Lion fundur

Ljúfir og spakir LionsmennLion fundur verður í kvöld í Einarhúsi. Gúllassúpa að hætti Dóru Línu verður hanteruð ofan í svanga maga Lionsmanna og enginn verður svikinn af þeirri dásemdar samsuðu. Félagar í þessum ágæta félagsskap borða hjá mér einu sinni í mánuði og hafa vanalega góða matarlyst. Jónas Guðmundsson sýslumaður, fyrrverandi lögreglustjóri og formaður almannavarnanefndar á staðnum er aðaldriffjörðin í þessum félagsskap. Á myndinni má sjá Einar ritara lesa fundargerð síðasta fundar.

Fallegur dagur

Dagurinn í dag tók á móti okkur með sól og blíðu. Mikið lifandis skelfing er fallegt hér fyrir vestan Bátur á götuþegar snjórinn hefur vafið sinn hvíta og skínandi silkivef yfir, undir og allt um kring og sólin gyllir fjallatoppa. Spáin er víst ekkert til að hrópa húrra fyrir upp á morgundaginn svo þetta hefur líklega verið lognið á undan storminum. Ég greip myndavélina mína þegar ég fór í hesthúsin í morgun og tók nokkrar myndir til að leyfa ykkur að njóta þessa fallega útsýnis sem hér var í boði í dag. Ernirinn skartaði sínu fegursta og gnæfði yfir líkt og verndarengill. Glöggt má sjá Tjaldinn koma vaggandi eftir Aðalstrætinu á leið ofan á höfn. Grásleppuvertíðin fer senn að byrja og þá verða bátarnir að standa klárir og tilbúnir í slaginn.

Pabbi átti bátinn Guðjón Ís 115 í mörg ár og reri með afa. Afi var harður karl og kallaði ekki allt ömmu sína en hann var með tvær hækjur en hlífði sér ekki við nokkurn hlut. Aldrei mátti hjálpa þessum öðlingsmanni upp á brjótinn eða niður í bát. Hann kastaði hækjunum á undan sér og hífði sig upp brjótinn eða lét sig falla niður í bátinn. Hann hlaut viðurnefnið Harðihnífill og ekki að ástæðulausu. Oft komust þeir feðgar í hann krappann á sjóferðum sínum en náðu ætíð heilir í höfn sem betur fer. Mér er minnisstætt eitt atvik er pabbi tók að sér að að sigla með gamlan mann til Hesteyrar. Þegar þangað var komið reri hann litlum báti í átt til lands og á miðri leið stendur sá gamli upp með þeim afleiðingum að bátnum hvolfdi og rak hraðbyri frá landi. Þeir hengu sitt hvoru megin á litla bátnum um langa hríð. Sá gamli vildi að pabbi synti í land til að bjarga sér en pabba kom það ekki til hugar. Til allrar hamingju sást þetta atvik frá landi og þeim var bjargað. Gamli maðurinn þakkaði pabba lífgjöfina alla tíð og kom alltaf árlega í heimsókn til okkar, sendi okkur öllum jólagjafir og sýndi þannig þakklæti sitt. Ég man hvað mamma var farin að ókyrrast yfir því hverstu seint pabbi væri á ferðinni þetta kvöld og gleðin sem skein út úr andlitum þeirra er ógleymanleg þegar hann loksins birtist í dyrunum heill á húfi. 

Hólskirkja i faðmi fjallaYfir Hólskirkju var friður og ró enda ekki við öðru að búast. Kirkjan okkar verður eitthundrað ára á næsta ári og hefur hún nýverið verið gerð upp af miklum myndarskap. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana á sínum tíma og er hún í anda þeirra kirkjubygginga sem þá voru byggðar. Hún er alltaf svo hlýleg og það er svo notalegt að koma þangað. Svona leit hún út í dag í blíðunni og eins og sjá má unir hún sér vel í góðra vina hópi gömlu húsanna á Hólnum. Tunguhornið blasir við og lítur fagnandi til himins og breiðir út faðminn mót sól og stillu.

 

Að endingu sé ég mig knúna til að grípa aðeins niður í bæklinginn sem ég vitnaði í um daginn og borin var í húsin á dögunum en þar kennir ýmissa grasa. Þar er auglýst bráðnauðsynlegt rakagel fyrir konur sem er lyktarlaust og gefur aukinn raka í nánum kynnum.....Blush en þetta gel kemur einnig í veg fyrir sársaukafull augnablik.  Einnig er hægt að fá byltingarkennt unaðargel sem er líka ætlað konum og munu einstæðir jurtakjarnar gelsins umsvifalaust koma viðkomandi í réttu stemninguna..... Wink. Það sem þó virðist skipta öllu máli í þessu er að þetta er með öllu hættulaust og er brúklegt fyrir öll pör án tillits til aldurs.... Joyful Þar sem ég er kona sem má ekki vamm mitt vita tek ég að sjálfsögðu ekkert mark á því sem stendur til boða af þessum unaðarvörum í þessum eðalbæklingi og læt mér það í léttu rúmi liggja hvernig þær skulu meðhöndlaðar. Ég er svona meira að upplýsa ykkur um innihald þessa pésa ef ske kynni að það gæti komið ykkur að gagni.

Rafmagnið fór af öllum bænum nú rétt í þessu og spennan er lág sem fer illa með tölvuna mína. Ég veit ekki hvar ég væri stödd þá ef tölvan brynni yfir og ég gæti ekki bloggað.

Þá væru góð ráð dýr, lesendur góðir.

 


Fréttir af fólki

Það sprakk á bílnum í dag og kemur ekki á óvart. Húsbóndinn er farinn til Reykjavíkur og verður þar í rúma viku vegna vinnu sinnar og yfirleitt þegar hann bregður sér af bæ fer eitthvað úr lagi. Ef það springa ekki vatnsrör sem hafa í för með sér miklar hamfarir með tilheyrandi stórtjónum þá stíflast klósett, þvottavélin gefur upp öndina eða það springur á bílnum. Einmitt á slíkum stundum þarf maður á karlmanni að halda. Ég var svo heppin að Gylfi bróðir minn var staddur hjá mömmu og klæddi sig upp í vetrargallann og aðstoðaði mig við að skipta um dekkið og gengu umskiptin svo hratt fyrir sig að við myndum örugglega slá heimsmet ef keppt væri í slíkri grein. Ég tók ekki tímann en við vorum ábyggilega álíka snögg að skipta um dekkið og séra Sigurður Ægisson var að gifta Gaua bróðir minn á sínum tíma en þau brúðhjón voru lesin með ógnarhraða inn í hjónabandið. Þar var bara rétt stiklað á stóru í boðorðunum tíu og hlaupið var yfir trúarjátninginuna á handahlaupum  og varla gafst tími fyrir faðirvorið. Það telst þó prestinum til tekna að betra er að tala stutt og segja eitthvað af viti heldur en að halda langar ræður um ekki neitt. Séra Baldur í Vatnsfirði var ekki að lengja slíkar athafnir að óþörfu og sagan segir að honum hafi legið svo á í eitt skiptið að gifta að honum hafi ekki gefist tími til að klára faðirvorið og átti að hafa sagt í lok athafnarinnar  "Faðir vor, þú sem ert á himnum og svo framvegis" síðan átti að hafa sést undir yljarnar á klerki út kirkjugólfið. Ekki veit ég hvað er til í þessari sögu.

Gylfi er elstur minna systkina og er nítján árum eldri en ég. Hann var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil stelpa enda ofdekraði hann mig eins og hann gat. Svo týndist hann og var týndur okkur í fjölskyldunni í mörg ár en hefur nú fundið sjálfan sig og okkur og það er gott.  Við tökum honum fagnandi. Hann kemur í heimsókn til mömmu nær daglega og þau eru mestu mátar enda þurfa þau að vinna upp ansi mörg ár sem fóru til spillis.

Egill Ólafs og Lilja 2Tónleikar Sigga Björns sem áttu að vera fjórða apríl falla víst niður samkvæmt nýjustu fréttum og ég er hálf ráðvillt og ringluð yfir því. Það á víst að vera svo mikið um að vera annað í bænum, sem enginn vill kannast við, svo hann ákvað að hætta við að halda tónleikana. Ég er frekar vonsvikin yfir þessu öllu saman og er spennt að heyra hverju þetta sætir. Það verða margar góðar hljómsveitir á Aldrei fór ég suður um páskana og ég bíð hverju því bandi sem vill  fá Kjallarann að láni til skemmtanahalds að hafa samband við mig og hægt er að senda mér línu í netfangið ragna.joh@simnet.is  Kráin í kjallara Einarshúss er opin nánast öllum sem kæra sig um að koma og troða þar upp.

Ég fékk að heyra í dag af smá atvinnu sem mér kannski stendur til boða. Ég tókst öll á loft af spenningi og það birti yfir deginum. Ég held að þetta gæti hentað mér vel en ég bíð róleg og yfirveguð eftir nánari fregnum. 

Þannig að ég er sæl og glöð eftir daginn og full tilhlökkunar eftir morgundeginum. Bæjarráðsfundur er í fyrramálið og það verður gott að hitta bæjarráðsmenn eftir dálítið hlé. Grímur bæjarstjóri er í góðum gír þótt hann hafi farið flikk flakk heljarstökk á Steingrímfjarðarheiði ekki alls fyrir löngu en hann slapp sem betur fer með skrekkinn. Það heldur einhver öflugur yfir honum verndarhendi enda virðist ekki veita ekki af.

Heyrumst á morgun. Þá kem ég ný og fersk með nýjar fréttir.

 


Bölmóðinn á burt

Eitthvað fór bloggfærsla mín í gær fyrri brjóstið á hugsjúkum húsmæðrum héðan og þaðan. Þær sáu sig knúnar til að hafa samband og hafa allar símalínur sem tengjast þessu heimili logað í allan morgun og tilefnið er að peppa kerlinguna upp og hysja hana upp úr öldudalnum sem hún áði við í gær. Það gengur náttúrulega alls ekki að ég fara þannig offari í skrifum mínum að kerlingar vítt og breytt um landið fái taugaáfall út af mínum hugleiðingum. Það var ekki ætlunin. 

Skemmtilegum bæklingi er dreyft í húsin í dag frá Belís Heilsuvörum ehf og þar kennir ýmissa grasa. Þar er hægt að panta allt frá salernishreinsandi töflum upp í höggdeyfandi innlegg. Það er stórskemmtilegt að glugga í þennan pésa og margt forvitnilegt má sjá á síðum hans. Það sem heillar mig mest við fyrsta lestur er varakrem sem sem gerir varirnar ástríðufyllri og stærri en þetta krem hefur einnig áhrif á form varnanna og minnkar hrukkur í kringum munninn. Einnig má sjá fyrirferðalítinn sjóræningja kíkir sem er bara fyrir annað augað og hægt er að súmma inn ógreinilega hluti og gera þá skarpa. Þennan kíki er upplagt að nota í leikhúsinu, á íþróttakappleikjum eða úti í náttúrunni. Ég gæti hugsanlega fylgst svo grannt með Magga Hans með slíkum kíki að hann væri hvergi óhultur. Þetta er engu að síður eitthvað sem hver maður verður að eiga. Ég er áður búin að panta þokugleraugu upp úr þessum pöntunarlista en ég gaf húsbóndanum þau í afmælisgjöf og hann hefur verið nokkuð duglegur að nota þau við sérstakar aðstæður. Ég á eflaust eftir glugga frekar í þennan bækling síðar og leyfa ykkur að fylgjast með.

Það er frekar grámyglulegt um að litast í dag. Hús hafa verið rýmd efst í bænum út af snjóflóðahættu og það eru engar sérstakar gleðifréttir og óþægilegt fyrir það fólk sem það býr. Ég fór í hesthúsin í morgun og leit með rannsakandi augum upp í hlíðar og gil en hesthúsin eru á snjófljóðahættusvæði. Blesi, Brá, Tenór, Úði, Hugur og Vera tóku vel á móti mér er ég birtist og kjamsa nú á tuggunni sinni. Snjóflóð féll fyrir nokkrum árum síðan á hesthúsin sem mínir hestar hafa húsaskjól og fór hálft húsið undir snjó og sex hestar dóu.   

Læt þetta duga í bili.

kveðja

Ragna

 

 

 

 


Roðlaust og beinlaust

Heykvíslauppreisnin

The Pitchfork Rebellion eða "Heykvíslauppreisnin" hélt alveg frábæra tónleika í gærkvöldi. Það er synd hve fáir komu til að njóta þeirrar vel frambornu tónlistarveislu sem þar var borin á borð. Þeir sem komu voru alveg hæstánægðir og það er það sem máli skiptir. Þau ætla að koma til mín aftur og þá ætla ég rétt að vona að fólk láti sig ekki vanta. Fanney er stórgóð söngkona og lék sér að því að taka Ellu Fitzgerald, Ninu Simone og Frank Sinatra og gerði það vel. Héðinn er einn af þessum geðugu gítaristum og mjög fær á sínu sviði. Maður á ekki að neita konfektinu, sérstaklega þegar það bragðast svona einstaklega vel og er í boði Vertsins.

Roðlaust og beinlaust ómaði að mestu í hljómtækjunum eftir tónleikanna en þeir spila sjómannalög að mestu og gera það misvel. Þetta eru sjóarar og gefa diskinn út til styrktar björgunarskóla sjómanna. Þeir eru skemmtilegir og halda þokkalegum takti og hægt er að dansa eftir einum og einum valsi. Þeir misþyrma reyndar einu þekktasta lagi Bubba með þeim hætti að það er eins og stál og hnífur standi mér í hjartastað. Ég hleyp þá til og spóla með hraði yfir þessi hroðalegu óhljóð. Maður getur ekki setið undir hverju sem er.

Fréttir eru af fjöri út á Óshlíð í morgunsárið, en maður á fertugsaldri fékk sér sundsprett í Ósvörinni og þurfti lögreglan á Ísafirði að sækja hann. Það hlýtur að hafa verið kalt og ónotalegt því það hefur án efa verið kaldur koss sem Alda smellti á þennan ofurhuga. Heppilegt að það fór ekki illa.

Ég hef ekki passað nægilega vel upp á mig undanfarið. Keyrt mig áfram og gleymt því sem mestu máli skiptir fyrir mig. Það er að passa upp á þau verkfæri sem nýtast í baráttunni við að halda jafnvægi og innri ró. Fara á AA fundi og lesa AA bókina og finna æðri mátt. Ég hélt ég væri öðruvísi enn allir aðrir og þyrfti ekki á öllu þessu að halda. Löngun í áfengi kemur þessu máli ekkert við enda er löngunin engin. Ég finn það að líðanin er að breytast og hnúturinn fyrir brjósti mér er að búa um sig aftur og fíflunum í kringum mig fer fjölgandi, ég skammast í stelpunum mínum, karlinn fer í taugarnar á mér og ég er ótrúlega meyr og brothætt. Það þýðir einfaldlega að heilinn er farinn að kalla á meira gleðiefni sem er dópamín en það er efni sem heilinn fær í miklu magni er áfengi er innbyrgt. Heilinn er ótrúlegt verkfæri og getur verið útsmoginn og svikull. Ég hef verið í mjög góðu jafnvægi undanfarna mánuði og tekið hverjum degi með svo mikilli eftirvæntingu, tilhlökkun og gleði og hef notið hverrar mínútu og þið hafið vonandi heyrt það á skrifum mínum. Það hjálpar mér að geta deilt minni líðan með öðrum sem eru í sömu stöðu og ég og þið, lesendur góðir, fáið svo að njóta þessa opinskáa kjaftagangs míns hér á blogginu og það hjálpar mér líka eins ótrúlegt og það kann að hljóma. Ég verð greinilega að vinna vel í sjálfri mér það sem ég á eftir ólifað ef ekki á illa að fara.

Ég ætla samt að halda áfram að vera jákvæð, glettin, stríðin og kannski dálítið klúr og reyna eftir fremsta megni að láta mér finnast lífið og tilveran vera dásamleg og njóta þess að eiga samleið með ykkur.

Í hvert sinn sem dagurinn í dag virðist óyfirstíganlegur, reyni ég að gleðjast yfir því að á morgun kemur nýr og betri dagur.

 

 


Fánar blakta

 S6001175

Nú blakta fánar að húni í hálfa stöng í bænum og bylgjast blíðlega í vindinum. Norski fáninn blaktir hjá Per enda var hann Norðmaður í húð og hár. Nú kveðja Bolvíkingar samferðamann með söknuði og votta honum virðingu sína. Í svona litlu byggðarlagi fara flestir til kirkju og fylgja hinum látnu síðustu skrefin. Hver og einn er mikilvægur í litlu samfélagi og setur sinn svip á mannlífið. Per hafði einstakt lag á að laða til sín hundana og kettina í nágrenninu og sá þeim alltaf fyrir góðgæti og gerði þá oftar en ekki spikfeita og pattaralega. Hann hugsaði af mikilli natni um garðinn sinn og rósirnar og það leið ekki það sumar að hann væri ekki alltaf pensilinn á lofti. Hann var gæðakarl og við söknum hans. En eitt sinn verða allir menn að deyja og Jónína hefur beðið hans með óþreyju í átta ár og tekur honum núna opnum örmum. Við förum öll í jarðaför í dag.

Gott er að muna að við erum bara gestir hér; ferðalangar sem eiga leið hjá. Leyndarmálið er að njóta ferðalagsins og skilja eftir sig eitthvað gleðilegt svo þeir sem á eftir koma geti fengið að njóta.

Ég mátti til með að fara á Langa Manga og hlusta á dúettinn sem kemur til með að spila í Kjallaranum í kvöld. Þau eru einstaklega ljúf og góð og spila þægilega tónlist. Ég naut þess að sitja í góðum hópi og sötra swiss mokka. Það verður enginn svikinn af því að koma og hlusta á þau í kvöld og ég vonast til að sjá sem flesta.

HallaHalla stóð sig eins og hetja í Kjallarakeppninni eins og við var að búast og báru Gunnar og Hlédís sigur úr bítum í gærkvöldi. Við bardömurnar tókum þátt í þetta sinnið og við vermdum örugglega botnsætið . Við vissum svörin við öllum spurningunum en kusum að vera ekki að segja frá þeim. Gáfnafar okkar er nefnilega í góðu samræmi við glæsileik okkar og þokka. Sjálfsánægja skín út úr þessum skrifum eins og þið sjáið og ekkert nema gott um það að segja.

 

 

Tengdapabbi minn var sendur heim í gær. Hann tók upp á því að krækja sér í spítalavírus og læknaliðið á spítalanum var hrætt við að hann smitaði alla hina sjúklingana á spítalanum og sendi hann heim í stað þess að hafa hann í einangrun. Þar verður hann í nokkra daga á meðan hann kemst yfir þennan krankleika. Svo kemur hann fljótlega alkomin heim í bili a.m.k. því hann er allur að braggast og koma til sem betur fer.

Óshyrnan blasir við mér hér fyrir utan gluggann tignarleg og fögur. Kletturinn Þuríður drjúpir höfði er hún lítur yfir litla bæinn sinn sem hún heldur verndarhendi yfir og vaktað hefur í árafjöld. Við lítum til Þuríðar með lotningu. Hún er okkar stoð og stytta.

 


Átján ár

Í dag eru liðin átján ár síðan stórt snjóflóð féll á Óshliðina og tók með sér tvo menn. Tvo unga menn sem áttu allt lífið framundan og höfðu stóra drauma og vonir og væntingar um framtíðina. Þeir áttu báðir fjölskyldur og voru búsettir í Bolungarvík. Bjarki og Skarphéðinn voru á leið til vinnu sinnar inn á Ísafjörð og úti var kafaldsbylur og mikið hafði kyngt niður af sjó. Þeir urðu að stöðva við gil sem er rétt utan við Haldið sem Krossinn stendur við, en þar hafði fallið snjóflóð. Þeir ákváðu að ganga upp á flóðið til að kanna umfang þess og þá skipti engum togum að önnur spýja féll og hrifsaði þá með sér út í sjó. Sá harmleikur sem þarna átti sér stað fellur aldrei úr minni. Eftir þó nokkra leit fannst annar maðurinn en Bjarki heitinn liggur í votri gröf og stendur vörð um hetjur hafsins. Bolungarvík var sem lömuð og tilfinningin sem bjó um sig í hjörtum manna er ógleymanleg. Þvílík sorg og þvílíkur söknuður. Það er synd að ljósið þeirra skildi ekki fá að loga lengur en minningin um að hafa fengið að feta hluta úr sinni lífsleið með þeim er svo dýrmæt. Ég segi það svo oft að minningarnar sem við eigum, hvort sem þær eru góðar eða slæmar eru eitt það dýrmætasta sem hver maður á.

Ég og Bjarki vorum perluvinir þegar ég er unglingur og við brölluðum mikið saman. Hann kenndi mér að taka handbremsu beyjur á afmælisdaginn minn þegar ég fékk bílprófið svo lögreglunni þótti nóg um og tók mig á teppið. Hann stal eina nóttina hjólbörunum frá Tóta Eyjólfs gamla og bauð mér út á rúntinn á þeim. Hann bauð mér og stelpunum á Laugaból til að sýna okkur óðalsetrið sitt. Hann og Bogga bjuggu á "Hótelinu" svokallaða og þar var ég fastagestur. Allt eru þetta svo góðar og skemmtilegar minningar sem gott er að leita uppi á svona stundum.


The Pitchfork Rebellion

The Pitchfork Rebellion í Kjallaranum á laugardagskvöldið 10. mars

Kjallarinn er í Einarshúsi við Hafnargötu
The Pitchfork Rebellion leikur í Kjallaranum á laugardagskvöldið og hefjast tónleikarnir kl. 23:00. Fanney syngur og Kisi spilar á gítar og kazoo. Þau spila mest gömul sígild djasslög, svo sem Ellu Fitzgerald, Ninu Simone og Frank Sinatra, en einnig er af finna nýlegra efna á dagskránni.
Aðgangur er ókeypis og eru Bolvíkingar og nærsveitamenn hvattir til að mæta.


Halla á Kjallarakeppni

Halla Signý verður spyrill í Kjallarakeppninni á föstudagskvöldið 9. mars

Kjallarinn er í Einarshúsi við Hafnargötu
Halla Signý Kristjánsdóttir verður spyrill í fjórðu "Kjallarakeppni" ársins en svo nefnist spurningakeppni í léttum dúr sem fer fram á kránni Kjallaranum í Einarshúsi í Bolungarvík. Spurningakeppnin gengur almennt undir heitinu "Pub-Quiz" og fer þannig fram að gestir Kjallarans svara 30 spurningum og hlýtur sigurvegari kvöldsins að launum vegleg verðlaun í fljótandi formi. Tveir keppendur mynda hvert lið og er öllum heimil þátttaka. Keppnin er á föstudagskvöldið 9. mars og hefst kl. 22.00.

Hugrenningar

Ég sat borgarafund í Félagsheimilinu í kvöld þar sem farið var yfir nýja skipan löggæslumála í umdæminu en lögreglan á Vestfjörðum sameinaðist á áramótum. Ekki mættu margir en samt var þetta góður og gagnlegur fundur. Hér í Bolungarvík voru störf þeirra tveggja lögreglumanna sem voru hér áður lögð niður en heil staða forvarnar-og fræðslufulltrúa sett á laggirnar í staðinn. Löggæslunni verður sinnt frá Ísafirði að mestu leyti og er ég þess fullviss að þjónusta lögreglunnar við Bolvíkinga á ekki eftir að versna heldur eflast. Það getur verið mjög erfitt að gegna löggæslustörfum í svona litlu byggðarlagi og nálægðin við íbúanna getur vissulega sett strik í reikninginn, sérstaklega þegar hlutirnir eru persónugerðir og fjölskyldan jafnvel þarf að gjalda þess hvað lögreglumaðurinn gerir í vinnunni. Það hefur stundum reynst mér erfitt þó sérstaklega fyrstu árin og tek ég því þessari breytingu löggæslumála á svæðinu fagnandi. Ekki má þó gleyma því að það getur reyndar líka verið til bóta að vera innvinklaður í samfélagið og kunna skil á innviðum þess og við erum svo heppin að eiga hér búsetta tvö lögreglumenn og tvo héraðslögreglumenn sem eru til þjónustu reiðubúnir ef á þarf að halda.

Ég hefði svo sannarlega vilja vera á tveim stöðum samtímis í kvöld því styrktartónleikar voru í Ísafjarðarkirkju til styrktar Örnu Sigríði Albertsdóttur og Guðbjörtu Lóu Sæmundsdóttur sem báðar eru nemar við Menntaskólann á Ísafirði. Arna Sigríður lenti í skíðaslysi í Noregi í lok desembermánaðar og Guðbjört Lóa hefur barist við krabbamein í um fjögur ár. Ég tel það næsta víst að fjölmenni hafi verið á þessum tónleikum til að styðja og styrkja þessar ungu konur og þeirra aðstandendur sem eiga um svo sárt að binda. Samheldni íbúanna hér vestra er ótrúleg þegar eitthvað bjátar á og samfélagið allt tekur svo virkan þátt þegar erfiðleikar steðja að. Við gleðjumst saman þegar það vinnast sigrar og við syrgjum öll þegar stríðin tapast. Það er gott að vera Vestfirðingur þegar maður þarf á stuðningi að halda. Ég umfaðma þessar stelpur í huga mínum og óska þeim alls hins besta.

Tengdapabbi er allur að braggast og koma til. Hann hefur lést um 16 kíló á fimm vikum og það vissulega sér svoldið á karli en hann hafði dálítinn forða svo það blessast allt. Það verða viðbrigði fyrir tengdamömmu að eiga allt í einu svona grannan og spengilegan eiginmann og hún verður án efa lukkuleg með strákinn. Þó skiptir það auðvitað mestu máli að hann haldi  heilsunni sinni og verði sprækur og hress.

Ég hef lést um 20 kíló á einu ári og sumum þykir nóg um. Ég kveð ekki þessi 20 kíló með neinum sérstökum söknuði enda þvældust þau fyrir mér og voru til óþurftar. Ég drekk mikið vatn og hreyfi mig töluvert. Ég er reyndar farin að standa mig að því að gleyma að borða sem er ekki nógu gott og ég verð að setja mér það markmið að muna eftir matmálstímunum svo ég detti ekki í sundur í miðju. Sumir horfa þó til mín með aumkunnar augum og hafa orð á því að ég sé orðin blá úr hor en þær kerlingar eru flestar alltof feitar og öfunda mig bara yfir því hvað ég er orðin flott og fín. Þetta kallar á tíð fatakaup og ég græt það ekki. Núna passa ég í allt sem ég máta mig í og ég lít ekki lengur út eins og vafinn rúllupylsa sem fyllir út í mátunarklefann og mér finnst ég ekki lengur vera eins og súrhvalur í laginu þegar ég lít í spegilinn. Þetta er auðvitað sagt í gríni stelpur, ekki taka þetta til ykkar.

Veðrið er búið að halda sig á mottunni í dag og farið að stillast og hlýna. Ómögulegt er þó að vita hvernig það verður á morgun. Það gæti verið öskrandi stórhríð eða sólskin og logn. Ég gæfi veðurguðunum prik ef þeir leyfðu sólinni að skína á okkur hér fyrir vestan á morgun. En nú umlykur myrkrið okkur með kærleik og hlýju og munið að það býr hamingja í stjörnum stráðri nóttinni.

Góða nótt og sofið rótt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vertinn í Víkinni

Höfundur

Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir
Mars 2007
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Konukvöld 2014
  • ...a_fimmtudag
  • ...img_0326
  • ...img_0327
  • ...img_0319

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 635895

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband