6.3.2007 | 22:25
Fótsporin í sandinum
Þið voruð afar nærgætin í morgun og tókuð tillit til óska minna um að þið hefðuð hljótt um ykkur svo ég gæti sofið. Húshjálpin mín er svo hljóðlát að ég vaknaði ekki fyrr en hún var farin og búin að fara um húsið eins og hvítur stormsveipur svo allt var orðið skínandi hreint og fínt. Nýlagað kaffi beið mín á eldhúsborðinu og skilaboð í símanum mínum frá henni um óskir um góðan dag. Er ég ekki heppin að eiga svona góða konu sem hugsar svona vel um mig. Hún hafi rekið augun í að þessar fáu plöntur sem prýða hýbíli mín höfðu ekki fengið deigan vatnsdropa um langt skeið og gaf þeim að drekka og verður það þeim trúlega til lífs. Á meðan sveif ég um meðal blómanna í fallegum draumi þar sem rósir skiptust á skoðunum við túlipana og sólin skein svo glatt á grösug tún og engi. Ljóðrænt finnst ykkur ekki? Alveg í mínum anda.
Ég fékk fregnir af því í dag að ég hefði verið notuð sem aðalstjarnan í fyrirlestri sem ung kona að nafni Bjarndís vann í Háskóla Íslands nýverið. Þar átti hún að hafa viðtal við einhvern í atvinnurekstri og tók hún mig sem dæmi og ég tel að það hafi verið mjög skynsamlega valið. Þessu var síðan öllu varpað upp á skjá og glærusjów mikið var látið rúlla þó nokkra stund með miklum tilþrifum þar sem myndum af Vertinum í bland við stórgott viðtal var borið á borð fyrir hina bráðskörpu nemendur Háskólans. Þetta fór auðvitað allt fram á greinargóðri Oxford ensku og þótti frábært í alla staði. Reyndar var aldrei rætt við mig vegna þessa heldur var þessu hnoðað saman við eldhúsborðið hjá Maddý mágkonu minni og mömmu fyrrnefndrar Bjarndísar og fórst það þeim svona líka vel úr hendi að hún fékk víst 11 í einkunn af 10 mögulegum. Þær rang feðruðu mig reyndar og sögðu mig Jónsdóttur sem er auðvita alrangt eins og þið vitið. Ég hef alla tíð verið sögð lík honum pabba mínum og ég veit ekki til að hann hafi nokkurn tíma þrætt fyrir mig enda hefur hann ekki haft ástæðu til þess. Ég fyrirgef þeim þó þessa yfirsjón. Bjarndís er mikil fyrirsæta og prýða myndir af henni hin ýmsu auglýsingaskilti víðs vegar um höfuðborgina og einnig er hún mjög oft valin til að sitja fyrir í margvíslegum auglýsingum sem birtast í blöðunum. Ég ætla að reyna að setja mynd af henni í fjölskyldu albúmið mitt.
Af deginum er þetta annars að frétta að ég fór í hesthúsin en það þykir ekki fréttnæmt því það geri ég á hverjum degi. Í þetta skiptið þurfti ég að narra bílinn út úr pabba því bíllinn minn var ekki viðlátinn. Ég festi mig í innkeyrslunni enda hefur fest töluverðan snjó hér í dag. Kom þá ekki Reimar eins og engill af himnum ofan um hæl og bjargaði mér út úr þessum klaufaskap.
Ég er eitthvað að fá áhuga á ræktinni aftur og fór í dag og tók vel á og gerði mínar 50 magaæfingar í bland við annað púl en ég var að hugsa um að taka þátt í fegurðarsamkeppni um óbeislaða fegurð. Fitukeppirnir mínir eru reyndar allir horfnir út í veður og vind svo ekki get ég unnið á þá en það er ýmislegt annað sem ég hugsanlega gæti krækt í einhver atkvæði á. Ég er þess svo fullviss að ég myndi vinna slíka keppni með miklum yfirburðum og valda sorg og sút hjá meðkeppendum mínum svo ég ætla að láta það nægja að láta mína sjálfsánægju í ljós hér á blogginu og taka ekki þátt í keppninni.
Kjúklingur var hanteraður í kvöldmatinn og kom Anna Sigga í mat en hún er að undirbúa útförina hjá pabba sínum sem lést á dögunum og það er í nógu að snúast í kringum það og gott að þurfa ekki að vera að elda meðan á því stendur. Þau hjónin munu trúlega gista hjá mér yfir helgina.
Halla Signý verður spyrill í Kjallarakeppninni á föstudagskvöldið og þá er eins gott að vera vel með á nótunum því hún er nokkuð skörp stelpan. Hún fer til Ítalíu eftir helgina ásamt fríðu föruneyti innan lögreglunnar á Ísafirði og mun Gógó vera ein þeirra sem fær að fara með. Siggi stormur spáir víst úrkomu á Ítalíu fram í vikuna og ég reikna fastlega með að úrkoman verið í formi snjóstorms. Mér væri að sjálfsögðu alls ekki skemmt ef allt myndi fenna í kaf í Róm rétt á meðan þau stöldruðu þar við en trúlega myndi ég brosa út í annað.
Tónleikar The Pitchfork Rebellion verða á laugardagskvöldið og hefjast þeir klukkan 23:00.
Þannig að þið sjáið að verkefnin eru næg.
Enn kvartar fólk yfir því að geta ekki kvittað innlitið á síðuna. Ég botna nú ekkert í þessum klaufaskap minna lesenda og hvet ykkur til að gefast ekki upp.
Það er gaman að skilja eftir fótspor í sandinum á hverri strönd sem við heimsækjum til að geta sagt að þangað höfum við komið.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2007 | 23:39
Nú er hann að norðan
Norðan garrinn hefur geysað hér um grundir í dag og ég held að enn bæti í vindinn. Það er búið að vera umhleypinga samt hér vestra í vetur og Kári Jötunnmóð hefur átt í mesta basli með að ákveða veðrið frá degi til dags. Ég ber þá von í brjósti að hann fari flótlega að láta undan og hleypa vorinu að sem bíður með óþreyju handan við hornið. Við þreyjum þó Góuna með þolinmæði og stóískri ró. Harpa mun brátt banka á dyrnar og bjóðum við hana fagnandi velkomna ásamt þeirri birtu og il sem henni fylgir.
Ég lagðist þó á ljósabekkinn í smá stund í dag svona rétt til að taka grámyglulega litinn úr andlitinu á mér. Þar lét ég mig dreyma um sól og sand í bland við ískaldan appelsínusafa í klaka með sogröri og sólhlíf. Það er gott að geta látið sig dreyma ljúfa drauma. Alkann dreymir auðvitað ekkert um appelsínusafa á suðrænum sólaströndum við seiðandi sjávarnið. En ég veit að draumurinn myndi breytast með tíð og tíma í martröð ef ég héldi mig ekki við ávaxtadrykki.
Það hefur vakið furðu hjá mjög mörgum að ég skildi hafa verið komin í vandræði með áfengi. Einn sjúklingur sem var með mér á Vogi var að koma þangað í 30 skipti og hann hló að mér og spurði hvað ég væri eiginlega að gera þarna og taka pláss frá fólki sem væri verulega veikt. Margir ræða þessi mál við mig og vilja vita hvers vegna í ósköpunum ég leiddist út í þessi vandræði. Málið er bara það, að ég fann minn botn. Fólk þarf að sökkva misdjúpt til að finna sinn botn og það vildi mér til happs að ég þurfti kannski ekki að kafa langt niður í hyldýpið til að finna minn. Þessi sjúkdómur er ótrúlega lævís og hann kemst oft upp með að breyta fólki án þess að það átti sig á því. Ég áttaði mig í tíma og þar var heppnin mér hliðholl eins og svo oft áður. Ég hef trassað AA fundina sem er alls ekki gott og ég verð að fara að taka mig á. Ég er búin að vera svo ofvirk undanfarið og keyri mig áfram og þykist ekki hafa tíma til að fara á fundi. Ég er búin að lofa sjálfri mér að fara að taka hlutina með ró og hæga á þessum látum og fara að haga mér skynsamlega.
Ég fór í klippingu til Eiríks á Hárstofunni en hann er nýtekinn við rekstri hennar. Hann kann ekkert á hárið á mér og átti í mesta basli við að láta það leggjast í einhverjar vitrænar áttir. Hárið á mér er mjög þykkt og mikið og ekki bætir úr skák að það liðast út og suður og yfirleitt í þær áttir sem mér þykja ómögulegar. Þessi ungi klippari reyndi eftir fremsta megni að þóknast mér og mundaði skærin af mikilli snilld og blés það síðan af færni og fagmennsku þar til hárið stóð rafmagnað út í allar áttir. Greip hann þá á það ráð að reyna að slétta það með sjóðheitu sléttujárni til að reyna að láta mig líta út eins og manneskju en hárið var með uppsteit og var greinilega búið að ákveða að vera með óþekkt enda hrekkjótt með afbrigðum. Að endingu horfði þessi prýðispiltur á mig ráðþrota og sagðist ekkert geta meira fyrir mig gert. Ég leit þá út eins og Gilitrutt eða Gríla og ég er ekki frá því að þessum unga manni hafi hálf hryllt við útlit þessarar herfu sem hafði gert sig heimakomna á hárstofunni hans. Þetta er orðum aukið eins og þið vitið og er þetta allt sagt í gamni, ég er vel klippt þrátt fyrir allt. Þaðer reyndar ekki á allra færi að eiga við þetta blessaða strý sem vex svo villt og galið út úr höfðinu á mér. Jóhanna Bjarnþórs er þó nokkuð með á hvernig á að meðhöndla það enda er hún mín uppáhalds hárgreiðsludama.
Einhverjir vilja heyra meira af honum tengdapabba mínum. Þetta er búin að vera óttaleg þrautaganga hjá honum en krabbamein hafði gert sig heimakomið í ristlinum og lifrinni. Meinið var tekið úr ristlinum með stórum skurði fyrir mánuði síðan og allt gekk vel til að byrja með. Var hann þá fyrir því ólani að detta svo skurðurinn rifnaði upp og mikið blæddi innvortis sem leiddi til þess að það fór að grafa í öllu saman. Það orsakaði síðan sveppasýkingu vegna þeirra lifja sem hann þurfti að taka vegna þessa og líðan hans hefur verið upp og niður. Til stóð að opna hann aftur en sem betur fer virðist þetta vera að hreinsast út og vonir standa til að hann fari að komast yfir þetta. Eftir fimm vikur á að ráðast til atlögu við meinin sem tekið hafa sér bólfestu í lifrinni og engin ástæða er til annars en að vera bjartsýnn á að það náist að útrýma þeim enda eru þau ekki velkomin og því nauðsynlegt að úthýsa þeim hið fyrsta.
Tengdamamma er vakin og sofin yfir karlinum og það reynir á hana líka og það er oft erfitt að vera svona langt í burtu og geta ekki létt undir með henni en svona er nú einu sinni lífið.
Ætli það sé ekki best að fara að halla sér. Húshjálpin mín kemur í fyrramálið og ætlar að segja ryki og drullu stríð á hendur. Á meðan ætla ég að sofa á mínu græna eyra því enginn bæjarráðsfundur er í fyrramálið og get ég því tekið það rólega. Tilhugsunin við að vakna við ilmandi hreingerningarlykt er góð. Ég vona að hún verði búin að laga kaffi og fara í bakaríið og kaupa eitthvað gott handa þessari örþreyttu húsfreyju þegar hún líkur upp augunum og segir skilið við draumalandið.
Ekki hafa hátt svo ég geti sofið út á morgun.
USS
Dægurmál | Breytt 6.3.2007 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2007 | 23:48
Kóngurinn klikkar ekki
Við fórum á tónleika Bubba Mortens í Ísfjarðarkirkju í kvöld og klikkaði kóngurinn ekki frekar en fyrri daginn. Bubbi er eins og besta eðalvín sem unnið er úr gæða þrúgum og látið gerjast við kjörskilyrði og geymt við rétt hitastig. Slíkur eðaldrykkur bragðast alltaf betur og betur eftir því sem hann eldist. Hann tók nokkur ný lög í bland við þessi gömlu og góðu og spilaði snilldar vel á gítarinn sinn og stundum hljómaði undirleikurinn líkt og það væri heil hljómsveit á bak við hann. Hann er búinn að vera einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum frá fyrstu tíð og þessir tónleikar voru æðislegir. Ísafjarðarkirkja er frábært hús, bæði notaleg og falleg og tilvalinn í slíkt tónleikahald. Bubbi lítur út eins og táningur þótt kominn sé á sextugsaldur. Hann hefur mátt muna tímanna tvenna en alltaf risið upp og sýnt það og sannað að það er aldrei of seint að krafla sig út úr vandræðum lífsins ef rétt er á spilum haldið.
Spilavistinn fór vel fram á föstudagskvöldið og spilað var á átta borðum. Valdi Ingólfs kom, sá og sigraði í karlaflokki og hafði með sér verðlaun auk Siggu Jónu sem er mikill spilafíkill og sópaði til sín verðlaunum þetta kvöldið. Hún stóð bæði uppi sem sigurvegari kvöldsins í kvennaflokki og sigurvegari kvenna eftir þrjú kvöld. Elvar Stefánsson hlaut einnig þriggja kvölda verðlaun. Eitthvað varð Vertinum á í messunni þegar stigin eftir þrjú kvöld voru reiknuð út og þegar kvöldið var á enda höfðu flestir fengið verðlaun af þátttakendum nema sigurvegarinn sjálfur. Það varð smá ruglingur af því að hann hafði spilað sem kona í tvö skipti. Það þýðir ekkert annað en að viðurkenna mistök sín og ég hringdi strax í Pétur Jónsson sem hafði farið heim með tárin í augunum yfir þessari yfirsjón minni og skildi hvorki upp né niður í þeim reikningsaðferðum sem viðhafðar voru við þessa útreikninga á stigum. Hann á því inni verðlaunin sín og er með réttu sigurvegari. Þeir sem vermdu botnsætin voru Jón Bjarni og Hrafnhildur Sigurgeirs. Það er nefnilega líka til mikils að tapa og því bráðnauðsynlegt að mæta þó það sé ekki nema til að fara heim með öngulinn í rassinum.
Aðalfundur sparisjóðsins fór vel fram. Maturinn var mjög frambærilegur en SKG veitingar höfðu umsjón með honum og reiddu fram smárétti af mikilli fagmennsku. Stofnfjáreigendur voru í góðum gír og glaðir yfir gróða sínum. Sumir tóku hluta af gróðanum út í koníaki og voru hinir kátustu er Vertinn skenkti með miklu örlæti í glös gesta. Þar var ekkert til sparað enda er það Sparisjóðurinn sem borgar brúsann og það verður ekki leiðinlegt að útfylla þann reikning. Annars er það nú einu sinni svo að allur gróði af rekstri Einarshúss fer í uppgerð hússins sem stendur, en vonandi rennur upp sá dagur að það sem kemur í kassann geti runnið nánast óskipt beint í minn vasa.
Ég og Halla Signý gengum rösklega út að Ósi og var mikill sláttur á kerlingunum sem strunsuðu göngustíginn masandi án afláts um allt og ekki neitt og leystu í leiðinni öll heimsins vandamál. Léku sólargeislarnir við okkar á leiðinni og reyndu að leggja orði í belg við og við en auðvitað komust þeir ekki að í umræðunni enda höfðu ekki frá neinu merkilegu að segja. Himininn var heiður og blár og Snæfjallaströndin leit lokkandi í áttina til okkar vinkvennanna og dáðist að dugnaði okkar í göngutúrnum.
Ég brá mér á hestbak á Blesa með Lilju og það er svo yndislegt að fara fetið og njóta veðurblíðunnar og náttúrunnar hér.
Það vekur athygli mína hversu fáir kvitta fyrir innlit á síðuna nú orðið og hef ég smá áhyggjur af því að þið séuð að reyna að þegja mig í hel. Ég ætla samt að halda áfram að skrifa á meðan það gerir mér gott.
Stál og hnífur og sæl að sinni
Dægurmál | Breytt 5.3.2007 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.3.2007 | 13:05
Komið að kveðjustund
Per, nágranni okkar og góður vinur andaðist í gærkvöldi. Við vorum svo lánsöm að fara í gærdag og kveðja þennan aldna vin sem alltaf hefur reynst okkur svo vel. Hann var vakandi á meðan við stóðum við og hélt þétt i hendina á okkur og reyndi af veikum mætti að segja okkur síðustu orðin. Þegar hann sá að Lilja var með í för mátti sjá tár á hvarmi. Þessi kveðjustund er afar dýrmæt minning.
Nú lýsir ekki ljós þitt okkur lengur
því lífsins göngu þinni lokið er.
Og hljóðnað hefur hörpu þinnar strengur
í hljóðri bæn við biðjum fyrir þér.
Að fá að kynnast þér var mikill fengur
og fríður hópur eftir þér nú sér.
Nú horfin ertu burt úr þessum heimi
á himnahæðum kannar ókunn lönd.
Þar mynda þú og Ninna öflugt teymi
og þakklát gangið saman hönd í hönd.
Algóður Guð nú sálu þína geymi
og gæti þín við Drottins dýrðar strönd.
Takk fyrir samfylgdina kæri vinur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2007 | 09:31
Spilavist í Einarshúsi
Spilavistin heldur áfram í Einarshúsinu í kvöld klukkan 21:00. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegara kvöldsins og einnig fá þeir sem spilað hafa rassinn úr buxunum smáræði í sárabætur fyrir lélega spilamennsku eða fyrir sína óheppni í spilum.
Nú líkur þriggja kvölda keppni og þeir sem standa upp úr sem sigurvegarar eftir þessar þrjár keppnir geta farið heim með bros á vör því til mikils er að vinna og verðlaunin eftir því. Þess vegna er mikilvægt að mæta öll kvöldin og taka þátt.
Spilað var á átta borðum síðasta spilakvöld og vænta má mikillar þátttöku í kvöld.
Sjáumst hress og kát.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2007 | 00:34
Í dagsins önn
Nú andar svoldið köldu að norðan og Kári kuldaboli í er í essinu sínu þennan daginn. Hann er trúlega að mótmæla því hversu hratt við stefnum inn í vorið. Ég bíð með óþreyju eftir því að ganga inn í vorið og sjá allt lifna og dafna í kringum mig. Það gleður hugann að sjá grasið grænka, trén laufgast og brosin breikka á andlitum okkar þegar birtir og ylur vorsins færist yfir. Allar árstíðir hafa þó sinn sjarma en vorið er í uppáhaldi hjá mér. Ég veit reyndar að vorkoman boðar mikla vinnu hjá Vertinum því ég stefni á að hafa opið alla daga í Einarhúsi í sumar og nú þegar er farið að panta mat og kaffi fyrir hópa.
Ég er búin að vera á fullu í allan dag. Ég passa mig á því að láta mér ekki leiðast eina einustu mínútu. Fyrir utan þessi hefðbundnu daglegu verk eins og að vinna við hannyrðir, baka hnallþórur, skúra skrúbba og bóna, þurrka af og þvo þvotta þá hef ég gert ýmislegt skemmtilegt við daginn í dag.
Töluverður undirbúningur er fyrir Aðalfund sparisjóðsins og það er ótrúlegt hvað marga enda þarf að hnýta til allt gangi eins og í sögu. Dagurinn á morgun verður undirlagður vinnu við þann fund.
Búið er að kaupa vegleg verðlaun fyrir spilavistina og það fer einhver heim sæll og glaður.
Bæjarstjórnarfundurinn var fínn eins og svo oft áður og allt gekk eins og í sögu. Strax eftir fundinn hlustaði ég á Lilju spila á tónleikum í Félagsheimilinu og tókst henni mjög vel upp og ég var bara nokkuð ánægð með mína litlu kerlingu. Krakkarnir stóðu sig reyndar mjög vel upp til hópa og gleðilegt að sjá hvað við eigum efnilega tónlistarmenn hér í Víkinni. Eftir tónleikanna hófst ég handa við að endurraða öllum stólum og borðum upp í félagsheimilinu vegna fundarins.
Bekknum hennar Lilju vantaði texta við lag en þau eru reyklaus bekkur og eru að vinna sérstakt verkefni þessvegna. Það var auðsótt mál og gekk ég í það þegar ég kom heim og kláraði það. Þau eru á þrettánda ári og mér finnst það svo sjálfsagt að þau séu reyklaus en það er auðvita ekkert sjálfsagt á þessum síðustu og verstu tímum. Þau eru mjög heilbrigðir krakkar og vel af guði gerð.
Elsa fór til höfðuborgarinnar í dag í vetrarfríinu sínu. Hún getur þá vonandi eitthvað létt undir með ömmu sinni en hún elur manninn að mestu leiti á spítalanum hjá tengdapabba en veikindi hans hafa ekki þróast eins og vonir stóðu til. Hann er búinn að vera einn mánuð á spítalanum í dag og ekki eru líkur á að hann fari heim í bráð.
Per nágranni minn og góður vinur dvelur á sjúkrahúsinu á Ísafirði og heimsókn til hans er fyrirhugðuð á morgun. Hann er 87 ára gamall og er orðinn lúinn og þreyttur. Ég verð að fá að faðma hann að mér og smella á þennan aldna vin minn kossi.
Læt þetta duga í bili. Ég vona að okkur dreymi öllum ljúfa drauma um ljós og vor.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Vertinn í Víkinni
Tenglar
Bloggarar
Fréttir
- vikari.is
- bb.is
- mbl.is
- visir.is
- skip.is
- bolungarvik.is
- Lögregluvefurinn
- Heimsýn Hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum
- Bjarnarnes-Sjótaxi
- Freydís sf. Ferðaþjónusta
- Gesthouse Mánafell Gisting í Bolungarvík
- Raggagarður í Súðavík
- Heimasíða Einarshússins
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 635895
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
vikari
-
hallasigny
-
omarjonsson
-
komediuleikhusid
-
katagunn
-
lydurarnason
-
jyderupdrottningin
-
ekg
-
sigrunsigur
-
majabet
-
skordalsbrynja
-
ingisund
-
gudfinna
-
sigmarg
-
maple123
-
730
-
730bolungarvik
-
grazyna
-
skodunmin
-
daglegurdenni
-
matthildurh
-
otti
-
vestfirdir
-
golli
-
kolgrimur
-
hressandi
-
gylfigisla
-
hugrenningar
-
jonatli
-
gudni-is
-
esterrut
-
toshiki
-
gudrunmagnea
-
101isafjordur
-
ylfamist
-
blossom
-
kaffi
-
gattin
-
ameliafanney
-
helgi-sigmunds
-
hross
-
skolli
-
thurygudm