31.3.2007 | 23:42
Hestafóður
Vertinn lagði land undir fót í dag því leiðin lá til Þingeyrar til að vera viðstödd vígslu nýrrar reiðhallar á Söndum í Dýrafirði. Reiðhöllin hefur fengið nafnið Knapaskjól og hljómar nafnið mjög vel. Húsið er allt hið glæsilegasta og vonandi á það eftir að verða iðandi af lífi og fjöri í framtíðinni og nýtast hestamönnum hér í Bolungarvík vel. Blesi minn hefur sprett úr spori með smáfólk á námskeiði í þessu glæsilega húsi og kom hin ánægðasti heim aftur.
Bolvíkingar spiluðu stórt hlutverk og komu ríðandi hver á fætur öðrum á þvílíkum eðalklárum að annað eins hefur ekki sést hér vestra um langa hríð. Þau sýndu okkur listir og heilluðu áhorfendur upp úr skónum. Þetta var til fyrirmyndar og ekki spilltu snitturnar fyrir og heita súkkulaðið sem borið var á borð í restina.
Forseti bæjarstjórnar hringdi í mig í morgun og bað mig að færa aðstandendum þessarar reiðhallar blóm fyrir hönd bæjarstjórnar og segja örfá orð. Ég gerði eins og fyrir mig var lagt enda er það eitt af skildum bæjarfulltrúa að koma fram fyrir sitt byggðarlag og flytja árnaðaróskir frá Bolvíkingum þegar það á við. Við erum sjö fulltrúar kjörnir af fólkinu í bænum og þetta tilheyrir okkar starfi þegar við getum komið því við.
Ég gekk upp í pontu með blómvöndinn hægum og öruggum skrefum. Leit til allra átta og bugtaði mig og beygði enda voru þarna ráðherrar, þingmenn, bæjarfulltrúar auk hestamanna og annara góðra gesta. Ég flutti óaðfinnanlega tölu þar sem ég fór í fáum orðum yfir ræktun íslenska hestsins í aldanna rás. Annað veifið leit ég yfir líðinn og gjóaði augunum reglulega á bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar sem breyttist alltaf meir og meri í púka eftir því sem ég tjáði mig meira um graðhesta, tilhleypingar og sæðisgjafir. Að lokum voru honum vaxinn horn og hali og heimtaði að fá orðið á eftir mér. Þurtfti hann þá að hæðast að blómvendinum sem ég kom með færandi hendi frá Bolvíkingum og sagði að ég hefði komið með hestafóður handa hestunum. Ég tók hann auðvita á teppið fyrir þessi heimskupör en hann skammaðist sín ekkert.
Spilavistinn var stórskemmtileg að vanda. Hálfdán Guðröðarson og Magnús Sigurjónsson fóru með sigur að hólmi en Lilja og Sigga Kára voru með jafnmörg stig í kvennaflokki og fór Sigga heim með Villa Valla og Lilja með Bjarna Guðmundsson. Óli Óla fékk Villa Valla einnig með sér heim. Villi Valli er orðin margfrægur hér í Víkinni og hefur verið sendur heim með hinum og þessum.
Annars er allt kvöldið búið að vera undirlagt hér við tölvuna. Fréttaritarinn tekur sinn tíma í fréttaskrif og ekkert nema gott um það að segja. Ég hef svo gaman af þessu.
Stórkostleg tilboð eru í Kjallaranum í kvöld og ég er í fríi. Elsa og Gunna standa vaktina í nótt. Ég ætla þó að kíkja niðureftir á eftir og líta við. Slangur af fólki er víst mættur enda stórkostleg tilboð á kolamolum úr kolageymslunni. Tilboð verða alla páskana. Alltaf er að bætast við páskadagskrána í Kjallaranum og voru "Tveir trylltir og töfrandi" jafnvel að boða komu sína um páskana. Það verður ekkert frekar látið uppi um þá að svo stöddu. Vonandi nást samningar við þær stórstjörnur.
Munið bara að fylgjast með blogginu mínu og vera dugleg að koma við með góða skapið ykkar eins og ætíð því það er svo gaman að vera saman og gleðjast í góðum hópi.
Dægurmál | Breytt 6.4.2007 kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.3.2007 | 22:34
Páskavika í vændum
Skipulagning pásaviku er í algleymingi og Vertinn hefur í nógu að snúast. Panta þarf guðaveigar til að væta þurrar kverkar páskagesta og góð tilboð verða á köldum Kolamolum alla páskana. Vegleg dagskrá er í smíðum og birtist von bráðar. Ég vænti góðrar mætingar á þá viðburði sem þar verða haldnir og vona að þið fylgist með blogginu mínu og lesið vel dreifimiðana sem ég sendi í húsin.
Opnun kosningaskrifstofu Sjálfstæðismanna var í dag á Ísafirði og þar var mikið um dýrðir. Þangað fór Vertinn aðsjálfsögu skarti hlaðinn og upp stríluð. Ég keypti mér nýverið úr, alsett demöntum og perlum. Til að halda ballans varð ég að fá mér tvö hringa á hægri hendina til að vega vega upp á móti þyngdinni á úrinu svo ég héldi fullri reisn. Auðvita bar ég af og naut mín í botn enda mjög gaman að hitta skemmtilegt og heiðarlegt fólk.
Vildi bara aðeins láta í mér heyra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2007 | 22:21
Spilavist í Einarshúsi
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2007 | 23:19
Frjósemisbragur
Lag: Flagarabragur
Í bænum hefur bæjarbúum undanfarið fækkað
og tíðni barnafæðinga í framhaldinu lækkað
en ráð við þessu reiðileysi vissi engin maður
og Víkin var að verða einn, vesæll eymdarstaður.
Við þetta ástand Bolvíkingar vildu ekki una
af vörum manna heyrðust bæði andvörp þung og stuna
Hjá Sossu ekki heillaráðin bæjarbúa sviku
því nú við skildum sofa hjá, í ágúst eina viku.
Viðlag:
Ó, já þá skulum hafa gaman
í ástarleikjum ýmisskonar gamna okkur saman.
Ef þátttakendur ástarviku héldu sínu spori
mun ástarinnar ávöxtur, fæðast nú að vori.
Og strax var hafist handa við að fjölga hér í bænum
því hérna þurfti kraftaverk og það í einum grænum
Svo lýsa varð með rauðum ljósum bolvískt næturhúmið
því lokka varð nú elskendur, beina leið í rúmið.
Í öðru hverju skúmaskoti sáð var ástarfræjum
svo hér var meira líf en er í flestum öðrum bæjum.
Og margir áttu meiri háttar unaðskrem í krukkum
sem mýkti upp og slétti úr, millifóta hrukkum
Viðlag:
Ó, já þá skulum hafa gaman
í ástarleikjum ýmisskonar gamna okkur saman.
Ef þátttakendur ástarviku héldu sínu spori
mun ástarinnar ávöxtur, fæðast nú að vori.
Hjá sumum reyndust vandamál sem nánar varð að skoða
ef verma skildi kynlífs kul og margra ára doða.
Í lyfjabúð þá skundað var ef leita þurfti ráða
því lífga varð í snarhasti, þróttlausa og þjáða.
Á apóteki afsláttur var veittur út á visa
og viagra var tuggið, til að fá hann til að rísa.
Með tilhlökkun þá turtildúfur brugðu sér í bólið
og taumlaus reyndist ástríðan, ef funkeraði tólið.
Viðlag:
Ó, já þá skulum hafa gaman
í ástarleikjum ýmisskonar gamna okkur saman.
Ef þátttakendur ástarviku héldu sínu spori
mun ástarinnar ávöxtur, fæðast nú að vori.
Þá varla þessa vikuna var tími til að vinna
því náttúrunnar kalli varð í sífellu að sinna,
og ekki mátti tímanum í óþarfa að sóa
því margvíslegar stellingar, þurfti nú að prófa
Að fjölga hér í bænum flestir settu þá á oddinn
og fagnandi svo bæjarbúar fengu sér á broddinn.
Nú eftir næstu ástarviku erfitt er að bíða
því öllum hérna langar svo, upp í rúm að ..............sofa?
Viðlag:
Ó, já þá skulum hafa gaman
í ástarleikjum ýmisskonar gamna okkur saman.
Ef þátttakendur ástarviku héldu sínu spori
mun ástarinnar ávöxtur, fæðast nú að vori.
Þorrablótið 2005
Höf: Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.3.2007 | 23:48
Pourquoi pas?
Þann 16 september 1936 steytti þetta merkilega skip leiðangursstjórans Jean-Baptiste CHARCOT á skerinu Hnokka í landi Álftaness á Mýrum og sökk. Fjörutíu meðlimir skipshafnarinnar, þ.m.t. Mr Charcot, fórust, en einungis einn komst lífs af við mikinn háskaleik. Flak skipsins hefur legið á sjávarbotni við landamerki Álftaness og Straumfjarðar síðan þetta hræðilega slys varð. Borgnesingurinn Svanur Steinarson hefur sinnt flakinu í sjálfboðavinnu af mikilli óeigingirni síðustu áratugi að beiðni barnabarns Mr Charcot, Anne-Marie VALLIN-CHARCOT, sem lítur á hafið sem vota gröf flaksins. Hann hefur kafað reglulega niður að flakinu og stundum með gesti og reynt eftir föngum að gæta þess að óviðkomandi aðilar séu þar ekki á ferð. Lítið er eftir af lauslegum munum í flakinu. Þann 15. september 2006 var flakið friðlýst að sameiginlegri ákvörðun íslenska og franska ríkisins.
Um miðbik síðustu aldar fóru nokkrir menn í leiðangur á Mýrarnar til að sækja stórt og mikið skipsstýri úr Pourquoi pas? sem þeir vissu af og geymt var í skúr í grenndinni við staðinn þar sem skipið átti að hafa farist. Þeir fóru með það til Reykjavíkur og varðveitti einn mannanna það í mörg ár en gaf það á endanum barnabarni sínu, sem er mikill safnari. Við fengum spurnir af þessu stýri um það leiti sem við vorum að standsetja Kjallarann og keyptum það dýrum dómum og hefur það prýtt einn vegginn í Kjallaranum frá upphafi. Nú stendur til að hafa sýningu í Borgarnesi um strandið og falast hefur verið eftir stýrinu á sýninguna. Ég var í miklum vafa um hvort ég ætti að lána það en hef nú ákveðið að láta til leiðast. Mikil öryggisvakt verður um stýrið á sýningunni því þetta þykir afar merkur gripur og miklu er tilkostað til að það verði ekki fyrir neinum áföllum. Hugsið ykkur þann eðalgrip sem þið fáið að hafa fyrir augum ykkar í hvert sinn sem þið komið til mín og fáið ykkur kollu. Stundum eru gersemarnar beint við nefið á okkur og við sjáum þær ekki. Nú verður hægt að fara í Borgarnes og berja þetta mæta stýri augum og þá má ekki snerta eða koma við, bara horfa.
Dægurmál | Breytt 6.4.2007 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2007 | 23:35
Norðurljós
Var að koma úr kvöldgöngu og mikið lifandis ósköp er himininn fallegur í kvöld. Norðurljósin leyftra um stjörnuprýddan himininn. Þegar ég var lítil stelpa hræddist ég norðuljósin því þau gátu breyst í allra kvikinda líki sem hræddu úr mér líftóruna. Sem betur fer hef ég þroskast með árunum og nú nýt ég þess að dáðst að þeim þegar ég fæ tækifæri til. Ég þreytist aldrei á því að horfa á norðuljósin og þessar furðulegu og áleitnu tilraunir þeirra til að líkja eftir alls konar hlutum. Máninn hátt á himni skín og skin hans varpar birtu á steinrunninn tröllin sem eitt sinn voru sprelllifandi og léku sér að bolungum í fjöruborðinu.
Máninn kemur mér til að brosa. Hefur þú nokkurn tímann séð ólukkulegan mána? Brostu stundum til baka til hans.
Annars var vor í lofti í dag og allir með bros á vör. Jafnvel þeir sem aldrei brosa, brostu í dag út í annað og nutu þess að geta verið úti í sólinni, sýnt sig og séð aðra. Veðrið hefur óskaplega mikil áhrif á líðan fólks. Ég var glöð í sinni í dag eins og flesta aðra daga. Mér finnst lífið svo skemmtilegt þennan dintinn eins og þið hafið fengið að heyra enda engin ástæða til annars.
Dagurinn í dag leið því hratt og örugglega. Ég fór yfir helstu mál dagsins með ritstjóranum mínum og er búin að plana viðtöl við mjög merkilegt fólk á morgun. Það verður án efa skemmtilegt. Halla hringdi í mig í ofboði og plataði mig með sér í göngutúr í góða veðrinu. Ég varð í snarhasti að vippa mér úr pínupilsinu og henda af mér perlufestunum og öðru glingri sem ég ber hér og þar til að punkta upp á útlitið og fara í göngugallann. Ég er frekar glisgjörn núna í seinni tíð og ber skartgripi í ríku mæli til að draga að mér auka athygli og ég held svei mér þá að það virki. Ég tel mér a.m.k. trú um það og það er nóg til að auka sjálfstraustið til muna.
Kyrrðin og friðurinn í Syðridalnum í dag hafði góð áhrif á mig þegar ég var að týna tugguna í hestana mína og ég naut þess að hlusta á þögnina sem umvafði mig. Að hlusta á þögnina er oft svo gott. Blesi var kominn aftur til síns heima en hann var lánaður til Þingeyrar á reiðnámskeið um helgina og stóð sig með prýði eins og við var að búast. Það á að vígja nýju reiðhöllina á Þingeyri á laugardaginn og þangað fer ég ef ég á þess nokkurn kost. Ef í boði verða tertur og tilheyrandi fær ekkert mig stöðvað. Önnur veisla stendur til boða á laugardaginn því UMFB á 100 ára afmæli og bíður til veislu í félagsheimilinu.
Þessi mynd var tekin fyrir skömmu við hesthúsin í Syðridal og sólin gnæfir yfir Kistufellið og hægt er að greina kyrrðina sem býr í dalnum.
Njóttu hlýrra geisla sólarinnar. Ekkert kemst í hálfkvist við þá. Það er eins og skapari heimsins umvefji þig örmum sínum í ástríku faðmlagi.
Dægurmál | Breytt 27.3.2007 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2007 | 23:46
Salsa
Sunnudagur til sigurs stendur einhversstaðar og það má með sanni segja að sigrar hafi unnist í dag því ég byrjaði á skattaskýrslunni og er komin vel á veg. Það verður miklu fargi af mér létt þegar ég sendi skattstjóranum það plagg til varðveislu. Myndin hér til hliðar ber heitið Andstæður og mér sýnist ekki veita af smá tiltekt þarna. Ég þurfti svo sannarlega að taka til á skrifborðinu mínu í dag til að finna pappíra fyrir skattaframtalið og allt er nú komið í röð og reglu.
Árshátíð Grunnskólans var í gær og mikið skelfing var gaman. Þema árshátíðarinnar var hlátur, glens og grín og var Laddi aðalviðfangsefnið og rauði þráðurinn sýningunni út í gegn. Tvær úr tungunum stigu á stokk og komu við hjá tannlækninum í Hryllingsbúðinni en hann pantaði að fá að spila á gítar og syngja í míkrafón og Jón spæjó fylgdist svo vel með öllu saman. Stella fór svo í orlof enda var það "partur af programmet".
Mér fannst þó standa upp úr"stuttmynd" 7. bekkjar sem verður þeirra framlag í keppni lýðheilsustöðvar um reyklausan bekk. Það var frábært að sjá hversu vel það var úr garði gert. Þau léku af svo mikilli alvöru og gerðu þetta svo vel að ég er í raun undrandi. Kvikmyndataka og útsetning var líka svo góð. Ekki skemmdi fyrir hversu vel þau fóru með lagið og textann sem ég gerði fyrir þau og Hrólfur Vagnsson útsetti með mikilli snilld. Þar sem snillingar eins og ég og Hrólli koma saman þá er ekki hægt að búast við öðru en góðu
Ég fór einnig í Ísafjarðarkirkju að hlusta á kór Menntaskólans í Hamrahlíð og það var unun að fá að njóta þess tæra söngs sem þar var á borð borinn. Til að kóróna tónleikana kom þessi fallegi kórdrengur til mín í restina og bauð mér upp í dans og dansaði mig út úr kirkjunni í orðsins fyllstu merkingu undir suðrænum salsavalsi sem hljómsveitin flutti af snilld. Hann sneri mér í ótal hringi og sleppti mér svo lausri á útitröppunum þar sem ég snerist eins og skopparakringla í kringum leiðin í kirkjugarðinum. Ég olli þó engum usla en tel þó næsta víst að þeir sem sofa svefninum langa í þessum garði hafi haft lúmskt gaman af.
Afmælisbarnið sem ég talaði um í gær kom með afmælisgestina sína í Kjallarann og gleðin var þar við völd eins og svo oft áður. Þar greip alþýðu rokkari í gítarinn og söng ljóð um þá sem aldrei fóru suður og gerði það vel. Ekki mátti á milli sjá hvort það var alþýðan eða aðallinn sem nutu velgjörðar í Kjallaranum í nótt enda eru allir menn jafnir sem koma þangað í heimsókn og engum gert hærra undir höfði en öðrum. Þá skiptir engu máli hvort bæjarstjórinn eða blaðberinn á í hlut því allir þeir sem koma fram við aðra af heilindum og heiðarleika njóta aðdáunar minnar og virðingar.
Gildi hverrar manneskju felst í því hver hún er, ekki hvað hún á.
Pétur!! Til lukku með daginn
Ég fór á fund á Bjargi í gærkvöldi og þar fórum við yfir AA bókina í sameiningu. Það var mjög gott og notalegt. Ég ætla að reyna að hafa það fyrir reglu að fara þangað einu sinni í viku.
Að trúa á sjálfan sig og vita sig jafningja annarra veitir manni gleði og farsæld.
Dægurmál | Breytt 26.3.2007 kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2007 | 12:58
Aðdráttarafl
Kjallarakeppnin fór ekki fram í Kjallaranum að þessu sinni því það mættu svo margir að ég þurfti að færa hana upp á efri hæðina. Geiri hafði þvílíkt aðdráttarafl að það hálfa væri heill hellingur. Pétur Magg og Jón Steinar báru sigur úr býtum eftir bráðabana á móti Hrafnhildi og Elvari Sigurgeirsbörnum. Ég tók fullt af myndum sem ég ætla að setja í nýtt albúm á eftir og þið getið skoðað hér á síðunni. Mikil stemning myndaðist og fólk skemmti sér hið besta. Töluvert fjör var fram eftir nóttu og margir gripu í gítarinn minn sem er fastagestur í Kjallaranum. Strengir slitnuðu í hamaganginum en Vertinn var undir það búinn og kom færandi hendi með g-streng sem geymdur var á góðum stað meðal annara gítarstrengja sem bera nafn hinna og þessa bókstafa. Sungið var hástöfum um allt og ekki neitt og gamansögur sagðar á milli söngatriða. Virkilega skemmtilegt kvöld. Vertinn yfirgaf þó staðinn upp úr klukkan tvö alveg uppgefinn eftir erilsaman dag og fór heim að sofa. Gunna og Elsa sáu um rest.
Missvefn tekur sinn toll og þessi næturvinna fer ekki vel með kerlingar eins og mig sem komnar eru á miðjan aldur svo ég vaknaði ennþá þreyttari en ég var þegar ég sofnaði. Það þýðir einfaldlega að ég verð þreytt í allan dag.
Ég bauð karlinum að borða á Hótel Ísafirði í gærkvöldi og aldrei er maður svikinn af matnum hjá þeim. Við fengum okkur kjúklinga með öllu tilheyrandi og það var afskaplega gott. Ég bauð matinn og borgaði hann líka sem er nokkuð sérstakt því yfirleitt bíð ég og karlinn borgar.
Hef haft spurnir af afmæli sem halda á í kvöld og hugsanlegar gestakomur í Kjallarann í tengslum við það. Einhverjir kunna á hljóðfæri af veislugestum og ég hlakka til kvöldsins.
Árshátíðin í vændum og hver veit nema ég bregði mér á tónleika hjá kór Menntaskólans við Hamrahlíð síðar í dag.
Læt þetta dug í bili.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2007 | 22:36
Kveðja
Lífið er ævintýri líkast þessa dagana og fjölbreytileiki þess hefur ákveðið að hreiðra um sig við hlið mér. Ég heillast upp úr skónum af nýja starfinu mínu hjá vikara og lifi mig alveg inn í að setja fréttir á vefinn. Ég er vakin og sofin yfir hugmyndum sem ég gæti nýtt til að lífga upp á vefinn og hugurinn starfar af fullum krafti. Ég nýt þess að eiga í samskiptum við skemmtilegt fólk en nóg framboð er á slíku hér í Víkinni. Ég vona að lesendur sjái jákvæðar og skemmtilegar breytingar á víkaranum í náinni framtíð.
Ég fór í Víkurbæ og fylgdist með undirbúningi árshátíðar grunnskólans í gær og spjallaði við nemendur og kennara, tók myndir og annað sem fréttaritara ber að gera. Krakkarnir hafa unnið metnaðarfulla dagskrá og gaman verður að fara og njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða.
Það sprakk rör í Einarshúsinu en það er engin ný saga. Þessi rör hafa þó þá skynsemi að fara ekki alltaf í sundur á sama stað til að auka fjölbreytileikann. Nú fór rör í loftinu á annari hæð og þegar ég slysaðist þangað inn af eintómri rælni um miðjan dag í gær, fossaði Dynjandi niður úr loftinu í eldhúsinu og allt var komið á flot á báðum hæðum. Ég fékk auðvitað áfall eins og venjulega þegar rörin í Einarshúsinu taka upp á þessum hrekkjum. Æðin sem liggur upp eftir enninu á mér og er venjulega frekar áberandi, tútnaði svo út að ég hélt að hún myndi springa með hvelli í andlitið á mér. Það hefði verið afar bagalegt því mig grunar að hún dæli öllu blóði frá hjartanu til heilans í taktföstum slögum og ég hefði trúlega misst vitið ef hún hefði látið undan þrýstingnum. Það sem gerði mig óvanalega taugabilaða var tilhugsunin um að nú væri allt ónýtt í húsinu og ég var ótryggð. Þegar ég hafði skrúfað fyrir inntakið á húsinu bakkaði ég út úr þessum hrikalegu aðstæðum og fór á kontorinn til Víðis og tryggði allt í botn. Þannig að nú má allt fara norður og niður án þess að ég þurfi að fara fá límingunum.
Þegar við komum í gærkvöldi sá nánast ekki á neinu og það var kraftaverki líkast hvernig allt hafði bjargast með undraverðum hætti. Það eru svo sannarlega góðir vættir sem fylgja þessu húsi og þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda og verja húsið með öllu því sem þar er. Ég upplifði svo sannarlega að Einarhúsið er hús gleði og góðra stunda. Mér fannst ég finna nálægð liðinna tíma og þeirra íbúa sem þarna hafa búið og tilfinningin var góð og ljúf.
Í gærkvöldi fékk ég svo fallega sendingu frá vini mínum að ég klökknaði nærri og brast í grát. Ég hef ekki oft verið svona djúpt snortin. Jónmundur Kjartansson eða Jómmi var búin að semja svo yndislega fallegt lag við ljóðið sem ég samdi um hann Per og var mín "Kveðja" til hans. Hann sendi mér það útsett með öllum mögulegum hljóðfærum. Um tíma hélt ég að sinfónían öll væri komin til liðs við hann með Hávarð Tryggvason fyrsta bassa og vin okkar í fararbroddi. Síðan söng Jómmi texann með sinni ýðilfögru röddu og ég segi það alveg satt að þetta hélt ég að ég ætti aldrei eftir að upplifa og ég er svo þakklát. Ég hlusta á þetta aftur og aftur og vonandi fáið þið að heyra það einhvern daginn.
Við skulum vera þakklát því fólki sem gleður okkur, það eru hinir gæskuríku garðyrkjumenn sem fá sálir okkar til að blómstra.
Dægurmál | Breytt 24.3.2007 kl. 02:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2007 | 00:54
Geiri á Kjallarakeppni
Sigurgeir Þórarinsson verður spyrill í fimmtu "Kjallarakeppni" ársins en svo nefnist spurningakeppni í léttum dúr sem fer fram á kránni Kjallaranum í Einarshúsi í Bolungarvík. Spurningakeppnin gengur almennt undir heitinu "Pub-Quiz" og fer þannig fram að gestir Kjallarans svara 30 spurningum og hlýtur sigurvegari kvöldsins að launum vegleg verðlaun í fljótandi formi. Tveir keppendur mynda hvert lið og er öllum heimil þátttaka. Keppnin er á föstudagskvöldið 23. mars og hefst stundvíslega kl. 22:30. Geiri þykir með eindæmum skarpur strákur og semur án efa snúnar spurningar svo það er eins gott að vera búin að lesa sér vel til um alla skapaða hluti. Ég greip hann glóðvolgan í sundlauginni á dögunum og fékk hann til að vera spyrill því Kristinn H. Gunnarsson heltist úr lestinni. Geiri var meira en til í tuskið enda bóngóður með afbrigðum.
Á myndinni eru tveir góðir í góðum gír á góðri stundu í Kjallaranum.
Trúlega verða góð tilboð í kolageymslunni. Það verða örugglega einhverjir afslættir og spottprísar á köldum kolamolum.
Mætið, njótið, drekkið og verið glaðir.
Sjáumst hress og kát
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm