Tveir trylltir og töfrandi

Afmæli og Kjallarinn 079Í fyrsta skipti á Íslandi mæta Tveir trylltir og töfrandi í Kjallarann og taka lagið frá miðnætti. Margir hafa velt fyrir sér hvað dásemdarljós standi að baki þessu dúói en Vertinn hefur ekkert látið upp um það. Nú er bara að mæta og berja þessa dýrindis kappa augum. Þeir eiga án efa eftir að trylla líðinn með sinni tælandi og töfrandi útgeislun. Nú lætur engin sig vanta með góða skapið og léttu lundina því nú skulu páskarnir kvaddir með stæl því góð helgi er senn að baki.

PS. Vertinum vantar far suður á morgun. Ef einhver á leið til höfuðborgarinnar og er til í að taka aukafarþega, hafið endilega samband.


Gunna Gumma Hafsa spyrill á Kjallarakeppni

Allt mögulegt nóvember 06 163Gunna Gumma Hafsa verður spyrill í kvöld á Kjallarakeppninni svokölluðu sem haldin er annan hvern föstudag i Kjallaranum. Hún verður með mjög svo erfiðar spurningar í bland við léttar og spaugilegar. Ein spurning verður þó erfiðari en allar hinar en það er sú spurning sem gefur frían kolamola úr kolageymslunni og því erfiðari sem hún er því glaðari verður Vertinn. Upplagt að kíkja í heimsókn í Kjallarann í kvöld og spreyta sig, því vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegara kvöldsins.


Denni mætir á miðnætti

DenniTrúbadorinn Denni eða Steingrímur Rúnar mætir með gítarinn og góða skapið alla leið frá höfðustað Vestfjarða og syngur inn í nóttina. Það er langt síðan Denni hefur brugðið undir sig betri fætinum og troðið upp í Kjallaranum en lét til leiðast fyrir Vertinn. Það verður æðislega gaman og vonandi sé ég sem flesta.

Ferming

Föstudagurinn langi er runninn upp í öllu sínu veldi og þessi dagur hefur upp á margt að bjóða. Fjöldi fólks er í bænum vegna rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður og stefnan er tekin þangað í kvöld. Vertinn verður að sýna sig og sjá aðra og jafnvel er nauðsynlegt að gera samninga við stórstjörnur sem hugsanlega geta tekið lagið í Kjallaranum í framtíðinni. Það er að mörgu að hyggja í svona kráar bransa.

Ragna og BryndísFermingardagur Bryndísar í gær var fallegur og skemmtilegur. Við vorum á seinustu skipunum til messu og litlu munaði að við bárumst með straumi fermingarbarnanna er við gengum inn kirkjugólfið. Það hefði verið saga til næsta bæjar ef ég hefði verið fermd upp á nýtt. Séra Magnús hefði án efa farið út af sakramentinu í ræðu sinni er hann sagði söguna um Jesús frelsara vorn er hann átti að hafa laugað fætur lærisveina sinna og sýnt okkur með því að við erum öll jöfn fyrir guði. Ég tók hinni postulegu kveðju er ég gekk til altaris og meðtók lof og prís ásamt blóði og líkama Krists. Það var svo hátíðlegt og fermingarbarnið tók deginum svo alvarlega er það var hrifsað með ógnarhraða frá því að vera saklaus unglingur upp í að tilheyra tölu fullorðinna. Veislan var í Einarshúsinu og var öll hin glæsilegasta. Mér þótti nýnæmi í þvi að þurfa ekkert að skipta mér af einu né neinu, hvorki vaska upp né ganga frá og komst bara upp með að eta og drekka og fara svo heim.

Stefnan var tekinn í Önundarfjörðinn seinni partinn í gærkvöldi því til stóð að heimsækja Höllu óðalsbónda í sumarhúsið sitt. Mættum við þeim systrum, henni og Helgu, á leið til messu í Holti. Þær ljá sínar fögru raddir kirkjukórnum og ætluðu að syngja yfir söfnuðinum. Við litum í staðinn inn í kvöldkaffi hjá Ása í Tröð og þáðum trakteringar og ekkert var út á það að setja. Á heimleiðinni ómuðu óhljóð um dalinn líkt að verið væri að kvelja kött en við nánari eftirgrennslan bárust þau óhljóð frá kirkjunni í Holti þar sem kirkjukórinn kyrjaði sálminn "Ó jesú bróðir besti" með þvílíkum tilþrifum að Maggi Hans hefði trúlega farið yfir um ef hann hefði verið viðstaddur. Maggi Hans er ekki hrifinn af kirkjukórum eins og kannski margir vita en hann aftur á móti hefur reglulega gaman af því að flagga og flaggar að jafnaði annan hvern dag til að halda upp á, eða minnast atburða, af ýmsu tagi og brúkar þá Íslenska fánann jafnt sem þann Pólska.

Hestamenn fara í útreiðatúr í dag og hver veit nema Vertinn skelli sér með og taki smá monttúr á Blesa. Blíðskaparveður umvefur Víkina og því tilvalið að nota tækifærið og drífa sig út og fá frískt loft í lungun. Fjölskyldan er öll boðin í mat á Miðstrætið til þeirra gömlu og þar fær maður eitthvað gott í svanginn ef ég þekki hana mömmu rétt. Messa er síðan á dagskránni í kvöld. Þá koma drykkjusjúklingar eins og ég saman og njóta kyrrðar og friðar í Ísafjarðarkirkju. Kaffi verður á eftir og meðþví. Þangað ætla ég að mæta. Edrútími minn spannar bráðum 5 mánuði og ég er mjög stolt af mér að eiga þennan tíma þar sem ég hef haft yfirhöndina og ráðið för í mínu eigin lífi. Ég hef reyndar afrekað svo mikið þessum tíma að ég er gáttuð á því sjálf. Ég hefði sko engan tíma til að  blogga ef ég væri ennþá að sulla í bjór, svo þið eru líka heppin ég skuli hafa hætt.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Hver veit nema ég skelli mér í göngutúr á eftir. Tveir svanir hafa sest að á tjörnunum við gönguleiðina mína og ber það vott um að vorið sé að nálgast. Sagan segir að Pétur Oddsson sá hinn sami og byggði Einarshúsið hafi einnig séð svani í Syðridalnum á sínum tíma en þeir voru 13 að tölu og hafði Pétur þá á orði að nú væri fjölskylda hans, sem hann hafði misst og saknaði sáran, komin til að líta efir honum. Pétri fannst vanta einn í hópinn, en það var hann sjálfur.

Denni mætir með gítarinn á miðnætti og syngur fram á nótt. Hann er alveg frábær strákurinn og ég hlakka til að hitta hann.

Svo þið sjáið að ég fer ekki yfir um vegna aðgerðarleysis.

Til stendur að hafa það skemmtilegt í dag og ég vona að þið getið einnig átt góðan dag.

 

 

 


Af sem áður var

Það má með sanni segja að það er af sem áður var hvað varðar bloggsskrif hjá Vertinum. Hér áður þurfi ég að segja ykkur frá nánast öllu sem á daga mína dreif í mjög svo ævintýralegum fréttastíl og svo dettur úr þessu botninn eins og hendi sé veifað. Heilinn í mér er þó síður en svo hættur að vinna því það kallar á mikila hugstormun að starfa sem fréttastjóri og hreint ótrúlega mikill tími sem liggur að baki fáeinum línum. Það er greinilega mikið sáluhjálparatriði hjá fjölmörgum fjölskyldum að fá að fylgjast með lífssögu minni og taka þátt í öllum þeim ævintýrum sem ég lendi í. Ekki vil ég hafa það á samviskunni að hleypa öllu í bál og brand og ætla því að setja mér það markmið að láta í mér heyra reglulega.

Einar Örn og SigurborgEinar Örn kom sá og sigraði í gærkvöldi enda var hann frábær. Þetta var eitt af stærstu kvöldum Kjallarans en þau hafa reyndar verið nokkuð mörg frá upphafi. Húsið var troðfullt og kvöldið laðaði sig að væntingum Vertsins. Það var lagt upp með það að sem flestir létu sjá sig og gleðilegt hve margir studdu við sinn mann sem kominn var langa leið til að leyfa okkur að njóta tónlistarinnar sinnar. Vertinn brosti hringinn og lék á alls oddi, dansaði og söng. Minna þekktir trúbadorar tróðu upp annarsstaðar í bænum  og bárust fregnir af bergmáli sem skall á milli tómlegra veggja. Það er nú einu sinni svo að þegar Vertinn spilar út sínum trompum þá tekur hann yfirleitt flesta slagina. Næg tromp eru eftir upp í erminni sem sett verða út eftir hendinni. Ég er afskaplega ánægð með kúnnanna mína sem styðja mig svo dyggilega. Þið eruð öll frábær.

Eitt af morgunverkunum er að renna í gegnum netmiðla til að leita að fréttum frá Bolungarvík til að setja inn á Víkara. Ekkert markvert er að finna að svo stöddu en rak ég þó augun í það að froðupartý er ekki lengur aðalfréttin á vef Bolungarvíkurkaupstaðar, en sú frétt hefur verið á forsíðunni ásamt öðrum auglýsingum um hina og þessa viðburði um nokkurt skeið. Nú virðist vera búið að taka froðuna út. Merkilegt nokk.

Andri og Þórunn eru í heimsókn og það er svo gaman að hafa alla rollinganna sína heima í hreiðrinu. Nóg er að sýsla hér heima við heimilsverk af ýmsu tagi. Ég þarf ekki að fjölyrða frekar um dugnað minn við heimilisverkin þið þekkið það öll. Við fórum mægurnar og tengdadóttirin í reiðtúr í gær og ég og Blesi náðum svo vel saman. Við riðum heim að Hofi og komum við hjá mömmu og pabba og áðum þar litla stund. Brokkað var alla leiðina og tekið á smá stökk í bland og reiðtúrinn toppaði daginn. Hestamenn hér í Víkinni fara í reiðtúr á Föstudaginn langa og þá verður nú sprett ur spori.

Bryndís Elsa bróðurdóttir mín fermist inn á Ísafirði í dag og veisla verður haldin í Einarhúsi, hvar annarsstaðar. Ég á eftir að renna yfir gólfin í Kjallaranum eftir nóttina og tína upp sígarettustubba sem liggja á víð og dreif fyrir utan. Ætli það sé ekki best að fara í það núna.

Hafið það annars sem best á þessum bjarta og fallega skírdegi.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Apríl 2007
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband