í heimsókn.
Heyrumst síðar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635892
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm