11.5.2007 | 12:28
Spilavist í Kjallaranum
Spilavistin er í kvöld og mun án efa verða tekist á í nóló og grandi. Stundum má heyra saumnál detta þegar einbeitingin nær hámarki og langleiddustu spilafíklarnir ná yfirhöndinni í spilamennskunni. Verðlaunin hingað til hafa að mestu leyti verði kertastjakar eða blómavasar en ég tel næsta víst að tími sé kominn til að auka aðeins á fjölbreytnina og hafa eitthvað annað í verðlaun. Kannski kaupi ég kertavasa eða blómastjaka svona til að auka á flóru verðlaunagripa í spilavist. Hver veit. Kannski verða vínber og ostar líka í boði í kvöld. Aðgangur er 500 krónur og rennur allur ágóði í að kaupa verðlaun og vínber fyrir ykkur kæru gestir. Á myndinni hér til hliðar má sjá vænlega verta að vestan.
Forkeppnin euróvísion var í gær og þó nokkur fjöldi mætti í Kjallarann. Eiki rauði komst ekki áfram þrátt fyrir að hafa verið langflottastur með rauða makkann og leðurbuxurnar. Aðalkeppnin verður ekki eins spennandi fyrir vikið en maður tekur þess eins og hverju öðru hundsbiti í hæl og finnur sér bara einhvern annan til að halda með. Það voru nokkur góð lög í boði svo það verða varla vandræði að finna hentuga flytjendur til að halda með.
Viðtalið við Vertinn kom í gærkvöldi í Ísland í dag og mér fannst þetta nokkuð gott viðtal svo ég segi sjálf frá. Ég var ekkert álkuleg á svipinn, hárið á mér var bara til friðs og ég sagði bara heilmikið af viti. Merkilegt nokk. Góð auglýsing fyrir Einarshúsið og það sem við erum að gera þar. Þeir sem misstu af því geta horft á það á netinu. Ég var jákvæð í garð byggðarlagsins og talaði vel um mitt fólk. Ég tel það skipta miklu máli fyrir fólkið í landinu að finna að hér býr jákætt og gott fólk. Neikvæðar fréttir úr Bolungarvík skila engu fyrir fólkið sem hér býr og er að reyna að bjarga sér með miklum dugnaði.
Verum því jákvæð og lítum björtum augum til framtíðar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2007 | 00:16
Eiki rauði í Kjallaranum
Eiríkur Hauksson ætlar að mæta í Kjallarann í kvöld og taka lagið Velentine Lost fyrir okkur og lesa úr lófa þínum í leiðinni en forkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður varpað á skjáinn. Við mætum auðvita öll og styðjum við bakið á okkar manni í Helsinki og leiðum hann til sigurs. Hann á án efa eftir að standa sig vel því hann er svo hrikalega flottur karl. Andlitið fer svo vel við rauða síða hárið sem liðast niður herðarnar og leðrið klæðir hann svo afskaplega vel. Eiki rauði er eins og besta eðalvín sem batnar alltaf með aldrinum. Ég hef góða tilfinningu fyrir laginu eins og öllum öðrum lögum sem við höfum sent í keppnina. Ég hef alltaf verið viss um að vinna í öll skiptin sem við höfum tekið þátt en þessir útlendingar virðast hafa svo lélegan smekk fyrir lögunum okkar að það hálfa væri heill hellingur. Ég sjónvarpaði söngvakeppninni í fyrra á skjávarpanum í Kjallaranum og einn gestur mætti til að horfa á, en það var Pétur Magnússon. Ég heillaði af látúnsbarka sem söng fyrir Írlands hönd, að mig minnir, og heillandi framkoma hans bókstaflega setti mig á hliðina. Aðdáunin skein út úr andlitinu á mér þegar hann söng sig inn í hug minn og hjarta með sínum írska seiðandi og sjóðheita hreim. Í miðju laginu henti hann sér niður á hnén og kirkjaði væminn óð um horfnar ástir eða eitthvað í þá áttina. Pétur skemmti sér hið besta yfir svipbrigðum Vertsins er hún horfði dreymin í augun á Íranum sem söng svo ljúft með sinni lokkandi röddu og talaði beint til min. Ég var komin upp á sviðið í huganum og reyndi eftir fremsta megni að reisa manninn við og styðja hann í gegnum sönginn. Eftir á að hyggja var þetta óttalega hallærislegt en engu að síður var þetta skemmtileg kvöldstund með Pétri og söngglaða Íranum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.5.2007 | 00:42
Dregur til tíðinda
Það hefur margt á daga mina drifið síðan ég lét í mér heyra síðast og má teljast til kraftaverka að ég skuli ekki vera farin yfir um. Þegar ég skildi við ykkur síðast var ég á leið á kvöldverðarborð á Tálknafirði þar sem rekinn var endahnúturinn á velheppnaða Ferðamálaráðstefnu. Þar skemmtu menn og konur sér hið besta og voru sagðir brandarar og fluttir leikþættir. Galdrakarlinn frá Hólmavík sem hefur yfirumsjón með Galdrasafninu þar flutti sjóræningja einþáttung með miklum tilþrifum. Mér fannst á tímabili hann vera í fullmiklu návígi við mig og ég hélt um tíma að hann myndi hneppa mig í ánauð og þótt mér það ekki kræsileg tilhugsun. Ég slapp þó fyrir horn og komst frá þessum ósköpum nokkuð heil.
Sunnudagurinn rann upp með sól en hvössum vindi. Lagt var af stað eftir hádegi eftir hlaðborð hjá Erlu sem rekur gistiheimili á Patreksfirði. Ég lagði upp í enn eina ferðina upp og yfir heiðar, meðfram ströndum og fram hjá bæjum. Ég hitti tvo einmana stráka á leið minni um fjallvegi sem urðu steinrunnir er þeir sáu Vertinn. Ég mátti til með að láta taka af mér myndir með þessum fyrrum prýðispiltum sem eitt sinn áttu líf í ljúfum leik og dunandi dansi. Núna vakta þeir ferðalanga sem eiga leið um og reyna eftir fremsta megni að halda yfir þeim verndarhendi. Annar þeirra býr á Kleifaheiði en hinn heldur til á Dynjandisheiðinni. Þessir tveir kappar minnast með fögnuði síðasta augnabliksins sem þeir áttu meðal okkar mannanna sem yljar þeim um steinrunnið hjartað og veitir þeim birtu og il. Það var augnablikið sem þeir hittu Vertinn í Víkinni.
Ég rétt náði heim til að fara á fund í Ráðhúsinu þar sem fjallað var um atvinnumál í byggðarlaginu. Það verður að segjast alveg eins og er að það er ekki með besta móti þessa dagana. Við bindum öll þá von í brjósti að ástandið lagist og fólk fái vinnu. Það geta líka verið falin tækifæri í því fyrir sumt fólk þegar svona aðstæður skapast. Ég hef lent í því að missa vinnuna og tók af skarið og fór í nám. Þar fékk ég tækifæri til að sanna það fyrir sjálfri mér að ég var ekki svo galin. Ég væri trúlega ekki í þeim sporum sem ég er í núna í dag ef ég hefði ekki þurft að ganga í gegnum þær þrengingar og ég er þess fullviss að það átti sinn þátt í því að ég öðlaðist þann styrk og að mér hlotnaðist það þor að gerast Vert í Einarshúsi með öllu því sem fylgir. Svo núna sitjið þið uppi með mig hvar sem er og hvenær sem er síblaðrandi og tranandi mér fram hist og her. Ég efast reyndar ekki um það eina einustu stund að þið séuð ekki ánægð með það.
Reynum líka að líta á tækifærin og sóknarfærin sem geta skapast þegar gefur á bátinn. Siglum í var og látum sjá um stund hvort ekki styttir upp og ölduna lægi. Þá komum við kannski auga á sólina skína enn bjartar en áður við sjóndeildarhring. Þá getum við tekið stefnuna mót bjartari tímum.
Kosningaskrifstofan var opnuð á sunnudagskvöld og þar varð Vertinn að vera ásamt öðru góðu fólki. Nú líður að kosningum og spennan er að magnast því senn dregur til tíðinda. Það er virkilega gaman að taka þátt í svona starfi og í raun alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Ég geri mér vonir um góða kosningu og að allir kjósi rétt á kjördag.
Ég man nánast ekkert eftir mánudeginum enda er skammtímaminnið mitt ekki upp á marga fiska þessa dagana. Ég ritaði þó nokkrar fréttir þann dag því nú vilja allir sem vettlingi geta valdið fá sagðar af sér fréttir á Víkara. Allir saumklúbbar staðarins bíða með öndina í hálsinum eftir nýjustu fréttum af hannyrðum og prjónaskap, eldabuskur vilja fá uppskriftir í stórum stíl. Elskendur vilja ástarsögur og sjóarar vilja aflafréttir. Ljóðunnendur vilja vísur og ljóð og allir hinir vilja bara slúður og krassandi kjaftasögur. Ég reyni auðvita að þóknast öllum eftir fremsta megni en stundum verður að taka viljann fyrir verkið. Satt best að segja þá heyrist mér fólk vera ánægt með Víkarann okkar.
Dagurinn í dag var tileinkaður pólska frambjóðandanum sem sótti okkur heim í dag. Ég var búin að skipuleggja vinnustaðafundi með henni Grazynu og lukkuðust þeir með ágætum. Hún er mjög röggsöm og á án efa eftir að vinna löndum sínum mikið gagn ef hún kemst á þing. Á myndinni erum við í Bakkavík klæddar eins og englar af himnum ofan enda erum við algjörir englar inn við beinið ef vel er að gáð. Grazyna vinnur vel að málum innflytjenda og þeir þurfa sinn málsvara sem talar þeirra máli.
Annasamur dagur endaði síðan á Langa Manga í tertu og tilheyrandi með Höllu Signý en við vinkonurnar erum grasekkjur þessa dagana og verðum því að reyna eftir fremstu getu að hafa ofan fyrir hvor annari. Börnin verða hjá garði þegar svona mikið er að gera og ganga þau sjálfala um stræti og torg. Það vill til að stelpurnar mínar eru orðnar svo stórar og geta séð um sig sjálfar þegar svona stendur á og styðja og stykja hvor aðra yfir þessu ásandi á húsmóðirinni á heimilinu sem aldrei eða sjaldan er heima.
Svona er nú einu sinni lífið
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2007 | 19:12
Ferðamálasamtök Vestfjarða
Vertinn lagði upp í langferð í gær til að sitja aðalfund Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Tálknafirði. Hnýta þurfti endalausa hnúta og spyrða saman marga lausa enda heima áður en hægt var að leggja af stað því spurningakeppni var í Kjallaranum þar sem Sigga Kára spurði mann og annan. Gunnar Sigurðsson og Matthildur á pósthúsinu unnu og fóru heim alsæl með verðlaun í formi görugra drykkja. Í hádeginu í dag var svo súpufundur hjá Kristni H. Gunnarssyni og ýmsu þurfti að redda varðandi þann fund. Ég hef haft spurnir af því að þessi hádegisverðafundur hafi lukkast með ágætum og fjöldi manns sótti karlinn heim og allt gekk eins og í sögu. Ég er þá ekki ómissandi eftir allt saman en ég var búin að telja mér trú um það að allt færi í handaskol ef ég færi að heiman.
Ég lagði því seinna af stað í gær en ég ætlaði mér og varð að keyra eins og druslan dró en var samt vel innan löglegra hraðatakmarkana sem í gildi eru á holóttum heiðum hér vestra og ef miðað er við leyfilegan hámarkshraða á hraðbrautunum í Ameríku, keyrði ég löturhægt. Dynjandisheiðin er ekki upp á marga fiska og þegar ég skaust á ógnarhraða ofan í mestu holurnar truflaði geislaspilarinn Halla Reynis í söngnum er hann sagði mér frá lífinu á Kaffi Köben. Ég komst þá á leiðarenda í tæka tíð og var boðin í mat í Hópinu en þar voru Jón Bjarni og Jón Svanberg í gerfi Geirs og Grana, uppáklæddir sem virðulegir laganna verðir í eftirliti. Þeir áttu þó í fullu fangi með að hafa eftirlit hvor með öðrum og um tíma og um tíma hélt ég að ég þyrfti að kalla út víkingasveitina til að hafa hemil á þessum léttlyndu löggæslumönnum en með minni sérstöku útsjónasemi fór allt vel..
Fundurinn byrjaði svo á því að frambjóðendur flokkana fóru yfir helstu áherslur í ferðamálum og sátu fyrir svörum í pallborði. Það er ekki a sökum að spyrja að Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir oddviti í Tálknafirði og frambjóðandi Sjálfstæðismanna bar auðvitað af og stóð sig með prýði.
Gist var í gistiheimili Erlu á Patreksfirði við góðan aðbúnað. Vaknað var snemma í morgun við ilmandi kaffilykt og hlaðið borð girnilegra morgunverðarétta og að þeim yndæla málsverði loknum var haldið til Tálknafjarðar á fundinn. Það er reglulega gaman að sitja svona fundi og kynnast fólki sem er í þessum bransa, heyra þau mál sem eru í brennidepli og heyra áherslur fólks í ferðaþjónustunni hér fyrir vestan.
Sjálfstæðiskonur hittust í hádeginu í veitingastaðnum Þorpinu á Patreksfirði og nutu góðra veitinga. þar fóru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins þær Eyrún, Birna og Guðný yfir málin og stöppuðu í okkur stálinu því nu er stutt til kosninga og breiða þarf út fagnaðarerindið. Þetta eru afskaplega frambærirlegar konur sem vita hvað þær eru að segja. Ég lét að sjálfsögðu mynda okkur saman o gekki er annað að sjá en að vel fari með okkur. Þarna brosa ungar konur jafnt sem aldnar framan í heiminn enda ekki annað hægt í svona blíðskapar veðri.
Ég fékk fyrir náð og miskunn að stinga tölvunni minn í samband á logreglustöðinni á Patreksfirði til að blogga og flytja fréttir. Ég sagði ég að almannaheill væri í húfi fyrir svo marga. Aðallögreglustjórinn er þó farinn að horfa til mín ygldur á brún með kilfuna á lofti og hótar að stinga mér í steininn ef ég fer ekki að pilla mig í kvöldverðinn sem er á Tálknafirði með ferðaþjónum.
Mér er því ekki til setunnar boðið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007 | 11:05
Sigga Kára spyrill á Kjallarakeppni
Sigríður Káradóttir verður spyrill í Kjallarakeppninni í kvöld. Svenni ætlar að aðstoða hana við að semja spurningarnar og ég reikna með að þær eigi allar ættir sínar að rekja upp Tungudalinn. Ég verð því miður fjarri góðu gamni en ég vona að það bregði ekki skugga á keppnina. Stelpurnar mínar bjóða trúlega upp á tilboð á kolamolum úr gömlu kolageymslunni en Elsa mín og Anna Ólafía standa vaktina á meðan ég er í burtu. Kjarnorkukvennsur báðar tvær. Á myndinni má sjá Siggu niðursokkna í spil á spilavist. Húsið opnar kl. 22:00 en keppnin byrjar kl. 22:30 eða þegar næg stemning hefur myndast hjá mannskapnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 21:49
Það rignir
Rigningin hefur lamið á gluggarúðunum undanfarið, þó hefur rigningarsuddinn látið sig hverfa annað slagið og hlaupið í felur til auka á margbreytileikann i veðrinu en mætt jafnharðan aftur með enn meiri krafti en áður. Það er merki um rigningu ef Vertinn hengir þvottinn á snúruna og ekki brást henni bogalistin núna frekar en fyrri daginn. Það hefur nánast ekki stytt upp eina einustu stund eftir að tauið var hengt upp með svo mikilli natni á snúrurnar til þerris. Bolvíkingar lesa í þvottinn minn líkt og lesið er í garnir á Dalvík og þykir það með eindæmum hve mikið er að marka þessi teikn. Ólguský byrja að plotta sig saman til að ráðgera ausandi skúraveður þegar ég kem út í sakleysi mínu með þvottabalann minn. Þau nikka þó til mín með falsglott á vör er ég lít til himins bænaraugum um þurrkatíð. Siggi stormur veðurfræðingur samdi við Bjöggu Summ um að láta sig vita þega ég álpast til að hengja út og hefur hann reynst nokkuð sannspár síðan um rigningu og rok hér fyrir vestan. Það verður þó að geta þess að þrjóska Vertsins er þó með eindæmum og bíður hún óhikað rigningunni byrginn. Þvotturinn er látinn hanga þangað til hann er orðinn þurr og oftar en ekki er fröken rigning frekar þurr á manninn er hún játar sig sigraða og hverfur af vettvangi. Sagt er að sá vægi sem vit hefur meira og má vel vera að það sé rétt en ég tek það ekki til mín í þessu sambandi.
Afmælisdagurinn minn var alveg yndilegur þrátt fyrir háan aldur þá ber ég mig vel. Fólk er ennþá að faðma mig að sér og kyssa mig og knúsa. Það er svo notalegt og þetta er að mínu mati kostur við að búa í svona litlu bæjarfélagi. Það er svo gott að geta treyst á það að fólk gleðjist með mér þegar ég upplifi hamingjustundir og einnig er mikill styrkur í því að geta treyst á það að þetta sama fólk sé mín stoð og stytta þegar eitthvað bjátar á. Sumir geta ekki glaðst með öðrum vegna öfundar og afbrýðissemi og ég held að þeir hafi bogið bak sem burðast með þær stöllur sína lífsleið.
Fjöldi manns sótti Reyni Torfason heim í Einarshúsið til að skoða málverkin hans. Hann seldi kynstrin öll af verkum og var hinn ánægðasti. Skyldfólk mitt var duglegt að sýna sig og sjá aðra og ég skemmti mér hið besta. Það sem mér þykir alveg sérstakt er að báðir afar mínir prýða veggi stofunnar en þeir voru báðir heiðraðir á sjómannadag árið 1957. Guðjón Jónsson er á ljósmynd og Hjálmar Þorsteinsson er á mynd sem Reynir teiknaði og er í minni eigu. Svona til gamans þá get ég sagt frá því að ég tók á móti heiðursmerki pabba míns á sjómannadaginn árið 1996 í fjarveru hans. Hugsið ykkur að eiga eina slíka minningu í hinum dýrmæta lífsins sjóði. Ómar Már mætti galvaskur frá Súðavík ásamt Laufeyju konu sinni og upplagt þótti að smella mynd af okkur frændsystkinunum ásamt mökum okkar. Ómar verður spyrill í Kjallarakeppninni eftir hálfan mánuð og þá hef ég fengið alla bæjarstjórana hér í kring til að spyrja. Heyrst hefur eftir mjög áreiðanlegum lygasögum að Ólafur Ragnar sé farinn að ókyrrast á Bessastöðum og vilji koma og fá að vera spyrill og hver veit nema hann reki úr ykkur garnirnar einhvern daginn. Ég á eftir að setja myndir sem ég tók á 1. maí inn í myndaalbúm fljótlega.
Mikið líf var í Einarshúsinu í gær og fjör á báðum hæðum. Bekkurinn hennar Lilju hélt kveðjupartý í Kjallaranum fyrir bekkjarfélaga sinn sem flytur senn héðan í burtu og þau voru til fyrirmyndar enda eru krakkarnir í 7. bekk alveg einstök. Þau bera virðingu hvert fyrir öðru og þau eiga að fá orðu fyrir framkomu sína og kurteisi. Þau stilltu sér upp í einum bátanna á höfninni og ég fékk að taka af þeim mynd og eins og sjá má fer þar fríður hópur.
Uppi í salnum mætti forysta Starfsgreinasambandsins og stjórn Verkalýðs og sjámannafélagsins í súpu og brauð og Vertinn lagði frá sér svuntuna eitt augnablik og brá sér í gerfi fréttamanns hjá Víkara og spjallaði við fólkið og bjó til smá frétt. Ég get ekki kvartað undan að lifa einhæfu líferni, það er víst ábyggilegt. Ofvirknin er reyndar stundum að fara með mig og það er ekki laust við að heilinn heimti að ég fari að slaka á en það er enginn tími í einhverjar slökunaræfingar þegar allt er að gerast. Kemur ekki til greina.
Ég brá mér á Ísafjörð í hádeginu á súpufund hjá Sjálfstæðismönnum en þar talaði Einar Oddur um efnahagsmálin. Það var nokkuð fjölmennur fundur og sveppasúpan rann ljúffeng niður undir ræðu frambjóðandans.
Netheimar eru að vinna auglýsingabækling fyrir Bolungarvík og fyrirtæki hér í bænum geta keypt auglýsingar og Einarshúsið er með að sjálfsögðu með. Leiðin lá þessvegna til Magga Hávarðar eftir súpufundinn til að útlista nánar hvernig smámunasami Vertinn í Víkinn vildi hafa auglýsinguna. Þetta er stórskemmtilegur bæklingur og vel útbúinn. Ómar Smári listamaður á Ísafirði teiknaði mynd sem verður á forsíðu hans og enginn verður svikinn af teikningunum hans Smára. Hann vinnur að sýningu sem haldin verður í Einarshúsi í febrúar og þar á margur eftir að verða undrandi.
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða er um helgina á Tálknafirði og Vertinn leggur því land undir fót á morgun. Það ríkir mikil tilhlökkun að hitta fólk sem er í ferðamannabransanum og bera saman bækur sínar. Ég gisti á Patreksfirði en húsbóndinn er að vinna þar um þessar mundir og hittumst við því í mýflugumynd um helgina. Við erum því einar heima mæðgurnar og búskapurinn gengur þokkalega enda semur okkur vel, sem er ekki skrýtið ef miðað er við hvað við erum einstaklega skemmtilegar allar þrjár. Ég tek tölvuna með mér og reyni að leyfa ykkur að fylgjast með hverju mínu skrefi eftir fremsta megni. Ég er nefnilega búin að sannfæra mig um það að þið lifið svo tilbreytingasnauðu lífi að eina gleðin og birtan í lífi ykkar sé að lesa bloggið mitt. Svo ég fæ alltaf samviskubit ef langt líður á milli blogga.
Kjallarakeppnin er að vanda á föstudagskvöldið og verður Sigga Kára spyrill. Mig grunar að Svenni verði henni innan handar svo nú skal spurt að leikslokum.
Kristinn H. Gunnarsson heldur súpufund í hádeginu á laugardag og ég er búin að semja við frjálslynt og fjörugt fljóð til að elda sjóðheita og seiðandi súpu í fjarveru minni fyrir gesti alþingismannsins og án efa á hún eftir að bragðast hið besta.
Valdimar Lárusson mágur hennar tengdamömmu og vinur okkar lést á afmælisdaginn minn á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Hann var kunnur leikari í gamla daga og lék meðal annars í Jeppa á fjalli sem fór hringferð um landið á sínum tíma. Valdi var lögreglumaður og skáld og svo var hann líka pabbi hennar Sigrúnar í Dæli í Víðidal vinkonu minnar. Hann gaf út nokkrar ljóðabækur sem ég glugga oft í.
Hann orti um Fyrsta maí:
Verkalýðsbarátta !
Lífsbarátta !
Barátta !
Baráttan hans er töpuð og leiðin liggur á vit nýrra ævintýra.
Ranka amma mín dó líka á afmælisdaginn minn þegar ég var 11 ára gömul. Af því má sjá að fólk velur sér þennan dag bæði til að fæðast og til að deyja.
Dægurmál | Breytt 4.5.2007 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm